Færsluflokkur: Út að borða

Aðkeypt veikindasalat með humri

Hið langþráða humarsalat Saffran kom í hús í dag! Palli kom heim með kvöldmat handa veika kvendinu alveg upp úr þurru! Gladdi mig óstjórnlega þar sem:

1. Ég hef hvorki getu né vilja til að elda nokkuð.

2. Ég var orðin mjöög svöng.

3. Ég hef viljað prófa þetta salat síðan ég sá það.

Gripurinn leit svona út... doldið sjabbí á að sjá í plastboxi, en gefum þessu séns. Þetta er ekki náttúrulegt umhverfi þessa salats! Cool

Humarsalat a la Saffran

Ohhh... stóðst ekki væntingar! Saffran kjúklingasalatið hefur enn vinninginn! Þetta var í raun bara steiktur humar með hálfgerðri sinnepssósu. Ekki misskilja, humar er alltaf númer 1, 2 og 3. En salatið og dressingin gerðu ekkert fyrir réttinn. Ojæja... ég fékk þó humar í magann og það er alltaf jákvætt.

Humarsalat a la Saffran

Ahh, gott að eiga góðan kall.


Kryddlegin hjörtu...

...er góður staður til að "skyndibitast" á! Einn af mínum uppáhalds.

Virkilega notalegt andrúmsloft, róleg og þægileg stemning. Maturinn alveg tip tops og í hlaðborðsstíl. Þú borgar fyrir súpu og/eða salatbar og á kvöldin er fiskur í boði. Á hverjum degi er boðið upp á fjórar tegundir af súpum...

Súpurnar

...og salatbarinn alltaf ferskur og fínn. Mikið úrval og margar skemmtilegar "blöndur" af hráefnum.

Salatbar - Kryddlegin Hjörtu

Brauðið sem boðið er uppá er nýbakað. Byggbrauð - með betri brauðum sem ég hef smakkað! Heimagert hvítlaukssmjör og heimagerður hummus. Borðaðu eins og þú vilt af fyrsta flokks eðal hráefni. Sem ég einmitt gerði í kvöld. Tandoori þorskur á kúskús-beði...

Tandoori þorskur á kúskús beði - Kryddlegin Hjörtu

...kókos kjúklingasúpa og fullt af grænmeti. Fyrsta ferð!

Grænmetisdiskur og kókos kjúklingasúpa - Kryddlegin Hjörtu

Kúfaður diskur af grænmeti - önnur ferð!

Grænmetisdiskur - Kryddlegin Hjörtu

Og já... ég er bilaða kerlingin sem fer með myndavél á matsölustaði og tek myndir af matnum mínum!


Saffran - hollt og gott út að borða

Ég bara varð að deila þessu með ykkur. Einn af mínum uppáhalds "út að borða" stöðum er Saffran. Fæ mér yfirleitt alltaf Saffran kjúklinga salatið. Langsamlega best! Pizzurnar þeirra eru líka æðislegar - á það til að fá mér svoleiðis gúmmulaði á "nammidögum".

Þetta verður nú ekki langt - langaði bara að sýna ykkur hvernig dýrðin lítur út!

Hinn helmingurinn fékk sér Saffran kjúklinginn.

Saffran kjúklingur

Saman fengum við okkur kjúklinga krakkapizzu. Sem var æði! Kom í ljós að það var KANILL á kjúklingnum!! Þvílík gleði og meiriháttar góð pizza! Héldum reyndar að þetta yrði lítil pizza en sú varð ekki raunin, enda bara rétt tæplega helmingnum torgað!

Krakkapizza með kjúkling. Kanill á kjúllanum.. ójá!

Undirrituð fékk sér að sjálfsögðu Saffran kjúklingasalat með sesamdressingu - om nom! Þetta er risastór skál skal ég ykkur segja og FULLT af kjúkling!

Risastórt Saffran kjúklingasalat með sesamdressingu

Saffran kjúklingasalat í þátíð!

Fyrrverandi Saffran kjúklingasalat


Hollur skyndibiti - góðir kostir

Það held ég nú!

Skyndibiti þarf ekki alltaf að vera löðrandi í sósum og olíum. Ef þú velur þér rétta staði til að snæða á þá er skyndibitinn allt í einu eitthvað sem vert er að sækjast eftir. Pizza Hut, sveittir sjoppuborgarar og pylsur eru kannsi staðalímyndin en hver vill eyða peningunum í svoleiðis skyndilausnir þegar það er til svo margt annað sem er töluvert bragðbetra... og hollara? 

Þeir staðir sem ég fer hvað mest á til að grípa mat í snatri, eða ósnatri, og mæli eindregið með, eru eftirfarandi:

Kryddlegin hjörtu

Yndislegar súpur, æðislegur salatbar - ferskt, fínt og notalegt umhverfi. Heimabakað, heitt, djúsí og mjúkt spelt-byggbrauð með hummus eða hvítlaukssmjöri og ristuðum graskersfræjum! Þetta brauð.. OHHH... get ekki hætt að hugsa um það! Ég dýrka þennan stað! Súpurnar svíkja engan og ferskt salat með. Æðislegt! Viðráðanlegt verð og jafnvel svolítið ódýrt miðað við hráefnið og þá staðreynd að þú mátt borða eins og þú vilt!

Saffran

Æðislegur æðislegur staður. Rosalega bragðgóður matur, ódýr og skemmtilegur. Hollustufæði, eins og þau segja sjálf, brauðið er sykurlaust og laust við hvítt hveiti sem ég tel mikinn kost, ef maður ætlar að leggjast í brauðát á annað borð. Það er að sjálfsögðu hægt að velja hollt og "hollt". Þau bjóða t.d. upp á pizzur sem eru eflaust "hollari" en margar aðrar pizzur - en þeim er að sjálfsögðu púslað saman með brauði og osti. Muna bara að velja vel og vandlega... fokitt samt, ef þú vilt fá þér pizzu þá gerir þú það! Þær eru æði á þessum stað ;) 

Serrano

Eins og fjölskyldumeðlimir hafa réttilega bent á - þá tilbið ég Serrano guðinn iðulega. Á tímabili þá átti ég heima þarna í hádeginu og jafnvel, stundum á kvöldin líka. Heilhveiti tortilla með 2* kjúkling, baunum og grænmeti! Gerist ekki betra. Kjúklingurinn er líka í svo æðislegum kryddlegi, meiriháttar bragð! Baunirnar fullar af vítamínum og prótínum, grænmetið ferskt og salsasósurnar heimalagaðar! Ef þú fílar Mexíkó-mat þá átt þú eftir að njóta þess að borða þarna. Miðað við magn og gæði, þá er þetta ekki dýr máltíð heldur.

Súpubarinn

Hlaðborðsstíll, súpur, salöt, kjöt - þú mátt velja. Gaman að fara þangað af og til. Úr miklu að velja og auðvelt að velja "vel".

Osushi

Ef þér þykir Sushi gott, þá er þetta rosa fínn staður til að spisa á. Fer í Iðuhúsið reglulega og fæ mér lax, túnfisk, kjúkling og líkar vel. Kannski ekki staður til að borða sig saddan á, Sushi er ekki ódýr fæða, en ef þú velur rétt þá ættu 4 - 5 diskar að halda maganum sáttum fram að næstu máltíð. Ég persónulega fæ mér sjaldan grjóna-sushi, ég er ekki hrifin af uppfyllingarefni (grjónunum). Ef ég vil uppfyllingu þá fæ ég mér frekar brún grjón, bygg, quinoa og þar fram eftir götunum! Er líka svo miklu betra á bragðið!

Austur Indía félagið

Ekki ódýrt! Alls ekki ódýrt en ó, svo mikið þess virði. Engin orð, elska staðinn - fer þegar ég vil fara "fínna" hollt út að borða. Get svo svarið það að allt sem ég hef smakkað þarna er æði! 

 

Svo eru það að sjálfsögðu staðir eins og Salatbar Eika, Solla á grænum ofl. sem ég heimsæki stundum, ofantaldir eru bara á uppáhaldslistanum mínum ákkúrat þessa stundina!  


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband