2.7.2009 | 14:23
Laxasneiðar í eggjaköku með capers, rauðlauk og rjómaosti
Ég bjó þetta til um daginn og átti alltaf eftir að birta pistilinn... svo, versogú!
Átti lax í frystinum sem ég vildi nýta í eitthvað. Skar mér um það bil 200 gr. stykki af fiskinum, skar stykkið í þunnar sneiðar og leyfði að marinerast í, hálfgerðri graflaxsósu, dressingu yfir nótt. Dijon sinnep, hunang, sítrónusafi, smá salt og dill. Ég hrærði þessu saman eftir smekk. Væri líka hægt að nota sætt sinnep og sleppa hunanginu. Ég hrærði svo saman 3 eggjahvítum, smá salti, pipar, mjólk og dilli. Raðaði nokkrum laxabitum á miðlungs heita pönnu, hellti eggjahvítublöndunni yfir fiskinn og svo meira af laxi ofan á eggin. Ætli ég hafi ekki notað 100 gr., rúmlega, af laxi.
Þessu leyfði ég í raun bara að malla þangað til eggin voru steikt í gegn. Þá braut ég kökuna saman og færði yfir á bökunarpappír. Smurði á kökuna smá rjómaosti, kannski msk. Kom henni svo vandlega fyrir inn í 175 gráðu heitum ofni, grill, í 3 mínútur. Rétt til að fá smá crisp.
Eftirleikurinn er nú auðveldur. Skera niður rauðlauk, mjög smátt, ásamt steinselju og krækja í nokkur capers korn. Dreifa því yfir kökuna og hananú, þessi líka snilldarinnar glæsilegi hádegis- eða kvöldmatur tilbúinn!
Þetta var ekkert smá frábært. Maginn sérstaklega sáttur eftir gjörninginn og bragðlaukarnir líka. Dressingin sem laxinn var í gaf ofboðslega gott bragð í eggjakökuna, sinnepið kom sterkt þar inn. Gaf skemmtilegan keim á móti hunanginu. Rjómaostur með capers og rauðlauk er að sjálfsögðu æði og biti af fisk með fær mann bara til að brosa. Mikill samhljómur, í bragði, í gangi á þessum disk!
Virkilega, virklega skemmtilegt og bragðgott!
Til gamans má geta að næringargildið í þessari máltíð er æðislegt! Um það bil 300 hitaeiningar, 32 gr. prótein og 16 gr. fita. Mjög flott fyrir þá daga sem hvílt er. Lítið af kolvetnum, meira af fitu og próteinum! Frekar flott!
Meginflokkur: Matur og drykkur | Aukaflokkar: Egg, Fiskur, Hádegismatur | Breytt 23.9.2010 kl. 21:36 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.