Færsluflokkur: Bootcamp

Afmæli á afmæli ofan

Kampus búinn í dag. Morgunkampus og það var helvíti fínt bara. Afsakið óviðeigandi orðbragð.

Áttum m.a. að gera hangandi maga-"þurrkur". Lyfta samanlímdum fótleggjum upp í átt að hægri hendi/vinstri hendi til skiptis. Þarna hékk ég eins og óeldað beikon og hristist í mínútu þangað til ég gafst upp. Það var stórkostleg sjón! Beikonmagann þarf því að mastera!

Held svo að ég sé að gera einhvern fjárann vitlaust í uppsitum. Fyrir utan þá óbilandi staðreynd að situ-ups á malbiki er ekki góð hugmynd. Ég stefni þó á svöðusár næst. Held það sé ágætist markmið!

marblettahamingja

Og júvíst! Ég má alveg kalla á vælubílinn einstaka sinnum.

Amman átti afmæli í gær. Við nettengdum gamla heksið. Nú verður hún óstöðvandi í internet rápi og almennum njósnum um fjölskyldumeðlimi, grútspillta pólitíkusa og nærbuxurnar hennar Pamelu Anderson. Sé hana í anda fyrsta með fréttirrnar, sama úr hvaða áttum þær koma.

Hádegismatur!

langa og grænt

Svengdin var næstum búin að ganga af átvaglinu dauðu í morgun. Get svoleiðis gvöðsvarið fyrir það. Með herkjum tókst búknum að skríða áleiðis í átt að eldhúsinu. Augun tárvot, neðrivörin titrandi. Hurðina inn í mötuneyti sá ég í hyllingum. Sem betur fer, nærstöddum til mikils happs, og sjálfri mér til lífs, rakst ég á einmana rúsínu á gólfinu. Á henni var nokkuð af kuski og eitt hár en ég lét það ekki stoppa mig. Át hana í snatri. Blessunin gaf mér orku í síðustu skriðurnar og kraft til að setja nokkra matarbita á diskinn minn.

Fishy fishy fishy

grönsager

Hungrið var slíkt að þegar ég tók fyrsta bitann þá titraði Skóflan.

Skóflan verandi hægri handleggurinn eins og hann leggur sig. Handleggurinn sem skóflar jú mat upp í svartholið. Bókstaflega... skóflar! Aðfarirnar eru stundum svo mikilfenglegar að undirrituð þarf, hið minnsta, radíus upp á 5 metra til að geta notið átsins og að allir meðétarar séu óhulltir og enn með a.m.k. annað augað óskaddað. 

Móðir mín kær á svo afmæli í dag. Í tilefni þess... you know it.

ARGENTÍNA... STEIKHÚS... 19:00.... MUUUUUUUU!!!!

Meeeeeeen! Ég finn bragðið af steikinni. Bara að hugsa um fyrsta bitann eykur munnvatnsframleiðslu um 26%. Líka hjá fólki í kringum mig og ég hef ekki minnst orði á þetta! Næstum!

*tilhlökkunartryllingsvillimannaspenningur* með rjóma.

Ég sé dýrðina fyrir mér:

Átvaglið: "Nei takk... ekki elda hana neitt. Skelltu henni bara á diskinn. Kannski flott ef þú ættir smá dijon sinnep? Eða... nei annars. Komdu bara með ketið... beint af kúnni. Ég þarf engin hnífapör!"


Ekki meira, það brennur

Ojbara hvað ég gerði lúmskt erfiða æfingu í morgun. Á blaði var hún svo saklaus. Þarf að tækla monsterið betur á næstu vikum. Ná settinu el-perfecto, í einni bendu, lítil pása...

...engin fettmúlamiskunn hér takk!

Var með 20 kg. stöng á öxlum fyrir aftan höfuð. Þú hefur þá þyngd sem hentar þínu þoli/þreki. Það þarf ekki að vera með auka þyngd - taka þá aðeins fleiri endurtekingar. Kannski 20 stk.

Endurtaka eftirfarandi 3 æfingar 10 sinnum í röð. Ef þú getur 10 sinnum í röð, á sem bestum tíma. Muna eftir að halda forminu góðu, það er svo gígantískt mikilvægt.

  1. Afturstig/hné upp, annar fótur í einu. Stíga aftur, lyfta svo sama fæti beint upp í 90° úr afturstiginu og beint úr 90° í afturstig á nýjan leik. Með hné eins nálægt jörð og þú getur - 15 endurtekningar á hvort fót.
  2. Hnébeygja/jumping jack. Ferð vel niður. Þegar þú þrýstir upp, hoppa saman með fætur og beint niður í hnébeygjuna aftur - 10 endurtekningar. (Ég held að maðurinn í videoinu sé með rakettu í rassinum)
  3. Armbeygjur/hopp. Byrjar í armbeygjustöðu. Tekur ein armbeygju, þrýstir þér, í hálfgerðu hoppi, upp í neðstu stellingu hnébeygjunnar. Eftir það hoppa jafnfætis aftur í armbeygjustöðuna. (Sjá þetta video, sek 48 - 52, sleppir svo hoppinu sem fylgir í kjölfarið.) - 5 endurtekningar.

Þar sem ég tók smá lappasession í morgun ákvað ég að nota þetta sem semi-blandaða-upphitun. Átti ekki mikið eftir í setti 4. Pff... Ég þarf að ná 10. Nota kannski aðeins léttari stöng næst.

Skrifa það bak við eyrað!

Hádegismaturinn var eðalfínn. Bolognese með meiru. Veiddi upp úr vinnufatinu hakkbolta, gaman að því. Eins og kjötbollur.

bolognese

Þegar avocado er gott... ohooo. 

Jebb, held ég þurfi ekkert að klára þessa setningu.

*englahljóð*

besta avocado í heimi

Parmesan. Oh how I love thee!

Rétt upp hönd sá sem gæti lifað á osti... eða... skildu eftir... X í kommentakerfinu eða eitthvað.

Getur svosum rétt upp handlegginn fyrir framan tölvuskjáinn þinn - borið fyrir þig sérlega axlaæfingu ef einhver spyr hvað þú ert að gera!

Parmesan gerir gæfumuninn

Annars var smá keppni í Bootcamp í gær. Sá sem vann fékk frímiða á Expendables. Þurftum að halda fyrir ofan haus sandpokakvekendi og sú Kampfkerling og sá Kampfkarl sem héldu lengst út, unnu.

Ég vann! Hohoho..

Axlirnar eru hinsvegar ekki alveg jafn kátar með þá staðreynd og eigandinn. Á næstum erfitt með að klóra mér í trýninu. Hélt sandkvikindinu uppi í 3:50 minnir mig. Sem er nú hálf aumingjalegt, átti helling inni, frekar svekkt út í sjálfa mig en den tid, den sorg.

Svo er skírnin hjá litla Spaghettifrænda næsta sunnudag. Skondið. Ekkert nema spaghetti-stelpur í 40 ár og svo bamm... kemur ekki einn Lundi. Hohooo ég get ekki beðið. Undirrituð beðin um að vera skírnarvottur. Átvaglið rígmontið með stélið sperrt. Þá vitið þið það. Litla dýrið verður alið upp í frænkueldhúsi innan um allskonar eplakrums, grautarmall og át.

Inn á milli förum við svo í bíló, leikum Spiderman og tökum He-man með stæl.

Nema hann komi til með að leika með póný og barbie, sem er eðalfínt alveg - ég er hryllilega sjóuð í svoleiðis leikjum!


Bootkampf niðurstöður

6 vikur yfirstaðnar. Magnað hvað tíminn líður hratt. Sumarið alveg að verða búið.... og jó.. aaaalveg að mæta á svæðið! Woohooo!

Jæja - segið svo að Kampið skili ekki árangri og æðislegheitum! Þolið, bæði lungna og vöðva, allt að koma til. Þetta er ekkert nema gleði.

