7.8.2009 | 12:11
Föstudagar eru góðir dagar
Við erum með svo mikið af kjúkling á lager að kjúklingur hefur verið á boðstólnum í nánast hvert mál í þessari viku. Mér er að takast að rýma frystinn, þetta er allt að koma. Ekki kvarta ég svosum, kjúklingur er gleðimatur.
Tók með mér enn eitt kjúklingasalatið í vinnuna. Hafði að sjálfsögðu grænu gleðina með í þessu mixi, tómat, hunangs dijon dressingu og indversk-ættaðan hýðis-hrísgrjónakladda (reynið að segja þetta 10 sinnum hratt), sem ég bjó til sem meðlæti með kvöldmatnum í gær. Þeir eru góðir. Stökkir að utan, mjúkir að innan... gaaman að borða þá. Ég stalst líka niður í mötuneyti og rændi mér tveimur sneiðum af grillaðri papriku. Æði!
Er svona að spögúlera í því að hádegismata sjálfa mig út ágústmánuðinn. Ég er þeim 'kostum' gædd að elda, undantekningarlaust, of mikið af mat. Við erum yfirleitt bara tvö, en ég virðist alltaf elda fyrir 5 fullfríska Spartverja, sem þýðir afgangur í viku! Stundum frysti ég, en því miður er frystirinn oft síðasta stoppistöð, þeirra skammta, á undan ruslinu. Við verðum að bæta okkur í afgangsáts málum! Svo er þetta flott leið til að halda öllum skammtastærðum innan skynsemismarka. Ég er svartholið sem fer 2 - 3 ferðir og svo eina aukalega til að narta! Græðgin svo mikil að stopptakkinn aftast í hnakkanum er óvirkur. Óhemja er þetta!
Meginflokkur: Matur og drykkur | Aukaflokkar: Hádegismatur, Kjúklingur/Kalkúnn | Breytt 23.9.2010 kl. 22:10 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.