Færsluflokkur: Egg

Hýðisgrjón í hádeginu og kalkúnakjöt á kvöldin

Hrísgrjón eru góð grjón. Hýðishrísgrjón eru æðisleg grjón. Það er svo gaman að bíta í þau og borða. Áferðin fullkomin og bragðið skemmtilegt.

Eggjahvítur örbylgjaðar.

Örbylgjaðar, stappaðar eggjahvítur

+

Dásemndargrjón soðin.

Hýðisgrjón

+

Grænmetið pamað, saltað og ofnbakað.

Ofnbakað grænmeti er ljúffengt

=

Eðalfínt hýðisgrjóna og eggjahvítugums með soja og ofnbökuðu grænmeti

Æðislegt, æðislegt hrísgrjónagums í skál. Toppað með smá steinselju og soja hellt yfir. Heitt, ofnbakað grænmeti er svoddan glimrandi Guðmundur. Sætur rauðlaukurinn bráðnar líka upp í manni.... mmm. Sojan var svo punkturinn yfir i-ið. Úhhúúh!

Hýðisgrjón, eggjahvíta, soja og ofnbakað grænmeti

Svo er þakkargjörðin í kvöld. Hugsið ykkur hvað þetta er búið að vera fljótt að líða. Þegar ég byrjaði fyrst að telja þá var röðin svona: Þakkargjörð í foreldrahúsum, tvær árshátíðir, matarboð, þakkargjörð númer tvö, Boston, jólahlaðborð, bökunarhelgi og jólin. Núna er það þakkargjörð númer tvö, Boston, jólahlaðborð, bökunarhelgi og jólin. Hihihihi... þegar kvöldið er búið þá eru 4 eftir af 9!


Grautargleði og Fettmúlar

Hvað er nýtt? Hvað er að frétta? Hræðileg, hræðileg fettmúlaæfing bíður mín eftir vinnu í dag. Hlakka pínku til í mínu sadíska eðli. Fann svo aðra fremur gleðilega leið til að trodda eggjahvítum í grautinn minn. Sjóða upp graut á gamla mátann - nú eða fylla hann af örbylgjum. Það kemur svo gott sem niður á sama stað. Setja svo stífar, vel hrærðar eggjahvíturnar út í, hræra fallega og fylla af jarðaberjum...

Kryddaður hafró með eggjahvítur og jordbær

Aðeins nær.

Eggjahvíturgrautur með jarðaberjum

Aaaaaaðeins nær.

Hmmh.. hann er kannski ekkert svo girnó eftir alltsaman! En er au natural grautur það einhverntíman? Nei ég held nú ekki!

Eggjahvíturgrautur með jarðaberjum

...eða banana, hnetum, hnetusmjöri, sultu, þurrkuðum ávöxtum! Þið ráðið því að sjálfsögðu mín kæru. En það er mjög mikilvægt að hræra fallega. Ástæðuna fyrir því veit ég því miður ekki! Ég bjó líka til svona um daginn. Ástæðan fyrir því af hverju ég er að segja ykkur þetta og setja þetta hingað inn er einnig óljós.

Hræðilegt vont

Ekki láta útlitið blekkja ykkur. Þetta lítur kannski krúttusprengjulega út en vont var það! Ég ætla heldur ekki að segja ykkur hvað þetta er, ykkar vegna - en ég borðaði það engu síður sökum hungurs! ((hrollur)) Tvær dularfullar og óútskýranlegar ástæður í dag. Hressandi ekki satt?

Fyrir ykkur sem enn eruð að velta fyrir ykkur hvað fettmúlaæfing sé, þá var ég að tala um fæturnar á mér. Fettmúlafætur fyrir allan peninginn! Yööhs!

Ég held ég sé með svefngalsa - get svoleiðis guðsvarið fyrir það.


Hafrar og eggjahvítur - pönnsugrautur

Hafrahvítur? Eggjahvítugrautur? Fullkomið fæði fyrir æfingu!

Eftir margar tilraunir og stúss hef ég nokkurnvegin fundið út hvað mér þykir best að gera við eggjahvíturnar og grautinn á morgnana. Ef ég skúbba þessum hráefnum ekki í eitt stykki pönnsu þykir mér best að, jah, útbúa hálfgerða pönnsuhræru!

Helli eggjahvítunum í skál og inn í örbylgju í 1,5 - 2 mínútur og passa að eggjahvíturnar eldist ekki alveg. Hef smá hvítu lausa og liðuga. Út úr örbylgjunni reyni ég að hakka/hræra hvíturnar sem mest ég má og bæti þar á eftir höfrunum út í. Aukaefnum, gleðiefnum - vanilludropum, kanill, kryddi, hræri ég samanvið á þessum tímapunkti.

Pönnsugrautur með smá undanrennu og frosnum hindberjum

Þegar ég hef hrært frá mér vit og rænu helli ég stundum 1 msk af undanrennu yfir. Yfirleitt sleppi ég því. Stundum hendi ég grautnum meira að segja inn í örbylgju í 30 auka sek. áður en ég helli undanrennunni yfir, ef mér þykir hann of blautur - kaldhæðni, ég veit! En eggjahvítublautur og mjólkurblautur er ekki sami hluturinn. ((hrollur))

Pönnsugrautur með smá undanrennu og frosnum hindberjumUndanrennan að fela sig

 

 

 

 

 

 

Loks toppa ég dýrðina með berjum, eða hræri þeim samanvið. Héðan fer hann svo inn í ísskáp og bíður þar eftir mér á morgnana. Hér að ofan er grauturinn eins og hann leit út í gærkveldi, þegar ég bjó dýrið til. Svona leit hann út í morgun, berin orðin mjúk! Come to mama!

Pönnsugrautur með smá undanrennu og frosnum hindberjum

Þessi var æði. Vanillu- og rommdropar! Svo verða hafrarnir ofaná stökkir, gumsið mjúkt að innan og á sumum stöðum finnur maður hafra sem hafa kúlað sig saman og myndað hálfgerðan mini-pönnsubita. Húhúúú... Þar sem eggjahvítur eru bragðlausar í sínu próteinríka eðli þá þarf að passa að krydda dýrið vel. Það væri örugglega æði að bæta út í þennan graut örbylgjuðum banana og strá yfir smá hentumixi og hunangi. Jafnvel stinga honum inn í ofn á grill í 2 - 3 mín.

Farin að rækta líkama og sál. Bak, brjóst og hendur mín kæru.

Humar í kvöld?


Eggcellent eggjakaka og árshátíðar undirbúningur

Um þetta leiti á morgun verður átvaglið komið í kjól og súpandi á fordrykk! Játakk!

Lét verða af því og endurgerði eggjahvítuköku hádegisins með smá breytingum. Engin gulrót í þetta skiptið heldur svampar! Svo æðislega bragðgóðir. Sama og síðast, steikja, steikja... steikja meira og svo aðeins meira en steikingaþröskuldurinn leifir. Eggjahvíta gumsið og jú, steikja meira. Raða tómatsneiðum og 9% ostsneið á helminginn og krydda með t.d. basil. Sjáið bara hvað þetta er glæsilega fínt!

Eggcellent eggjahvítukaka með lauk, sveppum, tómat og smá osti Eggcellent eggjahvítukaka með lauk, sveppum, tómat og smá osti

 

 

 

 

 

 

 

Eggcellent eggjahvítukaka með lauk, sveppum, tómat og smá ostiEggcellent eggjahvítukaka með lauk, sveppum, tómat og smá osti

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Tók svo til matinn fyrir helgina. Laugardagskvöldið er stikkfrí sökum nammidags og árshátíðar. Kvöldnasl dagsins í dag var tekið til ásamt fyrir- og eftiræfingamat morgundagsins, hádegismat og viðbiti og loks lauk þessum undirbúning á morgunmat sunnudagsins. Þetta tók 30 mínútur að setja saman - að meðtöldum kvöldmatnum og fínukjóla- og æfingafatatiltekt. Svo er hin reglubundna 2ja vikna ummálsmæling hjá mér á sunnudaginn - ég tek sko málbandið með mér og mæli mig sundur og saman uppá hótelherbergi á tilsettum tíma! Full af árshátíðarjukki - húha!

Undirbúningsnesti helgarinnar

Ætli ég verði ekki japlandi á skyrgumsinu mínu í "Hvernig búum við til bjór" ferðinni á morgun!

Njótið helgarinnar mín kæru, er farin á Selfoss að árshátíðast Smile


Egg-cellent eggjakaka

Ohh þetta var svo gott! Ég veit ekki af hverju.. eða jú, ég veit það alveg! Ég bjó þetta til í gær fyrir hádegismat í dag og svona leit gleðin út með flassi og án!

Karamellizeruð lauk og gulrótar eggjahvítukakaKaramellizeruð lauk og gulrótar eggjahvítukaka með flassi

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Leit já... ég borðaði þetta án þess að mynda, svellköld og skammaðist mín ekkert fyrir það! Svooo mikið gúmmó að ég hef ákveðið að útbúa þetta aftur í kvöld! Einfalt, svo sáraeinfalt og þægilegt að elda! Laukur og gulrætur steikt í 100 ár svo lengi að allt sem gumsið snertir verður sætt. Eggjahvítunum hellt yfir og látið krauma í dágóða stund.

Í kvöld ætla ég að fylla kökuna með tómatgumsi...

*gleði*


Eggið í grautinn

Prufum að setja eggið út í hafragrautinn í staðinn fyrir ofaná!

Egg og eggjahvíta hrært saman í skál ásamt vanilludropum og kanil. Sama bland og notað er t.d. í "French toast" - á góðri íslensku. Út í þetta hrærði ég svo hafrana mína ásamt tæpum dl. af vatni og inn í ísskáp yfir nótt. Beinustu leið í örrann þegar ég vaknaði og ofan á grautinn fóru nokkur örbylgjuð hindber.

Eggjagrautur með hindberjasósu

Þetta var alveg ágætt barasta þó myndefnið gefi annað til kynna. Ég ætla að prófa að setja undanrennu í staðinn fyrir vath, næst þegar ég geri þessa snilld og nota skvettu af hunangi. Jafnvel útbúa pönnsur.. og já, það verður svo sannarlega næsta skipti!


Vampírukisi og viðbit á laugardegi

Aumingja kisinn minn er slappur og fúll. Getur svosum sjálfum sér um kennt, ég segi það ekki. Hann er með vampírubit eftir annan slagsmálakött á framfætinum. Bólginn og illa haldinn fórum við með hann til dýralæknis í morgun þar sem hann fékk sprautur og núna liggur hann hálf úldinn yfir lyklaborðinu - sem gerir þessi skrif mín mjög krefjandi.

Þrátt fyrir umönnunarstörf og vorkunn, í garð úldnakisa, stoppaði það mig ekki í því að næla mér í mat í kaffinu. Eggjahvítukaka með kanil, stöppuðum banana og möndlum, meiri möndlur mín kæru og jújú, kanilstráð epli.

Eggjahvítukaka með stöppuðum banana, möndlum og kanilstráðu epli

Kanil- og möndlukóma tekur nú við, á þessum annars ágæta laugardegi, í bland við kattardekur og almenna leti.


Reyktur lax með avocado mauki, krumpueggi og möndlum

Krumpuegg, fyrir ykkur sem vilja vita hvað það er, eru á góðri íslensku "Scrambled eggs". Enn eitt orðið í orðabók Ásbúðarmanna!

Búin að vera að hugsa um reyktan lax í allan dag. Vissi af laxi, bíðandi, aleinum í ísskápnum, sem dauðlangaði að vera nýttur í eitthvað létt og gott. Einmitt það sem úr varð! Kjúllatörn vikunnar var farin að segja til sín og bragðlaukarnir biðu í ofvæni eftir... jah... nákvæmlega þessu!

Reykt laxasalat með avocado mauki, hrærðum eggjum, salati, dukkah kryddi og möndlum

Átti reyndar ekki iceberg, bara hvítkál. Notaði hvítkálið með miklum semingi - það reddaðist en iceberg, spínat, eitthvað hlutlaust á bragðið hefði verið miklu betra. Hvítkálið var aðeins of beiskt með laxinum. Skar niður smá kál, tómat og rauðlauk. Blandaði saman og kom ofur fallega fyrir á disk. Ristaði nokkrar möndluflögur á meðan ég steikti 2 eggjahvítur og 1/2 eggjarauðu með pipar á pönnu. 100 gr. af reyktum laxi kom ég fyrir á salatbeðinu og sáldraði möndlu dukkah yfir. Eggjahræran fór svo ofan á laxinn og möndluflögur ofan á eggin. 'Skreytt' með þurrkaðri steinselju.

Avocado mauk - avocado, létt AB-mjólk, pipar og smá sítrónusafi

Avocado maukið hrærði ég saman úr um það bil 1/2 avocado, pipar, smá sítrónusafa og létt AB-mjólk. Ef ég hefði átt rjómaost hefði hann orðið fyrir valinu. Mmm... rjómaostur og reyktur lax! Avocado og reyktur lax! Rjómaosta avocado mauk með reyktum laxi og smá rifnum sítrónuberki. Ohhh getið þið ímyndað ykkur? En þetta bland virkaði flott!

Reyktur lax með avocadomauki, steiktu eggi og grænmeti

Allar hollar fitur alheimsins hittast í þessum rétti og dansa villtan stríðsdans! Lax, möndlur, avocado - meiriháttar! Dukkah kryddið kom sterkt inn, rosalega gott með laxinum. Mmmhh hvað þetta var nákvæmlega það sem ég var að leita eftir - alltaf bestu máltíðirnar, sama hversu 'ómerkilegar' þær eru!


Eggjahvítu burrito með reyktum laxi, 'wasabi baunum' og grænmeti

Ég held áfram að rúlla matnum mínum upp. Það er bara svo gaman að borða hann þannig!

3 eggjahvítur hrærðar saman, má krydda eftir smekk. Hellt á heita pönnu og hálfgerð pönnukaka útbúin. Það væri líka hægt að útbúa heilhveiti crepe ef eggjahvítukakan er ekki spennó. Nú eða bara nota búðarkeypta heilhveiti tortillu. Þær eru flottar.

Eggjahvítukaka

100 gr. af reyktum laxi raðað á pönnukökuna, þarnæst smá hrísgrjónum og "salsa" mauki. Hallæris mauk verð ég að segja. Skar 2 tómata smátt, sneið af smátt skornum rauðlauk, pínkulítið af hvítlauk og hrærði saman með þurrkaðri steinselju. Var samt gott á bragðið. Smile

Eggjahvítukaka með reyktum laxi og salsamauki

Ofan á hallærismaukið fóru 'wasabi-baunir'. Svipað og í laxarúllunni um daginn þá hrærði ég saman létt AB, wasabi mauki, hrísgrjónaediki, hunangi, dilli, dijon og sítrónusafa.

Eggjahvítukaka með reyktum laxi, salsamauki og baunum.

Ofan á baunirnar avocadosneiðar.

Eggjahvítukaka með reyktum laxi, salsamauki, wasabi baunum og avocado.

Burritonum rúllaði ég svo upp, skv. lögum og reglum burrito upprúllunar, og borðaði með mikilli áfergju. Passa bara, að ef notuð er eggjahvítu tortilla þá á hún til að rifna. Rúlla dýrinu varlega upp svo laxinn leggi ekki á flótta.

Eggjahvítuburrito með reyktum laxi, wasabi baunum, salsasósu og avocado

Ég vafði mínum meira að segja upp í álpappír.

Eggjahvítu burrito með reyktum laxi, wasabi baunum, salsasósu og avocado

Þetta var fínt. Afskaplega gott og gleðilegt. Setti slatta af wasabi-dressingunni.. mmmmm! Inn í þetta má svosum setja hvað sem er. Hvað er ykkar uppáhalds uppfyllingarefni?

Eggjahvítutortilla með reyktum laxi, wasabi baunum, salsasósu og avocadosneiðum

Mikið er reyktur lax æðislega góður!


Matur úr öllum áttum

Stundum langar manni bara í eitthvað. Ekki endilega heilstæða máltíð heldur hambó og ost, svo kannski smá múslí og eitt epli. Einmitt það sem ég gerði í kvöld. Langaði óstjórnlega í eggja-tortillu, steikt grænmeti, brauð... svo ég púslaði því saman. Muna bara að borða ekki beint út úr ísskápnum, þá er hættara við því að þú borðir yfir þig! Wink

Mig langar í allt - matur

Eggjakakan samanstendur af 1 msk graskersmauki, 1 msk hreinu próteini og 1 dl eggjahvítum. Með henni hafði ég steikta sveppi, lauk, blómkál og spínat. Hummus fylgdi með herlegheitunum, smá sæt kartafla, sinnepssósa síðan í humrinum um daginn og graskersbrauð sem ég bakaði í gær! Ójá - það er æðislegt! Set uppskriftina vonandi inn á morgun!

Skrokkurinn kátur eftir átið. Nokkuð magnað hverju hann sækist eftir dag frá degi!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband