Færsluflokkur: Eftirréttur
25.7.2009 | 17:40
Sweet'n'spicy hnetu- og fræmix
Er nammidagur í dag? Það held ég nú! Ég bara varð að setja þetta hingað inn, svo gott er það. Krydd, hunang, hnetur, fræ - ristað í ofni. Hið fullkomna nart-snakk! Geri þetta stundum hérna heima þegar ég vil narta nú eða til að bjóða gestum. Elska hnetur og fræ.
Sweet'n'spicy hnetumix
1,5 tsk púðursykur
1,5 tsk hunang
1 tsk kanill
1/8 tsk - salt, cardamommur, engifer, paprikukrydd, negull
Smá svartur pipar
1/2 bolli möndluflögur, eina sem ég átti.
1/4 bolli pistasíur
1/4 bolli 5 korna blanda og sólbómafræ
Hræra fyrstu 6 atriði saman og inn í örbylgju í 30 sek. Hella hnetu- og fræmixinu saman við kryddblönduna og hræra þangað til allt gums er vel þakið. Inn í 175 gráður heitan ofn, 10 - 12 mínútur. Hræra í krumsinu eftir 5 mínútur og passa að það brenni ekki. Taka út úr ofni þegar möndlurnar eru rétt brúnaðar, og leyfa að kólna! Njóta....
Þetta er líka æðislegt yfir salat, með AB-mjólk, ofan á graut, með ís! Gæti hámað þetta í mig endalaust! Skemmtilegt hvernig þessi krydd vinna saman, sterkt, sætt, salt... sæælgæti!
Eftirréttur | Breytt 23.9.2010 kl. 21:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.7.2009 | 10:20
'Makkarónur' hafrar og kókos
Mér þykir kókos æðislegur á bragðið. Bjó mér stundum til hálfgerðar kókoskúlur og geri enn við hátíðleg tækifæri. Kókos, hveiti, sykur og eggjahvíta. Æææðislega góðar en svo skelfilega óhollar. Er því búin að vera að prófa mig áfram í kókosnamminu undanfarið og ætla að reyna að gera nokkrar sniðugar uppskriftir til að grípa í þegar nammigrísinn kallar.
Makkarónur - 50/60 stk
2 bollar kókos
1 msk vanillu- eða möndludropar, ég notaði möndlu, átti ekki vanillu.
1 dl hunang
3 dl eggjahvítur, rétt rúmlega. (10 stk)
Ögn af salti
Dökkt súkkulaði og möndlur til skreytingar, ef vill.
Hræra öllu saman, nema súkkulaði og möndlum, og skófla upp með skeið á bökunarpappír. Ef þið viljið möndlur á toppinn, raða þeim á kökurnar áður en þeim er stungið inn í ofn. Baka við 180 gráður í 12 - 15 mínútur, eða þangað til fallega gylltar.
Ef þið viljið harðari kökur, hafa þær minni og baka þangað til vel brúnar. Þá kemur stökk og girnileg skorpa utan á þær. Mýkjast aðeins við geymslu en eru virkilega bragðgóðar og skemmtilegar. Möndludroparnir gefa kökunum hálfgert marsípanbragð - ææðislega gott ef þið fílið t.d. kransakökur. Súkkulaðinu má vel sleppa. Þær eru svo til sykurlausar miðað við magn af hunangi í allan þennan skammt, fullar af flóknum kolvetnum, próteinum, hollri fitu og trefjum! Ætla að skella inn næringargildi per köku á næstunni.
Vinnufólkið mitt fílar kökurnar vel og Palli át um það bil 10 nýbakaðar í gær. Þið sem eruð kókosætur ættuð því að gúddera þessar elskur ágætlega!
Eftirréttur | Breytt 23.9.2010 kl. 21:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.7.2009 | 10:44
Banana soft serve
Veðrið er ótrúlegt!!
Ég bara varð að prófa þetta aftur síðan í gær. Þegar ég vaknaði í morgun stökk ég beint upp úr rúminu og inn í frystinn að sækja bananana!
Þeir fóru ofan í matvinnsluvélina og eftir nokkra stund litu þeir svona út!
Svo svona.. aðeins byrjaði að maukast! Ég þurfti að stoppa nokkrum sinnum til að skafa hliðarnar á matvinnsluvélinni! Ég gleymdi nú að taka mynd af bananakúlunni sem myndast og matvinnsluvélin byrjar að hoppa út um allt!
Fimm mínútum seinna... LOKSINS! Lítur ekkert smá vel út! Athugið að þetta eru bara... bananar! Engu bætt við! En ef maður maukar þá svona lengi þá gerist eitthvað magnað... segið það satt. Væri kannski hægt að setja út í þetta vanilludropa en svei mér þá, það þarf ekki! Muna bara að bera fram strax! Ég sleikti líka blaðið á matvinnsluvélinni og var nokkuð sama um öryggi minnar eigin tungu!
Ávaxta og berjabomba í morgunmat! Mikið svakalega hefur maður það nú gott!
Með möndlusmjörinu góða og muldum hörfræjum! Möndlusmjörið var geggjað með þessu!
Þetta var alveg svakalegt! Og hugsið ykkur bara... ekkert prótein með þessari máltíð hjá undirritaðri! Ætti að fá verðlaun fyrir þetta!
Ég er farin á pallinn hennar mömmu! Sjáumst kannski í kvöld, töluvert viðbrenndari en núna!
Eftirréttur | Breytt 23.9.2010 kl. 21:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.7.2009 | 22:44
Systra fiestaa
Laugardagur, nammidagur.... svo sannarlega!
Bauð brúna Spánardýrinu heim til mín í sjónvarpsgláp og mikið ét! Á boðstólnum var hinn sívinsæli Doritos kjúlli, sem hún er búin að þrá í hundrað ár, og eftirlíking af Doritos kjúllanum fyrir sjálfa mig.
Doritos kjúlla er, eins og flestir þekkja, púslað saman úr Doritos, ostasósu, salsasósu, kjúlla og osti.
Eftirlíkingin var góð. Rauðlaukur, sveppir, paprika og hvítlaukur steikt á pönnu þangað til meyrt, þá kryddað eftir smekk. Smá salsasósu bætt út á pönnuna og gumsinu helt í fat. Smá bbq sósa og hot sauce þar yfir, kjúllinn ofan á og smá salsasósa yfir. Næst er tómatsneiðum raðað ofan á kjúllan, nokkrum Camembertsneiðum ofan á tómatana og pínkulítið af gratínosti þar yfir. Æææðislega gott!
Með þessu var svo heimagert guacamole! Það er einfaldlega best!
Svabba að teygja sig í Doritos! Með þessu var salsasósa, auka Doritos, ostasósa og sýrður rjómi. Skar líka niður heilhveiti tortillur og ofnsteikti - mitt Doritos! Sumardrykkurinn ógurlegi hangir hress á kanntinum, sprite zero (eða kristall), appelsínusafi og frosin jarðaber! Mmmm...
Pínkulítið af þessu En ég var dugleg, fékk mér bara smá! Græna gumsið í fremri skálinni, wasabi hneturnar, er best! Hræðilega ávanabindandi!
Svo bjó ég til hálfgert banana soft serve. Banana ís! Frosnir bananar settir í matvinnsluvél og hrærðir saman í um það bil 5 mínútur. Fyrst mynda þeir hálfgerða kúlu, svo fer matvinnsluvélin á fullt og allt í einu gerist eitthvað stórkostlegt og þeir maukast saman.
Áferðin er fullkomin! Þetta er bilaðslega gott! Ég segi ykkur það - ég aulaðist til að bæta út í þetta próteini, sem var fínt líka en miklu betra þegar bananinn var bara! Ætla að fá mér svona í hádeginu á morgun, kem með flotta mynd þá!
Með berjum, nýbakaðri möndluköku, granola stöng og möndlusmjöri! Óguð!!
Jæja, ætla að halda áfram að horfa á fína skrokka í 300! Mjög greinilegt að þeir hafa aldrei upplifað nammikvöld eins og þetta!
Eftirréttur | Breytt 23.9.2010 kl. 21:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.6.2009 | 18:22
Samviskulausa eplakakan
Nei... ekki svo gott! Þetta er ekki djúsí saga um siðblinda eplaköku - þó það væri nú ágætlega vel við hæfi, miðað við tíðarandann í dag. Þetta er barasta einfalt eplagums sem ég skúbbaði saman í von um að geta útbúið hollari týpu af eplaköku sem hægt er að borða bæði í morgun- og/eða hádegismat og sem eftirrétt. Held það hafi tekist ágætlega. Ég kem amk til með að baka þessa aftur, betrumbæta og vonandi fullkomna á endanum! Var að borða restina af henni núna - ææðisleg daginn eftir líka!
Samviskulausa "eplakakan"
2 skræld og skorin jónagold epli
1 skræld og skorin pera
1 niðurskorinn banani
4 niðurskornar ferskar döðlur
1 msk heilhveiti
1 msk hunang
Kanill eftir smekk. Ég notaði að sjálfsögðu slatta.
Hræra öllum hráefnum í fyllinguna sman og byrja að baka í 175 gráðu heitum ofni. Ég reyndar hrærði eplum og peru sér með kanil, hunangi og hveiti. Raðaði svo banana og döðlum ofan á eplagumsið. Endaði samt sem áður á því að hræra allt saman í lokin, áður en ég setti degið yfir.
Deig:
1/2 bolli hafrar
1/4 bolli muldar quinoa flögur
1/4 bolli uppáhalds múslí
2 msk hunang (mætti líka setja 1/4 bolla t.d. hrásykur eða púðursykur ef vill)
2 msk vatn
tappafylli vanilludropar
kanill
salt á hnífsoddi - má sleppa
Hræra deig saman og strá yfir eplablönduna þegar eldunartími eplanna er hálfnaður. Ég miða við mjúk epli, en smá stökk þegar bitið er í þau. Elda áfram þangað til þú, bakarameistarinn, segir stopp.
GEGGJAÐ! Sló í gegn hjá gestum og gangandi!
Heit, kanilstráð epli klikka svosum ekki - hvað þá þegar maður borðar þau með ís eða rjóma. En þessi snilld kom skemmtilega vel á óvart. Að sjálfsögðu munu hörðustu eplakökuaðdáendur ekki kalla þetta gums "eplaköku" og verandi eplakökusnobbari sjálf, get ég vel tekið undir það. Engu að síður, þá stóð 'kakan' vel fyrir sínu sem eftirréttur. Ég myndi líklegast sleppa banananum næst. Hann gerði ekki neitt og setja meira af döðlum og/eða rúsínum. Verða karamellukenndar og góðar - eiga líka svo vel saman með eplunum. Góða við þetta, fyrir utan sykur- og fituleysi, er að eftir að hafa hámað í sig slatta er seddumælirinn ekki fullur. Sem er æði - létt, hollt og gott fyrir skrokkinn! Flókin kolvetni, trefjar og vítamín.
Deigið var hinsvegar svolítið þurrt og molnaði heldur mikið. Afskaplega var það samt bragðgott og skemmtilegt á móti heitum ávöxtunum. Sérstaklega ef maður hrærði gumsið allt saman og leyfði deginu að hangsa í eplasafa. Ég er sumsé ein af þeim sem elska hafra og bragðið af þeim. Uppáhalds smákökur eru t.d. hafrakökur.. ALLAVEGA, þá mætti betrumbæta degið nokkuð. Væri t.d. hægt að stappa bananann og döðlurnar út í degið, bæta í það hnetum og strá svo yfir. Jafnvel hræra bæði fyllingu og deig saman og þannig inn í ofn. Já, ætla að leika mér svolítið með þetta á næstunni. Var nú samt að láta mér detta það í hug að blanda þetta á einhvern hátt saman við bakaða hafragrautinn!
Með kökunni hafði ég svo ís. Sojaís. Keypti hann um daginn og viti menn, kom svona líka vel út. Kostar allt í heiminum, kaupi því ekki mikið af honum aftur en góður er hann. Meira að segja afi, sem borðar engan eftirrétt nema ís sé, gaf honum grænt ljós og fékk sér annan skammt!
Þessi kaka gæti orðið mjööög efnileg... ójá!
Eftirréttur | Breytt 23.9.2010 kl. 21:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.6.2009 | 19:46
Kæld mango súpa og humar
Það er nú ágætt að eiga kall sem er ættaður frá Höfn. Ómælt magn af humri sem streymir inn um dyrnar hjá manni! Ég kvarta ekki... humar er uppáhalds maturinn minn!
Ég gerði kalt mango og avocado humarsalat í vetur sem kom svo skemmtilega vel út. Humarinn og mangoið áttu mjög vel saman, enda var þetta bragðgóð og, ó svo gleðileg máltíð. Ákvað því að taka smá twist á þetta og búa til mango súpu sem ég er búin að vera að hugsa um í nokkurn tíma. Köld, fersk súpa sem auðvelt er að bragðbæta að vild. Sæt, súr, sterk - virkar í allar áttir! Væri jafnvel hægt að nota hana sem "dressingu" á salöt, fisk... eða sem lítinn smakk forrétt. Setja smá skammt af súpu í staupglas og rjóma yfir! Þá þykir öllum mikið til þín koma!
Kæld mango súpa - fyrir 2 til 3 sem máltíð ásamt meðlæti
Grunnur
1 skrapað og skrælt mango, tæplega 500 grömm. Þarf að vera nokkuð vel þroskað.
1/4 bolli rúmlega, létt AB-mjólk. Má nota líka nota jógúrt eða t.d. kókosmjólk.
1/2 bolli appelsínusafi. Meira eða minna eftir smekk.
1 msk hunang
Svona er uppskriftin í grunninn. Flóknara er það ekki. Svo kemur að því að ákveða hvort súpan eigi að vera sæt, t.d. sem sósa yfir e-n girnilegan eftirrétt eða vel krydduð... þið ráðið.
Krydd
Dass kanill, múskat. Rétt þannig að bragðið finnist. En bara rétt svo.
Smá wasabi paste, eftir smekk. Jafnvel engifer. Ég notaði reyndar ekki engifer, átti ekki, en það hefði komið vel út.
Salt og pipar
Fyrst set ég grunninn, eins og hann leggur sig, í blender og hræri saman þangað til nokkuð mjúkt. Þá fer ég að bæta við kryddum og smakka mig áfram.
Blanda svo vel, inn á milli þess sem þú kryddar þessa elsku, þangað til súpan lítur um það bil svona út.
Þá er ágætt að setja hana inn í ísskáp í 1 - 2 tíma. Ég reyndar gerði það ekki, græðgin alveg að drepa mig. En allt sem ég notaði var búið að vera inn í ísskáp, mangoið, AB-mjólkin og safinn, svo þetta slapp bara vel. Ég tók mig svo til og skreytti súpudiskinn með AB-mjólk. Svona er maður svaðalega pro.
Nokkrum humarskottum komið vel fyrir ofan á súpunni og smá kóríander yfir.
Svei mér þá. Þetta fannst mér geggjaðslega gott. Súpan er að sjálfsögðu ein og sér ótrúlega góð og kom mjög skemmtilega á óvart. Súrt, sætt bragðið af mango með smá keim af appelsínusafanum. Létt AB-mjólkin gerir skemmtilega áferð, mjúka og rjómakennda. Meiriháttar fersk og fín! Í hverju smakki veist þú að það er kanill í súpunni, múskatið rétt læðir sér með og í enda hvers bita sparkar wasabíið vel í bragðlaukana! Ég ætla svo sannarlega að leika mér með þetta í sumar. Svo ferskt og bragðgott. Hægt að nýta þetta á marga mismunandi vegu! Sérlega ánægð með að hafa látið á þetta vaða.
Humarinn og súpan saman virkuðu vel fyrir mig. Ég kryddaði humarinn með fiskikryddi, smá wasabi salti og pipar, og steikti upp úr örlítilli olíu. Þessi tvenna á góða samleið. Næst þegar ég geri þetta kem ég þó til með að hafa humarinn kaldan og skera í smærri bita. Kryddið af humrinum, seltan á móti sætri súpunni var skemmtileg og yfirgnæfði ekki sætt bragðið af kjötinu. Svo kom að sjálfsögðu wasabi bragðið í endann með hint af kanil, löngu eftir að súra bragðið af mangoinu var farið. Ohh þvílíkt nammi!
Humarinn sem var svo ekki notaður í súpuna hvíldi sig á salatbeði, þó ekki í langan tíma því hann kláraðist á mettíma. Úff... mikið ofboðslega er humar góður.
Að sjálfsögðu fékk ég mér sætan bita eftir matinn. Keypti mér ferskar döðlur í Bónus um daginn, þær eru æði. Skar steininn úr einni, setti inn í hana macadamia hnetu, súkkulaðibita og smá hnetusmjör! Alveg hægt að sleppa sér í svona nammiáti! Mælimeð'essu!
Eftirréttur | Breytt 23.9.2010 kl. 21:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
18.3.2009 | 21:19
Tiramisu heiðingjans fyrir Ernu ritgerðarkvendi
Tiramisu er einn af mínum uppáhalds eftirréttum og þó ég segi sjálf frá, einn af mínum eðal home-made! Það er eitthvað svo fullkomið við bragðið af Tiramisu og hvernig rjómaosturinn vinnur á móti sætunni og kaffibragðinu! Mjúkur Mascarpone og stökkir lady fingers... ohhh!
Var komin með nokkuð góða hugmynd að því hvernig best væri að framkvæma þetta. Sérstaklega erfitt að fylgja alvöru Tiramisu eftir þegar maður hugsar ekki um neitt annað en Mascarpone, eggjarauður, sykur, áferðina á réttinum - þó aðallega þegar bitið er í "hollari" útgáfuna af honum! Einstaklega mikil þraut fyrir Tiramisu perra eins og mig.
Ég lagði þó í þetta í kvöld og útkoman, jah... ég kem ekki til með að leyfa neinum Ítala að smakka þetta kvikindi fyrr en uppskriftin er fullkomnuð! EN... engu að síður, þá hefur þetta nokkurn potential! Ætla því ekki að posta neinni sérstakri uppskrift, en hripa niður sauðakóða af því sem ég gerði.
Bjó fyrst til botninn. Að sjálfsögðu var hann mixaður eins og eitt stykki eðal prótein pönnsa. Alveg eins og svampbotn ef hann er gerður nógu þykkur - sem ég *hóst* feilaði á. Passa að hafa nógu þykkt svo miðjan verði mjúk á meðan ytra lagið er stökkt!
Þarnæst var lagt í rjómaostinn. Oh men. Ef þetta á að vera 150% fitlítið og hollt þannig maður líti út eins og grískur guð eftir átið, þá er helvíti erfitt að ná áferðinni réttri - hvað þá bragðinu. En, létt-AB rjómaostur tekinn og hrærður saman við smá skyr. Vanilludropað og vanillusykrað og 1 eggjarauðu bætt við til að fá litinn á ostinn. Þarnæst tveim hrærðum eggjahvítum blandað saman við til að fá smá lyftingu. Næstum eins og ég sé að tala um undirföt hérna... go me!
Bragðið af "rjómaostinum" var engan veginn nógu hlutlaust, aðeins of súr, og áferðin ekki nógu þétt. Þyrfti því að minnka magn af eggjahvítum og reyna að sæta þetta pínkulítið meira. Setja Agave sýróp í ostinn, eitthvað slíkt?
Það er að sjálfsögðu hægt að gera þetta aðeins "óhollara" og nota 5% sýrðan rjóma, jafnvel 50 - 50 mascarpone og sýrðan rjóma, en þá er tilgangurinn kannski dáinn og grafinn! Meira kannski sprengdur.... dáinn og grafinn!
En þetta var engu að síður heiðarleg tilraun og þó útkoman hafi ekki verið Tiramisu ala-Ella þá var þetta barasta alls ekki svo slæmt. Nokkuð viss um að í næstu tilraun, þá eigi þetta eftir að vera djangans fínt! Kaffibragðið kom vel út með pönnsunni og ostinum. Pönnsan líka nógu sæt til að gefa sætubragðið í réttinn ásamt súkkulaðinu og þessa réttu áferð sem annars svampbotn myndi uppfylla!
Hinsvegar - að reyna að búa til holla útgáfu af Tiramisu er eins og að reyna að búa til gull!
Margur Ítalinn myndi samt gráta sig í svefn ef hann vissi hverskonar heiðingja Tiramisu væri verið að brugga á Íslandi í dag!
Update: Lét Tiramisu-ið bíða í ísskápnum yfir nóttt og viti menn, það var ofurfínt í morgun! Það er því enn von! :)
Eftirréttur | Breytt 23.9.2010 kl. 20:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)