Færsluflokkur: Snarl og pill
5.10.2010 | 08:25
Hibiscus iChiaskyrgrautur með hindberja-balsamic sýrópi
Ég er öll í morgunmatnum þessa dagana.
Sveik ykkur meðal annars um lasagna á sunnudaginn.
Svei þér Elín Helga Egilsdóttir... megir þú bíta í appelsínubörk rétt eftir tannburstun!
Jæja, nó komið af skömm og skælingu, vindum okkur að þessari snilld!!!
Ójá... ó... já!
Dásemd.
Dýrð.
Viltu sjá meira? Ókei...
...ég álasa þér ekki.
Gerðu svo vel!
Þetta smakkast jafn vel... og mér þykir það líta girnilega út!
Og mér þykir þetta líta mjög... girnilega út!
Ég er að borða þetta núna.
Ef það slettist grautur á skjáinn hjá þér bið ég þig um að afsaka.
Selbitaðu hann bara af.
Hibiscus yogi te. Það er rautt þema í dag!
Setja um það bil 20 gr. hafra í skál ásamt 1 msk chia.
Og hella tevatninu yfir.
Leyfum chiafræjunum að drekka nóg. Þau eru svo þyrst greyin.
Ahh, ákkúrat! Já takk.
Ég vil ekki lifa í heimi án Chiafæja. Ef, fyrir einhverja ónáttúrulega tilviljun, plantan sem framleiðir þessa litlu hamingjubolta þurrkast af yfirborði jarðar, þá vitið þið hvað þið þurfið að gera.
Bæta loks út í gumsið smá vanilludropum, kanil, salti, skyri og torani sýrópi. Allt eftir smekk.
Ekki sullusmekk þó.
Ætli ég hafi ekki notað um það bil 100 gr. skyr, 1 tappa vanilludropa, 2 tappa torani, örsalt og 100 tonn af kanil.
Rökhugsun mín er óbrigðul í kanilmálum.
HRÆRA!
Og blandið hefur tekið fölbleikan lit.
Alveg eins og litaspjaldið sagði til um.
Taka nokkur hindber og bæta þeim við dýrðina.
1 tsk mulin hörfræ.
HRÆRA!
Hindberja-balsamic sýróp
- Hindber... nema þú vijlir bláber, jarðaber, æðiber. En þá breytist væntanlega nafnið á sýrópinu. Þú gætir svosum haldið hinberjaþættinum í nafninu þrátt fyrir að berjategundin breytist. Það sem gerir þig glaða(n) er það sem blivar.
- Sletta balsamic edik
- Torani sýróp
Hvernig fer ég að?
Frosin ber í skál og sletta yfir smá balsamic ediki og torani sýrópi.
Henda inn í örbylgju með hrærustoppum þangað til nokkuð þykkt. Ég held ég hafi verið með þetta inni í 3 - 4 mín með stoppum.
Voila!
Aðeins nær.
Því í minni bók er þetta guðdómlega gleðilega önaðslegt og ég vill að þetta verði partur af lífi mínu... alltaf.
Bókin mín er einstaklega skemmtileg.
Ef vill þá er hægt að bæta út í þetta smá vatni og hunangi og sjóða vel niður. En þá myndi ég vera fensí og fín og malla þetta í potti... á hellu, eins og almennilegt fólk.
En ég er ekki almennilegt fólk.
Ég er latt fólk.
Örbylgjan er vinur minn. Ekki... hata örbylgjuna!
Sýrópinu hellt yfir grautarskyrchiakássuna...
...og meistaraverkið tekið út í myndum.
Þú veist þig langar í.
Ef þig langar ekki í, þá þarf ég því miður að tilkynna þér að það vantar í þig langarann.
Held þeir fáist í IKEA.
Svona nú. Take it all in!
Bara smá í viðbót... njóttu sem mest þú mátt.
Ok... komið gott.
Við viljum ekki eyða þessu upp með eintómu góni!
Borða takk!
Þó ég sé löngu byrjuð að borða. Þetta mall er aðeins of hratt að breyast í Þátíðarmall.
Amen.
