Akureyri - Glasgow - London - Singapore - Melbourne - Hobart

HOKAY

*Anda inn*

Þvílík heljarinnar ofur atburðarrás ótrúlega ó...heppilegra atvika!

Byrjum á byrjuninni!

Flugfarið var pantað. Þar var ákveðið, af hinum geypilega vel að sér í öllum plan- og ráðleggingum Jens, að velja 10 tíma bið á Heathrow í staðinn fyrir 3ja tíma bið. Því eins og hann sagði "Maður veit aldrei hvað gæti komið fyrir og Heathrow er risi - betra að vera viss en óviss ekki satt?".

Ohhh.... *augnarúll* jú. Ég tek bara með mér teiknidót og eitthvað.

Hvað kom fyrir? Jú... ELDGOS! (augnarúll Elín... virkilega?) Hvorki meira né minna en glænýtt eldgos sem stoppaði alla flugumferð algeimsins í viku. Einni viku fyrir brottför ákvað Ísland að fá smá kvef og frekjaðist til að snýta sér korter í Ástralíuför hjá mér.

HVÍ GUÐ... HVÍÍÍÍ? Gargaði ég og skellti mér á skeljarnar með miklum tilþrifum í mínum sérlega vinnumatsal svo að eggjahvíturn og grænmeti slettust í allar áttir! Einn og einn sagði "pff Elín, það er vika í þetta. Nægur tími fyrir fjallið að spúa". Tveir og tveir sögðu "HAHAHAH...." þeir lifðu það rétt svo af. Upp fór ég úr hádegismatnum með eggjahvítur og ruccola í hárinu og góndi á síðuna hjá Icelandair og Qantas. Ég var helst að vonast til þess að ég gæti breytt tilkynningasíðunni með hugarorkunni einnisaman!

Það gekk ekki!

Ekki nóg með að Icelandair hafði stoppað flug. Quantas var hætt við líka. Það var því ekki nóg á þessu stigi máls að koma sér til Heathrow! Fari það bölvað og kolað alla leið norður og helst aðeins lengra en niður.

Helgin leið og mánudagurinn leit ekki vel út, þriðjudagurinn ekki heldur. Ég var með skeifu niður á rasskinnar og dró handabök með gólfi. Svaraði öllum eins og Eyrnaslapi í Bangsimon og var almennt mjög súr í hjartanu. Ojbara, ég var farin að hlakka svo mikið til.

En þá kom miðvikudagur! Ójá! Góðar fréttir.

Fimmtudagur! Mjööög gott. Enn betra. Qantas farið að fljúga og flugumferð söm við sig. Vikuspádóms vinnufólkið hafði kannski rétt fyrir sér eftir alltsaman? Einn dagur í að ég færi í loftið. Best að nota hann í að plana og pakka og almenna hamingju!

Á fimmtudags kvöldinu hringir Ernan mín í mig og segir "Elín... ertu búin að heyra? Það er búið að loka Keflavíkurflugvelli!!!!!!"

Ég stoppaði í smá stund, annað augað byrjaði að blikka óstjórnlega og hægra munnvikið kipptist til. Svo hló ég geðbilaðslega í um það bil mínútu og eftir það netta hjartaáfallspanikk fékk ég kökk í hálsinn og skeifan lét aftur sjá sig á meðan ég horfði, á mjög dramatískan hátt, út í tómið.

"Elín, askan er að smokra sér yfir Reykjavík svo það getur verið að það verði ekki flogið á morgun. Ég endurtek getur.... verið!"

ÓGUÐ...SVINDL... HVÍÍÍ GUÐ.... HVÍÍÍÍI? (Enginn skeljaskellur eða eggjahvítur í þetta skiptið)

"En þetta er samt allt í lagi...."

EN? "En" er yfirleitt gott! "Allt í lagi" er alltaf betra...

"Það verður flogið frá Akureyri no matter what.... EN"

EN!!! En er ekki alltaf gott - tek þetta til baka!

"En, þú gætir þurft að fljúga til Glasgow og þaðan til London.... EN..."

BWWWAAAAAAA!!!!

"EN... þú kemst pottþétt til London. Bara smá breyting á flugáætlun. Jens ætlar að halda okkur í lúppunni."

Shit shit shit... þetta er ekki að gerast. Þvílíkt alheims ofursvindl og óréttlæti. Hvað er að eiginlega að gerast hérna? Af hverju vill hinn almáttugi Sandalafem með hvíta skeggið ekki hleypa mér af þessu landi? Hverskonar eiginlega andsk... óheppnis karma er þetta? Hlýt að hafa stigið á flugu eða borðað forboðinn ávöxt!

Svona þegar ég hugsa um það þá væri ekki ósennilegt að ég hafi náð að éta alheilagan banana án þess að taka eftir ljósbaugnum í kringum hann!

Daginn eftir fer ég í vinnuna og upphefst mikið púsluspil hringinga frá Ernu og Jensa til skiptis. Ekkert var víst og klukkan var rétt 10 um morguninn. Hjartað í mér var við það að taka heljarflikk út úr bringunni með tilhlaupi! Allar útúrpælingar alheimsins farnar fyrir bý, eitthvað sem mitt planlagða skipulagða sjálf getur illa sætt sig við. Plastbox gott fólk, ég borða í plastboxum.

"Elín, ætla að sjá hvort hægt sé að breyta bókuninni, þá þarftu bara að koma þér til Akureyrar sem er ekki vesen því við erum einmitt að fara á eftir - þú færð bara far hjá okkur. Kannski fer flugvélin í nótt."

Heppilegt ekki satt?

"Elín, hringdu í Icelandair og segðu þeim frá tengifluginu og hvort hægt sé að breyta þessu á auðveldan máta"

"Elín, það er ekki víst að það verði flogið - gæti verið auKaflug frá Kef til Glasgow á morgun"

.

10:45

.

"Elín, aukaflug til Glasgow klukkan 23:00 í kvöld. Mæli með því og þú drífur þig með okkur til AK eftir 3 tíma. Hljómar það ekki flott?"

Ég hélt ég væri í annarri vídd! Get svo guðsvarið fyrir það. Fólk í vinnunni að reyna að tala við mig, ég að spá hvað ég þyrfti að taka með mér því ég var ekki alveg búin að pakka/plana/ákveða/lista. Sokkar, skór, visa, buxur, nammi, segja bless við alla, flugvalladót - díses flíses, ég átti að vera að vinna í rólegheitunum til klukkan 17:00 í dag og fara svo heim, hafa það notó og pakka. Hangsa með famelísen, snuddast.

"Elín, búið að breyta bókunum á þig: AK - Glasgow - London. Geturðu verið reddí eftir 2 tíma? Ef ekki, þá fer rúta klukkan 4 til AK fyrir þetta flug."

En ég er í vinnunni... óguðminngóðurégeraðfátaugaáfall!! Vinnufólkið mitt horfði á mig vorkunnaraugum. Annað augað í átvaglinu við það að poppa út úr höfðinu - og ekki sökum ofáts í þetta skiptið!

"Elín - farðu heim, pakkaðu, kláraðu og skemmtu þér æðislega vel. Viljum ekki hafa þig hérna... út... núna!"

Ég fór heim, pakkaði, keypti smá íslenskt nammi, sagið bless við alla sem ég gat sagt bless við, prentað út nýja flugseðla, athugaði með vegabréfið mitt á 3ja mínútna fresti, keyrði á Akureyri með Ernunni og Jensanum sem björguðu mér í enn eitt skiptið og var boðið, að auki við áður greindar ofurreddingar, kvöldmat hjá foreldrum hans Jensa.

Klukkan 08:30 fékk ég sms frá Ielandair sem sagði:

"Fluginu flýtt til klukkan 22:00"

Foooookk... meiri breytingar. Come on, hætta núna. Þetta er komið gott! En mjög jákvætt að við mættum um kl. 20:00 á Akureyrina. Klukkutími til að borða smá og drífa mig út á völl. Mjög magnað að sjá allar risaþoturnar á flugvellinum. Mikil upplifun. Fólk hvaðanæva að, komast heim til sín, í frí, til Ástralíu. Samansafn af allskonar ferðagúbbum.

Kom svo í ljós að þetta var síðasta flug áður en vellinum yrði bókstaflega lokað. SÍÐASTA FLUGIÐ! DÍSES... KRÆSTMUNDUR! Ég sór þessa eið að hætta að anda almennt um leið og vélin væri komin í lofið. Reyndar ekki sniðugasti eiðurinn til að sverja svona þegar ég hugsa um það.

Og jújú, Jensinn hafði aftur rétt fyrir sér! Ef ég hefði nú ákveðið að bíða með þetta þangað til daginn eftir... hmm haa?

Inn á velli fóru svo allir í tékk inn. Viti menn, þar hitti ég handa Huldu að störfum! Hulda, sem kommentar stundum hérna hjá mér. Ég tók reyndar ekki af okkur mynd því hún var að vinna skvísan en þvílík snilld! Það var æðislegt að hitta hana þarna - hverjum hefði dottið það í hug? Svo gaman að sjá andlitin á bak við nöfnin Smile

Svo var fluginu frestað. Smá kippur í hjartað en að ástæðulausu. Rúturnar sem fóru klukkan 16:00 voru aðeins seinar fyrir því þær gerðu jú ráð fyrir 23:00 flugi + það tók lengri tíma en haldið var í fyrstu að koma öllum i gegnum tékk.

Þá kom að því! Loksins! Út í vél. Við fengum að fara út í vél.

Inn í vél! OK OK.. ekki brosa, ekki blikka... ekki hreyfa þig. Ekki gera neitt jákvætt. Ekki jinxa þetta Elín.

Vél í lofið!

WOOHOOOOOOO!!! PUT ANOTHER SHRIMP ON THE BARBIE MATE!

Svo þegar í loftið var komið og maturinn á leið fram vorum við beðin, af flugfreyjum, að taka tillit til aðstæðna. Mikið ys og þys, allt að gerast og ekki nægur tími til að taka til nægan mat fyrir alla.. hahh! Stórkostlegt. Það hlógu allir í vélinni!

"Ef þið eruð ekki rooosalega svöng, vilduð þið þá vera svo væn og fá ykkur bara snarl?"

Komin til Glasgow! Guð minn góður. Inn á hótel, upp í rúm, rotast!

Sturta!

Heathrow!

Sushi!

Skrifa bloggfærslu og það er 1,5 tími í flug til Singapore!

Guð... minn... góður!

*Anda út* 

Elín, átvagl, áferðaperri, landafjandi. Erna og Jens sögðu þessa helför mína til Ástralíu eins og þátt í 24! "Kemst Elín af landinu eða ekki?"

Á mjög dramatískan hátt, séð úr þyrlu, sést bílinn hjá Ernu og Jensa keyra á 300 km. hraða til Akureyrar með öskuna í baksýnisspeglinum allan tíman. Úr bílnum stekk ég á ferð og inn í vél sem tekur strax á loft. Um leið og dekk vélarinnar lyftast frá jörðinni springur flugvöllurinn í loft upp og eldtungurnar sleikja stélið á vélarófétinu.

Dramatískt með eindæmum!

Erna og Jens aðstoðuðu mig í að panta flugið. Jens bókstaflega reddaði mér til Glasgow - London á meðan ég sat lömuð af heiladauða í vinnunni og jú, þau komu mér til Akureyrar líka. Ekki nóg með það, þá var mér boðið í mat, fyrir langþráð flug, hjá foreldrum hans Jensa! Landafjandi Íslands búinn að slímsetjast á alla og allt sem bestu vinum sínum tengist. Ekki einusinni foreldrar fá frið fyrir mér.

Vinnufólkið mitt er búið að vera mér 100% innan handar síðan ég pantaði farið. Ég er búin að vera andlega "fjarverandi" alla þessa viku sökum stress og almennrar "ómægod þetta er að gerast" - "búið að hætta við öll flug" vegna ferðarinnar og þau sögðu ekki eitt.... orð. Ráku mig svo heim til að redda deginum fyrir flug!

Aumingjans fjölskyldan mín búin að þola alla liti regnbogans hvað varðar skap og atferli undirritaðrar.

Ég hef sagt það svo oft og fæ ekki nóg af því... ég er eitt, heppið, átvagl!

Maður velur sér vini og ég hef valið mér stórkostlegt fólk til að umgangast. Ég er meiriháttar heppin með fjölskyldu og vinnufólk og allir þessir einstaklingar áttu þátt í því að bókstaflega koma mér hingað. Ég náði líka mjög lymskulega, virðist vera, að flækja um það bil alla sem ég þekki inn í þessa svaðilför mína á einn eða annan hátt!

Þið eruð öll yndisleg! Á engin fínni orð sem geta lýst þakklæti mínu, get bara sagt takk og takk fyrir að vera til mín kæru.

Almennilegt mynda og matarblogg væntanlegt á næstu dögum. Ég er þegar búin að borða kanínu, ávaxtaleður, vegamite á ristað brauð og allskonar ástralskt nammi. Matvöruverslanirnar hérna eru... óguð! Engin orð! Þið verðið bara að sjá myndirnar!

Ég veit ekki af hverju, en mig langar sjúklega í lifrarpylsu ákkúrat núna!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Bwaaahahahahaha... ein á útopnu í spennufalli!

Góð lesning, lifði mig alveg inn í þetta og vá hvað ég get trúað að þessir dagar fyrir flugið hafi verið stressandi!

Lára (IP-tala skráð) 28.4.2010 kl. 08:35

2 identicon

Sko mér finnst það alfarið gleymast hvað ég umturnaði skemmtilega handfarangrinum þínum á 11. stundu - um það bil þegar að öskuskýjið var við það að gleypa Jens sem var að troða farangrinum þínum í skottið á Hummerinum (sem var eina faratækið á Íslandi sem gat keyrt í þessum killer aðstæðum)!

Gott að heyra frá yður Frk. Lifrarpylsa (talandi um að vilja það eina sem maður getur ekki fengið  ) og haltu áfram að upplifa ævintýrið!

Lofsja longtæm og knúúúúús

Dossan (IP-tala skráð) 28.4.2010 kl. 08:40

3 identicon

hahahahahah þú ert náttúrulega snillingur Ella  Frábær ferða-svaðilfarar-saga..... og váááá hvað ég er montin að hafa komist á blaði í færslunni

Daginn eftir var ég svo eins og barn sem hafði séð jólasveininn þegar ég sagði við manninn minn....."Veistu hvern ég hitti á flugvellinum??? ha ha ha??? Hana ELLU!!! .... ómæ hana Ellu sem ég er alltaf að skoða bloggið hjá. Hana Ellu sem á heiðurinn af öllum tilraununum í eldhúsinu okkar!!! Ó veistu hún var frábær, knúsaði mig meira að segja.... "     ...."já og svo sá ég líka Gilzenegger...hann er bara ekki eins hávaxinn og ég hélt..."

Frábært að hafa hitt þig og fengið að spjalla smá og kynna mig

Njóttu þín í Eyjaálfunni

Hulda (IP-tala skráð) 28.4.2010 kl. 09:49

4 identicon

shiiii ég lifði mig alltof inní þessa lensingu! ég las með eindæmum hratt, augun voru við það að poppa út og hjartað er enþá að jafna sig.. haha..

mmm get ekki beðið eftir myndum:)

Linda Birgis (IP-tala skráð) 28.4.2010 kl. 10:01

5 identicon

Úfff svitinn lekur af mér...ef þetta fékk brennsluna til að fara á fullt þá veit ég ekki hvað?? Hahaha..ég er meira að segja móð....Þvílíkt stress hjá þér þessa viku...en þess virði, hlakka svo til að sjá myndirnar, er alveg að fá fráhvarfseinkenni að sjá engar. Hafðu það svakalega gott.

dísa (IP-tala skráð) 28.4.2010 kl. 10:45

6 identicon

hólí móses... hetja að hafa meikað þetta..margir hefðu bara hætt við..

góða skemmtun í útlandinu stóra... ójá. matvörubúðinar í útlöndum (usa) eru svakalegar.. þá finnur maður hvað ísl er virkilega lítið..

Heba Maren (IP-tala skráð) 28.4.2010 kl. 11:01

7 identicon

Hahahahah Ella!!!!!!! Þú ert svo brilliant penni :-) Maður er bara mættur í atburðarrásina með þér!

Hafdís (IP-tala skráð) 28.4.2010 kl. 15:53

8 identicon

Þetta er alger snilldarfærsla!! engin smá atburðarás, alveg eins og 24! hehehe

Skemmtu þér ógó vel í Oz, ég bjó í Sydney í nokkra mánuði og það er ÆÐISLEGT að vera þarna.  Endalaust að góðu hráefni :) passaðu þig bara á köngulónum!! :O

Þórdís (IP-tala skráð) 28.4.2010 kl. 19:44

9 identicon

sæll, ég fór actually að anda hraðar af spenning við að lesa þessa færslu :P en það er nú gott aðþú komst á leiðarenda :) skemmtu þér konunglega í Ástralíunni :D

Sylvía (IP-tala skráð) 28.4.2010 kl. 20:55

10 identicon

Vá, hjartað mitt sló hraðar við að lesa þessa færslu: "kemst hún út, eða kemst hún ekki?!" Varð bara mega stressuð, hahaha

Góða skemmtun úti :)

Elín Lóa (IP-tala skráð) 28.4.2010 kl. 22:01

11 Smámynd: Elín Helga Egilsdóttir

Þessi vika fyrir brottför var líka rassgat með meiru! Þvílíkt og annað eins!! Svo þegar allt leit sem best út þurfti askan að stífla allt okkar megin, daginn fyrir flugið. Alveg ótrúlegt karma sem eltir mig á röndum. Svo var líka ekkert víst alla vikuna hvort Qantas kæmist á ról aftur - uppfærði þessar blessuðu síður um það bil 10 sinnum

a dag... woohooo!

Dossa: Já, ætla að lumma mér í lifrarpylsu þegar ég kem heim. Cravingið enn ekki farið.

Hulda: Hahahah... sama hér! Var ekkert smá gaman að hitta á þig! Allt according to plan segi ég nú bara. Ef öskuófétið hefði haldið sínu striki hefði ég aldrei farið í Glasgowflug frá AK, já takk!

Þórdís: Ohh já. Tell me about it. Klæjar í fingurna að vita að ég hef ekki aðgang að þessu eftir mánuð

Og takk fyrir allar kveðjurnar mín kæru - það er alls ekki svo slæmt að vera á hvolfi allan daginn. Gæti vel lifað við þetta!

Elín Helga Egilsdóttir, 29.4.2010 kl. 04:00

12 identicon

Frábær færsla! Ég varð alveg æst og fór að ofanda þó ég hafi vitað hvernig þetta fór! :) Við Jens vorum í spennufalli allt föstudagskvöldið og það var stórkostlegt að sjá þig taka á loft í sólarlagið, náðum einmitt fallegri (en smá óskýrri) mynd af þér að taka í loftið! Fekk alveg ævintýratilfinningu niður í tær!

Þú ert æði! Vonandi er súúúper gaman hjá Euanonstrinu! :)

Knús frá okkur!

Erna (IP-tala skráð) 29.4.2010 kl. 10:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband