Samviskulausa eplakakan

Nei... ekki svo gott! Þetta er ekki djúsí saga um siðblinda eplaköku - þó það væri nú ágætlega vel við hæfi, miðað við tíðarandann í dag. Þetta er barasta einfalt eplagums sem ég skúbbaði saman í von um að geta útbúið hollari týpu af eplaköku sem hægt er að borða bæði í morgun- og/eða hádegismat og sem eftirrétt. Held það hafi tekist ágætlega. Ég kem amk til með að baka þessa aftur, betrumbæta og vonandi fullkomna á endanum! Var að borða restina af henni núna - ææðisleg daginn eftir líka!

Samviskulausa "eplakakan"

Samviskulausa eplakakan og sojaísinn ógurlegiFylling:

2 skræld og skorin jónagold epli

1 skræld og skorin pera

1 niðurskorinn banani

4 niðurskornar ferskar döðlur

1 msk heilhveiti

1 msk hunang

Kanill eftir smekk. Ég notaði að sjálfsögðu slatta.

Hræra öllum hráefnum í fyllinguna sman og byrja að baka í 175 gráðu heitum ofni. Ég reyndar hrærði eplum og peru sér með kanil, hunangi og hveiti. Raðaði svo banana og döðlum ofan á eplagumsið. Endaði samt sem áður á því að hræra allt saman í lokin, áður en ég setti degið yfir.

Samviskulausa eplakakan, rosalega góð

Deig:

1/2 bolli hafrar

1/4 bolli muldar quinoa flögur

1/4 bolli uppáhalds múslí

2 msk hunang (mætti líka setja 1/4 bolla t.d. hrásykur eða púðursykur ef vill)

2 msk vatn

tappafylli vanilludropar

kanill

salt á hnífsoddi - má sleppa

Hræra deig saman og strá yfir eplablönduna þegar eldunartími eplanna er hálfnaður. Ég miða við mjúk epli, en smá stökk þegar bitið er í þau. Elda áfram þangað til þú, bakarameistarinn, segir stopp.

Samviskulausa eplakakan

GEGGJAÐ! Sló í gegn hjá gestum og gangandi!

Heit, kanilstráð epli klikka svosum ekki - hvað þá þegar maður borðar þau með ís eða rjóma. En þessi snilld kom skemmtilega vel á óvart. Að sjálfsögðu munu hörðustu eplakökuaðdáendur ekki kalla þetta gums "eplaköku" og verandi eplakökusnobbari sjálf, get ég vel tekið undir það. Engu að síður, þá stóð 'kakan' vel fyrir sínu sem eftirréttur. Ég myndi líklegast sleppa banananum næst. Hann gerði ekki neitt og setja meira af döðlum og/eða rúsínum. Verða karamellukenndar og góðar - eiga líka svo vel saman með eplunum. Góða við þetta, fyrir utan sykur- og fituleysi, er að eftir að hafa hámað í sig slatta er seddumælirinn ekki fullur. Sem er æði - létt, hollt og gott fyrir skrokkinn! Flókin kolvetni, trefjar og vítamín.

Samviskulausa eplakakan ásamt sojaís

Deigið var hinsvegar svolítið þurrt og molnaði heldur mikið. Afskaplega var það samt bragðgott og skemmtilegt á móti heitum ávöxtunum. Sérstaklega ef maður hrærði gumsið allt saman og leyfði deginu að hangsa í eplasafa. Ég er sumsé ein af þeim sem elska hafra og bragðið af þeim. Uppáhalds smákökur eru t.d. hafrakökur.. ALLAVEGA, þá mætti betrumbæta degið nokkuð. Væri t.d. hægt að stappa bananann og döðlurnar út í degið, bæta í það hnetum og strá svo yfir. Jafnvel hræra bæði fyllingu og deig saman og þannig inn í ofn. Já, ætla að leika mér svolítið með þetta á næstunni. Var nú samt að láta mér detta það í hug að blanda þetta á einhvern hátt saman við bakaða hafragrautinn!

Epli, perur, banani, döðlur og kanill. Klikkar ekki.

Með kökunni hafði ég svo ís. Sojaís. Keypti hann um daginn og viti menn, kom svona líka vel út. Kostar allt í heiminum, kaupi því ekki mikið af honum aftur en góður er hann. Meira að segja afi, sem borðar engan eftirrétt nema ís sé, gaf honum grænt ljós og fékk sér annan skammt!

Þessi kaka gæti orðið mjööög efnileg... ójá!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Æji, mér hefði þótt Siðblinda Eplakakan enn skemmtilegri :)

Dossa (IP-tala skráð) 18.6.2009 kl. 22:14

2 Smámynd: Elín Helga Egilsdóttir

Hún er til! Bjó til eina siðblinda á júróvisjón kvöldinu ógurlega! Góóóð var hún!

Elín Helga Egilsdóttir, 19.6.2009 kl. 09:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband