Færsluflokkur: Bakstur - "óhollt"

Sagið einhver biscotti?

Jebus... ég var að baka! Baka biscotti... ég bakaði mikið! Ég er með biscotti í hárinu - kisarnir... eru með biscotti í feldinum, Palli... er með biscotti í maganum! Húsið lyktar eins og biscotti bakarí. Það er æði! Skytturnar þrjár!

Skytturnar þrjár

Ég á eftir að dreyma biscotti í nótt er það ekki?

Uppskriftir væntanlegar!


Karamella með grófu salti

Enn einn heilsupistillinn. Borðið nokkrar svona og þið lítið út eins og íþróttaálfurinn eftir hátíðarnar!

Eins og allar aðrar karamellur. Búið til ykkar uppáhalds og stráið svo grófu salti yfir í lokin. Það er ekkert nema gott.

Karamella með grófu saltiKaramellur, 90 - 100 stk.

1/4 bolli vatn

1,5 bollar sykur

1/2 bolli sýróp

1 bolli rjómi

5 msk (71 gramm) ósaltað smjör

1 tsk gróft salt

1/2 tsk vanilludropar

Aðferð:

1. Sjóða saman sykur, sýróp og vatn þangað til bubblur byrja að myndast, halda þá áfram að sjóða þangað til fallega gyllt. Ekki hræra í sykurbráðinni, snúið frekar pottinum og blandið hráefnunum saman þannig.

2. Á meðan setja rjóma, salt og smjör ásamt fræjum úr einni vanillustöng (og stöngin með) í pott og rétt sjóða. Taka þá af hitanum og setja til hliðar. Fjarlægja vanillubelginn!

3. Þegar sykurbráðin er orðin fallega gyllt taka af hitanum og hella rjómablöndunni út í. Getur orðið mikið aksjón í pottinum á þessum tíma, ágætt að fara varlega. Hræra vanilludropunum samanvið með viðarsleif.

4. Setja karamelluna aftur yfir hita. Hérna svindlaði ég og notaði hitamæli. Þegar karamellan var komin upp í 248 Farenheit - sem er í raun stíf karamella, ekki hörð og ekki lin, þá hellti ég blöndunni í smjörpappírslagt fat og leyfði að kólna smá. Inn í ísskáp og út úr ísskáp þegar dýrðin var orðin svo til stíf, stráði með salti og skar í litla bita.

KaramellaKaramella

 

 

 

 

 

 

5. Hún er æðisleg þessi.

Karamella


Mjúkar piparkökur með hvítum súkkulaði- og butterscotch bitum

Svava systir varð rangeygð þegar hún smakkaði þessar. Mjúkar piparkökur, næsti bær við deig - svo ef þú er ekki mjúkkökumanneskja þá skaltu alfarið sleppa þessum elskum. Þær eru einnig sætari en allt sætt en það vinnur svaðalega vel með öllu kryddinu. Hinsvegar, ef þú ert ekki sætumanneskja heldur, þá gætu þessar orðið svaðalega væmnar fyrir þig. Kemur samt á óvart hvað butterscotch bitarnir passa vel við. Ég myndi jafnvel hætta mér út í það að auka kryddskammtinn í næstu tilraun. Mér finnast þessar æði! Mhhmmm!

Mjúkar piparkökur með hvítum súkkulaði- og butterscotch bitum!

Mjúkar piparkökur með hvítum súkkulaði- og butterscotch bitum3 bollar hveiti

2 tsk matarsódi

2 tsk kanill

2 tsk mulinn engifer

1 tsk negull

1/4 tsk allrahanda

1/2 tsk salt

1 bolli smjörlíki (225 gr.)

1 bolli púðursykur

1 stórt egg

1/3 bolli sýróp

1/2 poki Nestlé butterscotch bitar (170 gr. um það bil)

Hvítt súkkulaði eftir smekk. Ég held ég hafi notað 170 gr. af því líka.

Aðferð:

1. Hita ofn í 160 gráður

2. Blanda saman hveiti, matarsóda, kanil, engifer, negul og salti í lítilli skál.

3. Hræra saman smjör, egg, sykur og sýróp þangað til létt og ljóst. Hræra hveitiblöndunni saman við smjörið í skömmtum þangað til vel blandað. Hella þá súkkulaðibitum út í og hræra vel. Setja rúmlega msk. á pökunarpappír.

4. Baka í 10 mínútur eða þangað til kökurnar eru rétt gylltar. Kæla í 2 mínútur og færa svo yfir á grind til að kæla alveg.

Mjúkar og djúsí piparkökur með hvítum súkkulaði- og butterscotch bitum


Spes spesíur

Æji nei, þær eru svosum ekkert meira spes en aðrar spesíur. Þetta er sama uppskrift og ég notaði í nornafingurna á hrekkjavökunni um daginn! Alveg ágætar. Möndludroparnir koma sterkt inn. Einfaldar og alltaf góðar - ágætt að sjússa aðeins upp í ofursætu súkkulaðikökunum!
Spesíur

Spesíur1 bolli sykur

1 bolli mjúkt smjör (uþb 225 gr)

1 egg

1 tsk möndludropar

1 tsk vanilludropar

2 og 2/3 bollar hvieti

1 tsk salt

Aðferð:

1. Hita ofn í 160 gráður.

2. Hræra saman sykur, egg, smjör, vanillu- og möndludropa þangað til létt og ljóst. Hræra þá hveiti og salti við.

3. Rúlla upp í pulsu, vefja inn í plastfilmu og ísskápa í 20 - 30 mín, eða þangað til deigið er stíft.

4. Skera í viðráðanlega munnbita, koma fallega fyrir á bökunarplötu umvafna bökunarpappír og inn í ofn í 10 - 15 mín eða þangað til rétt gylltar.

Spesíur tilbúnar og á leiðini inn í ofn


Súkkulaði- brownie smákökur með hvítum- og dökkum súkkulaðibitum

Ef þú notar gott dökkt súkkulaði í þessar þá er súkkulaðiþörfinni fullnægt fyrir daginn ef ein kaka er kláruð. Þetta er hálfgerður blendingur á milli brownie súkkulaðiköku og smáköku. Stökk skorpa, mjúk miðja - mmm, nauðsynlegt að drekka mjólk með! Bæði Palli og Svabba fóru hamförum!

Svakalegar súkkulaði- brownie smákökur með hvítum- og dökkum súkkulaðibitum

Súkkulaði brownie smákökur225 gr. gott dökkt súkkulaði, smátt saxað

4 msk mjúkt smjör

2/3 bolli hveiti

1/2 tsk lyftiduft

1/2 tsk salt

2 egg

3/4 bolli púðursykur

1 tsk vanilludropar

340 gr. súkkulaðibitar (dropar t.d.). Ég notaði 240 gr. dökka og 100 gr. hvíta.

1 bolli t.d. valhnetur - má sleppa. Ég notaði þær ekki.

Aðferð:

1. Hita ofn í 175 gráður.

2. Setja smátt skorið súkkulaði og smjör í örbyljuörugga skál (gott orð ekki satt?) og hræra í með 20 sek. millibili þangað til súkkulaðið er bráðið. Hræra þá súkkulaðinu samanvið smjerið.

3. Í annarri skál hræra saman hveiti, lyftidufti og salti og setja til hliðar.

4. Í enn annarri skál hræra saman sykri, eggjum og vanilludropum þangað til létt og ljóst. Þá, hægt og rólega, bæta súkkulaðiblöndunni út í og loks hveitinu. Rétt hræra hveitið samanvið og þá hella súkkulaðibitunum út í og hærra til að blanda alveg.

5. Setja rúmlega msk. (má vera minna) með 3 cm millibili á bökunarpappír og baka í 12 - 15 mínútur. Snúa plötunni 180 gráður eftir helmingur bökunartímans er liðinn (6 mín) og klára að baka. Þær eru tilbúnar þegar brúnir kökunnar eru nokkuð þéttar, kakan glansandi, yfirborð sprungið en miðjan mjúk.

Súkkulaði- brownie smákökur með hvítum- og dökkum súkkulaðibitum

 


Kökubakstur 101

Þar tók kvendið við sér. Vopnuð Kitchen Aid flundruðust upp úr skál, inn í og út úr ofni fjórar tegundir af smákökum. Nokkrar tegundir eftir enn, biscotti, pretzels, karamellur og margt fleira gúmmó. Ég tók þann pólinn í hæðina, þessi jól, að lifa hættulega og útbúa "óhollt" jólanammi. Ég tók rimina ansi harkalega síðustu jól og því verða þessi með tauminn aðeins lausrai. Gleði og glaumur.

Svo ég vindi mér í fyrstu smákökutegundina sem ég bakaði í dag. Æðislegar hafrakökur. Þær eru alltaf bestar að sjálfsögðu. Hafrakökur af öllum stærðum og gerðum. Þessar eru þunnar, karamellukenndar, stökkar í endana en mjúkar í miðjunni. Hægt að hafa þær allar stökkar - bara baka ögn lengur. Þessar eru númer eitt á lista hjá mér og Palla þessa stundina. Hinar kökurnar koma í vikunni, ein uppskrift á dag.

Maple vanillu hafrakökur

Æðislegar þunnar hafrakökur, stökkar í kanntana, mjúkar í miðjunni1 1/2 bolli mjúkt smjör

1 3/4 bollar maple sýróp

1/2 bolli púðursykur

1/2 bolli hvítur sykur

2 stór egg

2 tsk vanilludropar

6 bollar grófir hafra (grænu solgryn virka flott)

2 bollar hveiti

2 tsk matarsódi

1 tsk salt

1/2 bolli rúslur, hnetur, súkkulaðibitar.... (Ég sleppti þessu. Næst ætla ég að bæta við möndlum)

Aðferð:

1. Hita ofn í 175 gráður.

2. Í stórri skál hræra saman smjöri, sýrópi, eggjum, sykri og vanilludropum þangað til létt og ljóst. Hræra þá höfrunum samanvið. (Ef þú vilt bæta við hnetum, rúslum ofl. gera það núna)

3. Hræra saman, í lítilli skál, hveiti, matarsóda og salti. Bæta svo hveitiblandinu við hafra og smjör. Hræra vel.

4. Setja rúmlega tsk. af deigi á böunarpappír með 4 - 6 cm. millibili. Þær dreifa vel úr sér þessar. Baka í 10 - 12 mín. Því lengur sem þær eru bakaðar, því stökkari verða þær. Þið ráðið Smile Fer líka eftir því hvort ofninn sem þú ert að nota sé kjarnorku eða ekki. Minn er kjarnorku * 22.

Æðislegar þunnar hafrakökur, stökkar í kanntana, mjúkar í miðjunni

Svava systir var annars að labba inn um dyrnar og fékk að smakka allar tegundir. Tvær voru í uppáhaldi. Mjúkar piparkökur með hvítum súkkulaði- og butterscotch bitum og súkkulaði-brownie með súkkulaði- og hvítum súkkulaðibitum. Það hummar í Svövudýrinu!

Hafrakökur, spesíur og súkkulaði-brownie

Áfram með smjerið! Tvennskonar smákökur eftir og biscotti á miðvikudaginn! Konfekt- og karamellugerð um helgina.


Epla og karamellusprengja í tilefni föstudagsins

Svo einföld, svo svaðaleg. Þetta er uppáhalds eplakrumsið/eplakakan mín! Það er hægt að leika sér með dýrið eins og sykurgrísinn leyfir. Ég segi það satt. Margir hafa beðið mig um að henda inn örlítilli uppskrift og hér kemur hún - jafn örlítil og hún er.

Eftirréttir halogen fiestunnar

Krums yfir köku:

Jafn mikið af hverju fyrir sig.

Smjör, hveiti, sykur. Ég nota yfirleitt 150 - 200 gr.

Hræra saman í skál með smá salti ef vill, jafnvel kanil og vanilludropum. En það þarf ekki endilega. hræra saman þangað til úr verður deigklumpur. Má setja inn í ísskáp til geymslu.

Karameliseruð eplakaka

Eplagleði:

Ég nota yfirleitt græn epli. Þau eru svo súr og vinna svo vel á móti ööööllum sykrinum og smjerinu sem í kökunni er, verða heldur ekki að mauki. Nota 4 - 6 epli, fer eftir stærð epla og stærð fats sem púsla á eplunum í.

1. Flysja epli og skera niður í báta.

2. Búa til karamellubráð á pönnu. Ég nota dass af púðursykri, vanilludropa, smá kanil, smjör og sýróp.

3. Taka 1/3 - 1/2 af eplabátunum, ásamt t.d. salthnetum (eða pecanhnetum), og brúna í karamellunni.

4. Hér er hægt að byrja að leika sér. Stundum set ég nokkrar klípur af deigkrumsi í botninn og á milli ferskra- og karamelluepla. Einnig set ég t.d. snickersbita eða rolo yfir, í og með ásamt miiiikið af kanilsykri og pínku púðursykri ef ég er í stuði. Oft hef ég dökkt súkkulaði í felum þarna líka. Já - þetta er sko ekki laust við sykur.

Svaðaleg epló

5. Rest af ferskum eplabátum komið fyrir í fati, vel kanilsykraðir, og karamellu-epla-hnetublöndunni hellt þar yfir.

6. Deigkrumsið er svo mulið yfir kökuna og kanilsykur þar yfir. Mjög gott að mylja t.d. hnetumúslí yfir, hnetur, súkkulaði... rosa gott að strá smá grófu salti yfir. Maldon t.d.

7. Sykurmagn fer algerlega eftir sætuþörf hvers og eins. Kakan hjá mér er aldrei alveg eins.

8. Væri örugglega geggjað að hafa marsípan í þessu!

9. 175° heitur ofn í 30 - 40 mínútur eða þangað til krumsið er orðið gyllt og karamellan farin að bubbla upp með hliðum.

Karameliseruð eplakaka með hnetum

Borðist með gleði í hjarta, rjóma, helst ís - karamellusósu fyrir þá allra hörðustu - og undirbúið ykkur undir sykurcoma og óviðráðanlega augnkippi það sem eftirlifir vöku!


Roastbeef og humar - kreppa?

Úhúú hvað dagurinn í dag er búinn að vera gleðilegur í matarmálum. Svo gaman þegar átvaglið kemst í stuð og gerir eitthvað sniðugt í staðinn fyrir að taka einfaldari leiðina. Sem er að sjálfsögðu ekki bragðlaus og leiðinleg - bara... mikið nýtt?

Roast beef með smá honey dijon og byggi. Borðað með hrúgu af vinnugrænmeti og notið í botn.

Gúmmulaði roastbeef með dijon og byggi ásamt vinnugrænmeti

Vanillu-rommdropabætt hreint prótein með kanilristuðum möndlum og pííínkulítð af sjávarsalti. Óguð! Þetta var eins og syndsamlegur eftirréttur! Karamellueftirréttur! Möndlurnar búnar að mýkjast aðeins, ristaða bragðið af þeim skilaði sér fullkomlega og dauft rommbragð eftirá. Herra guð sko! Gæti notað þetta sem millilag í einhverja köku! Ef ég hefði haft ís þá væri ég án efa í matarcoma ákkúrat núna!

Vinnillu-rommdropabætt prótein með kanilristuðum möndlumVanillu-rommdropabætt hreint prótein með kanilristuðum möndlum

 

 

 

 

 

 

Svo verður líklegast humar í sinni einföldustu mynd í kvöld. Humar vinnur allt. Algerlega númer eitt á mínum uppáhaldslista yfir mat... kannski fyrir utan jólaöndina og fyllinguna sem henni fylgir... hmmhhh....

...algerlega númer eitt á mínum uppáhaldslista yfir mat ásamt jólaöndinni og fyllingunni sem henni fylgir. Ahh, betra!

Sjáið svo hvað ég laumaðist til að gera í morgun.

Súkkulaði pecan-bita hafrakökur með trönuberjum Súkkulaði pecan-bita hafrakökur

 

 

 

 

 

 

 

Súkkulaði pecan-bita hafrakökur með trönuberjum Súkkulaði pecan-bita hafrakökur með trönuberjum

 

 

 

 

 

 

Óbeibís! Tilraunir fyrir jólapakkann hafa hafist. Vinnan og Palli eru tilraunadýr. Jólapakkaviðtakendur mega ekki vita hvað þeir eru að fá. Var það ekki óskrifuð regla? Wink


Hrekkjavökuþakkargjörð, 1.hluti

Ég byrjaði í gær að undirbúa hrekkjavökupart kvöldsins í kvöld. Smákökur, "cup cakes" með risafrosting, karamellupopp, karamellur og epli í stíl.

Kanil-pecan og karamellu poppið sívinsæla. Dreifði svo yfir þetta hvítu súkkulaði og leyfði að harðna! NOHM!

Kanil-pecan og karamellupopp

Afskornir nornafingur og Dabbar! (Dabbi = stóra táin) Smákökuparturinn af þessu öllu saman. Urðu reyndar aaðeins stærri og þybbnari en áætlað var - bara betra! Meira að narta í.

Afskornir nornafingur og tær

Karamellan að sjóða. Hún er æðislega góð þessi!

Karamella

Eplið potað með priki og dýft í syndina!

Karamelluepli á amríska vegu

Resta af karamellu kæld og skorin í smátt (reyndar smærra en á þessari mynd) og söltuð með sjávarsalti. Það er æðislega gott.

Karamella

Cupcakes a la Betty! Hún klikkar aldrei. Setti líka einn Rolo bita í miðjuna á hverri muffins áður en þær fóru inn í ofn. Mmm...

Muffins a la Betty frænka

Svona leit eitt hornið af eldhúsinu mínu út í miðjum klíðum. Já, ég kann að búa til drasl og er subba mikil. Sérstaklega þegar ég kemst í bökunargír og baka stanslaust í 6 tíma - þá neeenni ég ekki að ganga frá jafn óðum því ég er alltaf að nota eitthvað. Hamfarakokkur?

Ónýtt eldhús

Lokaafurðir! Vantar reyndar karamellubitana. Hjúpaði þá með súkkulaði og setti möndlur inní. Þeir eru að bíða inn í ísskáp eftir að súkkulaðið harðni.

Feitir nornafingurKanil-pecan og karamellupopp

 

 

 

 

 

 

 

KaramelluepliMmmm

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Draugalegar cupcakes

Frönsk súkkulaðikaka að hætti móður minnar og feit, djúsí eplakaka (a la moi) fylgja svo í kjölfarið - hitt er nú meira bara til sýnis og gleðilegheita. Af einhverjum ástæðum eru ekki til neinar pecanhnetur, eða graskersmauk, í heiminum... á Íslandi! Ætla nú ekki að fara að kaupa heilt grasker á milljón og handlegg til að búa til eina böku og jah.. ekki verður til pecan pie (lesist "Pecan paaaaaj) ef ekki eru til hnetur! En það er í lagi, epló og fransi standa alltaf fyrir sínu!

Annars hlakka ég svo mikið til þess að byrja að baka fyrir jólin. Úhhh! Jólalög, kósýness, kökubakstur, kakó og allur pakkinn.

Verði mér að góðu í kvöld... jú, og ykkur líka Joyful


Pistasíuís - hreint lostæti

Hentar það ekki fullkomlega að skella inn eins og einni ísuppskrift í þessu glæsilega fína veðri? Ís er uppáhaldið mitt. Ég gæti borðað hann þyndarlaust. Ofur 3ja kílóa pistasíupokinn sem ég keypti um daginn er við það að klárast svo ég ákvað að nýta síðustu pistasíurnar mínar í þennan gjörning. Ég sé ekki eftir því! Hann heppnaðist vel... of vel!

Pistasíu ís - 3 bollar

Pistasíu ís - hreint lostæti1 og 1/4 bolli ósaltaðar, óristaðar, skelflettar pistasíur.

1/3 bolli sykur

2 bollar nýmjólk

2 msk maizamil. Sterkja, fæst í Bónus.

2 msk hunang

1 msk sítrónusafi eða eitthvað gott hnetu eða ávaxta líkjör. (amaretto, grand marnier...) Ég notaði sítrónusafa úr ferskri sítrónu. Átti ekki líkjör. Hjálpar til við að halda blöndunni mjúkri inn í frystinum.

Aðferð:

1. Mylja pistasíur og sykur, smátt, í matvinnsluvél. Setja til hliðar.

2. Hella 1/4 bolla, af mjólkinni, saman við sterkjuna þangað til vel blandað. Setja til hliðar.

3. Í potti, yfir meðalhita, hella saman pistasíum og rest af mjólk (1 og 3/4). Hræra í af og til með sleif og leyfa bubblum að koma upp. Ekki sjóða.

4. Hella þá sterkjublöndunni saman við og hræra í 2 - 3 mínútur aukalega yfir hitanum. Blandan er tilbúin þegar pistasíublandan þekur skeiðina og sé fingri rennt niður eftir skeiðinni þá myndast far.

5. Þá er tímabært að færa pottinn af hitanum og leyfa blöndunni að kólna í nokkrar mínútur.

6. Blanda út í pottinn hunangi og sítrónusafa eða líkjöri. Leyfa blöndunni að kólna þar til hún nær stofuhita en hræra í henni af og til svo ekki myndist húð ofan á ísnum. Nú er gott að breiða yfir ísinn, eða setja hann í lokað ílát, og inn í ísskáp þangað til vel kaldur. Yfir nótt er best.

7. Hella ofurísböndunni í ísvél og bíða eftir að eitthvað stórkostlegt gerist!

Pistasíu ís - hreint lostæti

Úff... hvar á ég að byrja? Ég get a.m.k. sagt ykkur það að þegar ég og Palli tókum fyrsta bitann, litum við á hvort annað og flissuðum! Ég bjóst ekki við þessu bragði og þessari áferð! Ef ykkur þykja pistasíur bragðgóðar þá mun þessi ís ekki svíkja ykkur. Flauelsmjúkur ísinn með þessu ljúfa pistasíubragði og stútfullur af pistasíubitum. Sætan nægjanleg og vinnur vel á móti hnetubragðinu. Maður saknar þess ekki að hafa eggjarauður til að mýkja hann upp. Ææææðislegur ís, auðvelt og fljótlegt að búa hann til. Kannski ekki á holla listanum, ekki á ofur-óholla listanum heldur - ég held ég finni ekki nógu lýsandi lýsingarorð til þess að gera undrinu nægjanlega frábær skil, get svo svarið það.

Pistasíu ís - hreint lostæti

Myndirnar gætu því miður litið betur út, en þið vitið hvernig þetta er stundum hjá mér - ég gat ekki beðið lengur með að smakka. Þetta bjútí var að bráðna fyrir framan trýnið á mér! Athugið samt að ég laug ekki þegar ég sagði að ísinn væri stútfullur af hnetum - en persónulega þykir mér það geggjað!

Pistasíu ís - hreint lostæti

Þennan ís kem ég til með að bjóða upp á í matarboði, á næstunni, með vanillurjóma! Ég á líka afgang, ójá. Ég hlakka mikið til næsta laugardags!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband