25.3.2010 | 06:14
Hafra og hnetusmjörs kókos kökur
Voðalega svipuð hráefni og ég notaði í hafrastangirnar um daginn. Þessar komu samt svolítið á óvart verð ég að segja. Skemmtilega stökkar að utan.
Hafra og hnetusmjörs kókos kökur
1/8 bolli spelthveiti (15 gr)
3/4 tsk matarsódi
dass salt
1 + 1/3 bolli grófir hafrar (133 gr)
1/4 bolli vatn
3 msk eplamauk
1/4 bolli hunang (tæp 70 gr)
2 eggjahvítur (tæp 80 gr) eða 1 heilt egg.
1/2 tsk vanilludropar
1/2 bolli hnetusmjör (130 gr)
110 gr. smátt saxaðar döðlur
1/4 bolli kókosmjöl (25 gr)
1 msk mulin hörfræ (má sleppa)
Hita ofn í 180 gráður.
Setja hveiti, salt og matarsóda í skál og blanda rétt saman. Af hverju ég gerði þetta fyrst er mér hulin ráðgáta. Held það sé fullkomlega leyfilegt að blanda öllu þurru saman ein tveir og bingó!
Mæla einn bolla af höfrum (og já, ég elska bollamálin mín - svaðalega ofurflott og kúl og stál og glansandi)...
...og blanda saman við. Hér setti ég 1/4 bolla af vatni út í hafrahræruna til að mýkja kornið aðeins upp. Leyfði að sitja á meðan ég kláraði að hræra í restina af kökunum.
Næst er gott að blanda saman því blauta. Aftur, elsku bestu, notið stærri skál en þetta - það þarf að hræra í þessu með blandara! Ósætað eplamauk. Þyrfti samt að finna mér ódýrara mauk í meira magni - það er fásinna að kaupa margar svona litlar krukkur. Veit einhver hvar svoleiðis gersemi fæst fyrir ásættanlegt magn af pening?
Mæla þrjár matskeiðar af mauki, mjög fallega, vel og vandlega í skál, vonandi stærri skál en sést á myndinni hér að neðan...
...og bæta út í herlegheitin vanilludropum og hunangi!
Hræra saman, alltaf að hræra saman!
Næst bæta eggjahvítum út í hræringinn og já, hér er skálin er farin að fyllast all verulega mikið!
Gumsið var því forfært í aðeins hentugra form af eldhúsíláti svo hægt væri að dólgast í að hræra það eins og almennilegum villimanni sæmir!
Hræra úr gumsinu líftóruna eða þangað til það verður létt og ljóst. Værir reyndar ágætt að hræra saman hunangið og eggjahvíturnar, bæta svo eplagumsinu og vanilludropunum við það. Prófa það næst.
Þarnæst kemur skemmtilegi hnetusmjörsparturinn. Ég eeelska hnetusmjör og hnetur og möndlur og...
...krukkan tóm! Tadaaa!!!
Fullkomin skál fyrir næsta hafragraut ekki satt?? Ekkert nema hamingja að borða grautinn upp úr tómum hnetusmjörskrukkum og skafa úr botninum þegar gleðin er að klárast... ohhhgg!! Mæli eindregið með því!
Bæta hnetusmjöri út í eplamauks-eggjahvítublönduna og jú...
...hræra saman.
Áferðin verður um það bil svona... sjáið þið ekki stórkostlega vel hvernig hún er? Kemur skýrt og skilmerkilega fram! Um það bil eins og hnetusmjörið sjálft nema gumsið er mýkra og rennur úr skeiðinni.
Hafrar gripnir með offorsi og kynntir fyrir hentusmjörsblöndunni, döðlurnar bíða mjög spenntar þarna í bakgrunn.
Formlegri kynningu lokið.
Döðlurnar gerðar tilbúnar fyrir samrunann ásamt kókosgumsi. Kókosinn þarf þó engan undirbúning. Svo skemmtilega vill til að búið er að saxa hann niður fyrir oss!
Bætt út í hafragumsið góða og vitið þið hvað? Hrært sman! Hohoo... Svo fann ég mulin hörfræ sem ég ákvað að nýta úr því ég rakst svona skemmtilega á þau! Ein matskeið beinustu leið ofan í herlegheitin!
Svo plastaði ég skálina og lét bíða yfir nótt. Ágætt að láta bíða í svona 3 - 5 tíma svo hafrar nái að mýkjast og bragð/hráefni að krumsast saman, en þar sem klukkan var orðin margt þá nennti ég svo sannarlega ekki að hinkra eftir því.
Daginn eftir var gumsið tilbúið til uppskúbbunar og áröðunar. Reif skálina galvösk út úr ísskáp þegar ég kom heim seinna um daginn og elsku fólkið mitt! Þetta deig gæti ég étið allt beinustu leið upp úr skálinni - svaaaðalega gott á bragðið!
Notaði amerísku littlu ísskúbbuna mína sem smákökumótunartól! Elska hana! Átti reyndar ekki bökunarpappír ótrúlegt en satt. Nýtti mér því álið og smurði það aðeins með olíu áður en ég kom kökunum fyrir.
Áraðað, fínt og fallegt. Allir í beinni línu! Hip hip hip!!
Ég kramdi kökurnar líka rétt niður með gaffli áður en ég stakk þeim inn í ofn. Þær dreifa sér lítið sem ekki neitt. Hér er sumsé ein dýrðin fyrir bakstur....
...og eftir! Um það bil 15 mín. eftir ofnferð. Fer eftir ofni hvers og eins. Barasta þangað til fallega gylltar.
Allir saman út úr ofninum!
Kökurnar sem voru innst í ofninum bökuðust aðeins betur en þær sem framar sátu. Að mínu mati voru þær sem meira voru bakaðar betri og krumsaðri (stekkri). Þær sem voru þynnstar/minnstar laaangsamalega bestar. Eins og karamella! Mmhmmm!!
Úr þessu bjó ég til 22 kökur. Hægt að hafa þær minni/stærri nú eða taka þetta alla leið og bara búa til eina risastóraofurmassaköku!! Af hverju veit ég ekki, en það gæti orðið gaman og án alls efa gaman að borða!
Einhver sem býður sig fram í að gera neglurnar á undirritaðri fínar aftur?
Næringargildi pr. köku uþb.
Kcal: 94, Prótein: 3 , Fita: 4 , Kolvetni: 13 , Trefjar: 2
Niðurstaða:
Þegar ég smakkaði fyrstu kökuna glænýja út úr ofninum þótti mér hún heldur bragðlaus og dauf miðað við hamingjuna sem deigið var. Eftir að dýrin kólnuðu þá urðu þær aðeins bragðmeiri og sérdeilis aldeilis fínar að mínu mati. Virkilega skemmtileg áferðin á þeim, sérstaklega þessum sem urðu aðeins þynnri/minni. Þærðu stökkari og skemmtilegri undir tönn en samt smá mjúkar inní. Döðlurnar karamelliseruðust líka svo skemmtilega í kanntana. Ef ykkur þykir slíkir sjóhattar góðir þá er um að gera og minnka/þynna kvekendin. Gleðileg áferð og fínt bragð. Passa að þær brenni ekki í botninn.
Hvað myndi ég gera öðruvísi næst?
- Pottþétt krydda með einhverju skemmtilegu. Kanil að sjálfsögðu, negul, anís?, eitthvað sniðugt og aðeins meira salt. Rífa út í þetta sítrónu eða appelsínubörk?
- Nota meira af döðlum - jafnvel mauka þær, kannski súkkulaðibita, rúslur, þurrkaða ávexti, fræ.
- Er ekki viss hvort ég myndi sæta meira, en það er spurning að prófa það... hmmm.
- Jafnvel setja aðeins meira af kókos.
Verður eitthvað næsta skipti?
Já það held ég nú. Þótti þær ofurfínar til að narta í!
Meginflokkur: Matur og drykkur | Aukaflokkar: Bakstur, Snarl og pill | Breytt 24.9.2010 kl. 13:17 | Facebook
Athugasemdir
mmmm þessi verður pott þétt prófuð !
Karen (IP-tala skráð) 25.3.2010 kl. 09:36
En hvað með eplamús, hún er í stórum krukkum og kostar ekki mikið
Vala Árnadóttir (IP-tala skráð) 25.3.2010 kl. 09:36
Er eplamúsin ósætuð.. eða án viðbætts sykurs? Reyni yfirleitt að komast hjá því ef kostur er á
Elín Helga Egilsdóttir, 25.3.2010 kl. 09:47
Man það ekki nákvæmlega held hún sé nokkuð hrein.
Vala Árnadóttir (IP-tala skráð) 25.3.2010 kl. 10:39
http://graenihlekkurinn.is/verslun/index.php?main_page=index&cPath=7
Eplamauk án sætubætu.
Daníel (IP-tala skráð) 25.3.2010 kl. 10:58
Daníel: Ach so! Snilld! Ég þangað! Bestu þakkir fyrir þetta
Elín Helga Egilsdóttir, 25.3.2010 kl. 11:04
Þú ert svo dýrleg!! Setja inn uppskrift kl 6 í morgun!! Um blánótt :)
En girnilegar eru þær og ég ætla að prufa - ertu að nota svona kökur sem millimál?
Einvera (IP-tala skráð) 25.3.2010 kl. 11:36
Svo má kannski bara gera sitt eigið eplamauk og frysta:
http://cafesigrun.com/uppskriftir/?ufl=13#uppskrift_358
Þóra (IP-tala skráð) 25.3.2010 kl. 12:45
Það væri allt í góðu að fá sér eina svona í milli með einhverri próteinafurð, jafnvel í morgunmat með skyri
Nú eða bara baka í staðinn fyrir smákökur ;)
Elín Helga Egilsdóttir, 25.3.2010 kl. 13:15
Oh já! Ég var einmitt að spá í að gera eplamauk um daginn. Bæta út í t.d. engifer og svona. Ohhhoho...
Það skal prófað!
Elín Helga Egilsdóttir, 25.3.2010 kl. 13:16
ohmmm nohmm - virkar delisíjös! Bíð spennt eftir að prófa gúmmelaðið
En hérna .. hvar færðu svona ágæt bollamál?
kv. Ásta
Ásta (IP-tala skráð) 25.3.2010 kl. 13:34
Keypti þessi sérdeilis fínu í Kokku fyrir nokkru síðan. Þau eru elskuð og dáð af undirritaðri!
Elín Helga Egilsdóttir, 25.3.2010 kl. 15:07
Þúsund þakkir
Ásta (IP-tala skráð) 25.3.2010 kl. 15:50
Það var nú mest lítið mín kæra
Elín Helga Egilsdóttir, 25.3.2010 kl. 15:57
En hvar fær maður svona fínar eggjahvítur í flösku?
Gerður Sif (IP-tala skráð) 25.3.2010 kl. 21:45
Þær fást hjá Garra heildverslun. Setti link á síðuna þeirra hérna vinstramegin hjá mér.
Elín Helga Egilsdóttir, 25.3.2010 kl. 21:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.