16.3.2010 | 19:30
Hnetusmjörs- og hafrastangir
Stangir, skífur, þynnur, kex...
Langaði svo að prófa. Eins einfalt og það gerist og smá skammastrik - notaði sykur. En það er ekkert mál að skúbba honum út fyrir t.d. meira af döðlum eða hunangi. Gerir gumsið bara svo skemmtilega stökkt. Er hvort eð er ekki mjög hrifin af "gervisykri". Ef sætt skal éta, sem er ekki í formi þurrkaðra ávaxta ofr, þá skal það sykur vera!
Ég notaði n.b. ekki allt sem fram kemur á myndinni hér að neðan. Aprikósur og agave voru skilin útundan.
Hnetusmjörs- og hafrastangir, 10 stk
40 gr. muscovado sykur (má alveg nota púðursykur, hunang, agave)
50 gr. hunang
1 stappaður banani (eplamauk...)
2 tappar vanilludropar
dass af kanil
50 gr. smátt skornar döðlur
150 gr. grófir hafrar (eða venjulegir rauðir solgryn)
Hita ofn í 175 gráður.
Setja hnetusmjör í örbylgjuörugga skál og gera eitt stykki banana tilbúinn til stöppunar.
Hita hnetusmjer þannig hægt sé að hræra í því, 30 - 40 sek, og stappa bananadýrið. Svo fínir á litinn svona bananar!
Bæta út í hnetusmjörið sykri, hunangi, kanil og vanilludropum...
...ásamt bananaketi! Hræra saman og gera sig klára(n) í að grípa hafrana!
Hræra saman við hnetusmjörsblönduna höfrum. Ef þið viljið gera þetta mjög krefjandi, og aðeins flóknara en þörf er á, notið minni skál en þið sjáið á myndinni hér að neðan!! Hinsvegar, þá er ekkert skemmtilegra en að hræra villimannslega í klísturgumsi sem þessu. Þá væri líka hægt að bæta döðlunum út í á sama tíma! Ef pent og krúttaralegt er þinn stíll, þá eru smáskálar algerlega málið!
Saxa niður döðlurnar og skella þeim saman við!
Þar sem öll bökunarform á heimilinu eru svo gott sem milljón árum of stór ákvað ég í neyð minni að spinna. Ekki nakin í þetta skiptið. Bjó til þetta líka fína form úr álpappír. Voila... virkaði flott.
Setja gumsið í formið...
...dreifa úr og þrýsta svolítið á.
Inn í ofn í 20 mín, eða þangað til fallega gyllt.
Láta kólna vel/alveg áður en eiginlegur skurður fer fram.
Næringargildi pr. stöng
Hitaeiningar: 160, Prótein: 4, Fita: 5, Kolvetni; 23 - þar af sykur, 4, Trefjar: 3
Niðurstaða:
Þunnar skífur, stífna vel upp í bakstri, þéttar og eru alveg stökkar og krumsaðar í kanntana. Karamellukenndar og allur pakkinn - enda dálítið af sykri í þeim, en þó ekkert til að æpa yfir. Hægt að baka í minna formi og hafa þykkara en þá verða þær líka aðeins mýkri. Eru mjög skemmtilegar undir tönn "chewy". Fullkomið til að nota sem skeið og skúbba upp próteini/skyri. Jafnvel mylja út á graut nú eða borða sem "Guð - ég verð að fá mér eitthvað sætt" snakk. Skera smærra og súkkulaðihúða helminginn, velta upp úr kókos - nota sem snakk í barnaafmælum? Nei segi nú sonna...
Hvað myndi ég gera öðruvísi næst?
- Prófa að mylja smá af höfrunum smátt eða nota rauðu solgryn.
- Bæta út í gumsið kókos - ójá! Það væri æði.
- Hnetur/möndlur/fræ - til að frá smá crunch og kram.
- Jafnvel lifa hættulega og bæta smá dökkum súkkulaðibitum við!
- Nota stærri skál!
Verður eitthvað næsta skipti?
Já, er ekki frá því að ég prófi þetta aftur með meiri tilfæringum. Er ekki sannfærð um að ég vilji bæta þessu á uppskriftalistann - kannski einhver sem vill prófa og kommenta? Betrumbæta og fullkomna
Meginflokkur: Matur og drykkur | Aukaflokkar: Bakstur, Holla fitan, Snarl og pill | Breytt 24.9.2010 kl. 13:10 | Facebook
Athugasemdir
If it ain´t broke, don't fix it.
Hungradur (IP-tala skráð) 16.3.2010 kl. 20:05
úff þetta ætla ég pottþétt að prófa :)
en fyrir okkur bökunarheftu píurnar, hvað notar maður mikið af agave ef maður vill skipta sykrinum út?
Sylvía (IP-tala skráð) 16.3.2010 kl. 20:23
Ég myndi nota jafn mikið af agave og sykrinum í uppskriftinni. Hinsvegar, þá verða stangirnar aðeins minna sætar fyrir vikið (sem er gott og blessað, þessar eru nokkuð sætar) og þú gætir þurft að bæta aðeins meira af höfrum við gumsið. Jafnvel mylja þá smá niður ef þú ert að nota tröllahafra, af því að þú ert að skipta út "hörðu" efni fyrir "mjúkt".
Svo gætirðu jafnvel prófað að saxa döðlur/apríkósur/fíkjur mjög smátt, næstum í mauk, og notað það í staðinn? Ég er að spá í að prófa eitthvað svoleiðis næst
Elín Helga Egilsdóttir, 16.3.2010 kl. 20:32
Dásamlega girnilegt og fagmannlegt að sjá. Ætli þetta gæti líkst hafraklöttunum sem maður fær í Hámu á Háskólatorgi? Ef maður hefur þetta þykkara og ef og ef og ef... Myndirnar hjá þér gera þetta svo girnilegt að maður verður æstur í að prófa en ég er samt ekki búin að rífa fram bökunarform. Kommon, svo æst varð ég nú ekki!
Nanna Gunnarsdóttir (IP-tala skráð) 16.3.2010 kl. 21:27
aaahhh þetta ætla ég að prufa annaðkvöld ..... nema rúsínur í stað fyrir döðlur og mjög líklega agave í staðinn fyrir sykur .... djís get ekki beðið eftir að fá að borða þetta með vanilluskyri ... jömmmí !! eeeelska hnetusmjör btw tíhí
Kristín (IP-tala skráð) 16.3.2010 kl. 21:27
flott framtak. prufa þetta handa viðhenginu og hösbandinu...
Heba Maren (IP-tala skráð) 16.3.2010 kl. 21:41
Skammturinn sem ég gerði i gær er amk búinn núna. Systir mín kær sá alfarið um þá útrýmingu!
Elín Helga Egilsdóttir, 16.3.2010 kl. 21:42
ummmm girnilegt...prófa þetta
Jóna Lind (IP-tala skráð) 16.3.2010 kl. 22:12
Gaman að sjá þetta - ég hef verið í svona tilraunastarfsemi og nota helst múslí. Helst með miklu af höfrum. ( Coop múslíið úr Nettó verður helst fyrir valinu ) Ég muldi múslíið í matvinnsluvélinni síðast og 8 ára strákar voru hrifnir af því.
Ég hitaði allt blauta gumsið - hunang, maukaða þurrkaða ávexti, smjör og smá suðusúkkulaði í örbylgjuofninum - setti svo harða efnið úr í og hrærði saman, Setti það svo í form og lét þorna/harðna. Bakaði ekki.
Ætla að prófa næst með banana eða eplamauki, setja í muffinsform og baka í smá stund - fæ vonandi hollan og góðan bita í skólanestið .
Húsmóðir, 17.3.2010 kl. 12:12
Úhh.. hljómar vel. Svona stangir eru alltaf skemmtilegar, hægt að gera um það bil það sem maður vill
Elín Helga Egilsdóttir, 17.3.2010 kl. 15:59
er með eitt svona í ofninum núna....get ekki beðið þar til ég get smakkað :) Takk fyrir frábæra uppskrift
Ásdís (IP-tala skráð) 17.3.2010 kl. 20:16
Jasoh!! Ég vona bara að þetta gleðji væri líka gaman að heyra hvað þér finnst. Hvað mætti betur fara ofr.
Elín Helga Egilsdóttir, 17.3.2010 kl. 20:25
Sæl Elín Helga.
Ég segi eins og aðrir hér að ofan...gat ekki staðist mátið og skellti í eina svona dýrð í dag....viti menn...ég gleymdi sykrinum!!! .....en það gerði bara minnst til....þetta varð algert góðgæti sem fékk ekki frið fyrir neinum hér á heimilinu og þ.m.t. tveir stubbar sem eru 5 og 6 ára :) og ég sleppti reyndar kanil líka(viljandi) ....langaði mikið til að setja kókos útí en fattaði svo að hann var ekki til...planið að prófa það næst.
Segðu mér...er einhv. staðar hér á síðunni þinni leiðbeiningar frá þér hvernig gott er að gera hummus? kem ekki auga á það :}
Svo fer nú að koma tími á þína eigin útgáfu á uppskriftabók...það væri óneitanlega þægilegt að hafa þetta allt í einni bók og geta flett henni spjaldanna á milli og prófað og prófað .....hefur þér ekki dottið það í hug?
Takk fyrir frábærar hugmyndir og þrælskemmtilegan lestur.
Margrét (IP-tala skráð) 17.3.2010 kl. 21:41
Sæl Margrét mín
Gaman að heyra að þér líkaði vel. Svona "stangir" bjóða líka upp á svo mikinn sveigjanleika í hráefnavali og eigin útfærslu. Æðislegt að heyra með lillurnar. Bara flott.
Er reyndar ekki með uppskrift af hummus. Það sem ég geri yfirleitt, ef ég bleyti ekki upp í þurrkuðum kjúklingabaunumd deginum áður, er að kaupa niðursoðnar. Henda í blender með salti/pipar/hvítlauk/smá sítrónusafa og hræra úr gumsinu líftóruna og krydda með t.d. paprikukryddi í endann. (smoked paprika) Ef þú átt tahini þá er gaman að nota það með - ég geri það ekki alltaf. Stundum set ég örlítið af ólífu olíu til að mýkja upp í gumsinu, fer eftir því hvernig áferð þú vilt fá á hummusinn. Sumir nota safann af baununum í staðinn fyrir olíuna. Svo bara um að gera og leika sér. Búa til sterkan og/eða sætan hummus. Grilla papriku og mauka með, grilla lauk og mauka með. Leika sér með krydd (fersk- þurrkuð), nota kanil eða hunang eða myntu eða mikinn sítrónusafa eða... og borða með ávöxtum. Ferskari kostur. Gvöðmöndur ... ég elska hummus!
Ég veit nú ekki hvort þetta hrip mitt hérna sé uppskriftarbókarvert, almáttugur.
Best þakkir fyrir Margrét, ég er alveg í skýjunum núna
Elín Helga Egilsdóttir, 18.3.2010 kl. 09:34
Ég er ein af þeim sem er orðin fastagestur hér inni og ætla bara að segja að ég yrði klárlega með þeim allra fyrst sem myndi fjárfesta í uppskriftabók þinni ef hún kemur út! Ekki spurning! :)
annars langar mig að spyrja þig að einu sem ég veit að þú hefur margoft verið spurð að en ég man ekki svarið :/ ..hvar kaupiru Sci tech próteinið? Einhvern tíman pantaði ég það hjá Sigga í vaxtaræktinni fyrir norðan og hann sendi mér það bara í póst, er það enn eina leiðin til að kaupa dýrðina?
María (IP-tala skráð) 18.3.2010 kl. 10:38
María: Átvaglinu er orðavant. Takk fyrir það María mín
En já, Siggi og Vaxtaræktin - það er málið með kálið. Ætla einmitt að fara að fá mér nýjan skammt. Er með augastað á hvítu súkkulaði!!
Elín Helga Egilsdóttir, 18.3.2010 kl. 10:51
Mæli með Hvitu súkkulaði... sóðalegur fjandi ;)
Ragnhildur Þórðardóttir, 18.3.2010 kl. 15:20
Jæja nú er ég líka búin að prófa..... setti Agave-sýróp í staðinn fyrir sykur, smá Scitech súkk/kókos (20 gr bara til á móti bleytunni í sýrópinu), eplamauk í staðinn fyrir banana og döðlur, fíkjur og apríkósur, smátt skorið. Gerði svo "smá"kökur úr þessu..... kemur mjög vel út....mmmmmm Mjög gott mjög gott ýmislegt sem kemur á óvart í hverjum bita. Eina sem má kannski breyta næst er að hafa þær ekki svona þykkar, þ.e. kremja kúluna meira.
Takk fyrir allar hugmyndirnar.
..... já og ég kaupi bókina ..... styð það að þú og Ragga (hinn umsátursbloggarinn minn ) gefið út biblíu fyrir okkur sem erum ekki alveg jafndugleg að halda okkur á beinu brautinni.
Hulda (IP-tala skráð) 18.3.2010 kl. 15:28
Ég bara varð að kommenta. Ég gerði þetta í gær, alveg eftir uppskriftinni og þú færð 2 þumalputta upp! Dreifði deginu mjög vel, varð mjög þunnt - þar af leiðandi krispí og æðislegt að bíta í. Eins og karamella í miðjuna. Vá!
Ég borðaði eina stöng í morgun með skyri og bláberjum, notað hana eins og þú stingur uppá, eins og skeið Bara gaman og bara GOTT!
Takk fyrir mig!
Rannveig (IP-tala skráð) 18.3.2010 kl. 15:40
En gaman að fá að heyra hvernig ykkar útfærslur voru og hvernig ykkur líkaði! Gleður mig mjög!!
Hulda: Snjallt að nota próteinið og þurrkuðu ávextina! Ætla að tilraunast með eitthvað svipað næst!
Það eru þá amk komnir 3 sem myndu fjárfesta í gripnum
Rannveig: Þær eru nefnilega assgoti skemmtilegar með skyrinu! Myndi einmitt gera næsta skammt þynnri og sjá hvort þær verði ekki alveg krispí!
Takk kærlega fyrir mig elsku bestu! Þið eruð alveg ómetanleg
Elín Helga Egilsdóttir, 18.3.2010 kl. 21:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.