Búlgarskar gesta pylsur og sæt-kartöflusúpa!

Frábært fjölskyldukvöld og matur í stíl!

Var að koma úr einu svaðalegasta fjölskyldu matarboði sem haldið hefur verið hérnamegin alpafjalla - fyrir utan Móaflatar kjúlla fjölskylduboð, en það er saga í annað blogg! Gesta pylsur eru hafðar í þessu bloggi þar sem þetta er fyrsti maturinn sem ég segi frá sem ég geri ekki sjálf! Ég bara varð!

Sumarið góða gengið í garð, heimkoma Búlgaríufara, allskonar smakk, meðlæti og gott fjölskyldufólk með læti! Ekta Spaghettisen Mafioso matarboð! Ahh, gotta love it!

Allir komu með eitthvað sem endaði í mat fyrir 301 fullvaxinn Spartverja og hver bitinn á fætur öðrum betri. Þvílík snilld. Allskonar straumar í gangi. Búlgaríu fararnir litaðir af siðum og venjum Búlgara, grísakótilettur, grillaðar kjúllabringur með sætu kartöflu frönskum og að sjálfsögðu heilsumatur ala-Ella! Fjölhæfur skemmtilegur matur!

Íslenskur Búlgaríumatur, pylsur, salat með búlgörskum osti, grillmatur og vín! 

Pylsurnar í Búlgaríu eru víst mikið gæðafæði og Búlgarar eru mjög alvarlegir pylsuétarar. Þeirra pylsur eru þó ekki eins og okkar SS pylsur heldur hakk-krydd, -pylsur, -kladdar, -bollur. You name it. Svava og Snær komu heim frá Búlgaríu hlaðin góðum hugmyndum og hráefnum. Komu t.d. með ost sem notaður var til að rífa yfir salatið ásamt kryddi sem herrafólk Búlagríu notar í t.d. pylsurnar sínar. Osturinn þurfti að liggja í vatni áður en hægt var að nota hann - mjög saltur en bragðið af honum svakalegt! Sterkur, svolítið þurr en límist samt saman. Alveg meiriháttar!

Búlgarskar pylsur og pylsuþjófur í hægra neðra horni!

Hér er einn fjölskyldumeðlimur að stelast í búlgarskt pylsu-smakk.

Íslensku Búlgaríupylsurnar voru samsettar úr svína- og nautahakki, eggjum, kryddi og leynikryddinu frá Búlgaríu! Hakkið mótað í pylsur og svo smellt á grillið. Mikið svakalega voru þær góðar! Skemmtilegar að bíta í og bragðið frábært. Mjög sterkar! Væri hægt að útfæra þessa máltíð á svo marga mismunandi skemmtilega vegu! Geggjað! 

Pylsur, kjúlli, lettur, teitur og súpa í bakgrunn! 

Hér sást pylsurnar í öllu sínu veldi. Sumar meira að segja eldaðar á pinna. Kjúlli, sætu kartöflu franskar, kótiletturnar og salatið góða með búlgarska ostinum. Súpan góðan að malla í bakrunn. 

Meðlætið góða. Hummsus, salat, brauð og með því. 

Restin af hlaðborðinu. Ristaðar tortilla flögur, bankabyggsbrauð, hummus, salat og dúllerí til að bæta út á salataið. Rauðlaukur, ólívur, auka ostur og smá olía. 

Sæt kartöflusúpa, Bygg brauð og tvennskonar hummus 

Súpan var geggjuð þó svo myndin hérna geri henni kannski engan greiða. Mikið svakalega var hún góð. Ekkert nema hollustan, stútfull af vítamínum og góðum kolvetnum. Þykk og skemmtileg. Fullkominn kvöld- eða hádegismatur - létt og fín!

Sæt kartöflusúpa - æðisleg súpa og æðisleg á litinn!

Byrjaði á því að hita 2 stórar sætar kartöflur í ofni þangað til mjúkar í gegn og sauð niður 1,5 lítra af kjúklingasoði. Á meðan svissaði ég sellerí, lauk og vorlauk í tæpri matskeið af olíu þangað til meyrt. Bætti svo niðurrifnum ferskum engifer út í laukblönduna, cumin og niðurskornum chilli. Lét malla þangað til eldhúsið fylltist af yndislega fínni lykt. Eftir það bætti ég út í pottinn niðurskornum gulrótum og kartöflunum. Hrærði saman þangað til kartöflurnar og gulræturnar voru þaktar kryddblöndunni og bætti þá kjúklingasoðinu saman við. Lét malla í 20-25 mín, eða þangað til gulræturnar voru orðnar mjúkar. Þá hellti ég súpunni í litlum skömmtum í matvinnsluvél og hrærði skammtana, einn í einu, saman þangað til blandan var orðin mjúk. Lét svo súpuna malla á lágum hita og bætti við salti og pipar eftir smekk.

Súpan kom á óvart og heppnaðist æðislega vel. Með súpunni var niðurrifinn ostur, sýrður rjómi, grísk jógúrt og ristaðar furuhnetur. Allt var prófað en gríska jógúrtin var algerlega toppurinn með þessari súpu - himneskt! Smá sýra á móti sætunni í súpunni og kryddinu - engifer, chilli, cumin.. oh djísús! Gerir smá rjómafílíng.... Þessa súpu geri ég aftur!

Bankabyggsbrauð - mjúkt/blautt í miðjunni, þétt, mettandi, trefjaríkt! 

Byggbrauðið var líka æði! Brauð, nákvæmlega eins og ég vil hafa það. Þétt, þungt, bragðmikið, saðsamt og svolítið "blautt". Uppskriftina af brauðinu er að finna hér. Heitir Bankabyggsbrauð. Notaði reyndar ekki nema 4 dl af létt-AB mjólk, af því að það var nægur raki í bygginu. Muna bara að setja brauðið inn í ísskáp, annars er mjög erfitt að skera það. Lítur út fyrir að vera óbakað, en er það ekki. Ekki örvænta - bakaði mitt í góðar 60 mínútur og skar að sjálfsögðu í það strax - mikið vandaverk ef þú vilt að brauðsneiðin líti út eins og sneið en ekki hrúga af byggi! En það tókst! Hollustubomba - trefjaríkt, prótein og fullt af góðum flóknum kolvetnum!

Dossu fannst hummusinn góður! 

Hummusinn er alltaf góður. Notaði hann með brauðinu og ristuðum niðurrifnum tortilla flögum. Milljón uppskriftir til á netinu en ég dass-a þetta alltaf. Kjúklingabaunir, tahini, sítrónusafi, engifer, smá paprikukrydd, salt og pipar eftir smekk og pínku olía. Fer eftir því hvernig áferð þú vilt á hummusinn. Hræra saman í mauk.. og voila! Hummus! Hafði annan helminginn venjulegan og bætti sólþurrkuðum tómötum í hinn - kom vel út. Ójá! 

Sæt kartöflusúpa með jógúrt og osti, kúlli, hummus og grænmeti! 

Svona leit fyrsti skammtur af matnum mínum út. Undir venjulegum kringumstæðum hefði ég látið þetta nægja en nei... meiri súpa, pylsur, narta í hummus... meiri súpa.. hummus... salat... kjúlli... og þá leið yfir mig! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

*roooop*

dossan (IP-tala skráð) 24.4.2009 kl. 00:08

2 Smámynd: Elín Helga Egilsdóttir

dobbla það og bæti við *slurp*

Elín Helga Egilsdóttir, 24.4.2009 kl. 00:09

3 identicon

frábærlega vel heppnað og skemmtilegt ...svo fljölbreytt og fínt. Byrjaði morguninn á yoga te og kökunni þinni góðu ummm...mjög góð ;D Þetta er frábært blogg hjá þér Ella sprella !

Svava (IP-tala skráð) 24.4.2009 kl. 08:26

4 Smámynd: Elín Helga Egilsdóttir

woohoo.. takk fyrir það. Gaman að tala um mat :) Sérstaklega þegar hann er góður, vel heppnaður og ekki skemmir fyrir ef hann er hollustumegin við strikið.

Annars þá var ég að fatta eitt varðandi kökuna - ég gleymdi að setja lyftiduft í hana ;D

Elín Helga Egilsdóttir, 24.4.2009 kl. 09:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband