26.5.2009 | 14:10
Heilhveiti Crepe í hádegismat
Það er nú alveg magnað hversu einfalt það er að hræra í hitt og þetta gúmmulaði. Gleður mig allaf jafn mikið þegar ég get búið mér til einhverja snilld eins og eitt, eða átta, stykki crepe. Þessi uppskrift er ofboðslega einföld og fljótleg, bragðgóð, holl og skemmtileg. Bjó til þessar crepe í dag ásamt meðlæti. Ákvað að ryðjast inn í uppeldisstöðvarnar og gera hádegismat fyrir fjölskyldumeðlimi og einn frænda sem ákvað að sýna sig og sjá aðra.
Fyrir þá sem ekki vita þá er crepe tegund af pönnuköku, stór þunn pönnukaka, sem er yfirleitt fyllt með einhverju gúmmulaði.
Heilhveiti Crepe - 8 stykki
3/4 bolli heilhveiti
1/4 bolli venjulegt hveiti
1 egg, 3 eggjahvítur
1 bolli fjörmjólk. Má alveg nota nýmjólk ef vill, léttmjólk.
Sletta af agave, 1 - 2 ms, eða sykur ef vill.
smá kanill
smá vanilludropar
1/4 tsk lyftiduft, hrært út í degið rétt áður en það er notað
Þetta er nú einfalt. Blanda saman og byrja að elda. Ég geymdi mitt deig reyndar inn í ísskáp í einn og hálfan tíma áður en ég notaði það. Eftir að ég tók blönduna út úr ísskápnum bætti ég lyftiduftinu við. Þessi geymsla kom ekki að sök.
Þar sem crepe pönnukökur eiga að vera stórar og þunnar þá er yfirleitt notuð sérstök crepe panna og spaði til að dreifa úr deginu og gera þær fínar. Þar sem ég er ekki svo vel búin notaði ég bara léttilega spamaða pönnu og spaða. Kökurnar urðu því aðeins minni og þykkari en þær eiga í raun að vera. Sumar tóku líka á sig kolkrabbaform.
Aðrar eins og sólin... eða manneskja með mjög furðulegt hár!
Flestallar heppnuðust þær nú vel og urðu fallegar í laginu, ekki að það skipti máli, þær voru svo ofboðslega góðar! Enn önnur vel heppnuð tilraun! Það held ég nú. Viðstaddir höfðu um tvennskonar uppfyllingarefni, í crepe-inn sinn, að velja. Sætt crepe. Ávextir, kotasæla, kanill, dulce de leche karamellusósa eða...
...kjúklingur, grænmeti, hummus og ostur. Og nei, ég held ég sé ekki að breytast í "Konuna sem kunni bara að elda huummuuus"! Hann er bara svo sérlega fínn í allt svona!
Ég fékk mér tvær crepe, aðra með sætu að sjálfsögðu og hina með ósætu. Báðar voru meiriháttar góðar. Það eru líka endalausir möguleikar á því hvernig best sé að fylla þessar pönnsur. Banani, hnetusmjör, sulta, súkkulaði, hnetur, hummus og ostur, AB-mjólk og ávextir.. æji, þið vitið hvert ég er að fara með þetta. Haamingja!
Hér er önnur snilldin í bígerð, ómæ, sjáið hvað þetta er hræðilega girnó! Kotasæla, jarðaber, hindber og smá kanill.
Hér eru félagarnir saman komnir. Berja crepe og kjúklinga, hummus og grænmetis crepe. Mmmhmm!
Æhj þetta var svo gott. Gaman að borða þessar pönnsur. Teygðust skemmtilega þegar maður var að vefja þeim utan um gúmmulaðið, gaman að bíta í þær og bragðið af þeim ó svo brilliant. Ofboðslega lítið af sykri mín kæru, nánast ekkert. Flókin kolvetni, hollar fitur. Hvert stykki eru um 75 hitaeiningar - það er ekki neitt. Bara ef þið hefðuð nú verið á staðnum og fengið smá smakk! En þið verðið víst að láta myndirnar nægja...
... þangað til þið prófið að búa til svona sjálf! Húrra!!
Meginflokkur: Matur og drykkur | Aukaflokkar: Bakstur, Hádegismatur, Uppáhalds | Breytt 23.9.2010 kl. 21:07 | Facebook
Athugasemdir
Hæ, okkur finnst nú að þú ættir að bjóða okkur í k&k í mat. Hvenær megum við koma
antje (IP-tala skráð) 26.5.2009 kl. 16:03
Þið eruð alltaf velkomnar. Ég finn einhverja fína dagsetningu, svo ætla ég að búa til grænt monster handa ykkur í næstu viku! Leyfa ykkur að smakka ;)
Elín Helga Egilsdóttir, 26.5.2009 kl. 16:20
Pant vera memm :)
Dossa (IP-tala skráð) 26.5.2009 kl. 17:17
Þetta er mögnuð síða. Takk fyrir að deila með þér. Ég held ég hafi aldrei lesið eins skemmtilegt og vel skrifað matarblogg, hef þó lesið þau mörg í gegnum tíðina.
Þú borðar hafragrautinn þinn alveg eins og ég vil hafa minn og ég er sko á leið í BYKO að kaupa mér ísvél, mér hefði aldrei dottið þessi snilld í hug, hvernig þú gerir ís.
Takk fyrir mig!
Elisa (IP-tala skráð) 26.5.2009 kl. 20:53
ég panta líka crepes þegar k&k fá að koma í mat vúhú... og ég er sko að benda öllum á bloggið þitt.. bara snilld.
Sigga Harpa (IP-tala skráð) 27.5.2009 kl. 10:34
Ohh, takk fyrir þessi æðislegu komment. Alltaf svo gaman að sjá hverjir koma í heimsókn, sérstaklega ef það sem ég skrifa hér nýtist einhverjum!
Elísa, takk kærlega fyrir mig sömuleiðis :) Æðisleg að fá svona nótu.
Pottþétt matur á næstunni Sigga, ætla sko ekki að missa út annað "Brunch" tækifæri!
Elín Helga Egilsdóttir, 27.5.2009 kl. 12:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.