Færsluflokkur: Millimál

Eins og grillaður banani

Ég er assgoti vel steikt eftir sólböð og almenna útiveru síðan á sunnudaginn! Notalegt engu að síður, sumarið er komið, skráð og skjalfest í minni bók!

Fékk mér Skyr.is í eftirmiðdaginn. Skyr.is með kanil, að sjálfsögðu, 1/2 niðurskornu örbylgjuhituðu epli og blandi af muldum hör-, sólblóma- og graskersfæjum ásamt möndlum.

Skyr.is með kanil, epli og hnetu og fræmixi

Ég get nú ekki í hreinskilni sagt að mér þyki Skyr.is gott! Var búin að steingleyma hversu hræðilega væmið það er. Hrært eða hreint KEA er algerlega málið en það er því miður ekki til hérna í vinnunni! Ekki aftur snúið þegar ég hafði hrært herlegheitin saman. Smakkaði og mundi, mér til mikils ama, af hverju ég hætti að borða þetta skyr-kvekendi. Viðbitið gerði þó sitt gagn og kanillinn og eplin stóðu sig vel í því að fela væmnisbragðið! Hefði fengið mér hrökkbrauð með kotasælu og eplasneiðum ef kanilepli og krums hefðu ekki kallað svona stíft á átvaglið!

Skyr.is með kanil, epli og hnetu og fræmixi

Horfur til kvöldsins: Humar!


Banana soft serve

Veðrið er ótrúlegt!!

Ég bara varð að prófa þetta aftur síðan í gær. Þegar ég vaknaði í morgun stökk ég beint upp úr rúminu og inn í frystinn að sækja bananana!

Frostnir niðurskornir bananar

Þeir fóru ofan í matvinnsluvélina og eftir nokkra stund litu þeir svona út!

Maukaðir frostnir bananar

Svo svona.. aðeins byrjaði að maukast! Ég þurfti að stoppa nokkrum sinnum til að skafa hliðarnar á matvinnsluvélinni! Ég gleymdi nú að taka mynd af bananakúlunni sem myndast og matvinnsluvélin byrjar að hoppa út um allt!

Vel maukaðir frostnir bananar

Fimm mínútum seinna... LOKSINS! Lítur ekkert smá vel út! Athugið að þetta eru bara... bananar! Engu bætt við! En ef maður maukar þá svona lengi þá gerist eitthvað magnað... segið það satt. Væri kannski hægt að setja út í þetta vanilludropa en svei mér þá, það þarf ekki! Muna bara að bera fram strax! Ég sleikti líka blaðið á matvinnsluvélinni og var nokkuð sama um öryggi minnar eigin tungu!

Tilbúnir vel maukaðir... frostnir.. bananar!

Ávaxta og berjabomba í morgunmat! Mikið svakalega hefur maður það nú gott!

Banana soft serve með berjum, hörfræjum og möndlusmjöri

Með möndlusmjörinu góða og muldum hörfræjum! Möndlusmjörið var geggjað með þessu!

Banana soft serve með berjum, hörfræjum og möndlusmjöri

Þetta var alveg svakalegt! Og hugsið ykkur bara... ekkert prótein með þessari máltíð hjá undirritaðri! Ætti að fá verðlaun fyrir þetta!

Banana soft serve með berjum, hörfræjum og möndlusmjöri

Ég er farin á pallinn hennar mömmu! Sjáumst kannski í kvöld, töluvert viðbrenndari en núna!


Innkaupadagurinn og bollarnir

Við náðum að klára um það bil allt bitastætt í gúmmulaðihellinum í gær. Síðustu bitar af grænmeti fóru í hallærismáltíðina, nammiskápurinn er svo til tómur og þegar ísskápurinn er opnaður heyrist drungalegt vindhljóð! Ég kem því til með að bæta úr því í dag, sem er endalaust almennilegt. Alltaf svo gaman að klára birgðirnar til að geta farið og verslað nýtt gleðiefni! Kætir mitt matgráðuga hjarta óstjórnlega!

Ágætis brennsla átti sér stað í morgun. Gamla góða 40 mínútna brennsluæfingin tekin með trompi á rassatækinu sívinsæla. Það verður nú samt að segjast eins og er, HIIT brennsla er töluvert áhrifaríkari og skemmtilegri brennsluaðferð. En eins og með svo margt annað, þá er ágætt að breyta til inn á milli.

Morgunmat var púslað saman upp í vinnu í tveimur mismunandi bollum. Annar bollinn, sumarlegi jólabollinn, samanstóð af vatni og Detox te...

Womans Energy Detox Yogi Te

...á meðan hinn bollinn, nokkuð vinsælli, samanstóð af örbylgjuhituðu hreinu próteini, kanil, smá graut og banana. Þá dýrð toppaði ég með nokkrum rúsínum, sólblóma- og graskersfræjum, 5 korna blandi og möndlum. Gæti trúað því að fræblandan hafi verið msk.

Prótein, banani, grautur, kanill ásamt hnetu, rúsínu og fræmixi

Bollinn útataður í kanil og bitinn upp úr útataða kanilbollanum fullkominn! Heitt, sætt, crunchy... mMmM!

Prótein, banani, grautur, kanill ásamt hnetu, rúsínu og fræmixi

Og já... það er mjög skemmtilegt að borða eðalgraut upp úr bolla!


Granola stangir sem ekki þarf að baka

Taka 1

Langaði mikið til að útbúa mér granola stöng sem ekki þarf að baka eða hita. Svolítið í takt við hráfæðisfílinginn, fyrir þá sem ekki vilja hita matinn sinn. Tek það fram að ég er ekki þarsmegin við línuna, ég borða líka kjöt og mikið af sykri þegar vel stendur á. Það er hinsvegar mjög gaman að prófa að elda og bragða á grænmetisréttum og hráfæði til að breyta til og borða eitthvað öðruvísi.

Ég útbjó einn skammt af granola stöngum í dag sem ég stakk inn í ísskáp eftir að hráefnunum hafði verið skóflað saman.

Hráefni í granola stöng sem ekki þarf að baka

Leit alltsaman voðalega vel út þegar ég tók skammtinn út úr ísskápnum.

Granola hráefni, nýkomið út úr ísskáp - á eftir að skera

Náði að skera helminginn af gumsinu í nokkra fallega bita. Greinilega verið þeim megin í fatinu sem ég hef náð að þrýsta með 10 tonna þunga á hráefnið!

Granola stangir sem ekki þarf að baka

Hinn helmingurinn sprakk í loft-upp og ákvað að halda sig við pjúra granola formið!

Granola stöng í þátíð

Sem er alls ekki slæmt. Ég tók krumsið, bakaði það inn í ofni og ætla að nota yfir grauta og skyr eins og múslí. Þessi skammtur er æðislegur á bragðið og um leið og ég hef gert uppskriftina þannig að allt gúmmulaðið haldist saman, þá hendi ég henni hingað inn!


Granola prótein stangir

Geri yfirleitt granola stangir til að eiga. Sem viðbit, eftirrétt, nart eða til að mylja yfir grauta og jógúrt. Gerði meiriháttar góðar stangir um daginn, prótein og eggjalausar. Stangirnar áttu svolítið til að molna, hefði líklegst þurft að setja meira hunang eða agave. Vildi því breyta smá til og sjá hvort próteinið og eggjahvíturnar gæfu skemmtilegri áferð á kostnað sykurs og olíu. Nánast sömu hráefni en 'bindiefnin' eru önnur.

Granola prótein stangir - 16 stangir +/-

Granola prótein stangir1 bolli hafrar

1 bolli puffed wheat

1/2 bolli sólblómafæ

1/3 bolli 5 korna blanda

1/3 bolli hörfræ

1/4 bolli graskersfræ

1/2 bolli heilar möndlur eða hnetubland

1/2 bolli skornar ferskar döðlur

4 smátt skornar fíkjur

nokkrar rúsínur

2 skeiðar hreint prótein 1/2 bolli. Má sleppa eða nota t.d. mjólkurduft.

1 msk 100% hnetusmjör, lífrænt. Ég notaði reyndar heimatilbúið. 

3 msk hunang

2 eggjahvítur

1 tappafylli vanilludropar

kanill eftir smekk

Blanda öllu mjög vel saman. Setja á bökunarpappír og í eldfast mót. Þrýsta blöndunni vel ofan í mótið og inn í 375 gráðu heitan ofn í 20 - 25 mínútur, eða þangað til brúnað í kanntana. Bíða eftir því að blandan kólni alveg og skera þá í bita. Mér þykir persónulega best að halda öllum fræjum, hnetum og krumsi heilu í staðinn fyrir að mylja það niður. Gefur skemmtilegri áferð í hvern bita og gerir stöngina mun girnilegri. Ef þið viljið stökkari stöng þá hafa gumsið lengur inn í ofni.

Granola prótein stangir

Frábærar! Finnur ekki fyrir próteininu á nokkurn hátt. Próteinið gerir áferðina karamellukennda og límir hráefnin skemmtilega saman. Stangirnar sjálfar eru ekki stökkar eins og hinar, heldur seigar og skemmtilegar að bíta í. Allt bragð af fræjum, hnetum og ávöxtum skilar sér fullkomlega. Rosalega fínar og vel heppnaðar. Ég er að sjálfsögðu rómaður hnetu- og fræ sjúklingur. Eeelska bragðið!

Granola prótein stangir

Niðurstaða: Jú, það er hægt að bæta próteindufti í granola stangir án þess að það hafi áhrif á bragð hráefnanna og án þess að bæta við meiri sætu í formi hunangs eða agave... ekkert nema jákvætt! Fullar af flóknum kolvetnum, hollum fitum, vítamínum, próteini og gleði!


Síðdegisviðbitið og nýtt dót

Yfirleitt fæ ég mér próteinshake, grænt monster eða skyr/jógúrt í síðdegiskaffi og ávöxt -"síðdegisviðbitið". Ég hlakka alltaf til þessa tíma dags, sérstaklega þegar ég veit að ég fæ að bíta í íískalt brakandi epli eða mjúkt, safaríkt mango. Það eru sumsé uppáhalds síðdegisávextirnir mínir að meðtöldum ýmsum gestaávöxtum sem smokra sér inn á milli af og til. Stundum blanda ég ávöxtunum í shake-inn, stundum blanda ég shake-inn sér og nýt þess að borða ávöxtinn og stundum, þegar gúmmulaðiálfurinn sparkar í rassgatið á mér, læðist ég niður í mötuneyti og ræni mér handfylli af múslí. Hohooo... múslíinu blanda ég í próteinið mitt eða skyrið...

Prótein með trefjamúslí

...sker ávöxtinn niður...

Prótein með trefjamúslí og niðurskorið epli

...og skófla múslíblandinu upp með ávextinum. Það er, ef ávöxturinn leyfir það. Væri töluvert erfiðara að eiga við þetta með t.d. bláberjum - en þið megið reyna.

Prótein með trefjamúslí á eplaskeið!

Þetta þykir mér sérstaklega gleðileg leið til að borða viðbitið mitt og góð tilbreyting. Svo er að sjálfsögðu alltaf gott að skera ávöxtinn í litla bita og hræra saman við próteinið. Létt og gott, heldur manni ansi góðum fram að kvöldmat. Það er líka miklu skemmtilegra að borða t.d. prótein og epli saman en í sitthvoru lagi. Munið þið... ís og nóakropp! Fullkomin blanda.

Annars kom móðir mín kær í óvænta heimsókn í vikunni og gaf mér.. já, gaf mér nýtt dót!

Nýja ofurdótið

Ótrúlega fínt!! Milljón rifjárn og gleðilegheit sem sniðugt er að nota. Get ekki beðið með að nýta þetta í næstu máltíð... næstu máltíðir! Mamma er svo yndislega fín, algerlega best í heimi!


Heimagerðar "Granola" stangir

Granola stangir - hafrar, hnetur og fræ

Vaknaði fyrir allar aldir í morgun og hafði ekkert betra að gera en að búa mér til eitthvað smá heimanammi til að eiga. Get ekki, með hreinni samvisku, sagt að ég viti nákvæmlega hvað ég gumslaði saman í þessar stangir. En ég get svo sannarlega hripað niður 'um það bil' það sem ég notaði og hvað mætti betur fara. Þessar elskur eru alveg "eiturefna" lausar. Ekkert auka prótein, agave sýróp í staðinn fyrir sykur, náttúrulegt hnetusmjör, hnetur, fræ, múslí og þurrkaðir ávextir. Allt á góða listanum að sjálfsögðu, fullt af hollri fitu, trefjum, flóknum kolvetnum, próteinum og skrilljón hitaeiningum. Orkustangir með meiru og henta fullkomlega í t.d. hraðmorgunmat eða jafnvel sem snakk klukkutíma fyrir æfingu.

Ég elska crunch. Þið hafið kannski tekið eftir því. Ég elska hnetur og fræ, hafrar, allt saman í graut þangað til crispy og stökkt. Hiiiimneskt að bíta í og njóta! Ohh já... bragðið af bökuðum hnetum... og lyktin sem kemur í húsið þegar þetta er bakað. Yndislegt!

Granola orkubombur - 16 stangir +/- 

1 bollar hafrar

1 bolli puffed wheatGranola stangir - hafrar, hnetur og fræ

1 bolli þurrkaðir ávextir (ég notaði döðlur og gráfíkjur)

1 bolli hnetumix (ég notaði möndlur, kasjúhnetur og pistasíur)

1/4 bolli sólblómafræ

1/4 bolli graskersfræ

3 msk hörfræ

1/4 bolli sesamfræ

smá kókos

pínkulítið af salti

kanill

1/3 bolli agave sýróp

3 kúfaðar msk hnetusmjör

1 msk olía

tæplega msk af púðursykri

vanilludropar, uþb tappin á flöskunni

 

Hita ofn í 175 gráður. Blanda saman höfrum, múslí, hnetum, fræjum, þurrkuðum ávöxtum, kókos og kanil. Setja til hliðar. Yfir meðalháum hita sulla saman blautu (síðustu 5 atriði á listanum hér að ofan) þangað til blandan byrjar að bubbla. Tekur kannski 2 - 3 mínútur. Hella hnetusmjörsblöndunni í skálina með þurrefnunum og hræra saman þangað til öll þurrefni eru þakin hnetusmjörsblöndunni. Passa að allt sé vel blandað því hnetusmjörsgumsið er það sem heldur öllu dúlleríinu saman.

Granola stangir - hafrar, hnetur og fræ, óbakað, óskorið

Setja smjörpappír í, helst, ferkanntað kökuform eða eldfast fat. Hellda blöndunni eins og hún leggur sig á smjörpappírinn. Ég notaði ferkantað ál-kökuform. Það er betra að nota ílát sem hefur 'kannta' því þá er auðveldara að þrýsta blöndunni saman. Taka annan smjörpappír og leggja yfir blönduna og þrýsta henni niður í kökuformið þannig úr verði þéttur massi. Yfirborðsflöturin þarf að vera tiltölulega sléttur.

Granola stangir - hafrar, hnetur og fræ, þrýsa blöndunni niður i formið

Þegar búið er að þrýsta blönduna í svo gott sem steypuklump þá henda inn í ofn í 10 - 20 mínútur. Best að fylgjast með krumsinu til öryggis.

Þegar þetta er tekið út úr ofninum þá er svolítið mikilvægt að leyfa blöndunni að kólna alveg áður en hún er skorin, annars eru miklar líkur á því að þið endið uppi með múslí! Sem er svosum ekkert slæmt þegar ég hugsa um það.

Nota stóran beittan hníf, skera í 16 parta, fleiri eða færri eftir smekk, finna flottustu stöngina, smakka og njóta hvers einasta bita í botn!

Granola stangir - hafrar, hnetur og fræ

Þessar komu svo vel út. Ég var að reyna að "passa" upp á sykurmagnið, átti ekki hunang, annars hefði ég notað það. Þessar eiga það til að molna svolítið þegar bitið er í þær sem þíðir að ég hefði helst þurft að bæta við aðeins meira agave, eða hunangi. Getur verið að hunangið lími þetta betur saman. Það væri líklegast hægt að bæta við eggi eða mjólk, en þá verða þær ekki svona stökkar og fínar. Þrátt fyrir smá mulning þá eru þessar svakalega bragðgóðar. Oh men, eruð þið ekki að grínast. Þetta er fullkomið nammi fyrir mig. Allskonar mismunandi bragð af ristuðum hnetum og fræjum, smá keimur af kanil í hverjum bita, stökkt, smá sætt og endalaust skemmtilegt að borða. Namm!!

Granola stangir - hafrar, hnetur og fræ

Það er svosum hægt að nota hvað sem er. Finna eitthvað upp í skáp, hella því í skál, bleyta upp í því og henda inni í ofn. Hollt og gott snakk hvenær sem er! Fullkomið til að mylja út á hafragraut!

Granola stangir - hafrar, hnetur og fræ

Svo eru þær líka svo ógeðslega flottar!


Heimalagaður Ricotta ostur

Ricotta

Ég get búið til rocotta ost heima hjá mér! Mikið óstjórnlegt hamingjukast átti sér stað fyrir framan tölvuskjáinn þegar ég uppgötvaði þetta og að sjálfsögðu stökk ég upp og bjó til smá ost. Getið þið ímyndað ykkur allt góðgætið sem hægt er að útbúa með þessari snilld? Sætu kartöflu ricotta gnocchi, pasta, brauð, ídýfur, með heimalöguðu flatbrauði, á pizzur, sósur, brauðfyllingar, samlokur... oh djíses!!

Svo auðvelt að græðgispúkinn í hjartanu á mér fékk fjörfisk í lærið! 

Margar uppskriftir til - allt frá því að nota mjólk, sítrónusafa eða edik upp í mjólk/rjóma/súrmjólk/áfnir! Virðast vera nokkrar útfærslur til og treystið mér, ég mun án efa prófa þær allar á næstunni!

Í þetta skiptið notaði ég 1 líter af léttmjólk og 1 líter létt súrmjólk! Þetta er líklegast einfaldasta útfærslan af þessu lostæti, en kom svakalega vel út. Það átti í raun að nota nýmjólk og súrmjólk. Með því móti verður osturinn rjómakenndari, en svona er þetta þegar maður horfir á rassinn á páskunum renna úr hlaði og allan matinn sem var gleyptur í heilu! Sumar uppskriftir sem ég skoðaði innihéldu meira af mjólk, minna af súrmjólk, aðrar notuðu dash af rjóma... hlakka mikið til að prófa mig áfram!

Ricotta 

1. Hella saman mjólkinni og súrmjólkinni í stóran pott. Helst með þykkum botni og hita á meðal hita. Hræra í blöndunni af og til og skrapa upp af botninum svo það brenni ekki. Eftir því sem mjólkurblandan hitnar þá byrja hálfgerðir klumpar að myndast á yfirborði hennar. Þegar blandan er orðin rjúkandi heit, hætta að hræra.

Blandan byrjuð að skilja sig 

2. Þegar blandan verður um 80 gráðu heit hefur hún skilið sig að fullu, eftir situr hvítur þykkur massi og whey-ið, gráleitur vökvi. Slökkva strax á hitanum, taka af og leyfa að sitja á meðan sigti og co. er preppað.

Allt að gerast í pottinum - ostur in the making 

3. Yfir stórum potti, eða vask, stilla upp sigti og leggja yfir sigtið t.d. tusku eða bleyjuklúta. Varlega veiða hvíta massann upp úr pottinum og setja í klútinn. Þegar allur massinn er kominn yfir í klútinn og farið er að hægja á vökvanum sem lekur frá, binda enda tuskunnar/klútsins saman þannig úr verði vöndull, snúa upp á klútinn - binda fyrir og láta hanga í um 15 mínútur til að allur auka vökvi síjist frá. Ég lét mitt hanga á krananum yfir eldhúsvaskinum :)

Ricotta ala Ella! 

 4. RICOTTA. Tæplega 2 bollar. Annað hvort nota ostin strax í eitthvað sniðugt eða setja hann í lokað ílát og inn í ísskáp. Ætli þetta geymist ekki í tæpa viku.

Þetta tók innan við klukkutíma frá byrjun til enda. Ostinn er svo hægt að krydda t.d. með salti, setja inn í ísskap yfir nótt og daginn eftir - oh men. Taka smá bút af ostinum, krydda, sáldra með olíu, strá hnetum yfir og bera fram sem meðlæti á t.d. snittur eða sem forrétt!

Ástæðan fyrir því að súrmjólk, sítróna eða edik er notað er sú að sýran skilur mjólkina. Sumar uppskriftir sem ég fann byrjuðu á því að hita t.d. mjólk upp í 80 gráður og eftir það er sýrunni bætt við - blandan skilur sig strax. Mitt gums náði þó að skilja sig á ljóshraða, veit ekki hvort þetta hafi verið of heitt hjá mér og/eða hvort ég hafi verið með blönduna yfir hita of lengi... en það virtist ekki koma að sök. Mér fannst þetta geðveikt!

Það verður amk gaman að prófa sig áfram! Ég er forfallin ostaæta!


Próteinstangir, taka 2

Varð að prófa meira í kvöld úr því ég byrjði á þessu um helgina - og ekki hætt enn! Hægt að gera endalausar útfærslur af þessu dóti!

Gerir 4 karamellusúkkulaði

Próteinstöng - bake, karamella

Botn

2 dl grófir hafrar

1 eggjahvíta

1/2 vel þroskaður banani

1 skeið hreint súkkulaði whey prótein

1 msk hörfræ

 

1. Hræra saman eggjahvítu og banana þangað til létt og ljóst

2. Bæta próteininu saman við

3. Blanda út í höfrum og hörfræjum, láta standa í um 15 mínútur

4. Setja í form og inn í 140 gráðu heitan ofn þangað til stíft. Tíu mínútur ca

 

Karamella

2 skeiðar hreint vanillu whey prótein 

2 msk náttúrulegt/lífrænt, ósaltað, ósykrað hnetusmjör

smá vatn

 

1. Hræra saman hnetusmjöri og próteini

2. Blanda smá vatni út í og hræra áfram. Á að mynda mjög þykkt og klístrað deig, eins og karamella.

 

Hella kreminu yfir botninn, helst í forminu ennþá og inn í frysti. Skera niður í 4 hluta þegar karamellan er orðin nógu stíf. Hægt að þekja með hnetum, súkkulaði, kókos, fræjum, höfrum....

Botninn varð svolítið þurr hjá mér, geri fastlega ráð fyrir því að það sé próteininu að kenna. Hægt að nota t.d. heilt egg eða heilan banana til að fá rakann í deigið og fituna.

 

Næringargildi í 1 stöng uþb

Hitaeiningar: 203

Prótein: 24 gr

Kolvetni: 20,5

-þarf af 1,4 gr sykur

Fita: 6,25

Trefjar: 1,5

 


Próteinstangir - home made, no bake

Veit um nokkra sem eru ekki par hrifnir af þessum prótein stykkjum sem finna má út í búð. Mörg hver eru reyndar stútfull af sykri og annarri "óhollustu", gefið, þetta er súkkulaði elsku fólk - ég hef þó samið minn frið við þau. Mér persónulega finnst flundur fínt að grípa mér eitt stykki af og til og ef allt matarræði er á sínum stað, þá er eitt prótein súkkulaði flott mál!

Próteinstöng - om nom nom

Fór á netið, eins og svo oft áður, og gramsaði eftir Home-made prótein stöngum og fann þessa alveg ágætis síðu. Ef þetta er gert í heimahúsi ræður bakarameistarinn alveg hvað sett í súkkulaðið/stöngina, hvort sykur frændi megi vera með o.fr. Svakalega sniðugt að eiga þetta t.d. á milli mála - jafnvel grípa í á morgnana eða hey, ef þið eruð að drepast úr nammiþörf - þá er þetta eitur snjallt!!

Eins og ég hef sagt áður þá er M&M bragðbesta prótein sem ég hef smakkað. Hægt að kaupa þessa snilld hjá honum Dóra í Perform í Holtasmáranum. En M&M stendur eitt og sér sem heil máltíð og mér finnst askoti blóðugt að "eyða" því í t.d. eftirrétti og viðbit sem þetta. Þar af leiðandi prófaði ég hreint prótín í þessa uppskrift til tilbreytingar. Kom alveg hreint ágætlega út, ekki ósvipað Snickers á bragðið. Mjöög djúsí og gaman að bíta í!

Ég ákvað að nota mjög auðveldan grunn að þessu "snakki". Það er hægt að leika sér heilmikið með þetta og ég á án efa eftir að gera þetta meira "djúsí" Elinizað ala Erna í næsta skiptið. Þetta gefur ykkur amk smá hugmynd um hversu einfalt þetta er :)

 

Próteinstangir - 10 stykki 

1 bolli grófir hafrar

6 skeiðar hreint whey prótein (notaði 2 súkkulaði, 4 vanillu)

2 msk hörfræ

5 msk lífrænt hnetusmjör, ósaltað (myndast olía ofan á hnetusmjörinu, þarf að hræra saman)

1 tsk vanilla

1/2 bolli vatn, minna eða meira eftir próteininu

 

1. Hræra saman þurrefnin (Hægt að djúsa upp með hnetum, ávöxtum, múslí ofr)

2. Bæta við hnetusmjörinu og vanilludropunum (hægt t.d. að setja kanil með)

3. Setja vatn útí, hræra þangað til deigið blandast vel - verður mjög klístrað. Næstum eins og karamella.(Hér væri líka hægt að nota mjólk til að blanda saman þurrefnin)

4. Pama glerfat eða setja t.d. bökunarpappír eða plastfilmu í form. Smyrja deiginu í formið og frysta/setja inn í ísskáp. Þegar gumsið er orðið nógu stíft, skera í 10 bita og beinustu leið inn í frystinn aftur. Ég reyndar hjúpaði mitt með kókosmjöli og troddaði svo aftur í frystinn.

Ef þetta er tekið úr frystinum þá koma stangirnar til með að verða linar. Það er því sniðugt að geyma þær ekkert of mikið í hita nema að sjálfsögðu þið viljið borða þær í hálfgerðu hafragrauts formi ;) 

Mmm, spáið samt í því ef það væru t.d. stappaðir bananar og döðlur í þessu til að sæta upp. Möndlur, jafnvel múslí til að fá smá crunch! Hjúpa með hökkuðum hnetum eða dökkum súkkulaðispænum! Oh men!

 

Próteinstöng - no bake

Næringargildi per stöng

Hitaeiningar: 165,2

Prótein: 17,5

Fita: 6,7

Kolvetni: 9,1

Þar af sykur: 1,4

Trefjar: 1  

 

Þið gætuð líka skipt þessu niður í 8 stangir, þá eru um það bil 21 gr af próteinum í hverri stöng og 206 hitaeiningar. Æpandi fullt af flóknum kolvetnum, próteini, hollri fitu - gæti ekki verið betra!

 

Eins og barnabörnin mín koma líklegast til með að segja í framtíðinni

"Mmmm, alveg eins og próteinstangirnar hennar ömmu!".


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband