Heilhveiti bananabrauð með hörfræjum og döðlum

Heilhveiti bananabrauð með hörfræjum og döðlumEkki enn eitt bananabrauðið!!

Ó JÚ VÍST!!

Það held ég nú mín kæru! Bananabrauð dettur aldrei úr tísku. Bananabrauð er jafn klassískt og hafragrautur, að minnsta kosti á mínu heimili. Ég er samt vön að gera hafra bananabrauð, mikið sjokk þar finnst ykkur ekki? Þar af leiðandi er þetta svolítið nýtt fyrir mér, en aðferðin og innihaldið er yfirleitt á svipuðum nótum. Ég var líka að reyna að stefna að því að útbúa "hreint brauð". Brauð sem inniheldur engar hnetur, fræ, þurrkaða ávexti... gekk ekki betur en svo að hörfræin og döðlurnar lummuðu sér í degið á síðustu stundu. Það lítur allt út fyrir að það vanti 'hreina brauðs' litninginn í mig. Ég virðist ekki geta búið til brauð nema að fylla það af gleðilegheitum! Það er bara svo gaman að borða brauð sem er ekki silkimjúkt. Bíta í einstaka fræ hér og þar, fyrir utan bragðið sem fræin gefa.

Svo er líka svo yndislega fínt að baka og vesenast í eldhúsinu. Sérstaklega þegar veðrið er svona. Einhver róandi tilfinning sem fylgir því að elda, þó aðallega baka, og maður lifandi, lyktin sem kemur í húsið þegar gúmmulaðið er í ofninum! Ekkert.. sem stenst það. Heimilislegra og notalegra verður það nú ekki! Kúra sig upp í sófa með sæng, húsið ilmar af bökunarlykt sem maður fær að njóta á meðan góð mynd er í gangi í sjónvarpinu og úti er leiðinda veður! Kóósýý!

En jææja, hvernig væri nú að kerlingin hætti að blaðra og sýni gripinn?

Bananabrauð með hörfræjum og döðlum

Heilhveiti bananabrauð með hörfræjum og döðlum1 og 1/4 bolli heilhveiti

1/2 tsk matarsódi

1/2 tsk kanill (ég setti auðvitað aðeins meira)

1/2 tsk salt

1/4 tsk múskat, um það bil, ég raspaði þetta í hveitið

2 - 3 msk hörfræ

10 niðurskornar döðlur

1/2 bolli létt AB-mjólk eða jógúrt

1 eggjahvíta, eða heilt egg og sleppa olíunni

1 msk olía

2 stórir, vel þroskaðir bananar

1/2 tsk vanilludropar

2 msk hunang eða agave.. eða sykur ef vill, þá þarf líklegast aðeins meira af sykrinum

Hita ofn í 175 gráður. Hræra saman þurrt, hræra saman blautt og bæta svo blautu í þurrt. Ég set döðlur í þurra flokkinn og banana í blauta. Ég stappaði bananana frekar gróft þannig að það voru bananabitar í blöndunni. Muna bara að hræra degið ekki of mikið. Inn í ofn í um það bil 60 - 70 mínútur eða þangað til eitt stykki prjónn, sem stungið er í brauðið mitt, kemur út svo til hreinn.

Hvað get ég sagt. Þetta er æðislegt brauð. Ég á svo ægilega bágt með mig í kringum bananabrauð, mér finnast þau svo góð. Ég er því kannski ekki best að dæma, ég veit ekki. Shocking Þetta brauð var með stökka skorpu, þétt, mjúúkt og karamellukennt að innan. Þið sjáið það á þessari mynd, algerlega geggjað. Ótrúlega skemmtilegt bragð af brauðina og múskatið kemur sterkt inn. Gaman að bíta í karamellukennda banana- og döðlubita hér og þar. Ohhhh... namm! Brauð að mínu skapi!

Heilhveiti bananabrauð með hörfræjum og döðlum

Brauðið, þó svo það hafi bara verið 2 msk af hunangi, var alveg nógu sætt fyrir minn smekk. Döðlurnar og bananinn gefa líka mikið sætubragð, sérstaklega þar sem bananarnir sem ég notaði voru orðnir svartari en allt sem er svart. Hörfræin gefa líka skemmtilega áferð og eru auðvitað ó svo holl fyrir skrokkinn. Full af hollri fitu. 

Annars fékk ég mér grænt monster í hádegismat ásamt eggjahvítuköku sem smurð var með salsasósu og gúrku. Monsterið var samansett úr skyri, frosnum banana, 1 bolla af vatni, klökum og spínati. Klikkar ekki. Ótrúlega er þessi drykkur að gera það gott í minni bók. Í sitthvortu lagi var þetta æðisleg máltíð - en jemundur, ég mæli ekki með grænu, ísköldu monsteri og salsasósueggjaköku, undir sama hatti. Igh!

Furðulega samsettur hádegismatur

Á morgun ætla ég svo að baka heilhveiti- kanilsnúða og pönnsur. Verður gaman að sjá hvernig kanilsnúðarnir koma út. Kanilsnúðar eru nefnilega á snobblistanum hjá mér!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Bananas in pajamas are coming down the stairs, 
Bananas in pajamas are coming down in pairs, 
Bananas in pajamas are chased  down and end up in breads, 
'cos on Tuesdays they all gonna be eaten anyways :)

Dossa (IP-tala skráð) 29.5.2009 kl. 16:37

2 Smámynd: Elín Helga Egilsdóttir

Ég er Banni og þú ert Nanni!

Elín Helga Egilsdóttir, 30.5.2009 kl. 13:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband