Færsluflokkur: Ferðalög
9.9.2010 | 09:49
Ástralía 1 - Ísland 1
Útlendingurinn kom og hann fór. Hann naut Íslandsins í botn og ég svoleiðis stútfyllti mannin, og sjálfa mig, af allskonar bjóði og óbjóði. Honum, og maganum á mér, til ævarandi hamingju og gleði þó.
Hr. Jújú: "Hvað er þetta... má borða það... oj Elín ekki með sjöri... mmm, kanilsnúður".
Efst á lista Ástralans:
Mömmumatur - smokkfiskurinn bara det beste som er ásamt ómynduðum pönnsum ofl.
Ég ætlaði út með hann að borða en hann bað, mjög auðmjúkur, um smokkfiskinn hennar mömmu í staðinn. Hann fékk því smokkfiskinn í tvígang.
Fjöruborðið.
Pulsur - enginn steiktur eða hrár. Bara sósurnar ásamt kókómjólk.
Skyr - græna vanilluskyrið sökum vanillukorna. Ef hægt er að kalla mat "sexy" þá þykir þessum kokki matur, sem inniheldur alvöru vanillukorn, mjög svo kynþokkafullur.
Danska kirsuberjasósan með risalamande!
Kanilsnúðar, ásamt kókómjólk.
Appelsín.
Íslenskt smjör.
Nóa Kropp.
Daim - ekki íslenskt, en elskað og dáð af herra Nýja sjálandi.
Hann gaf ekki mikið fyrir:
Lunda, lyfrarpylsu og blóðmör, harðfisk, sviðasultu og án efa eitthvað annað sem ég man ekki í augnablikinu. En borðaði það samt sem áður.
Svo fékk ég þær fréttir í gær að til hans hafi komið einstaklingur frá Bretlandi, færandi hendi, með þurrkaðan Steinbít og sagði "Ég er hérna með glænýtt smakk frá Íslandi, þetta er ofursmart og exotískt í eldhúsið hjá þér maður". Jújú horfði á gumsið mjög svo snöggt og snarlega, góndi svo á Bretann, hló pínkulítið, og bað hann vel að lifa. Þessi ófögnuður ætti hvorki heima í hans sérlega eldhúsinu eða upp í áströlskum munnum.
Takk fyrir það. Íslenskur harðfiskur tekinn og snúinn niður á ljóshraða.
Ofurát og ofurskemmtilegheit eru þó að baki. Virkilega gaman að upplifa landið ljúfa kæra í gegnum óundirbúin(n) augu/eyru og maga. Skemmtilegra en ég átti von á - borðaði hinsvegar jafn mikið og ég átti von á. Ótrúlega gleðilegt að taka át-letifrí með lærðum kokki, get svo svarið það, átvaglið naut þess í blússandi botn.
Hr. Jújú: "Hvernig ætli.. hmm.. örugglega smá paprika í þessu ooooog... " *smjatt* "...chilli..." *smjatt* "...hefur samt líklegast verið látið sitja í pottinum í allan dag, ekki vont, en gæti verið betra".
Átvaglið: :D
10 dagar síðan ég hreyfði á mér rassinn. Ég er búin að éta eins og bestía og ég grínast ekki með það. Þetta var ein... stór... veisla... í 10 daga. Held ég hafi náð að gúlla jafn miklu og ég gerði á meðan ég var í Ástralíunni, get svo svarið það, og *gleði* hvað átvaglið hafði það ljúffengislega fínt.
Verður samt notalegra en brakandi hrein rúmföt að komast aftur í spriklið. Fór af stað, galvösk, í fyrradag. Tók einn intvervalhring og hélt ég myndi ekki hafa það af. Já lömbin mín, þetta er fljótt að láta sig hverfa. Það er því bannað að halda að maður geti verið duglegur í 2 mánuði, éta og vera latur í 10 daga, og taka upp hanskann þar sem frá var horfið. Oneiiii...
...tekur smá tíma að ná þessu upp aftur, en ef þú byrjar um leið og át-tíðin er yfirstaðin, þá tekur það skemmri tíma en það tæki ef þú tækir þér t.d. eina auka átviku sökum leti. Sparkaðu í rassgatið á sjálfri(um) þér og komdu þér aftur í gírinn. Jííhaaaw.
Nú verður þessi mánuður tekinn með tvöföldu trompeti, interval og Bootcamp í bland við almenna hamingju og EKKERT sukk næstu 3 vikurnar. Jebb. Ég er búin að éta nóg. Reyndi meira að segja að éta útlendinginn...
...það gekk illa. Vantaði allan kanil á hann.
Ferðalög | Breytt 24.9.2010 kl. 21:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
30.8.2010 | 10:45
Íslenskur túrhestur
Hverjum hefði dottið það í hug hvað það er gaman að upplifa allskonar íslenskt í gegnum eitthvað ekki íslenskt eins og nýsjálenskan kokk frá Ástralíu?
Nýsjálenskur kokkur frá Ástralíu?
Allaveganana með banana.
Meðal annars búið að tækla Reykjavikina og nágrenni, Þingvelli, smá Mosó og Esjuna, Perluna, Heiðmörk, Keflavíkurmall. Núna er það Hurdygurdy og nágrenni, Gullfoss og Geysir, I forgot my yogurt ofr. Mikið að gera því tíminn er naumur. Stikla á stóru yfir það helsta á meðan útlendingurinn er hérna.
Bláa Lónið - kannski. Ekki mikið spennó fyrir Nýsjálending. Hann hló smá þegar ég sagið honum frá þessu "Ahh.. við erum með svona í bakgarðinum".
Lítið um orð, meira um myndir, mest um át. Ekki liðin vika og ég hef þegar étið þyngd mína í pylsum, feitu hrossakjöti, soðbrauði, nammi, mömmumat, pönsum, Móaflatarkjúlla....
...kleinum, flatkökum, hangikjöti, kæfu, íslenskum mjólkurafurðum...
...og margt, margt og mikið meira. Enn á eftir að tækla lunda, hákarl og fleira í þeim dúr. Igh.
Gvöðmöndur góði hvað ég hlakka samt til að komast aftur í rútínuna og hreyfa mig. En sjeise bitte hamingja og hvalaskoðun hvað það er ógeðslega gaman að upplifa íslenskan mat/menningu á þennan hátt!
Ætla að njóta þess á meðan ég hef löglega afsökun til og éta þangað til augun poppa út úr höfðinu!
Hér er svo brota, brota.. brota brota brot af öllu því sem á daga mína hefur drifið síðan 25.08.
Höggva svo mann ok annan!!!
Ferðalög | Breytt 24.9.2010 kl. 21:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
23.6.2010 | 23:16
Feiknarfrí og vorbeljur
Þetta... var eitt... gott... frí! Jahérna!
Stundum þarf maður bara á letipúkanum að halda, svei mér þá. Margt og mikið búið að gerast síðan í apríl. Margt og mikið í vændum. Þar af leiðandi hef ég velt fyrir mér engu og öllu og viti menn - ekki komist að augljósri niðurstöðu - eins og almennilegum fílósífer sæmir!
Er það ekki stórkostlegt?
Er hinsvegar byrjuð að drekka kaffi eins og enginn sé morgundagurinn! Unglambið að fullorðnast eða hvað? Sporðrenni hverjum lítranum á fætur öðrum. Gott eða ekki - ég er ekki viss. En átvaglinu þykir það með eindæmum unaðslegt. Hér kemur svo mynd af fyrsta kaffibolla undirritaðrar! Fyrsta kaffibollanum í 26 ár takk fyrir danskurinn! Jah, takk fyrir ástralinn kannski meira viðeigandi - þurfti hvorki meira né minna en heila Ástralíuferð til að koma dýrinu upp á bragðið!
Af hverju er þetta svona merkilegt? Jú - því froðan svaðafína sést hér vel og í hana skrifaði ég að sjálfsögðu sjálfhverft E!
Já, en af hverju svona merkilegt ungfrú Elín? Nú - af því að ég kláraði kaffið!
Og af hverju er froðan svona svaðafín?
Af því að kaffidrykkjan sívinsæla byrjaði á svaðafínni froðu og skeið!
Án efa besta leið til að "drekka" Cappuccino. Ég segi það satt! Var hinsvegar litin horn- og forvitnisaugum trekk í trekk af áströlskum kaffisnobbum sökum froðuáts. Bað ítrekað um auka froðu í bollann minn til þess eins að gúmsla henni í trýnið á mér.
Froðan hefur enn ekki yfirgefið systemið og á sérstakan stað í hjartanu. Ein froða á dag kemur þó engu í lag nema áferðaperranum!
Froðufíknin var svo sterkt á tímabili, og nú tala ég eins og alvön lífsreynd til margra ára kaffidrykkjukona, að kjammsað var á baðfroðunni í freyðibaði til þess eins að halda geðheilsunni. Ég lét þó snarlega af þeirri iðkun þegar ég var farin að prumpa sápukúlum...
...nei ég segi nú sonna!
Hvernig atvikaðist þó kaffidrykkja hjá einstakling sem ekki gat hugsað sér bragð af kaffi í öðru en Tiramisu?
Í stuttu:
Cappucino froða -> kakó + kaffi -> latte + kaffi -> latte + 2*kaffi -> kaffi + smá mjólk -> svart og sykurlaust takk! Nú er það bara espresso eða short black sem bíður mín handan við hæðina.
"Hvað sagði Tarzan þegar hann sá fílana koma yfir hæðina????"
Ahh - fæ ekki nóg af þessum brandara!
Ástralía olli ekki vonbrigðum Snúbbarnir mínir. Maturinn ekki heldur og vinur minn kokkurinn Euan átti svo sannarlega þátt í að gera þessa ferð að mikilli át-fiestu! Guð minn góður og allir englarnir! Það segist hér með, skrifast, svart á hvítu og staðfest af alheilögum anda - ég hef aldrei... aldrei nokkurntíman á ævinni borðað jafn mikið á einum mánuði og Ástralíumánuðinum! Þvílík endemis andskotans hamingja fólkið mitt - afsakið orðbragðið! Hér er svo brota... brota brota brot!
Tilkynnist svo hérmeð að besti ávöxtur í sólkerfinu er fundinn. Feijoa! Vex bara á Nýja Sjálandi - bragðast eins og Húbba Búbba. Ég grínast ekki!
Annað í Ástralíufréttum - Kisar detta ekki á bakið ef maður missir þá, klósettvatnið snýst réttsælis, brimbrettagaurar eru nákvæmlega eins og í bíómyndunum og allir ástralir segja "mate".
Meira um það seinna!!
Jæja. Hvað hef ég gert síðan ég kom heim?
Varð vitni að einu svaðalegasta íslenska sólarlagi sem ég hef augum litið í langan tíma!
Fékk mér tvö ný göt í eyrun. Með þessu áframhaldi verður ekkert eftir af þessum vesalingum!
Fór ég beint í ræktina? Beint að hreyfa mig? Beint að borða vel valið prótein og almennileg kolvetni?
Nei það held ég nú aldeilis ekki gott fólk!
Þar sem mitt líf er svo gott sem búið að vera opið öllum til góns og gláps ákvað ég að taka mér dágott andlegt-, blogg-, matar og hreyfifrí! Ahhhh! Endurnærð, uppfærð og tilbúin í svakaleg átök í sumar! Undirrituð búin að vera að "passa" sig jú, en "PASSA" sig. Látum það vera. Borða það sem ég vil borða, en þó innan skynsemismarka. Það er ekkert nema dásamlegt.
Er þó komin í fjórða gír aftur. Tek smá frí frá lyftingum og sveittum speglasal og ætla prófa Bootcampf núna í sumar - nýta góða veðrið og útiveruna. Ætla að byrja að lyfta aftur, ásamt Bootcamfinu, í júlí og sjá hvert það leiðir mig. Þol og almennt úthald er langt fyrir neðan velsæmismörk og smáhlaup skilur skvísuna eftir í slefpolli og óæskilegum kippum sem herja á alla útlimi. Einstaka sinnum ná kippirnir upp í hægra auga. Það er ó svo falleg sjón mín kæru - falleg, falleg sjón. Verður gaman að sjá hvernig ástandið á undirritaðri verður í september. Þá byrja lyftingarnar aftur á fullu.
Hohh.. gaman að breyta smá til. Gleðilegt að hafa farið til Ástralíu! Gott að vera til!
Mikið ofboðslega er veðrið búið að vera fallegt í dag! Mér líður eins og vorbelju!
Nú þegar ég hef skriftað - hver vill koma út með mér og hoppa með rassinn upp í vindinn og trýnið á ská? Ekki fussa á það fyrr þú þú hefur prófað. Sérlega gleðilegt. Sérstaklega þegar maður getur fiktað í ketti í og með.
Þangað til næst! Verð góð hvert við annað og njótið þess að vera til.
Ferðalög | Breytt 24.9.2010 kl. 13:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
3.5.2010 | 01:23
Mite, vegemite...
...alveg magnað hvað ég er orðin húkkt á þessu saltgumsi!
Búin að vera hálf slöpp undanfarið. Er það ekki guðdómlega týpískt og undursamlega yndislegt eitthvað sem bara kemur fyrir mig? Jú... ójúvíst. Alveg magnað - ekkert hræðilegt, en nógu fúlt til að vilija bara vera heima undir sæng og góna á sjónvarp.
Sem ég hef að sjálfsögðu ekki gert!
Allavega. Hvað er ég ekki búin að prófa að borða og smakka og narta í... og láta elda ofan í mig? Fátt býst ég við. Er aðallega í smakkinu núna. Ef ég finn nýtt súkkulaði þá kaupi ég það til átu, bara af því. Ef ég sé nýtt bakaríisgums, jebb, þá kaupi ég það bara til að éta. Melbourne á fimmtudaginn, þar verða veitingastaðir og niðurgrafnar, sveittar steikarbúllur rannsakaðar af mikilli kostgæfni.
Þurrkað kjöt, að sjálfsögðu. Væri fullkomið fyrir íslenskan vaxtaræktar ofurmarkað. Segi það satt. Prótein, prótein, prótein og lítil sem engin fita. Ágætis tilbreyting frá harðfisk, þó svo hann sé æðitið fínn. Þetta er alveg hið ágætasta smjatt skal ég ykkur segja.
Tassie laxinn sívinsæli. Alveg eins og... jah... okkar lax? Hvað get ég sagt! Ég hoppaði ekki í hringi og sá regnboga og hvolpa!
ELLA... NO!
ELLA... YES! Öfug sálfræði alla leið, upp og aðeins á ská! Nei, þetta var ekkert spes, en enginn segir mér að ég megi ekki bíta í súkkulaði!
Pom wonderful! Eitthvað sem ég hef rekist á trekk í trekk í rápi mínu á netinu og hahh - það var smakkað, það var gott, það var ekkert til að missa hár og tennur yfir. En ég gæti alveg ímyndað mér að nota þetta í góða djúsí hressandi fressandi sumardrykki!
Ohhh svo þessi fíni fíni ávöxtur. Sjáið hvað hann lítur eitthvað "evil" út!. Eins og lítið dýr! Hann er æði!
Heyrið þið hann ekki urra??
Úúuúú!
Hlaupkennt, djúsí, dísætt, þétt...
Ohhh búið!
Passion fruit! Því krumpaðri sem hann er því þroskaðri er hann víst. Þá vitið þið það - þeir sem við komumst í heima eru ofþroskaðir. Eins og brúnn banani eða mjölepli!
Lítur nú ekki passionlega út greyið. Hverjum hefði dottið í hug að jafn ljótur ávöxtur og þessi væri svona svakalega, hræðilega, grátlega bragðgóður! Þetta er það besta sem til er út á jógúrt! Ég segi ykkur það. Morgunmaturinn minn, síðan ég mætti á svæðið, samanstendur af jú, jógúrti, bláberjum, passion fruit innihaldi og hnetumulning!
Jebb, ég hef komið mér vel fyrir hérna! Sett mark mitt á heimili aumingja Euan! Hann sogast hægt og rólega inn í átvaglsheiminn - hægt ... vægt til orða tekið! Óholla hornið! Ójööah!
Holla hornið!
Hann sagðist líka aldrei hafa átt svona mikið af mat á "lager" og núna. Svosum ágætt að hafa mikið af mat til að friða átvaglið þegar hungrið byrjar að segja til sín. Færa matarterroristanum fórnir. Samt nokkuð skondið að kokkurinn sjálfur sé ekki að kafna í hráefnum. Skiljanlegt svosem. Hann borðar allan daginn rjómasósur, ofurpasta, eðalgúrmeylaxa og kjöt. Fyrst núna sem hann er farinn að fá sér morgunmat - hahh!! Segið svo að átvaglið hafi ekki ágætis áhrif.
Ekki hægt að segja að þetta sé mikið per se... hmm haa? Pff! Hef nú séð það stórkostlegra sko
Á laugardaginn var túrisinn leiddur í gegnum Salamanca markaðinn hérna í Hobart. fullt af allskonar sniðugu að sjá þar eins og búmerang (mjög merkilegt fyrir Íslendinga), ofurleðurhatta, heimagert nammi, olíustanda, fatahorn, matargúrmey og det hele og jú... BRATWURST! Naaaaasty bratwurst með sveittum svissuðum lauk, sinnepi, tómatsósu... you name it! Euan greip sitt sérlega laugardags bratwurst og ég guggnaði.
Ég fékk mér pizzu! Sjáið bara hvað hún leit girnilega vel út. Svo fín og sæt.
Hún var því miður eins og að bíta í plast og Euan aumkaði sér yfir mig og gaf mér bita af sveittustu pylsu hérnamegin Eyjafallajökuls! Göndullinn (afsakið orðbragðið)... var... æði! Ojbara hvað pylsan var sveitt og ofur! Næsti laugardagur mín kæru, þá fæ ég mér mitt eigið, sveitt, bratwurst!
Mjög fallegt hérna í Hobart.
Ég keypti líka "Kiss biscuit" til að eiga með kaffinu. Hindber eru mikið notuð í allt í heiminum í Ástralíu og kiss biscuit er með hindberjasultu inn á milli og hindberjakremi ofaná. Að sjálfsögðu. Hún var svakalega ofursæt - spékoppar á rasskinnarnar sæt, en það er einmitt ákkúrat eitthvað fyrir mig! Mmhmm!
Jebb... meira kaffi! Hverjum hefði dottið það í hug? Reyndar er þetta meira eins og heit mjólk með kaffi... keim! En þannig byrjar þetta er það ekki? Ég verð orðin kaffisnobb í lok maí, vitið til!
Sjáið svo bara! Einkar heppilegt að eiga svona vini ekki satt? Eftir langan labbidag og túristalega hluti hafði, ótrúlegt og engin lygi, matur fram hjá mér farið svo gott sem allan daginn. Plastpizzur og nammi gagnast skrokknum víst lítið til lengri tíma. Þegar átvaglið fer svo að grenja á mat þá lifnar kokkurinn við, svuntar sig, hnífar og voila!
Ég fylgdist mjööög vel með öllu sam átti sér stað í þessari blessuðu máltíð og veiheiii hvað það var gaman. Var eins og lítil barn. Aumingjans maðurinn líka hræðilega duglegur að segja apanum mér allan tímann nákvæmlega hvað hann var að gera og af hverju þetta og hitt væri gert svona og svona. Hann bjó til besta lauk/beikongums í algeimi. Rjómakennt og bjútifúl með ferskum kryddjurtum. Æðislegt með kjúlla. Ofnsteikt grænmeti, sem varð af einhverjum ástæðum alveg krispí og karamelló að utan en mjúkt að innan. Meira að segja sætu kartöflurnar.
Næstum því ekkert til, hélt ég. Einmitt! "Úhhhúhúuu Ella, hér eru kartöflur, skulum gera svona og svona og þetta og hitt og hægri, vinstri og smá svona til að gera þær fullkomlega krispí að utan, eitt hopp og heljasnúningur, salt, timian, inn í ofn, smá olía.. húhh.. hahh...riverdance - Ella, ertu að ná þessu?" Jebb! Núna kann undirrituð leyndarmál til að gera bestu, krispý ofnbökuðu kartöflur í heimi og hjálpimérallirheilagirkartöfluandar!! Þær voru algerlega fullkomnar þessar!
Einföld máltíð, ekkert sem ég hefði ekki getað gumslað saman en hvað áferð og bragð varðar, þá var þetta bara det beste som er mine venner! Óguðminngóður! Litlir hlutir eins og smáá dropi af dijon sinnepi ákkúrat í þetta horn með twisti - ég dey!!
Það er gott að vera ég! Jebb, það er bara gott að vera ég!
Jæja, farin út í sólina. Ætla að túristast í bænum í dag og finna nýja ísbúð sem opnuð var í síðustu viku - get ekki beðið eftir því að leyfa ykkur að sjá hana. Hún er svaðaleg!! Hihiii!
Ferðalög | Breytt 24.9.2010 kl. 13:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
29.4.2010 | 03:51
Nýtt smakk... ný smökk
Þetta var útsýnið mitt síðasta föstudag!
Þetta var útsýnið mitt síðasta laugardag!
Þetta er útsýnið mitt núna!
Allskonar nýtt smakk búið að eiga sér stað! Af hverju maður á heima á Íslandi er ofar mínum skilningi ákkúrat núna. Jú, þetta gæti mögulega verið mjög órökrétt og ömurleg röksemdafærsla en... matvöruverslanir hér, hráefni, verð! Ég fer í fýlu! Reyndar, hmm hmm þá er nokkuð dýrt, ef ekki svipað, að vera íslendingur í Ástralíu þessa stundina. Stoppar samt ekki hráefnið í að vera ofur!
Euan eldaði handa mér kanínu með kartöflustöppu og svissuðu grænmeti við heimkomu. Gleymdi reyndar að taka mynd af herlegheitunum sökum hungurs en vá hvað hún var góð. Gæti verið allur flugvélamaturinn sem ég hafði svolgrað en þessi máltíð var æði. Hef þó komist að þeirri niðurstöðu að kanína bragðast mjög svipað og svínakjöt.
Næst tók á móti mér smá gjöf frá mister Euan. "Ávaxtaleður". Þetta er æði!! Berjatímabilið var að klárast í þarsíðustu viku og vegna þessa þá eru berja afgangarnir nýttir í svona líka fínt nart.
Ber eru marin, örlítið af sykri bætt við (mjög lítið) og þetta látið leka út á plötu sem síðan er kastað inn í þurrkofn. Voila! Ávaxtaleður!
Næfurþunnt! Eins og blað. Rífur af eitt stykki og borðar. Uhh væri hægt að nota þetta í svo mikið og margt sniðugt ég ætla ekki einusinni að ræða það! Vinur hans Euan hló mikið að mér þegar hann komst að því hvað mér þótti þetta eðal spennandi. Ég er eins og lítið barn hérna!
Vegamite!
Að sjálfsögðu fékk ég mér vegamite á brauð. Það er kakóduftslykt af því en brimsalt á bragðið. Furðuleg blanda en það svínvirkar fyrir mig. Bragðast í raun eins og kavíarinn í kreistutúpunum heima - þessi appelsínuguli sem maður fékk sér á brauð sem krakki. Nú, eða át beint úr túbunni. Verður hinsvegar að smyrjast þunnt á gott, gróft, fjölkorna brauð. Miiikið atriði!
Smakkaði líka mína fyrstu Eplaperu! Peruepli! Perepla? Æðislegur ávöxtur sem heitir Nashi. Sambland á milli, jah, jú.. peru og eplis, meiri pera og þvílíkt djúsí. Búin að lifa á þessu undanfarið. Þetta er það sem krakkar frá Nýja Sjálandi borða í morgunmat á leið í skólann... týna þetta beint af trjánum! Greyin!
Úúúhh... svo smakkaði ég líka nýtt jógúrt. Elska að skoða mjólkurvöruhillurnar í útlandish. Jógúrt útbúið úr kindamjólk! Það er schnilld!!! Skilur eftir svolítið sterkt bragð. Smá hlaupkennt, en samt nokkuð þykkt. Mjög skemmtilegt og áferðin alveg að mínu skapi. Ohhh það er svo gaman að komast í eitthvað svona glænýtt og fínt.
Svo eru það matvöruverlanirnar, ostabúðirnar, pínkulitu kitrurnar sem enginn veit af nema hinir allra hörðustu. Sjáið þetta bara!
Og þetta er "lítil" verslun mín kæru og bara brotabrot af því sem þarna var. Hefðuð átt að sjá kjötborðið og mjólkurvöru/ostaúrvalið. Allt organic, Fair trade, sykurlaust... fnah fnah! Þvílíkt endemis ógeðslegt svindl!
Hohh, sjáið svo hvað ég fann fína pastasósu! Leggos! Það sem Dossa frænka kallar mig stundum!
Já, svona er maður nú sjálfhverfur. Þykir stórkostlegt að finna eitthvað erlendis sem maður getur bendlað við sjálfan sig - þó sérstaklega nafnið sitt!
Hey, svo drakk ég minn fyrsta kaffibolla.
Ekki það að ég hefði ekki getað gert það á Íslandinu. Þótti þetta bara svo svaðalega frásögu færandi!
En ég kláraði hann... og líkaði aðeins of vel! Gott eða slæmt. Hef ekki ákveðið það ennþá!
Bumblebee! Jebb. