14.5.2009 | 10:10
Nammiskápar á öllum vígstöðvum!
Ég hélt ég myndi nú ekki hafa það af í hamaganginum í morgun. Tók rassavélina svoleiðis í bakaríið að undirritið var eins og fullþroskuð plóma á sumardegi í framan! En það er bara flott, það er æðislegt að byrja daginn á smá púli. Ekkert sem mér þykir verra en að vakna "5 mínútur" í vinnu með koddakrumpur í andlitinu og sængina girta ofan í brók! (ekki spyrja hvernig það gerist)
Þið sem ekki þekkið til þá er rassavélin alræmda kölluð "Stigvél" á mannamáli! Ég er búin að djöflast svoleiðs á þessu tæki síðastliðna 6 mánuði - ég er nokkuð viss um að ef ég væri í raun að ganga upp stiga, þá væri ég komin langleiðina út fyrir lofthjúpinn! Ekki slæmt það!
Byrjaði daginn á ljúffengu, æðislega ísköldu og brakandi epli. Mikið geta epli verið góð þegar þau eru góð! Gekk svo galvösk að hafragrautspottinum í vinnunni og bætti smá graut í próteinið mitt ásamt crunchy-hunangsristuðu rúslumúslí! Mikil snilld sem það er!
Komst að því í leiðinni hversu mikil hamingja það er að geta borðað þessa blöndu beint upp úr bolla.
Nammiskápurinn í vinnunni er ekki alveg jafn yndislega ljúffengur og skemmtilegur og sá sem ég á heima. Vinnugumsið samanstendur einungis af próteini, M&M, og nokkrum próteinsúkkulaðistykkjum. Þar með töldu þessu, sem er blanda af súkkulaði, mjúkri karamellu og karamellu ís-kenndri miðju. Ofboðslega hræðilega gott! Svo sætt að maður fær spékoppa á rasskinnarnar en ég fæ bara ekki nóg! Sykurdýrið hið innra ræður í þessum efnum!
Ég borða samt ekki mikið af svona súkkulaðigumsi, en á það til að bíta í eitt og eitt þegar súkkulaðiguðinn kallar! Fyrir þá sem geta gúllað í sig próteini, ég meðtalin, þá er mikil snilld að eiga svona milli mála. Sérstaklega þegar skyr.is er komið á "Ohg... ég get ekki borðað þetta" listann! Svo er Muscle Milk próteinið bara svo gott á bragðið - eins og ís! Sem gleður mitt ísgráðuga hjarta mikið!
En ekki misskilja - það er nákvæmlega ekkert betra en matur. Alvöru matur sem er gott og gleðilegt að bíta í og borða! Hjartað í mér myndi krumpast saman eins og álpappír ef ég þyrfti að broða próteinduft allan daginn, en það er ágætis tilbreyting og fljótlegt "snakk". Ég mæli því hiklaust með að eiga svona falið upp í skáp til að grípa í. Og jújú, það er einn staur í nammiskúffunni - þeir sem finna hann fá eitt hrós!
Svo er barasta einn dagur í laugardaginn og hamborgarann góða. Einn dagur í tveggja vikna sumarfrí og einn dagur þangað til ég get eytt eins miklum tíma í að búa mér til eitthvað gómsætt á hverjum degi eins og ég vil!
Meginflokkur: Matur og drykkur | Aukaflokkar: Hafragrautur, Morgunmatur, Prótein | Breytt 23.9.2010 kl. 21:00 | Facebook
Athugasemdir
Skvo, staurinn er í efra horninu hægra megin. En ég er reyndar með mjög þjálfaðann súkkulaðitracker - fæ ég straur í verðlaun? ;)
Dossan (IP-tala skráð) 15.5.2009 kl. 00:19
Þú mátt meira að segja eiga þennan :)
Elín Helga Egilsdóttir, 15.5.2009 kl. 09:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.