Gnocchi úr sætum kartöflum og höfrum

Það mætti halda að ég hefði ekkert betra að gera í páskafríinu en að hangsa heima og krassa niður hvað ég er búin að vera að gúffa í mig! En það er einmitt það sem ég ætlaði að nota páskana í. Slappa af, búa mér til góðan og sniðugan mat og sofa!

Allt pastatengt er mikil uppáhalds fæða. Seðjar alla kolvetnaþörf heimsins og er skemmtilegt að borða í leiðinni. Gnocchi er með skemmtilegri fæðu að borða, gúmmíkennt, mjúkt kartöflupasta! Díses, er hægt að biðja um eitthvað betra?

Hef alltaf viljað prófa að búa til gnocchi og gerði það í dag. Ákvað nú samt að prófa að nota hafra og heilhveiti með sætri kartöflu. Þegar bitið er í hafra gnocchi, þá er bannað að hugsa um flauelismjúku skýjahnoðrana sem gnocchi áhugamenn hafa vanist. Það er ekki hjá því komist að viðurkenna að flundurmjúkt skýjagnocchi er að sjálfsögðu langsamlega besta gnocchi sem finnst á þessari jörð... en þetta var bara nokkuð almennilegt! Þétt í sér og sætubragðið af kartöflunni skilaði sér vel! Af því að þetta gnocchi var búið til úr höfrum og heilhveiti þá vó hvert gnocchi um það bil 5 kg - en mér persónulega fannst áferðin æðisleg og gaman að bíta í. Eins og frönsk súkkulaðkaka... mmm!

Gnocchi

1 stór sæt kartafla (tæpir 2 bollar eftir að búið er að stappa hana í muss)

1 eggjahvíta

Kotasæla ef vill

1 bolli muldir hafrar

1 bolli heilhveiti 

Henda teitunni inn í ofn og steikja alveg í spað. Þegar hægt er að stinga prjón í gegnum hana án vandkvæða taka hana út úr ofninu og snúa greyið úr skinninu. Stappa kjötið úr kartöflunni saman við eggjahvítuna og bæta hveitinu út í þangað til blandan er orðin nógu þétt til meðhöndlunar. Það sem ég gerði var að setja allt haframjölið út í og blandaði heilhveitinu við þangað til deigið var hætt að klístrast. Deigið verður appelsínugult á litinn út af sætu kartöflunni - frekar fínt! Kom skemmtilega út.

 Lengjur útbúnar úr deiginu

Þá skal skipta deiginu í fjórar jafnstórar kúlur og rúlla þeim út í um það bil sentimeters þykkar lengjur. Hluta hverja lengju niður í litla búta og gera rákir í hvern bút með gaffli.

 Gnocchi bitar

Sjóða vatn og bæta út í það salti - athuga skal að vatnið þarf að bullsjóða. Setja svo út í pottinn 10 - 15 stykki gnocchi, fer eftir stærð pottsins, ekki mikið fleiri því þá gæti maður kælt vatnið í leiðinni. Þegar gnocchi-ið byrjar að fljóta þá er það reddí og skal hífast upp úr pottinum.

Gnocchi-ið soðið 

Það er hægt t.d. að steikja gnocchi-ið á pönnu en ég skellti því í eldfast mót, reif yfir það kalkúnaskinku, hellti yfir það æðislegri pastasósu og toppaði með smá kotasælu, osti og eggjum.

Yömmó 

Skemmtileg skemmtileg máltíð og sérstaklega bragðgóð. Fullnægði öllum skilningarvitum hvað bragð, áferð, lykt og útlit varðar! Vel heppnað fyrsta gnocchi!

MMhmm 

Svo bara æfa sig meira og búa til "alvöru" gnocchi þegar heilsufíkillinn fer í frí! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband