9.7.2009 | 20:43
Quinoa klattar og pönnusteikt grænmeti með dukkah
Gott meðlæti getur gert kraftaverk og góð krydd færa suman mat upp um mörg stig hvað bragð varðar. Meðlæti kvöldsins var svolítið gleðilegt. Ég bjó til quinoa kökur, eða klatta, sem komu skemmtilega á óvart. Pönnusteikta grænmetið, jah, er nú bara pönnusteikt grænmeti, en elsku besta Dukkah kryddið mitt breytti því úr Clark Kent í Súperman!
Pönnusteiktar quinoa kökur
Fyrst er 1/2 bolli af quinoa soðinn í 1 bolla af grænmetissoði. Ég bætti bara græmetiskrafti út í vatnið. Eftir að quinoa kornin höfðu drukkið í sig allan vökva, hellti ég þeim í skál og bætti einni fjörostsneið við. Ostinum leyfði ég að bráðna alveg og bætti þá við niðurskorinni papriku, pressuðum hvítlauk, þurrkaðri basiliku og 1/2 dl af eggjahvítum. Eftir að ég hafði blandað öllu saman skóf ég hverja köku upp með skeið og kom fyrir á heitri pönnu. Steikti vel á báðum hliðum eða þangað til falleg gullin skorpa hafði myndast utan á kökurnar.
Næst þegar ég geri þetta ætla ég að leyfa quinoanu að þorna betur, bæta við 1 dl af eggjahvítum og steikja kökurnar lengur á hvorri hlið. Ég þurfti að steikja þær nokkuð lengi svo þær héldust saman og brotnuðu ekki í milljón bita við snúninginn, en maður minn... góðar voru þær! Stökk skorpa, mjúkt innvols, æðislegt bragð.
Kökurnar væru virkilega skemmtilegar með t.d. kjúkling eða fisk. Örugglega æði að setja tómatsneið ofan á hverja köku, ost þar ofan á og stinga þeim svo inn í ofn, grill. Verður gaman að prófa sig áfram í þessu.
Grænmetisbland kvöldsins samanstóð af sveppum, rauðlauk, spínati og sykurbaunum. Steikt á pönnu, saltað smá og piprað og leyft að steikjast þangað til meyrt. Loks bætti ég Dukkahnu við og lét malla í 1 - 2 mínútur. Stráði svo nokkrum furuhnetum yfir grænmetið fyrir bragð og áferð. Algerlega geggjað!
Bragðgott meðlæti. Virkilega skemmtilegt að borða og bragðið - ójá, við skulum ekkert ræða það neitt frekar! Bara flott!
Meginflokkur: Matur og drykkur | Aukaflokkar: Grænmeti, Kvöldmatur | Breytt 23.9.2010 kl. 21:47 | Facebook
Athugasemdir
Ó þú - æ lof jú
dossa (IP-tala skráð) 10.7.2009 kl. 01:03
Lof jú two man... lof jú two
Elín Helga Egilsdóttir, 10.7.2009 kl. 09:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.