Gott?
Er þetta gott?
Sýrópið verður að hálfgerðri karamellu eftir ísskápsveruna. Ótrúlegt en satt þá kemur te-ið með skemmtilegt eftirbragð, hélt það myndi ekki eiga sér stað sökum sýrunnar í skyrinu en Torani virðist gera skyrkraftaverk. Upp úr þurru bítur maður svo í súrt ber, sem hefur yfir nóttina orðið eitt með grautnum, og átvaglið ískrar af hamingju.
ÍÍÍSKR!
Takk fyrir mig.
Snarl og pill | Breytt s.d. kl. 09:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
3.8.2010 | 10:28
Olíu- og mjólkurlaust banana speltbrauð með bláberjum
Fyrir þá sem eru með mjólkuróþol og... olíu... óþol! Ekki það að ólífu olían myndi skemma nokkuð, holla fitan er nauðsynleg. En þetta er gott, gott brauð. Mjög djúsí og skemmtilegt. Bragðgott með eindæmum og endalaust hægt að leika sér með deigið.
Olíu- og mjólkurlaust speltbrauð með banana og bláberjum
3 vel þroskaðir bananar, stappaðir
2 msk ferskur sítrónusafi (jafnvel nota smá sítrónubörk líka)
1/3 bolli + 2 msk möndlumjólk (eða sveskju/eplamauk)
2 msk hunang
1/3 bolli púðursykur (ég notaði muskovado)
1 tsk vanilludropar
1 tsk möndludropar
1 bolli bláber, fersk eða frosin
2 bollar spelt
1/2 bolli múslí (ég notaði sólskyns)
3/4 tsk lyftiduft
3/4 tsk matarsódi
1/2 tsk salt
Aðferð:
Stappa banana og blanda fyrstu 8 atriðunum saman. Banana - bláber.
Er alltaf með einn "draslaradisk" þegar ég er að baka undir hrat og skítug áhöld. Þarna get ég plantað notuðum skeiðum, berki, skafi, hýði, afgangs smjeri... ekkert subb á borðið. Þó það útbúi einn auka disk sem þarf að þrífa. Það er nú ekkert svo hræðilegt! Fyrir utan þá Über alles mikilvægu staðreynd að ég veit alltaf hvert ég set dótið mitt ef ég er með draslaradisk
Næst blanda saman þurrgumsinu...
...og gúlla svo þurrgumsi í blautgums og rétt hræra. Muna að hræra ekki of mikið, bara rétt þannig að allt blandist.
Hella í olíusmurt brauðform og baka í 40 - 50 mínútur við 175 gráður. Ég var með mitt brauð inni í 50 og það varð svona líka mjúkt og djúsí.
Núh.. ef þið eigið ekki brauðform þá leika af fingrum fram!! Ójá! Álpappír og eldfast mót! Verður ekkert voðalega fallegt í laginu, hvað þá á þessari mynd, en alveg jafn fínt á bragðið.
Og svona leit kvekendið út nýkomið úr ofni.
Ohmn nom nom!
Hvað myndi ég gera næst!
Bæta við chia- eða hörfræjum og möndlum fyrir hollu fituna. Nú eða öðrum hnetum/fræjum, líka til að gefa bragð/áferð og kram. Jafnvel eplum eða meira af berjum (hindber, jarðaber..). Þurrkaðir ávextir...
Verður eitthvað næst?
Já... ójáhá!
Snarl og pill | Breytt 24.9.2010 kl. 21:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
17.4.2010 | 13:43
Þykkt blandað prótein
Jah, veit ekki alveg hvað skal segja. Eins lítið af vatni og þið komist upp með.
Prótein í skál.
Nokkrir dropar af vatni. Tæplega matskeið myndi ég halda og hræra.
Þá gerist þetta. Próteinið kurlast upp. Aðeins meira vatn, bara ogguponsulítið...
...og voila. Próteinleðjan rúllast upp í kúlu og utan um skeiðina. Ef það er of mikið vatn þá gerist þetta ekki.
Preppa poppkexið!
Smyrja poppkexið!
Samloka poppkexið!
