Reyktur lax með avocado mauki, krumpueggi og möndlum

Krumpuegg, fyrir ykkur sem vilja vita hvað það er, eru á góðri íslensku "Scrambled eggs". Enn eitt orðið í orðabók Ásbúðarmanna!

Búin að vera að hugsa um reyktan lax í allan dag. Vissi af laxi, bíðandi, aleinum í ísskápnum, sem dauðlangaði að vera nýttur í eitthvað létt og gott. Einmitt það sem úr varð! Kjúllatörn vikunnar var farin að segja til sín og bragðlaukarnir biðu í ofvæni eftir... jah... nákvæmlega þessu!

Reykt laxasalat með avocado mauki, hrærðum eggjum, salati, dukkah kryddi og möndlum

Átti reyndar ekki iceberg, bara hvítkál. Notaði hvítkálið með miklum semingi - það reddaðist en iceberg, spínat, eitthvað hlutlaust á bragðið hefði verið miklu betra. Hvítkálið var aðeins of beiskt með laxinum. Skar niður smá kál, tómat og rauðlauk. Blandaði saman og kom ofur fallega fyrir á disk. Ristaði nokkrar möndluflögur á meðan ég steikti 2 eggjahvítur og 1/2 eggjarauðu með pipar á pönnu. 100 gr. af reyktum laxi kom ég fyrir á salatbeðinu og sáldraði möndlu dukkah yfir. Eggjahræran fór svo ofan á laxinn og möndluflögur ofan á eggin. 'Skreytt' með þurrkaðri steinselju.

Avocado mauk - avocado, létt AB-mjólk, pipar og smá sítrónusafi

Avocado maukið hrærði ég saman úr um það bil 1/2 avocado, pipar, smá sítrónusafa og létt AB-mjólk. Ef ég hefði átt rjómaost hefði hann orðið fyrir valinu. Mmm... rjómaostur og reyktur lax! Avocado og reyktur lax! Rjómaosta avocado mauk með reyktum laxi og smá rifnum sítrónuberki. Ohhh getið þið ímyndað ykkur? En þetta bland virkaði flott!

Reyktur lax með avocadomauki, steiktu eggi og grænmeti

Allar hollar fitur alheimsins hittast í þessum rétti og dansa villtan stríðsdans! Lax, möndlur, avocado - meiriháttar! Dukkah kryddið kom sterkt inn, rosalega gott með laxinum. Mmmhh hvað þetta var nákvæmlega það sem ég var að leita eftir - alltaf bestu máltíðirnar, sama hversu 'ómerkilegar' þær eru!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband