17.6.2009 | 09:33
17. júní slagur í garðinum
Til hamingju með daginn ykkar í dag elsku fólk.
Vaknaði við mikið garg og brölt í morgun. Stökk framúr og kíkti út um stofugluggann. Komst snarlega að því að eitt illketti hverfisins var mjög einbeitt að leggja annan köttinn minn í einelti. Ég, að sjálfsögðu, eins og sannri kattamóður sæmir, stökk út hið snarasta og hljóp eins og vitleysingur stuttan spöl á eftir óvinakisa með tilheyrandi handapati og köllum. Mjög hreykin að hafa passað upp á köttinn minn stóð ég nokkuð fersk úti í garði, á náttkjólnum og tánum, og naut góða 17. júní morgunsins. Með hárið út í loftið og svefnkrumpur í andlitinu uppgötvaði ég þó skyndilega að ég er víst ekki ein í heiminum og fjórir einstaklingar úr húsinu mínu störðu undrandi á brjáluðu kerlinguna út í garði. Held að nágrannarnir séu að hugsa sig um hvort það sé sniðugt að eiga heima nálægt Crazy Cat Lady. En það er nú í lagi - þau hafa þá sögu að segja vinum og ættingjum! Hressandi!
Í tilefni dagsins ætlaði ég að vera góð við sjálfa mig og henda í banana-hafrapönnsur, svakalega góðar. Sú ákvörðun var skotin niður af góða englinum á öxlinni á mér í ljósi þess að ég er að fara í ræktina eftir nokkrar mínútur. Því var hafrakaka á boðstólnum. Bjó mér til eina um daginn sem ég frysti. Hafrakakan er þar af leiðandi sérstaklega mixuð og mæld eftir stöðlum og reglum sem máltíð fyrir æfingu. Svona um það bil.
Ef æfingin gengur vel kem ég líklegast ekki til með að geta gengið mikið á morgun en ég læt þetta yfir mig ganga.Það er bara svo hræðilega skemmtilegt að reyna á fæturna - er alltaf jafn stórhrifin af því hvað þeir þola mikið þessi grey.
Hafrakökuna setti ég saman úr 35 gr. höfrum, 1/4 úr banana, 1/2 skeið hreinu próteini, kanil vanilludropum og mjólk, rétt til að bleyta upp í. Ekki of mikið þó. Kökurnar verða rosa skemmtilegar þannig. Bananinn gerir kökuna karamellukennda. Lovit! Inn í örbylgju setti ég 2 frosin jarðaber og hitaði þangað til úr varð hálfgerð sósa og toppaði kökuna með jarðaberjunum, hunangsdreitli og smá létt AB-mjólk.
17. júní kjúklingur og pönnsur hjá mömmu í kvöld. Ég ætla að reyna að mixa eplaköku sem er það holl að leyfilegt er að borða hana í t.d. morgunmat. Hversu æðislegt væri það? Mjög æðislegt! Með henni skal snæða sojaísinn sem ég keypti í gær. Sjáum hvernig það kemur út!
Meginflokkur: Matur og drykkur | Aukaflokkur: Hafragrautur | Breytt 23.9.2010 kl. 21:21 | Facebook
Athugasemdir
Hæ hó jibbí jey frænka mín, hæ hó jibbí jey
Soffia (IP-tala skráð) 17.6.2009 kl. 19:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.