Færsluflokkur: Hafragrautur
10.6.2009 | 08:39
Hunangs hnetu hafragrautur
Hunang er gott - tékk!
Hafragrautur er góður - double tékk!
Hnetusmjör er gott - tékk!
Rúsínur eru góðar - amk á þessum bæ - tékk!
Kanill er góður - téhékk!
Vanilla í flestöllu formi - tékk!
Skellum þessu saman og þá fáum við yndislega fínan morgunmat, mjög bragðgott og skemmtilegt að borða! Hnetusmjör og hafragrautur er að sjálfsögðu heilög tvenna, klikkar aldrei.
Hunangs hnetu hafragrautur
Sjóða saman:
1 dl grófa hafra
1 skeið hreint prótein (má sleppa)
1/2 stappaðan banana
vanilludropa
kanil
1,5 dl vatn
Smá hveitikím og hörfræ. Hörfræin halda manni svakalega góðum, hvort sem er í shake eða graut.
Hafragrautsskraut:
4 muldar möndlur, 2 valhnetur, tæplega 1 tsk hunang, nokkrar rúslur og 1 tsk hnetusmjör.
Mmm.. hnetusmjörið og hunangið bráðnar yfir grautinn. Hneturnar góðar á bragðið, gefa skemmtilegt kikk í hvern bita og rúsínurnar með sem gleðigjafar!
Góðir hlutir að gerast í þessari skál af höfrum mín kæru!
Hafragrautur | Breytt 23.9.2010 kl. 21:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.6.2009 | 13:28
Ofnbakaður hafragrautur með banana og eplum
Hafragrautsfólk - þetta er eitthvað sem þið verðið að prófa!
Enn ein leið til að njóta þess að borða uppáhalds morgunmatinn minn. Svo einfalt, svo fljótlegt, svo syndsamlega gott! Vá! Væri jafnvel hægt að leggja yfir þetta skinku og brjóta yfir egg eða eggjahvítur! Ábyggilega sjúklega gott - það er næst á dagskrá!
Ofnbakaður epla og banana hafragrautur - Fyrir 4
1/2 jonagold epli, nú eða bara eitthvað frábært epli.
2 bollar hafrar
1 tsk lyftiduft
smá salt
smá múskat, má sleppa
Blautt:
1 egg, hrært
1 stappaður, vel þroskaður banani
1 tsk vanilludropar
1,5 bollar undanrenna/fjörmjólk/hrísmjólk/möndlumjólk/sojamjólk...
Aðferð:
Hita ofn í 175 gráður. Skera epli í sneiðar og leggja til hliðar. Blanda blautu í þurrt.... finnst eins og ég þurfi að skrifa eitthvað meira hérna en flóknara er það nú ekki!
Samsetning:
Hella helmingnum af blöndunni í eldfast mót. Líka hægt að setja bökunarpappír í mótið, þá er auðveldara að skera grautinn í fallegar sneiðar. En þarf ekki.
Raða eplasneiðum ofan á gumsið og strá eins mikið af kanil yfir þær og kanilsjúklingurinn hið innra leyfir. Ég er konungur kanilsins svo ég sturtaði ansi vel yfir eplin.
Hella rest af hafragumsi yfir og raða banansneiðum þar ofaná og beint inn í ofn í 30 mínútur. Ef þú vilt vera góð(ur) við sjálfan þig þá hafa þetta í 26 mínútur inni, strá smá púðursykri yfir og grilla síðustu 4 mínúturnar. Om nom!
Borða rest af epli á meðan grauturinn er að eldast.
Taka graut út úr ofni og dáðst að meistaraverkinu!
Dáðst aðeins meira....
...aaaaaðeins meira! Ohh men hvað þetta lítur vel út!
Hræra saman próteindrykk úr frosnum jarðaberjum, hreinu próteini, vatni og hörfræjum.
Setja grautarsneið á disk, smá slettu af skyri og bláber. Borða hægt og njóta vel! Setja svo restina í ísskáp og borða í morgunmat daginn eftir. Get ekki beðið!
Þetta var helvíti gott! Mikið ógeðslega er ég ánægð með sjálfa mig ákkúrat núna! Grauturinn varð smá karamellukenndur og áferðin skemmtileg. Stökkur toppur og mjúkt innvols með einstaka crunchy epli inn á milli. Holy moly sko! Æðislegt að borða graut á þennan hátt! Væri líka hægt að pimpa þetta upp með hnetum og döðlum og allskonar gúmmulaði! Allir að prófa - þið verðið ekki fyrir vonbrigðum!
Hafragrautur | Breytt 23.9.2010 kl. 21:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.5.2009 | 08:16
Hafragrautur yfir nótt
Ég geri þetta stundum ef ég veit að tíminn er naumur á morgnana og ég veit í mínu gráðuga hjarta að mig langar í graut. Þetta er líka ágætis tilbreyting frá venjubundnu grautarmalli.
Maður tekur hafrana sína, grófa eða fína, jafnvel eitthvað múslí eða morgnunkorn og setur í skál. Ef þér er sama að múslíið eða morgunkornið verði mjúkt, það er að segja. Svo má bara leika sér með restina. Bæta í blönduna kanil, hnetum, ávöxtum, próteini... Bleyta upp í þessu með vatni eða mjólk og henda inn í ísskáp yfir nóttina. Um morguninn hefur gumsið drukkið allan vökvann í sig og til verður ískaldur og frískandi hafragrautur sem hægt er að gúlla í sig á nó tæm! Enginn sem bannar það að henda gumsinu inn í örbylgjuna ef þið viljið grautinn heitan. Verður reyndar mýkri, eða meira mússí, eftir ískápsveru heldur en pottamall, mér þykir það ekki verra. Hann er ekkert síðri svona kaldur.
Klassískur banana og prótein grautur
20 gr. grófir hafrar eða trölla hafrar
20 gr. sólskynsmúslí (uppáhalds múslíið mitt)
20 gr. crunchy hnetumúslí
1/4 stappaður banani
kanill
vanilludropar
1,5 dl mjólk
1 skammtur hreint prótein
Þessu hrærði ég saman, kom fallega fyrir inn í ísskap og muldi loks yfir þetta 1/2 granola stöng sem ég bjó til um daginn.
Ísí písí fráránlega flott! Ætli það sé eðlilegt að hlakka til þess að vakna á morgnana til að geta fengið sér hafragraut í morgunmat?
Hafragrautur | Breytt 23.9.2010 kl. 21:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.5.2009 | 12:37
Grænir dagar - grænir grautar
Gat bara ekki stillt mig! Búin að vera óviðræðuhæf síðan í gær, hugsandi um græna ofurgrautinn og í dag varð hann að veruleika. Mér til mikillar hamingju og gleði að sjálfsögðu! Ég hef nefnt þennan graut því frábærlega nafni Shrek, eða Skrekkur, á góðri íslensku. Hugmyndarflugið svakalegt á þessum annars ágæta sunnudegi. Vonandi verður mér ekki stefnt af Dream Works. Þau hljóta að fyrirgefa mér þegar þau sjá þessa snilld!
Ef þið hafið betri hugmynd að nafni, því ég ætla svo sannarlega að nefna kvikindið, endilega leyfa mér að heyra!
Einn Skrekk takk!
1 dl hafra
1 skammt prótein, ég notaði banana M&M
1/4 banani
1,5 dl vatn
Blender
Hafragrautsmallið
Rúmlega lúka af fersku spínati
Hafragrautsskraut
1/4 niðurskorin banani, smá múslí og dreitill létt AB-mjólk.
Eins og með drykkinn í gær þá var ekkert bragð af spínatinu og grænmetið komið í skrokkinn án nokkurrar fyrirhafnar. Snilld að gefa krökkum svona, grænt monster, í morgunmat. Ég er alveg að fíla þennan lit í botn. Þarf svo lítið til að gera mig glaða.
Með próteininu kostaði þessi máltíð mig rúmlega 370 hitaeiningar. Án próteins, 170 hitaeiningar og með hreinu próteini um það bil 270. Meiriháttar!
Hafragrautur | Breytt 23.9.2010 kl. 21:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.5.2009 | 10:19
Hafragrautur með peru, eplum, valhnetum og kókos.
Ahh, venjubundin matardagskrá! Einstaklega ljúffengur morgunmatur og skrokkurinn heldur hamingjusamari en um helgina. Byrjaði daginn, enn einn sólardaginn, á skokki í Garðabænum. Mjög upplífgandi og æðislegt. Allir sem hafa kost á að vera úti eru úti, hjólandi, hlaupandi, labbandi, hlæjandi!
Það er æðislegt þegar sólin lætur sjá sig á Íslandinu, verða allir svo kátir í hjartanu!

Sjóða saman:
1 dl hafrar
1 skammtur prótein (ég notaði banana M&M - NOM)
1/4 stappaður banani
1/2 pera, smátt skorin
1/2 epli, smátt skorið
Gomma af valhnetum
smá kanill
smá vanilludropar
Hafragrautsskraut:
Kókos og múslí
Hnetusmjör í skeiðina
Mikið er nú almennilegt að borða almennilegan mat.
Eigið góðan dag elsku fólk, njótið hans í botn og njótið þess að vera til!
Hafragrautur | Breytt 23.9.2010 kl. 21:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.5.2009 | 10:10
Nammiskápar á öllum vígstöðvum!
Ég hélt ég myndi nú ekki hafa það af í hamaganginum í morgun. Tók rassavélina svoleiðis í bakaríið að undirritið var eins og fullþroskuð plóma á sumardegi í framan! En það er bara flott, það er æðislegt að byrja daginn á smá púli. Ekkert sem mér þykir verra en að vakna "5 mínútur" í vinnu með koddakrumpur í andlitinu og sængina girta ofan í brók! (ekki spyrja hvernig það gerist)
Þið sem ekki þekkið til þá er rassavélin alræmda kölluð "Stigvél" á mannamáli! Ég er búin að djöflast svoleiðs á þessu tæki síðastliðna 6 mánuði - ég er nokkuð viss um að ef ég væri í raun að ganga upp stiga, þá væri ég komin langleiðina út fyrir lofthjúpinn! Ekki slæmt það!
Byrjaði daginn á ljúffengu, æðislega ísköldu og brakandi epli. Mikið geta epli verið góð þegar þau eru góð! Gekk svo galvösk að hafragrautspottinum í vinnunni og bætti smá graut í próteinið mitt ásamt crunchy-hunangsristuðu rúslumúslí! Mikil snilld sem það er!
Komst að því í leiðinni hversu mikil hamingja það er að geta borðað þessa blöndu beint upp úr bolla.
Nammiskápurinn í vinnunni er ekki alveg jafn yndislega ljúffengur og skemmtilegur og sá sem ég á heima. Vinnugumsið samanstendur einungis af próteini, M&M, og nokkrum próteinsúkkulaðistykkjum. Þar með töldu þessu, sem er blanda af súkkulaði, mjúkri karamellu og karamellu ís-kenndri miðju. Ofboðslega hræðilega gott! Svo sætt að maður fær spékoppa á rasskinnarnar en ég fæ bara ekki nóg! Sykurdýrið hið innra ræður í þessum efnum!
Ég borða samt ekki mikið af svona súkkulaðigumsi, en á það til að bíta í eitt og eitt þegar súkkulaðiguðinn kallar! Fyrir þá sem geta gúllað í sig próteini, ég meðtalin, þá er mikil snilld að eiga svona milli mála. Sérstaklega þegar skyr.is er komið á "Ohg... ég get ekki borðað þetta" listann! Svo er Muscle Milk próteinið bara svo gott á bragðið - eins og ís! Sem gleður mitt ísgráðuga hjarta mikið!
En ekki misskilja - það er nákvæmlega ekkert betra en matur. Alvöru matur sem er gott og gleðilegt að bíta í og borða! Hjartað í mér myndi krumpast saman eins og álpappír ef ég þyrfti að broða próteinduft allan daginn, en það er ágætis tilbreyting og fljótlegt "snakk". Ég mæli því hiklaust með að eiga svona falið upp í skáp til að grípa í. Og jújú, það er einn staur í nammiskúffunni - þeir sem finna hann fá eitt hrós!
Svo er barasta einn dagur í laugardaginn og hamborgarann góða. Einn dagur í tveggja vikna sumarfrí og einn dagur þangað til ég get eytt eins miklum tíma í að búa mér til eitthvað gómsætt á hverjum degi eins og ég vil!
Hafragrautur | Breytt 23.9.2010 kl. 21:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.5.2009 | 09:35
Súkkulaðihafrar með hvítum súkkulaðibitum, banana og jarðaberjum
Eins og að bíta í súkkulaðiköku!
Í þetta sinn ákvað ég að vera góð við sjálfa mig og hafa með hvítt súkkulaði... hvað er betra en bráðið súkkulaði snemma á morgnana? Vinnugrautur með meiru sem þýðir engir hafraskúlptúrar fyrir myndatöku - mjög súrrealískt alltsaman. Enda er þessi blessaða mynd ekkert til að hrópa húrra yfir. En grauturinn var góður, trúið mér!
Gaman saman í ofur örbylgjunni:
Hafragrautur, tilbúinn
Prótein (má sleppa)
1 msk kakóduft
Hafragrauts skraut:
1/2 banani, niðurskorinn
2 niðurskorin jarðaber
Nokkrir bitar af hvítu uuundursamlega ljúffengu súkkulaði
Múslí og kókos
Annars er mikil át-fiesta framundan. Laugardagurinn, júróf visjón dagurinn sjálfur, mun verða lengi í manna minnum sem át-dagur Elínar! Mitt eina og sanna markmið er að velta út úr uppeldisstöðvunum með bros á vör. Hún móðir mín serstaklega frábæra ætlar að elda ofan í ungviðið stærstu hamborgara sem ég hef á ævi minni litið; Hambó A-La Mamma getur.. það bara getur ekki klikkað! Mikið hlakka ég til!!
Ég geri því ráð fyrir að um helgina verði mikið dansað, sungið, hlegið, borðað, tekið mynd af því sem er borðað og bloggað! Þó aðallega borðað og hlegið... óskaplega er maður nú góðu vanur!
Stay tuned elsku fólkið mitt - laugardagurinn verður epískur!
Hafragrautur | Breytt 23.9.2010 kl. 20:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.5.2009 | 13:52
Vinnugrautur - vinnumatur
Grauturinn lengi lifi.
Vinnan mín bíður upp á hafragraut alla virka daga nema á föstudögum. Mér líkar það vel, heppin heppin ég. Föstudagar eru brauð og áleggsdagar svo ég ákvað því að koma með mitt eigið hafragrautsmall í vinnuna í dag. Engin flottheit svosum en góðheit engu að síður.
Soðið saman í herra Örra (örbylgjunni)
1 dl hafrar
1 skeið hreint prótein
1/2 stappaður banani
kanillinn góði
1,5 - 2 dl vatn
Haft í og með
1/2 niðurskorinn banani, múslí og dust af kanil.
Það er ágætt, þegar maður mallar hafra í örbylgjunni, að taka grautinn út og hræra í honum af og til svo hann stífni ekki upp. Sérstaklega þegar maður hefur próteinduft í honum. Það tekur um 1,5 - 2 mínútur fyrir hafrana að drekka í sig vatnið og fyrir grautinn að þykkna. Ohh hvað þetta var nú góð skál í einfaldleika sínum!
Annars er mötuneytið í vinnunni minni frábærlega fínt. Æðislegur salatbar, heitur matur í hádeginu og ávextir og skyr í tonnatali! Kjúlli í dag - enn og aftur, hamingjusamt er átvagl með fullan maga!
Hafragrautur | Breytt 23.9.2010 kl. 20:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.5.2009 | 09:13
Kryddaður hafragrautur með döðlum, gráfíkju og möndlum.
Þessi var svolítið skemmtilegur, ætla að prófa mig áfram með krydd af ýmsum toga. Get nú samt ekki sagt að þetta hafi verið svaðalegasta og mest sjokkerandi hafagrautstilraun okkar tíma. Prófaði að bæta heilu einu kryddi við.... ómæ.
Kannist þið við tilfinninguna, þegar þið hafið fundið ykkur eitthvað sem er gott og viljið ekki prófa eitthvað nýtt af hræðslu við að það sé ekki jafn gott, eða betra, og þar af leiðandi hafið þið misst af því að fá ykkur þetta góða og þurfið að bíða þangað til næst? Þannig er ég geðbiluð með hafragrautana mína - ef þessi er ekki jafn góður og "öruggi" kosturinn, þá þarf ég að bíða í heiilan dag! Erfitt að vera matsár mín kæru... mjög erfitt!

Soðið saman:
1/2 dl hafrar
1/2 stappaður vel þroskaður banani
2 niðurskornar döðlur
1 gráfíkja
1 skeið hreint vanillu prótein (má sleppa)
kanill
múskat
2 dl vatn
Haft með:
Skvetta létt-AB mjólk, möndlur, múslí, hnetusmjör í skeiðina.
Ég nota 1/2 dl af höfrum því bananinn gerir blönduna "rjómakennda" og umfangsmeiri ásamt próteininu. Ég verð pakksödd eftir þennan skammt. Það má vel nota 1 dl (um það bil 1/2 bolli), og ég geri það alltaf, nema þegar ég nota banana/prótein eða er jafn svöng og Hulk á góðum degi! Annars verður magnið hreinlega of mikið.
Þessi var samt góður. Kom vel út og múskatið er eitt af þessum kryddum sem fær mann til að hugsa "Hmm... hvað er þetta?".
Næst þegar ég geri "kryddaðan" graut, þá ætla ég að rista furuhnetur og sjóða með höfrunum ásamt kanil, cardamommum og kannski engifer. Sæta grautinn svo með hunangi, döðlum, rúslum og fíkjum. Ég hreinlega finn lyktina af þessari dásemd 'in the making' núna!
Spennandi er líf hafragrautsmallarans!
Hafragrautur | Breytt 23.9.2010 kl. 20:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.5.2009 | 10:28
Hafragrautur með banana og peru, létt AB-mjólk og hörfræjum

Sjóða saman:
1/2 dl af höfrum - flókin kolvetni, prótein
2 msk hveitikím - vítamín, flókin kolvetni, andoxun og prótein
1/2 msk muldar kasjúhnetur - holl fita
1/2 msk hörfræ - holl fita
1/2 vel þroskaður og stappaður banani
1/2 pera, skorin í litla bita
1 skeið hreint vanillu prótein (má sleppa)
1,5 dl vatn

Laugardags toppskraut:
Smá létt AB-mjólk - gefur gott bragð
1 tsk hunang - sæta
1 msk rúslur - sæta
Smá poppies (litlu kúlurnar) - crunch
5 pistasíukjarnar - holl fita
Smá múslí - crunch
Eins og alltaf, fullkominn morgunmatur eftir fína morgunæfingu! Naut hvers bita í botn!
Hafragrautur | Breytt 23.9.2010 kl. 20:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)