Borða villimannslega eftir æfingu!
Af hverju ég náði ekki mynd í fókus af prótein popplokunni er mikil ráðgáta, en ég set hana inn engu að síður. Þetta hefur líklegast verið of dásamlegt fyrir myndavélina, hún réði ekkert við þetta greyið.
Snarl og pill | Breytt 24.9.2010 kl. 13:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.3.2010 | 06:14
Hafra og hnetusmjörs kókos kökur
Voðalega svipuð hráefni og ég notaði í hafrastangirnar um daginn. Þessar komu samt svolítið á óvart verð ég að segja. Skemmtilega stökkar að utan.
Hafra og hnetusmjörs kókos kökur
1/8 bolli spelthveiti (15 gr)
3/4 tsk matarsódi
dass salt
1 + 1/3 bolli grófir hafrar (133 gr)
1/4 bolli vatn
3 msk eplamauk
1/4 bolli hunang (tæp 70 gr)
2 eggjahvítur (tæp 80 gr) eða 1 heilt egg.
1/2 tsk vanilludropar
1/2 bolli hnetusmjör (130 gr)
110 gr. smátt saxaðar döðlur
1/4 bolli kókosmjöl (25 gr)
1 msk mulin hörfræ (má sleppa)
Hita ofn í 180 gráður.
Setja hveiti, salt og matarsóda í skál og blanda rétt saman. Af hverju ég gerði þetta fyrst er mér hulin ráðgáta. Held það sé fullkomlega leyfilegt að blanda öllu þurru saman ein tveir og bingó!
Mæla einn bolla af höfrum (og já, ég elska bollamálin mín - svaðalega ofurflott og kúl og stál og glansandi)...
...og blanda saman við. Hér setti ég 1/4 bolla af vatni út í hafrahræruna til að mýkja kornið aðeins upp. Leyfði að sitja á meðan ég kláraði að hræra í restina af kökunum.
Næst er gott að blanda saman því blauta. Aftur, elsku bestu, notið stærri skál en þetta - það þarf að hræra í þessu með blandara! Ósætað eplamauk. Þyrfti samt að finna mér ódýrara mauk í meira magni - það er fásinna að kaupa margar svona litlar krukkur. Veit einhver hvar svoleiðis gersemi fæst fyrir ásættanlegt magn af pening?
Mæla þrjár matskeiðar af mauki, mjög fallega, vel og vandlega í skál, vonandi stærri skál en sést á myndinni hér að neðan...
...og bæta út í herlegheitin vanilludropum og hunangi!
Hræra saman, alltaf að hræra saman!
Næst bæta eggjahvítum út í hræringinn og já, hér er skálin er farin að fyllast all verulega mikið!
Gumsið var því forfært í aðeins hentugra form af eldhúsíláti svo hægt væri að dólgast í að hræra það eins og almennilegum villimanni sæmir!
Hræra úr gumsinu líftóruna eða þangað til það verður létt og ljóst. Værir reyndar ágætt að hræra saman hunangið og eggjahvíturnar, bæta svo eplagumsinu og vanilludropunum við það. Prófa það næst.
Þarnæst kemur skemmtilegi hnetusmjörsparturinn. Ég eeelska hnetusmjör og hnetur og möndlur og...
...krukkan tóm! Tadaaa!!!
Fullkomin skál fyrir næsta hafragraut ekki satt?? Ekkert nema hamingja að borða grautinn upp úr tómum hnetusmjörskrukkum og skafa úr botninum þegar gleðin er að klárast... ohhhgg!! Mæli eindregið með því!
Bæta hnetusmjöri út í eplamauks-eggjahvítublönduna og jú...
...hræra saman.
Áferðin verður um það bil svona... sjáið þið ekki stórkostlega vel hvernig hún er? Kemur skýrt og skilmerkilega fram! Um það bil eins og hnetusmjörið sjálft nema gumsið er mýkra og rennur úr skeiðinni.
Hafrar gripnir með offorsi og kynntir fyrir hentusmjörsblöndunni, döðlurnar bíða mjög spenntar þarna í bakgrunn.
Formlegri kynningu lokið.
Döðlurnar gerðar tilbúnar fyrir samrunann ásamt kókosgumsi. Kókosinn þarf þó engan undirbúning. Svo skemmtilega vill til að búið er að saxa hann niður fyrir oss!
Bætt út í hafragumsið góða og vitið þið hvað? Hrært sman! Hohoo... Svo fann ég mulin hörfræ sem ég ákvað að nýta úr því ég rakst svona skemmtilega á þau! Ein matskeið beinustu leið ofan í herlegheitin!
Svo plastaði ég skálina og lét bíða yfir nótt. Ágætt að láta bíða í svona 3 - 5 tíma svo hafrar nái að mýkjast og bragð/hráefni að krumsast saman, en þar sem klukkan var orðin margt þá nennti ég svo sannarlega ekki að hinkra eftir því.
Daginn eftir var gumsið tilbúið til uppskúbbunar og áröðunar. Reif skálina galvösk út úr ísskáp þegar ég kom heim seinna um daginn og elsku fólkið mitt! Þetta deig gæti ég étið allt beinustu leið upp úr skálinni - svaaaðalega gott á bragðið!
Notaði amerísku littlu ísskúbbuna mína sem smákökumótunartól! Elska hana! Átti reyndar ekki bökunarpappír ótrúlegt en satt. Nýtti mér því álið og smurði það aðeins með olíu áður en ég kom kökunum fyrir.
Áraðað, fínt og fallegt. Allir í beinni línu! Hip hip hip!!
Ég kramdi kökurnar líka rétt niður með gaffli áður en ég stakk þeim inn í ofn. Þær dreifa sér lítið sem ekki neitt. Hér er sumsé ein dýrðin fyrir bakstur....
...og eftir! Um það bil 15 mín. eftir ofnferð. Fer eftir ofni hvers og eins. Barasta þangað til fallega gylltar.
Allir saman út úr ofninum!
Kökurnar sem voru innst í ofninum bökuðust aðeins betur en þær sem framar sátu. Að mínu mati voru þær sem meira voru bakaðar betri og krumsaðri (stekkri). Þær sem voru þynnstar/minnstar laaangsamalega bestar. Eins og karamella! Mmhmmm!!
Úr þessu bjó ég til 22 kökur. Hægt að hafa þær minni/stærri nú eða taka þetta alla leið og bara búa til eina risastóraofurmassaköku!! Af hverju veit ég ekki, en það gæti orðið gaman og án alls efa gaman að borða!
Einhver sem býður sig fram í að gera neglurnar á undirritaðri fínar aftur?
Næringargildi pr. köku uþb.
Kcal: 94, Prótein: 3 , Fita: 4 , Kolvetni: 13 , Trefjar: 2
Niðurstaða:
Þegar ég smakkaði fyrstu kökuna glænýja út úr ofninum þótti mér hún heldur bragðlaus og dauf miðað við hamingjuna sem deigið var. Eftir að dýrin kólnuðu þá urðu þær aðeins bragðmeiri og sérdeilis aldeilis fínar að mínu mati. Virkilega skemmtileg áferðin á þeim, sérstaklega þessum sem urðu aðeins þynnri/minni. Þærðu stökkari og skemmtilegri undir tönn en samt smá mjúkar inní. Döðlurnar karamelliseruðust líka svo skemmtilega í kanntana. Ef ykkur þykir slíkir sjóhattar góðir þá er um að gera og minnka/þynna kvekendin. Gleðileg áferð og fínt bragð. Passa að þær brenni ekki í botninn.
Hvað myndi ég gera öðruvísi næst?
- Pottþétt krydda með einhverju skemmtilegu. Kanil að sjálfsögðu, negul, anís?, eitthvað sniðugt og aðeins meira salt. Rífa út í þetta sítrónu eða appelsínubörk?
- Nota meira af döðlum - jafnvel mauka þær, kannski súkkulaðibita, rúslur, þurrkaða ávexti, fræ.
- Er ekki viss hvort ég myndi sæta meira, en það er spurning að prófa það... hmmm.
- Jafnvel setja aðeins meira af kókos.
Verður eitthvað næsta skipti?
Já það held ég nú. Þótti þær ofurfínar til að narta í!
Snarl og pill | Breytt 24.9.2010 kl. 13:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
16.3.2010 | 19:30
Hnetusmjörs- og hafrastangir
Stangir, skífur, þynnur, kex...
Langaði svo að prófa. Eins einfalt og það gerist og smá skammastrik - notaði sykur. En það er ekkert mál að skúbba honum út fyrir t.d. meira af döðlum eða hunangi. Gerir gumsið bara svo skemmtilega stökkt. Er hvort eð er ekki mjög hrifin af "gervisykri". Ef sætt skal éta, sem er ekki í formi þurrkaðra ávaxta ofr, þá skal það sykur vera!
Ég notaði n.b. ekki allt sem fram kemur á myndinni hér að neðan. Aprikósur og agave voru skilin útundan.
Hnetusmjörs- og hafrastangir, 10 stk
40 gr. muscovado sykur (má alveg nota púðursykur, hunang, agave)
50 gr. hunang
1 stappaður banani (eplamauk...)
2 tappar vanilludropar
dass af kanil
50 gr. smátt skornar döðlur
150 gr. grófir hafrar (eða venjulegir rauðir solgryn)
Hita ofn í 175 gráður.
Setja hnetusmjör í örbylgjuörugga skál og gera eitt stykki banana tilbúinn til stöppunar.
Hita hnetusmjer þannig hægt sé að hræra í því, 30 - 40 sek, og stappa bananadýrið. Svo fínir á litinn svona bananar!
Bæta út í hnetusmjörið sykri, hunangi, kanil og vanilludropum...
...ásamt bananaketi! Hræra saman og gera sig klára(n) í að grípa hafrana!
Hræra saman við hnetusmjörsblönduna höfrum. Ef þið viljið gera þetta mjög krefjandi, og aðeins flóknara en þörf er á, notið minni skál en þið sjáið á myndinni hér að neðan!! Hinsvegar, þá er ekkert skemmtilegra en að hræra villimannslega í klísturgumsi sem þessu. Þá væri líka hægt að bæta döðlunum út í á sama tíma! Ef pent og krúttaralegt er þinn stíll, þá eru smáskálar algerlega málið!
Saxa niður döðlurnar og skella þeim saman við!
Þar sem öll bökunarform á heimilinu eru svo gott sem milljón árum of stór ákvað ég í neyð minni að spinna. Ekki nakin í þetta skiptið. Bjó til þetta líka fína form úr álpappír. Voila... virkaði flott.
Setja gumsið í formið...
...dreifa úr og þrýsta svolítið á.
Inn í ofn í 20 mín, eða þangað til fallega gyllt.
Láta kólna vel/alveg áður en eiginlegur skurður fer fram.
Næringargildi pr. stöng
Hitaeiningar: 160, Prótein: 4, Fita: 5, Kolvetni; 23 - þar af sykur, 4, Trefjar: 3
Niðurstaða:
Þunnar skífur, stífna vel upp í bakstri, þéttar og eru alveg stökkar og krumsaðar í kanntana. Karamellukenndar og allur pakkinn - enda dálítið af sykri í þeim, en þó ekkert til að æpa yfir. Hægt að baka í minna formi og hafa þykkara en þá verða þær líka aðeins mýkri. Eru mjög skemmtilegar undir tönn "chewy". Fullkomið til að nota sem skeið og skúbba upp próteini/skyri. Jafnvel mylja út á graut nú eða borða sem "Guð - ég verð að fá mér eitthvað sætt" snakk. Skera smærra og súkkulaðihúða helminginn, velta upp úr kókos - nota sem snakk í barnaafmælum? Nei segi nú sonna...
Hvað myndi ég gera öðruvísi næst?
- Prófa að mylja smá af höfrunum smátt eða nota rauðu solgryn.
- Bæta út í gumsið kókos - ójá! Það væri æði.
- Hnetur/möndlur/fræ - til að frá smá crunch og kram.
- Jafnvel lifa hættulega og bæta smá dökkum súkkulaðibitum við!
- Nota stærri skál!
Verður eitthvað næsta skipti?
Já, er ekki frá því að ég prófi þetta aftur með meiri tilfæringum. Er ekki sannfærð um að ég vilji bæta þessu á uppskriftalistann - kannski einhver sem vill prófa og kommenta? Betrumbæta og fullkomna
Snarl og pill | Breytt 24.9.2010 kl. 13:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
25.11.2009 | 09:12
Sætu kartöflu kartöfluflögur
SKK! Þessi aðferð við át á sætunni kemur mér ætíð í gott skap. Skera dýrið í þunnar sneiðar, pama smá, inn í örbylju (eða ofn = meira crispy) þangað til stökkar og gleðilegar. Krydda eftir smekk. Paprika, chilli, salt, pipar er ekkert nema nammi! Ef þið viljið hollari, ódýrari og alveg jafn frábærlega fínar, ef ekki betri, snakkflögur en olíusullið sem þið kaupið út úr búð - þá búið þið þessar til! Ójá!
Ég á það stundum til, í mínum hellisbúalega heimi, að nota flögurnar sem uppskúbbelsisáhald fyrir mat sem hefur enga sérstaka lögun - gacamole sem dæmi. Í dag var þetta hálf fátæklegt en gott engu að síður. Áferðaperrinn fór svoleiðis úr hamnum við átið. Sæt, ó svo sæt og stökk kartöfluflaga ásamt stöppuðum eggjahvítum með hot sauce og salsa.
Af hverju engin mynd? Jú... ungfrúin tók myndavélina með sér en skildi batteríið eftir heima. Fullhlaðið og tilbúð að takast á við allan mat heimsins.
Örvæntið þó eigi, ég uppskúbbaði í morgun... ég uppskúbbaði eggjahvítum eins og vindurinn!
Snarl og pill | Breytt 24.9.2010 kl. 11:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
17.9.2009 | 20:56
Orkubitar - orkubombur
*B*O*B*A*
Keypti um daginn undanrennuduft. Vissi nákvæmlega ekkert hvað ég ætlaði að nota það í! Svo af hverju ekki að prófa það í hafrabita? Komu svona líka fínt út. Stútfullir af allskonar gúmmulaði og skemmtilegir að bíta í.
Orkubitar
1/2 bolli sólblómafræ
1/2 bolli hveitikím
1/2 bolli Undanrennuduft
1/4 bolli heil- eða spelt hveiti
1/2 bolli möndlur. Ég notaði reyndar möndlumjöl, átti ekki möndlur.
1/2 bolli þurrkaðar apríkósur
1/2 bolli þurrkaðar döðlur
1/2 bolli þurrkaðar fíkjur
1/4 bolli rúsínur
1/2 tsk kanill
1/2 tsk vanilludropar
1/3 bolli hunang
2 egg
Setja allt nema hunang og egg í matvinnsluvél og hræra saman þangað til blandan verður nokkuð fín. Bæta þá hunangi og eggjum samanvið og hræra þangað til blandan verður eins og þykkt/gróft mauk. Setja á smurðan bökunarpappír, ofan í eldfast mót, þrýsa örlítið á (blandan er mjög klístrug) og inn í 175 gráðu heitan ofn í 20 mínútur, eða þangað til fallega gyllt. Má vera lengur ef vill - passa bara að brenna ekki.
Kæla og skera í bita. Ég gerði bitana mína svo til smáa. Bútaði plötuna niður í 21 stykki. Bitarnir eru svo þéttir og góðir að einn er nóg til að seðja það sárasta! Frábær áferð. Geymast vel í ísskáp/frysti.
Karamellukenndir, djúsí og bragðgóðir bitar... bara gleði!
Snarl og pill | Breytt 24.9.2010 kl. 10:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
4.9.2009 | 09:52
Hafraklattar sem ekki þarf að baka - taka 1
Nanna Gunnarsóttir spurði mig að því um daginn hvort ég ætti til uppskrift af hafraklöttum svipuðum þeim sem Matarkistan er að selja. Hér á eftir kemur uppskrift af hafraklöttum sem ég geri stundum. Hráefnin eru ekki alltaf þau sömu en útkoman er ávallt að mínu skapi. Hafraklattarnir sem Matarkistan framleiðir eru æðislegir enda smjör og hrásykur í þeim. Maður finnur það meira að segja á lyktinni. Mmmm... Ég nota helst hunang í staðinn fyrir sykur, og smjör, jah... maður deyr svo sannarlega ekki af smá smjörklípu. En það er án efa hægt að nota eplamauk eða kókosolíu í staðinn. Ég ætla svo að setja inn hinar tvær uppáhalds hafraklatta/viðbits-stanga uppskriftirnar mínar við tækifæri!
Hafraklattar
1/2 bolli kókosmjöl
1/2 bolli sólblómafræ
1/4 bolli hveitikím
1/4 bolli uppáhalds múslí eða t.d. sesamfræ.
1/4 bolli niðurskornar aprikósur
1/4 bolli niðurskornar döðlur
1/3 bolli hunang
1,5 msk smjör
1/2 tsk vanilludropar
Hræra saman höfrum, kókosmjöli, sólblómafræjum og hveitikími í stórri skál. Setja döðlur, aprikósur, hunang, smjör og vanilludropa saman í pott og hræra saman þangað til döðlur og apríkósur eru farnar að bráðna saman við hunangsblönduna og hunangið rétt farið að bubbla. Færa þá pott af hita og byrja á því að skófla þurrefnum ofan í hunangspottinn þangað til áferðin er orðin að þínu skapi. Það var smá eftir af þurrefnum í mínum skammti. Rúmlega 1/2 bolli kannski?
Hella blöndunni á smjörpappír, móta í ferhyrning, og þrýsta á með t.d. skurðabretti! Móta aftur, þrýsta hliðum saman og aftur þrýsta á með skurðabrettinu, eða þangað til blandan er orðin þétt og helst vel saman. Setja þá inn í ísskáp og bíða eftir að hún kólni vel - taka þá út úr ísskápnum og skera í minni bita. Ég skar mitt niður í 8 bita. Hægt að hafa færri/fleiri ef vill.
Virkilega þéttir og góðir bitar. Haldast vel saman við stofuhita og bragðið og áferðin meiriháttar flott. Munið bara að hunangið sem þið notið kemur vel fram. Svo veljið hunangið ykkar vel! Pallinn fílar þessa í botn og vinnufólkið mitt líka. Gott að hafa svona tilraunadýr í vinnunni... ekkert nema jákvætt!
Snarl og pill | Breytt 24.9.2010 kl. 10:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
11.8.2009 | 11:01
Banana og döðlu flatbrauð með möndlum og sítrónuberki
Púslaði saman hálfgerðu flatbrauði/sætabrauði í tilraunaskyni um daginn. Ætlaði alltaf að krafsa niður það sem ég gerði en af einhverju dularfullum ástæðum gleymdi ég þessu aftast í hnakkanum á mér. Gumsið kom samt svo skemmtilega vel út að ég ákvað loks að henda uppskriftinni hingað inn! Æhj, þetta er svosum engin uppskrift per se, bara raða hráefnunum á deig og henda inn í ofn. Engu að síður... þá er þetta það sem átti sér stað þennan örlagaríka sunnudag! (Hafa dramatíkina í lagi)
Fletja t.d. pizzadeig út eins þunnt og kostur er á. Væri örugglega líka hægt að nota tortilla köku. Pensla með 1 tsk olíu og þar á eftir sultu. Ég notaði sykurlausa sultu með blönduðum skógarberjum. Þarnæst raðaði ég bananasneiðum og niðurskornum ferskum döðlum á deigflötinn. Eftir það raspaði ég sítrónubörk yfir bananann og döðlurnar og stráði pínkulítið af sjávarsalti og möndlum þar yfir. Þarnæst setti ég rjómaost í bitum yfir herlegheitin og stráði loks pínkupons af mozzarella yfir gumsið í heild sinni. Þessu skellti ég svo inn í 175 gráðu heitan ofn þangað til osturinn varð fallega gylltur. Ég hafði þetta þó aðeins lengur inn í ofni en svo. Bakan varð þar af leiðandi stekkri en hún hefði annars orðið - mjög gott.
Það sem gerir þetta gums svona frábært, í minni bók, er sítrónubörkuinn! Hann er stjarnan í þessu annars ágæta púsluspili! Geggjað að bíta í stökkt brauð, mjúkan sætan banana, karamellizeraða döðlu, pínku salt og fá svo ferska bragðið með sítrónunni! Bara geggjað! Væri eflaust frábært að raða á þetta örlítið af hráskinku, eða beikoni, og ólívum.
Gaman að þessu. Ég er að sjálfsögðu, eins og þið eflaust vitið, mikill sykurgrís - allt sem er sætt fíla ég í botn. Þar af leiðandi er þetta gums, þó ómerkilegt sé, góðumegin við línuna hjá mér
Snarl og pill | Breytt 23.9.2010 kl. 21:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
9.8.2009 | 16:35
Heilhveiti og hafra möndlukökur
Fann svo eðal fína uppskrift á netinu einn daginn að ég prentaði hana út. Full af flóknum kolvetnum, trefjum, prótein og hollri fitu. Fullkomið í morgunmatinn og/eða með kaffinu! Búin að hlakka mikið til að prófa og lét loks verða af því. Fylgdi henni 110%, eitthvað sem ég geri yfirleitt aldrei. Hefði nú betur pimpað hana svolítið upp a la Ella. En hún á sér enn von!
Heilhveiti og hafra möndlukökur
1/2 bolli hafrar. Ég notaði grófa hafra.
2/3 bolli möndlumjöl. Ég muldi möndlur í matvinnsluvélinni.
1/2 bolli hveitikím.
1/2 bolli heilhveiti.
3 msk hunang og 3 msk möndlusmjör. Notaði heimagert kanil- og rúsínumöndlusmjör.
1 tsk. matarsódi
2 hrærð egg.
Í stórri skál hræra saman hafra, möndlumjöl, hveitikím og heilhveiti. Setja til hliðar. Hita hunang og möndlusmjör í örbylgju, þangað til létt bubblar, og hræra létt saman. Hella matarsódanum strax saman við hunangsblönduna. Blandan byrjar strax að lyftast og verður létt og froðukennd þegar matarsódinn er hrærður saman við. Hella hunangsblöndunni út í hafrablönduna og hræra létt. Þá hella eggjunum út í þangað til klístrað deig myndast.
Móta litlar kúlur úr deiginu, ég bleytti á mér hendurnar í nokkur skipti til að rúlla kúlurnar út, raða á bökunarpappír.
Inn í ofn í tæpar 10 mínútur eða þangað til rétt gylltar. Þessar voru inni aðeins of lengi.
Bíða svo með að borða á meðan myndataka á sér stað. Gott próf á hversu viljasterk(ur) þú ert!
Niðurstaða:
Það vantar í þær allt krydd - eru þar af leiðandi svo til "bragðlausar". Hunangið er þó nóg til að sæta, fyrir minn smekk. Þær mýkjast nokkuð upp við geymslu, eins og flestallar hafrakökur gera, og eru, þrátt fyrir kryddleysi, afskaplega mildar og bragðgóðar. Áferðin er virkilega skemmtileg. EN... það vantar þetta "Hmmm... góóðar kökur" element í þær!
Hvað myndi ég gera öðruvísi næst?
Þær skal kryddast. Vanilludropar, kanill, salt, múskat.. hvað sem hugurinn girnist. Jafnvel súkkulaðispænir og/eða þurrkaðir ávextir og hnetur ef þú ert í þannig skapi. Ég myndi líka, ef þú vilt t.d. bjóða gestum, dýfa botninum á þeim í bráðið súkkulaði. Væri geggjað!
Verður eitthvað næsta skipti?
Ég verð að prófa aftur með endurbætum!
Snarl og pill | Breytt 23.9.2010 kl. 22:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)