Hlaup - 2,3 km

  • gleði23.06 - 12.5 mínútur
  • 04.08 - 10 mínútur

Froskar með hoppi

  • 23.06 - 20
  • 04.08 - 38 (hey, meira en ég hélt um daginn *gleði*)

Armbeygjur

  • 23.06 - 30 (12 á tánum)
  • 04.08 - 35 (27 á tánum)

Situps

  • 23.06 - 30
  • 04.08 - 62

Þyngd

  • 23.06 - 60.4
  • 04.08 - 58.4

Fituprósenta

  • 23.06 - 20.3%
  • 04.08 - 15.5%

Þar hafið þið það! Þetta eru kannski engar súpertölur en þetta er byrjun og bæting á öllum sviðum!! Það er geðveikt! Tala nú ekki um þessi tvö kíló í mínus og 5% skafið af í mör. Bjóst samt ekki alveg við því, en hey... bónus! Stefni á ennú betri tíma og skor á næstu 6 vikum þar sem ég er enn að lufsast í einhverju sem kallast "fínt" í þolprófinu en ekki "framúrskarandi".

Átvaglið skal verða.... framúrskarandi! Cool

Þarf líka að bæta í átið til að auka hjá mér styrkinn. Næst á dagskrá!

Og já, ég held það nú aldeilis sérdeilis, mér líður nákvæmlega eins og á myndinni!


Þriðji í Verslunarmannahelgi

Síðan ég hámaði í mig ofurbrauðsneiðina um daginn hef ég haft hana á heilanum eins og exem. Smekklegt, ekki satt? Bjó mér því til salat, henni til heiðurs, í dag sökum brauðleysis. Synd og skömm en gott var grasið!

Glæzt

Spínat, alfalfa, kapers (eeelska kapers ákkúrat núna), kapers safi, smá rauðvínsedik, perusneiðar, tómatur, gúrka og eggjahvítur.

Mjög jákvætt salat

Sletta af hunangi og balsamik ediki, til að vinna upp á móti seltunni í kapers krúttusprengjunum...

Balsamico

...ásamt möndlum og smávegis möndlu dukkah. Fyrir bragð, gleðilegri bita og hamingju.

Mandlas

Ferkst, ferskt og fínt. Fullt af krami fyrir áferðaperrann. Næst ætla ég að útbúa Balsamic hunangs/dijon dressingu og bæta út í olífu olíu og smá sítrónuberki. Ohh mama!

Eðalgott

Annars var Kampið tekið með trompi í morgun. Tvöföldu trompi - tvöfaldur tími - tvöföld pína. Þrekprófið endurtekið síðan fyrir 6 vikum og viti menn... konur og börn. Átvaglið búið að bæta hlaupatímann sinn um rúmar 2 mínútur! Situps um heilar 32, push ups um 5, þar af 15 aukalega á tánum, 10 auka froskar og 35 aukaleg uppstig.

JÁ TAKK!

Þannig að - til að ná Elítuprófinu þá þarf ég að bæta mig í 4 liðum af 5!! Ekki.. nema! Hmm hmm! Reyndar, þá eru armbeygjurnar og froskarnir ansi nálægt því sem þarf til að standast. En, hvað um það, fjórir af fimm. Það skal unnið vel á þennan mismun á næstu sex vikum.

Æfingin í morgun var með eindæmum gleðileg, erfið og sveitt. Framhliðin á kvendinu leit svona út, 20 minútum og berkjaskyrskál seinna (og var verri strax eftir æfinguna)...

Sviiiti

...bakhliðin svona!

Markbak með meiru. Blá doppa á hverjum einasta mjóbaks-hryggjarlið.

Hressir, bætir og kætir.

marbak

Ætla ekki einusinni að sýna ykkur hverskonar hroðbjóður restin af skrokknum á mér er. Fæturnir... aumingja fæturnir. Skil þetta bara ekki, lít út eins og gíraffi. Steypist út í marblettum á stöðum sem eiga ekki einusinni að geta framkallað marbletti. Eins og nasavængir og eyrnasneplar. Það mætti halda að ég væri á hausnum mestmegnið af tímanum. Ekki það að elskulegir blettirnir trufli mig - ég nýti þá óspart til að segja af mér hetjusögur!

Nei, það er ekki sorglegt.

Kannski mig vanti einhver vítamín í skrokkinn til varnar marblettamyndun. Nema það lagist ef ég borði nógu mikið af súkkulaði... eða ís.

Það væri óskandi.


Fyrir Bootcamp Eftir

Fyrir

Uppfull af banana og eggjahvítum... nei ég segi nú svona.

Hip Hip Hip HÚHA

YÖÖÖAAAH.. hmm hmm

Það var gert grín mikið grín að sjálfsmyndatökunni.

Elín: HEY, ÞETTA ER ALLT Í ÞÁGU BLOGGSINS!

Fjölskyldumeðlimur: Já já, góða besta. Við getum samt alveg tekið myndina af þér?

jájá

Elín: Æji maður, viljið þið ekki bara leysa vandamálið við hungursneyð í leiðinni?

Engin biturð... engin!

Obbobb! Elín Helga Egilsdóttir!!!!

Aha, og myndavélin, töfrum líkast... enn á lofti! Vísifingur vinstri handar hefur sjálfstæðan vilja. Getur verið mjög hvimleitt í vinnunni!

eeeelííín þó

Eftir

Ahhhaaaaa, gooott stöff! Bootcampf er nýji vinur minn... ásamt kaffi!

100 armbeygjum, 100 sit ups, 200 uppstigum... og fullt af hlaupi seinna!

Sveitt kvekendi

Sælir eru sveittir þó saltir séu!

Gleði gleði

Anda eins mikið inn og þú getur, út með bringuna og halda niðri í þér andanum! Labba svo sperrtur í burtu, helst með handleggi eins langt út frá síðu og möguleiki er á. Anda svo frá þegar í bílinn er komið! Vonandi að þú hafir ekki lagt bílnum á Akranesi!

Mikill er önaðurinn sem fylgir því að geta verið úti að æfast í góða veðrinu!

Uppblásið

Þolið farið að aukast, ekki mikið, en smá - ég finn það, einmitt... ááááákkúrat þarna!

Það er gleði!

Hvað eru mörg "Thumbs up" í því?


Óguð... ég dey!

Lyftingar og Bootcamp eru ekki... það sama!

Ónei!

Lyftingar og Bootcamp fara eflaust saman að einhverju leiti, ýta undir eiginleika hvors annars og getu einstaklingsins til að takast á við æfingarnar, en guð minn góður... að vera ofurlyftingakappi vs. ofur Bootcamp antilópa -> engin miskunn hvernig sem þú lítur á málið. Samtvinnað, og þú breytist eflaust í grískan guð.

Eins og yfirbugaður fettmúli sniglast ég áfram á síðasta andardrætti. Heilinn heldur þó að skrokkurinn sé til í tuskið. Líklegast er það banananum að kenna sem ég kokgleypti 5 mínútum fyrir æfingu. Vegna þessa sé ég sjálfa mig fyrir mér valhoppandi á grænu engi fullu af fiðrildum og regnbogum, en reyndin er aldeilis önnur - lungun emja, fæturnir gráta. Eins og önd á svelli hlunkast ég áfram, slefandi með tilheyrandi búkhljóðum. Másandi búrhveli stútfullt af rækju! Mínum Ástralíumjúka rassi reyni ég að drösla í átt að portinu þar sem hlaupið hafðist og einbeita mér að önduninni. Ég ranghvolfi augunum og hvæsi hástöfum, tel mér trú um að tvískipti tónninn í andardrættinum sé með eðlilegasta móti. Ég hljóma samt eins og stíflað trompet. Loks sé ég glitta í portið *tilhlökkunartryllingsspenningur*. Ég þykist gefa í en það stoðar víst lítið. Útlimirnirnir sveiflast óviðráðanlega í allar áttir og ég rétt næ að halda höfði. Ekki ósvipað hrossaflugu í vindi! Ég gæti ekki einusinni klórað mér á nefinu án þess að eiga í þeirri hættu að pota úr mér augað - fínhreyfingarnar eru horfnar. Ég slengist í átt að portinu góða eins og ormur einfætti. Það virðist vanta í mig öll bein. Kærkomin hvíld í nánd og hjartað verður örlítið hamingjusamara. Þvílík endemis andskotans gleði sem það verður að klára þennan viðbjóð. Hlaupið endaði ég guðdómlega. Líkt og stungin í bakið með samúræjasverði hrundi ég á hnén og slengdist í jörðina með einkennilegu skvamphljóði. Lungun tæmdust af lofti, frá mér kom eitt hávært fnas í bland við ískur sem gaf mér svona líka fínt blóðbragð í munninn. SIGUR! Ég komst alla leið! HAHH BOOTCAMP... ÉG VINN!

"ALLIR INN Í SAL -> 20 FROSKAR MEÐ HOPPI, 20 ARMBEYGJUR, 20 SIT UPS OG 4 FERÐIR Í STIGANUM. ENDURTAKA 5 SINNUM. ÞIÐ FÁIÐ 10 MÍNÚTUR TIL AÐ KLÁRA ÞETTA - EF ÞIÐ NÁIÐ EKKI AÐ KLÁRA ÞURFA ALLIR AÐ TAKA 500 METRA RÓÐUR OG BYRJA HRINGINN UPP Á NÝTT...."

Óguð! Crying

Jah. Þetta er kannski ekki alveg jafn dramatískt og ungfrúin lýsir, en ég hef sagt það áður og segi það enn, þol og átvögl eiga litla samleið. Sérstaklega ef átvalið heitir Elín! Hef þar af leiðandi alltaf veigrað mér við hlaupum, jú, af því mér reynist það óyfirstíganlega erfitt. En ekki lengur, segir hún með miklum tilþrifum, setur hendur á mjaðmir og sveigir höfuðið svo langt aftur að það rignir beinustu leið upp í ranann á henni!

Nýjir tímar, nýjar áskoranir - byggja upp almennt þol, vöðvaþol í bland við styrk. Búin að taka ansi góðan hring í þessu ræktar- og lyftingaststússi öllusaman og alltaf jafn skemmtilegt að breyta til. Ég krumpast aftur í lóðin þegar það byrjar að dimma. Nýjasta markmiðið - að ná þrekprófinu!

2007 -> Franska kjallarabollan - tékk!

2007/2008 -> Mjónan, brennslutímabilið - tékk!

2008/2009 -> Laga ónýtt brennslukerfi - tékk!

2009/2010 -> Kött, móta/massa, rífa vel í járnið, lægsta fitu % hingað til - tékk!

2010 -> Svindlið, ultratone - tékk!

2010 -> Ástralía, kom mér niður á jörðina aftur og skrokknum á miðlínuna - tékk!

2010 -> Almennt úthald, þol og styrkur, antilópusyndrome - in progress!

Tala svo um að vita ekki í hvorn fótinn á að stíga! Fólkið mitt - þegar þið byrjið að rækta ykkur, ef þið hafið aldrei farið áður, ekki hika, ekki bíða en verið búin að setja ykkur raunsæ markmið og reynið að kynna ykkur málið örlítið áður en lagt er af stað. Jafnvel finna ykkur góðan einkaþjálfara.

Kannski maður þurfi að reka sig á vitleysurnar í þessu til að sjá að sér og læra, en ef ég hefði nú bara vitað 2007 það sem ég veit í dag varðandi t.d. mat og æfingar, þá hefði ég getað sparað mér mikinn tíma í koddagrát, batteríislausar æfingar og staðnanir. Munið bara að þið eruð ekki að gera þetta fyrir neinn nema ykkur sjálf sem innlegg á framtíðarreikninginn. Það segir enginn að þið þurfið að vera með kúlurass sem brýtur hnetur til að vera ofur og jú, þið megið alveg borða kökur!

Verið kát í eigin skinni. Ef ykkur líður vel þá er markmiðinu náð, ef ekki, standið þá upp ekki seinna en í dag og takið fyrsta skrefið. Hreyfing og góðar matarvenjur fylgja yfirleitt í kjölfarið og tilfinningin er stórkostleg, sama hvar þið eruð stödd líkamlega/andlega. Það er bara bónus. Eins og Nóakropp á ís!

Ég fór til dæmis Ástralíu og át á mig auka 5% ftu... það var gooooooott! Cool

Halelújah, preis ðe lord...

Ahh já... best að gleyma ekki -> þetta er svo það sem ég borðaði í kvöldmat í dag!

Salsasúpa og salat

Mmhmmm

Le spoon

Og þetta er það sem maturinn skildi eftir sig! Fallegt ekki satt? Ég held það ætli að reyna að ná heimsyfirráðum! Ég skírði það Ramon!

ramon 

Kryddlegin hjörtu - klikka ekki! 

Bootcamp, er að fílaða.

Brosið fyrir mig Smile

Nótt í hausinn á ykkur, eða eins og Ás'búðingar' segja - Natten Skratten!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband