Færsluflokkur: Kjúklingur/Kalkúnn

Létt og góð grænmetis og kjúklingasúpa

Ég elska súpur.

Ég elska líka mömmu mína. 

Mamman mín + súpur = Amen.. oh lord... haleluujah...

Það er eitthvað guðlegt við þetta dúó, það verður bara að segjast.

Hún gerir bestu súpur í heimi. Humar-/kjöt- og Osso búkkó þar efst á lista. Ógvöð.

Bara það að hugsa um þær fær munnvatnskirtlana í fúll svíng og hnén til að kikna. Ughhh!!!

Uppskrift og með því, vegna fjölda áskorana, beint frá ofursúpukvendinu komið.

300 lítrar af súpu

Létt og góð grænmetis og kjúllasúpa a la madre - fyrir 700 Spartverja

  1. Eitt stk. roðhænsn, skorinn í fjóra hluta. Hlutarnir kryddaðir og sett á þá smá olía. Síðan brúnaðir á pönnu. Lagðir til hiðar.
  2. Ekki minna en 14 gulrætur. Þær skornar í grófa bita; best að helminga eftir lengdinni og svo settar til hliðar. Þær bíða steikingar með lauknum.
  3. Laukur-aldrei minna en tveir venjulegir og aldrei minna en 4 hvítlauksrif. Þessir gaurar saxaðir og skornir, steiktir á pönnu með gulrótum þar til gljáandi.
  4. Kartöflur-frekar minni en stærri-10stk.
  5. 1/2 bolli brún grjón. 
  6. Smjörbaunir-ein dós. Síðust út í súpuna.
  7. Broccoli-einn sæmilegur haus skorinn í fleyga eftir endilöngu. Síðastur út í súpuna.
  8. Sveppir-eitt box frekar minni en stærri.
  9. Eitt gott búnt af vorlauk, en hann fer síðastur út í súpuna.

Aðferð:

Þegar búið er að steikja pútu, gulrætur og lauk, þá er stór pottur tekinn fram. Í hann fer einn og hálfur líter af vatni sem hefur verið sett í kjúklingakraftur (Oscar-tvær msk.) og 3 box af Knorr grænmetiskrafti. Síðan fer pútan út í og hún soðin dólgslega í 40 mín.

Átvaglsinnskot 

  • Dólgslega soðið fiðurfé er mjög mikilvægt í þessari uppskrift - helst þannig að tryllingslegur stríðsdans fylgi í kjölfarið. 

Síðan fara kartöflur og grjón útí og 5 mín. seinna, laukurinn og gulræturnar. Soðið áfram í tuttugu mínútur. Þá fylgja baunir, broccoli, sveppir og vorlaukur. Ekki sjóða allt heila klabbið í meira en 65 til 70 mín. Frá byrjun til enda. (tékka hvort kartöflurnar séu í gegn). Þetta er allt kryddað eftir smekk og ekki gleyma Maldon saltinu!

Annað atriði, mjög mikilvægt: Muna að passa upp á bein þegar maður borðar kjúllasúpu. Ekki borða svo græðgislega að beinið standi þversum í kokinu.

Annað... átvaglsinnskot

  • Fyrir utan þá mjög svo truflandi staðreynd að þú gætir í raun kafnað, þá er önnur, næstum meira, truflandi staðreynd að það gæti reynst hryllilega erfitt að borða meira af súpunni með kokið stútfullt af beinum! Já nei, við viljum ekki trufla einbeitinguna við átið á þann hátt!

Bon appetit!


Kjúlli + baunir = kjúklingabaunir?

Búin að vera í frekar "léttu" stuði undanfarið. Langaði óhemju mikið í salat en samt ekki þannig að tómaturinn væri í einu horni og gúrkan í hinu. Æji.. pff.

Átti kjúllabaunir, epli, eitthvað smotterís grænmeti og jú, ég er þekkt fyrir að gúmsla öllu sem ég á saman til að auðvelda át.

Gomma af salati í stóra skál, átti reyndar ekki iceberg, hefði frekar notað það fyrir crunch og kram, niðurskorna tómata, -epli, -gúrku, -lauk, hvað sem er. Hella einni dós af hreinsuðum kjúklingabaunum yfir og hræra smá saman.

Létt og ljúffengt kjúklingabaunasalat

Dressinguna útbjó ég úr ólífu olíu (2-3 msk), lime safa (semi dass), hunangi (rúmlega msk), balsamic ediki (rúmlega msk), dass af þurrkuðum basil og cumin. Kannski msk af hvoru tveggja. Hræra saman, hella yfir salatið, hafa gaman og njóta vel.

Kjúklingabaunasalat

Nohma

Æji - þetta var barasta nákvæmlega það sem mig langað í. Cuminið gerir dressinguna líka skemmtilega. Tók 10 mínútur að útbúa og er fullkomlega löglegt fyrir grænmetisætur! Prótein í kjúllabaununum gott fólk, prótein í baununum!

Ef þið viljið meira af próteini, einhverju slíku, gæti verið snjallt að skella í eina eggjaköku og nota hana sem "tortillu" nú eða barasta harðsjóða egg og skúbba út í... eða fisk, kjúlla, kusu, kind, svíni...

...ég held þið séuð að ná þessu.


Dagurinn 100 árum lengri

Kjúlli er sívinsæll. Sé fiðurfé á boðstólnum í vinnunni eru allir mættir stundvíslega niður í matsal 11:30! Nema átvögl, þau fá leyfi til að byrja 11:11. Jafnvel 11:10. Gott að vera á sérsamning... eða...hmm, kannski enginn sérsamningur. Bara gott að vera gráðugur!

fyrrum fiðurfé

Allir bitar samsvöruðu þó hálfum kjúlla! Gráðug eða ekki, hálfan fugl gúlla ég ekki á "skynsömu" dögunum mínum. Bringan því tekin fallega til hliðar og restin varðveitt á húsbréfi til átu seinna í dag!

Gott gott ét

Eftirréttur voru mínar heittelskuðu ásamt tyggjóplötum til hreinsunar!

Fullkomið crunch

Var búin að gleyma því hvað það er nú notalegt að klára æfingaskammtinn á morgnana. Nú er allt í einu fullt eftir af deginum og ég get gert eitthvað svakalega skynsamlegt eftir vinnu! Eins og að redda teiknidóti, hljóðbókum og hitta ofurkroppinn og eðalkvendið mína ástækru Röggu!


Einn, tveir og páskar

Ekki á morgun heldur hinn verður páskeggið rifið upp með svo stórkostlegum tilþrifum, óhljóðum og öllu tilheyrandi að óvíst er að það lifi hamaganginn af...reyndar einkar óheppileg niðurstaða fyrir mig ef eggið yrði að engu í látunum! Oh jæja, ég reyni að fara varlega!

Kynnti sjálfa mig á nýjan leik fyrir hálfgerðu skyrgumsi í morgun! Mikil kátína sem átti sér stað við átið á þessari skál. Hreint hrært KEA, frosin blönduð ber og 1 tsk mulin hörfræ. Skandall og skaði að eiga ekki möndlur, þarf að endurnýja birgðirnar.

Skyrgums að verða að.. skyrgumsi

HRÆRA - HIP HIP HIP

Skyrgums

Bjó mér svo til enn eitt gumsið í eftirmiðdaginn. Elska svona allrahandahrærumix. Ein msk. olía, hvítlaukur, 1 sólþurrkaður niðurskorinn tómatur, laukur og sveppir steikt á pönnu með salti og pipar og að sjálfsögðu....TJÚTT-LINGUUUUR!! Kjúlla síðan í gær bætt út á rétt í lokin ásamt soja sósu og smá karrý.

Kjúklinga og laukgumshræra

Mmm svissaður laukur og sveppir

Tjúttlingur

Græna gleðin fékk að vera memm eftirá. Hélt að gúrkan myndi ekki virka með þessu en hún var bara fín! Ef ég hefði átt tómata og/eða papriku hefði þetta orðið svaðalegt!

Kjúklingagums

Le gúrk

Sjáið bara hvað hún er fín!

glæsilega fín

Svo fengu furuhnetur að skreyta diskinn fyrir einskæra hamingju og gleði. Hefði verið snjallt að rista þær fyrst og bæta svo við um leið og kjúllanum! Svakalega gott að hafa þær með - gáfu æðislegt bragð!

Furuhnetunohm

Þetta var barasta gott!

Annars er ekkert nema dásemd að vera í fríi! Ákkúrat núna er ég að horfa á þessa mynd:

UP

Hver pantaði annars þetta veður ég bara spyr! Vindur og hagl - gribbulegra gerist það varla!


57 dagar...

 ...að einum viðbættum og voila... 1. maí er genginn í garð! *Gleðisprengjuhamingjukast*

Snjórinn kom, sá og stoppaði umferð í nokkra daga. Nú mætti hann, blessaður, fara að láta sig hverfa. Ég veit, ég veit... ekki kvörtunarvænt þar sem núverandi ástand hefur rétt staðið yfir í rúma viku og íslenskir vetur eru í flestum tilfellum stórkostlegri í umfangi en snjópísl undanfarinna daga. En vitið þið hvað? Mér líkar píslin barasta ágætlega vel í mínu stolta, harða, íslenska "Ég fer út á berrassgatinu í -20° frosti og borða grílukerti" víkingahjarta. Ég gæti vel lifað hamingjusömu íslensku töffaralífi án sex mánaða snjótíðar. Hnatthlýnun og gróðurhúsaáhrif! Jahérna hér!

Annars var eggjahvítugrautur maximus á boðstólnum í morgun. Soðinn upp með banana og skreyttur með múslí og frosnum hindberjum. Ég át hann samviskulaust án myndavélarinnar þar sem hungur í bland við leti yfirtók átvaglið eftir fyrsta bitann. Grauturinn hvarf á hraða ljóssins - ég rankaði við mér þegar ég beit í skálina. Það var ekki ákjósanlegur endir á annars góðu áti!

Hádegismaturinn samanstóð af eftirfarandi litadýrð og fiðurfé í stil. Saffran kjúllinn - ég fæ bara ekki nóg.

Afgangs saffran, grjón og gleði

Grænmetið mitt 

 

 

 

 

 

Mango er yndislegtSaffran og grjón 

 

 

 

 

 

 

Ég mátti til með að mynda hádegismat vinnufélaga míns. Afmælisbarn með meiru svo ég óska honum hér með til hamingju með daginn. Mér er slétt sama hvað fólk fær sér að borða, ekki halda annað elsku bestu - þótti þetta bara fyndið. Munurinn á mínum disk og hans. Hann fær þó plús í kladdann fyrir að fá sér svolítið af mat með sósunni. Þessi diskur kætti mitt fasíska sjálf óstjórnlega.

Kartöflubuff og kínarúlla með sovs

Afgangs saffran, grjón og gleði

Talandi um fasískar venjur. Annar vinnufélagi kom niður í matsal, þar sem ég sat með myndavélina og tók matardiskinn í gegn, og sagði "Ahh.. grænmetisbuff og salat, klukkan er 11:30, Elín er að taka mynd af matnum sínum... allt eins og það á að vera"! Matarmyndatökuáráttan er farin að trodda sér inn hjá nærstöddum átfélögum.

Roastbeef og sæt fyrir æfingu á eftir, súkk- og kók eftir æfingu og Ossobúkkóveisla í Gúmmulaðihöllinni á morgun a la madre. Famelían saman, matur, kósýness og krúsíbombur ásamt nokkrum köttum og hundum.

Stundum er ekkert nema gleðilega fyndið að vera til. Joyful


Allt samkvæmt plani

Já þaaað er breeeennsludaaagur í dag! (syngist eins og Daloon lagið)

Ég brenn og brenn og brenn svo upp til agna, ef það er þá til! Erna er að fara að skíra litla snúðinn sinn á laugardaginn. Mánuður - það er rúmlega mánuður síðan krílið fæddis og rétt rúmlega mánuður síðan jólin gengu í garð! Það verður komið sumar áður við vitum af!! Það er stórkostlegt!!

Nú er sumarfílingurinn tekinn við! Jólin að baki og ég get ekki beðið eftir grænu grasi, sól, blómum, sumarkvöldum... Get svo svarið fyrir það. Öfgar í allar áttir hvað árstíðir og óviðráðanlega kippi af tilhlökkun varðar. En það er ekkert nema skemmtilegt.

Vinnukjúlli síðan í gær og grænmeti. Ekkert klikk á kjúllanum og skrokkurinn með eindæmum kátur að fá grænmeti aftur í systemið.

Kjúlli og grönsagerEftirréttur dagsins... samkvæmt plani í þetta skiptið... og bragðgóður!

Möndlurnar mínarMy prrecious 

 

 

 

 

 

Sjáið svo hvað ég fann!

Radísur

Radísur!! Ég hef ekki bitið í radísu í langan, langan tíma. Þetta var einstaklega gleðilegt söpplæs fyrir nostalgíuna!

Hvað kvöldmat varðar er ég bara ekki viss! Roastbeef er ansi ofarlega á græðgispúkalista - ansi ofarlega mín kæru.


Kjúllinn er ómissandi

Það er svakalegt að koma sér af stað aftur. Harðsperrurnar sem ég vitnaði í um daginn eru barnaleikur miðað við sperrurnar sem ég er að upplifa í dag. Fæturnir hlýða ekki, bakið er með derring og axlirnar gretta sig í hverri hreyfingu. En það er ágætis áminning um að koma sér í gírinn - ahhh hvað það er gott að komast í ræktina aftur.

Kjúllinn var góður í dag. Rauð paprika og laukur fengu að fylgja með inn í ofn og dýrið steikt í mauk. Rauð paprika er alveg að gera sig svona ofnbökuð eða grilluð.

Ofnbakaður laukur, kjúlli og paprika

Ofnbakaður kjúklingur, laukur og paprika

Einn dagur í helgina! Woohoo...

...veit svosum ekki af hverju ég er að woo-a. Ég er í fríi... allir dagar eru föstudagar! Það virðist samt ekki koma að sök hvað varðar gleðina sem fylgir föstudeginum. Hihii


Áframhaldandi tiltekt og rósakál í millitíðinni

Jasoh! Það er svoleiðis uppi á manni trýnið að annað eins hefur ekki verið skráð í sögubækur. Búin að vera með rassinn upp í loft í allan dag, inn og út úr eldhússkápum. Eldhúsið er hér með fullkomlega endurskipulagt og æðislegt. Draslaraskúffan var upprætt með látum. Hún barðist hetjulega - hún má eiga það kvikindið á henni. Það er mjög góð tilfinning að vita að sú skúffa sé dáin og grafin í bili. Annars er afskaplega mikilvægt að vera með rassinn upp í loft í svona tiltektum. Af hverju veit ég ekki alveg, en það er lykilatriði í vel skipulagðri eldhúsrassíu.

Rósmarínkjúlli var púðraður á milli þess sem pottar og kryddbaukar voru færðir á milli skápa. Rósakál sem meðlæti var engin spurning. Ég er búin að hugsa um þessar krúttusprengjur síðan fyrir jól og í kvöld fékk kálið að njóta sín. Hreinsað örlítið, skorið í tvennt, olíað og kryddað ásamt smá rauðlauk. Inn í ofn síðustu 30 mín. af eldunartíma kjúllans. Kálið verður krispí og bjútifúl.

Ofnbakaður kjúklingur með ofnbökuðu rósakáli

Þetta var svo gott. Ég sneri kjúllanum bringur niður, í fatinu sem ég eldaði hann í. Fyllti hann líka af hvítlauk og sítrónusneiðum. Úhh hvað kjötið var mjúkt og djúsí. Æðislegt bragð. Mikið einfalt og gott ét, það verður bara að segjast.

Ofnbakaður kjúklingur með ofnbökuðu rósakáli

Áramótin eftir 2 daga. Humarsúpa, humar, hörpuskel, frómas, fyllt kalkúnabringa... ójá, þetta verður geggjað!


Ekki á morgun heldur hinn

6 tíma flug, jólafílíngur, jólapakkarölt, jólakaffihúsastemning, ostakökur og almenn gleðilegheit. Þar af leiðandi verður enginn hleðsludagur í dag. Hrein og bein fram á sunnudag þegar Ostakökuverksmiðjan verður tekin með trompi - forréttur, aðalréttur og ostakaka. Svo stutt í þetta!

Pakki dags numero tres innihélt eftirfarandi.

Heilræði dagsins

Málband - mikil snilld

 

 

 

 

 

 

Mjög mikið þarfaþing fyrir kvendi sem mælir sig sundur og saman og tekur húsið í gegn á sama tíma. Mæla læri, mæla skáp, mæla hurð, mæla mitti, mæla upphandlegg, mæla glugga, mæla Palla... allt góðar og gildar mælingar mín kæru.

Tók annars með mér hýðisgrjón í vinnuna í dag. Hýðisgrjón með soja og rauðum piparflögum - hryllilega ljúft. Vinnan skaffaði kjúllan - kvendið skaffaði viktina. Vopnuð henni getur ekkert stöðvað mig... nema kannski Terminator, en það er önnur saga!

Hadegismatur, kjúlli, hýðisgrjón og grænmeti

Mér til mikillar hamingju eru vinnufélagar flestir hættir að skipta sér af dularfullum átvenjum undirritaðrar og farnir að venjast. Nokkrir líta ennþá upp til að fylgjast með, aðrir tjá sig eilítið um athæfið en flestallir taka þessu með mikilli sálarró, góna á sinn disk og njóta hádegismatarins.

kjúlli, grjón og grænmeti. Kgg

Þegar fólk spyr mig spurninga og er að spögúlera í því sem ég er að vesenast svara ég 110% og þykir gaman að. Ekki nema von að sumir séu forvitnir. En um leið og einhver labbar upp að mér til þess eins að góna á matinn minn, horfa á það sem ég er að borða, stingur höfðinu ofan í matardiskinn, setur jafnvel upp einhvern vanþóknunarsvip eða setur út á það sem ég er að borða "Oj, þetta er eins og...", "til hvers ertu að þessu?", "...geturðu ekki borðað það sem fyrir þig er lagt?" þá fyrst verð ég fokvond. Dónalegt já takk! Hafðu áhyggjur af þínum eigin átvenjum, ekki mínum!

Brjálað átvagl

Og hananú!Ninja


Kjúlli, hnetur og hnetusmjör

Einhæft eða hvað? Einhæft en góð..hæft. Ef það er þá orð.  Shocking Engu að síður, þá læt ég það standa.

Kjúlli, gulrót og hnetusmjör. Beint af kúnni, allsbert og gleðilegt. Merkilegt nokk, þá eru gulrætur og hnetusmjör svaðaleg blanda! Mæli með því!

Kjúlli, hnetusmjör og gulrætur - gleðiblanda

Kjúlli, gulrætur og hnetusmjör - gott, gott 

 

 

 

 

 

 

Meiri kjúlli og ... tadaaa... gleðimöndlur! Stútfullur diskur af salati og hamingju... og möndlum. Ahh! 

Möndlur eru barasta góðarKjúlli, grænmeti og mandlas 

 

 

 

 

 

 

Viðurkenni það fúslega að ég skoða oft stjörnuspána mína í gamni. Stundum á hún vel við, stundum ekki. Maður virðist þó alltaf ná að samsama lesturinn við eitthvað sem á hefur dunið í lífinu. Stjörnuspáin mín fyrir daginn í dag kætti kvendið mjög.

VATNSBERI 20. janúar - 18. Febrúar

Hvöt þín til óhófs spennist sífellt á móti fjárhaslegri visku. Ef þú ert að sækja í enn betri vinnufélaga, getur þetta verið stórkostleg hugmynd.

Höfum þetta stutt:

Hvöt til óhófs = Endalaus bakstur. Þarf maður virkilega að tilraunast?

Fjárhagsleg viska = Alltaf að kaupa meira og meira bökunardót. Kreppa?

Betri vinnufélagar = Smakkararnir mínir. Fullur kökumagi jafngildir glaðri sál - yfirleitt.

Stórkostleg hugmynd = JÁ! JÓLIIIIN.... afsakið, veit ekki alveg hvaðan þetta kom!

Þá held ég áfram að láta eins og bökunarbestía, eyða pening í sykur og hveiti og vinn mér inn, í kjölfarið, ást allra minna vinnufélaga þar sem ég held að þeim kökum og gúmmulaði allan liðlangan daginn!

Góður matur, glaður magi og maginn ræður alltaf.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband