Hunang og kanill - töfralyf?

Ég er ekki týpan til að falla fyrir töfralækningum eða trúa því sem ég les nema grjótharðar sannanir liggi að baki. Ég myndi því segja að ég væri efasemdamanneskja með sveigjanlegu íhugunar ívafi. Ég er því ekki líkleg til að smyrja á mig eggjarauðum og velta mér svo uppúr kanil, bara af því ég las að það myndi lækna kláðann í eyranu á mér! Fyrir utan þá staðreynd að ég kæmi til með að lykta eins og kleinuhringur! Sem er svosum ekkert slæmt...

Mér var bent á heimasíðu um daginn sem tiltekur hvað hunang og kanill, undir sama hatti, geta lagað og/eða betrumbætt hina og þessa kvilla, í réttum hlutföllum þó. Nokkuð magnað. Ekki slæmt að gúlla í sig þessari blöndu og læknast af öllum fjáranum. Uppþembu, krabbameini, lélegri húð, kvefi, hármissi, magaverkjum svo eitthvað sé nefnt. Lykilorðin voru þó að með þessu lækki maður kólesteról og léttist. Sem vakti að sjálfsögðu mína athygli. Drekka blöndu af kanil og hunangi rétt fyrir svefn og svo strax að morgni á tóman maga. Voila, allt betra og mittismálið skreppur saman! Hmmm...

Ég fór að sjálfsögðu að gramslast fyrir á netinu um þetta undur og fann fullt af greinum sem virtust vera sama greinin aftur og aftur ... og aftur. Það væri því fróðlegt að fá að vita hver það er sem kom þessu á blað til að byrja með og hvaðan hann fær þessar upplýsingar.

Cinnamon-diabetes

Kanill er hefur þó löngum verið talinn góður til að halda kvefi í skefjum, magaflensu og öðrum meltingartengdum vandamálum. Einnig hefur það víst verið rannsakað að ef kolvetnaríkur matur er kryddaður með kanil þá kemur hann til með að halda blóðsykrinum í skefjum að auki við þá staðreynd að kanill hefur reynst einstaklingum með sykursýki 2, vel við að bregðast við insúlíninu.

Hunang

Hunang hefur hinsvegar verið notað í mörghundruð ár sem meðal til að lækna hina ýmsustu kvilla. Það þýðir þó ekki að nota sætað, mikið unnið hunang til þess að byrja að hlúa að sárum og leika lækni, heldur þarf hunangið helst að vera ónunnið svo öll ensím og andoxunarefni séu enn til staðar.

Kanill og hunang eru því ágætis afurðir út af fyrir sig og eiga kannski einhvern þátt í því að laga mein sem á okkur mannfólkið herja. Saman eða í sitthvoru lagi - maður veit ekki. Satt eða logið, ég sel það ekki dýrara en ég fann það á internetinu. Elsku besta internet! Dæmi því hver fyrir sig!

Eitt er þó víst að þú veist ekki neitt fyrr en þú hefur prófað sjálfur. Það er því spurning um að snara í sig smá hunangi og kanil af og til. Verra gæti það nú verið, ég meina það!! Þetta er eins og að gefa litlu barni nammi!

Hvort sem ég læknist af magakveisu eða léttist um 60 kíló, þá þykir mér nú einfaldlega best að nota hunang og kanil út á grautinn minn. Eða taka nýristaða, sjóðandi heita beyglu. Stökka að utan, mjúka að innan og smyrja á hana hunangi þannig að það leki ofan í brauðið. Dusta yfir þetta kanil og smá múslí og borða með bestu lyst. Einfalt, þægilegt... ómótstæðilega gott! Fæ mér stundum próteinsjeik og eitt stykki hunangs-kanil gúmmulaðibeyglu strax eftir æfingu, það er, á nammidögum að sjálfsögðu!

Beygla með hunangi, kanil og smá múslí

Ef einhver getur frætt mig meira um þessi mál, endilega láta í sér heyra! Þó sérstaklega einstaklingar sem hafa prófað og geta gefið ráð og óráð!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband