Færsluflokkur: Kvöldmatur
Matur er góður! Matur getur líka verið skemmtilegur og jú, það er skemmtilegt að borða góðan mat!

Kalkúnaborgari er góð tilbreyting frá fuglakjötinu sjálfu og það er alltaf gleðilegt að borða hamborgara! Einhver sumarstemmari sem fylgir því að borða kjöt pakkað saman í brauð með osti, sósum og grænmeti. Að borða hambó er líka:
1. Auðvelt! (Alltaf kostur fyrir gúffara eins og mig)
2. Hreinlegt (Ef þú kannt að borða, á líka við um lið 1 hér að ofan)
3. Skemmtilegt (Smá tilbreyting frá hníf og gaffli - nema þú borðir með tánum, þá hefur þú officially unnið mig)
Byrjað var á því að skera smátt niður gúmmulaðið sem fer inn í hamborgarann. Í þessu tilfelli varð epli, laukur, sellerí, salt, pipar og smá olía fyrir valinu. Öllu blandað saman og steikt á pönnu þangað til meyrt. Því næst er snjallt að hakka niður fuglakjötið, ég notaði matvinnsluvél - yndislegar þessar elskur. Eplamaukinu er svo blandað saman við hakkið með höndum eða sleif. Ég kýs hendur - svona í takt við villimanninn sem ég er. Auðvitað má setja meira af kryddi í hakkið, mango chutney, bbq sósu, smá brauðmylsu ef vill. Því næst eru hamborgarar mótaðir úr hakkinu og steikir á pönnu, 4 - 5 mín. á hvorri hlið. Fer eftir stærð og þykkt hammarans. Viljum ekki bíta í rauðbleikan fuglahambó, það eru slæm vísindi! Eftir steikingu er gott að láta hamborgarana hvíla sig í fimm mínútur áður en bitið er í þá. Annars lekur allur safinn úr kjötinu og bragðið sem eplið, laukurinn og selleríið skilja eftir sig verður ekki jafn mikið.
Þetta... var.... geðveikt gott! Þvílíka snilldin. Kemur líka svo skemmtileg skorpa utan á kjötið þegar það er steikt. Meyrt kjöt, safaríkt og lyktin sem kemur þegar þetta er eldað!! Eplin og laukurinn eru líka yndisleg blanda í nákvæmlega svona mat og bragðið af kjötinu.... oh men!

Sætu "frönsku" kartöflurnar komu æðislega vel út. Skar þær í frönskulíki, stráði yfir smá olíu, salti, kanil og ofnbakaði þær í álpappír. Mikið held ég að skapari sætra kartaflna hafi verið í góðum fíling daginn sem hann ákvað að búa þær til - og jarðaber.... og mangó..... og súkkulaði...!
Anywho.... back to business!
Ég hafði með þessu heimagert guacamole og létta skyrsósu.
Guacamole er að sjálfsögðu búið til úr avocado. Skorið, hreinsað og maukað saman með hvítlauk, salti, pipar og pínku sítrónu. Sleppti öllum fínerísheitum í þetta skiptið - plómutómatarnir gerðu sitt gagn á kanntinum. Guacamole er líka svo eðalfínt. Ein af mínum uppáhalds ídýfum! Skemmtilegt bragð og gaman að borða! Avocado kjötið er svolítið rjómakennt - hægt að leika sér mikið með þetta hráefni! Lovit!
Skyrsósan er svo eitthvað sambland til að fá ferskt kikk með salatinu. Líka vel hægt að nota sýrðan rjóma. Set út í skyrið smá Dijon-sinnep og relish fyrir bragð. Fyrir áferð skar ég svo gúrku í litla bita og blandaði saman við. Líka hægt að nota epli. Rosalega upplífgandi og bragðgott - sósan sjálf er smá súr út af skyrinu og sætan kemur úr relishinu. Sinnepið gefur skemmtilegt spark í bragðlaukana. Bregst ekki! Mmmhmm.

Hamborgarinn var annars samsettur á eftirfarandi hátt:
Brauð, kál, hambó, mango chutney, ostur, guacamole, tómatur, smá skyr-ídýfa, brauð. Ég, kolvetnaskrýmslið, sleppti auðvitað brauðinu en get hinsvegar sagt ykkur góðar fréttir!
Er að vinna í því að útbúa morgunverðar muffins með t.d. bönunum og döðlum, bláberjum, mangó, kanil-snúða muffins, avocado, banana-kanil.. you name it! Verður líklegast næsta post!
Annars var þetta létt, holl og bragðgóð kvöldmáltíð! Alveg eins og ungfrúin vill hafa það!
Kvöldmatur | Breytt 23.9.2010 kl. 20:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.3.2009 | 23:11
Túnfisk borgari með guacamole og gómsætu meðlæti
Laugardagar eru notalegir. Nammidagar með meiru, nema hvað nammið má missa sín. Yfirleitt nota ég nammidagana mína í það að borða bara aðeins meira af mat en ég geri dags daglega. Reyndar reyni ég að nota eina máltíð yfir daginn til að éta á mig gat en í dag setti ég ofan í mig það sem mig langaði í. Mjög kósy, frekar heimó, afskaplega gúmfey!

Fékk mér t.d. í morgun létt ab-mjólk með smá höfrum, vatnsmelónu bita og svo eggjahvítu-eggjaköku fyllta með grænmeti. Hún var geðveikislega góð.
Sætar kartöflur, gulrætur, vorlaukur og brokkolí - hitað í eldföstu móti þangað til mjúkt. Svo hellti ég yfir þetta 4 dl af eggjahvítum og stráði smá osti yfir! Yömmó!
Í eftirmiðdaginn át ég svo eitt stykki nýbakaða, heimalagaða brauðbollu með sykurlausri sultu og kotasælu. Nartaði smá í döðlur, möndlur og fékk mér eitt próteinskot - just for the fun of it.

Kvöldmaturinn var svo punkturinn yfir i-ið! Túnfisk hambó með guacamole - massa ofur mega gott!! Bjó til 5 stykki úr 500 gramma túnfisksteik og frysti restina til að eiga. Rosalega ljúft að eiga svona í frystinum til að grípa í þegar tíminn er naumur! En mikið dj***** var hamborgarinn ljúfur.
Hakkaði niður steikina, kryddaði með engifer, wasabi og soja sósu. Bætti við þetta lauk, hvítlauk, steinselju og vorlauk! Hnoðaði allt saman og skipti niður í 5 jafn stóra hluta. Steikti í 2 min á hvorri hlið, þá voru þeir mátulegir. Með stökka skel og mjúkir í miðjunni, safaríkir og yndislega bragðgóðir!
Þvílíkt sælgæti!

Með þessu hafði ég heimagert guacamole ásamt grænmeti. Bjó mér líka til hálfgerða kotasælu-sósu. Kotasæla, smá skyr, dijon sinnep og smá graslaukur. Skar svo gúrku í litla bita og blandaði samanvið. Kom æðislega vel út með hamborgaranum eða hreinlega sem sósa á grænmeti - fersk og fín.
Borgarinn var sumsé samsettur á eftirfarandi hátt.
Brauð sem bakað var fyrr um daginn, guacamole, kál, burger, smá mango chuthey, kotasælu-sósa, tómatur. Ég sleppti reyndar brauðinu hjá mér. Óóó elsku fólk, þetta var svo ofur gott!

Að sjálfsögðu skar ég mér svo niður mango, jarðaber, bláber og hindber um kvöldið. Stráði yfir það kókosflögum og borðaði með góðri lyst.
Góður át dagur mín kæru!
Og já... ég blótaði áðan lömbin mín! Ég blótaði!
Kvöldmatur | Breytt 23.9.2010 kl. 20:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
24.3.2009 | 18:01
Spicy Tuna og bygg

Ég er nú ekki þekkt fyrir matarmennskubrjálæði en tek mig nú stundum til og geri ofurfínan og æðislegan mat sem tekur 3 vikur í undirbúning og 34 klst í eldun! Ég er hinsvegar mikill aðdáandi rétta sem auðvelt er að undirbúa, tekur stuttan tíma að elda og bragðast vel! Þó það sé að sjálfsögðu gaman að borða og bíta í eitthvað guðdómlega vel úthugsað og vandlega eldað!
Túnfiskur er sérlega hollt fyrirbæri og einstaklega hentug fæða þegar fólk er að ná matarræðinu á réttan kjöl, í bland við æfingar og önnur gleðilegheit. Hinsvegar, þá er hinn meðal íslenski víkingur ekki að kaupa sér túnfisksteik upp á dag, sökum kreppu og þess að steikin sjálf kostar handlegg og eina tá! Íslenskir víkingar fara í Bónus og byrgja sig upp af eðal Túnfisk í gullfallegri Ora dós, umlukinn vatni! Hljómar kannski ágætlega en verður ansi fljótt leiðigjarnt, sérstaklega ef það eina sem lífgar upp á fiskinn er niðurskorið grænmeti og kannski smá kotasæla.
Það er hægt að gera allskonar rétti sem eru heilsusamlegir, góðir og jah... innihalda túnfisk! Pottréttir/ofnréttir, tuna-borgarar, túnfisk salöt, samlokur, túnfisk-pasta ... Bubba Gump Shrimp! Borgarar og ofnréttir eru í miklu uppáhaldi hjá mér þessa dagana!
Bjó mér t.d. til hálfgerðan pottrétt í kvöld þar sem aðal innihald var túnfiskur, bygg, niðursoðnir tómatar og mikið krydd. Ofur fínn þó ég segi sjálf frá og alveg jafn fínn kaldur!
1. Skar niður hvítlauk og lauk og steikti á pönnu, í olíu, í um 3 mínútur.
2. Bætti einni dós af túnfisk við og lét malla þangað til túnfiskurinn var orðinn heitur. Hálfpartinn maukast við olíuna.
3. Skvetta af "hot sauce". Verðið bara að góna - fer eftir því hversu sterkt þið viljið hafa þetta.
4. Krydda t.d. með fiskikryddi, salt, pipar, smá chilli.
5. Blanda bygginu saman við á pönnuna. (tæplega 1 dl af soðnu byggi) Væri líka hægt að nota t.d. pasta eða hrísgrjón (híðisgrjón fyrir þá sem eru með glúten-óþol).
6. Hella niðursoðnu tómötunum saman við og láta malla í 10 - 15 mínútur. Ég setti svo smá tómatsósu út í, rétt svo matskeið til að sæta pínku. Væri líklega hægt að nota agave líka ef fólk kýs það.
Þetta er djöbbilaslega fínt á bragðið og gaman að bíta í. Mjög sterkt með smá sætum keim! Túnfiskurinn mjúkur og byggið aðeins undir tönn, smá gúmmíkennt jafnvel. Þið sem hafið smakkað bygg vitið hvað ég á við! Æðislegt að borða það!
Það væri t.d. hægt að bæta við þetta steiktum gulrótum og sveppum, henda í eldfast mót, strá smá osti yfir og inn í ofn. Borða svo með sýrðum rjóma og grænmeti. Líka hægt að smyrja þessu á brauð með smá kotasælu og steiktu eggi - jafnvel vefja upp í tortillur, setja inn í ofn og ost ofan á tortilluna! Hvað dettur ykkur í hug að gera við þetta?
Það er hægt að leika sér endalaust með þetta hráefni og hressa þar af leiðandi aðeins upp á matarræðið án þess að vera með samviskubit yfir því. Ekki það að maður eigi að vera með samviskubit - það er bara fyrir kjánaprik!
Kvöldmatur | Breytt 23.9.2010 kl. 20:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.3.2009 | 02:26
Smokkfiskur, risaharpa og meðlæti
Ég hef verið að dunda mér við það að fara í ræktina síðastliðin 3 ár. Aldrei náð neinu sérstöku skriði á því sviði fyrr en á síðasta ári. Síðan þá hef ég mikið verið að spá í því sem ég set ofan í skrokkinn á mér. Ég hef reynt að borða eins lítið brauðmeti og ég kemst upp með ásamt því að hætta allri "viljandi" neyslu á sykri. Ef ég bý mér til eitthvað eins og eftirrétti, brauð, smákökur o.fr. þá reyni ég að sniðganga allan sykur eða finna viðunandi "staðgengil" í matargerðinni.
Breytt viðhorf haldast í hendur við þessi nýju áhugamál mín og það, að geta blandað saman hreyfingu og hollu matarræði til að skapa sjálfri mér heilbrigðari lífstíl er ekkert nema áskorun. Það er svo auðvelt að gera þetta skemmtilegt.
Það er hægt að borða og búa til ógrynni af yndislega fínum mat - sem er í senn hollur og góður á bragðið. Það þarf ekki alltaf að hafa mæjó og smjör í rassvasanum til að steikin bragðist vel! Ekki hafa áhyggjur samt sem áður, þetta verða ekki predikunar pistlar og jú, það munu án efa koma "óhollar" uppskriftir inn á milli. Ég hugsa þetta meira sem hugmyndabanka fyrir sjálfa mig og þá sem koma til með að nenna að lesa þetta hjá mér :)
Úrvals hráefni og dass af því sem þér líst vel á í kryddhillunni! Smokkfiskur í boði pabba, harpa og 7 kíló af grænmeti! Æði!
Ég byrjaði nú á því að berjast við smokkfiskinn þar sem ég fékk kvikindið svo gott sem spriklandi á borð til mín. Nýveiddur og óverkaður var hann tekinn og fleginn, flysjaður og skrældur með þar til gerðum ópum og óhljóðum frá mér. Það hafðist nú fyrir rest, en ég var með smokkfisk-hrat í hárinu og eldhúsið var svo gott sem óþekkjanlegt eftir verknaðinn.
Smokkfiskur: EVOO, pressaður hvítlaukur, fiski krydd
Risaharpa: EVOO, pressaður hvítlaukur
Snöggsteikja fiskmetið á funheitri pönnu. Passa að bæði harpan og smokkurinn verði ekki eins og gúmmí, þá er ekkert gamanað'essu. Gulræturnar og sætu baunirnar steiktar á pönnu þangað til mjúkt undir tönn, saltað og piprað eftir smekk - meiriháttar gott grænmetisbland. Tómatar, gúrkur og salat skorið niður og spísað með. (Plómutómatarnir eru bjútifúl) Ristaðar spelt brauðbollur hangsa svo á kanntinum.
Þetta var ekta, eðalfínn kvöldmatur. Ég elska þetta hráefni.
Ég er ekki mikil smekksmanneskja þegar kemur að framsetningu á mat. Ég smelli þessu á disk og ef það bragðast vel þá brosi ég. Vonandi kemur andinn yfir mig í náinni framtíð, en á meðan bragðið er gott þá læt ég sköpunarverkið eiga sig.
Spakmæli dagsins: Ég er ekki mikill kokkur í hjartanu, en ég væri helvíti góður bakari!
Kvöldmatur | Breytt 23.9.2010 kl. 20:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)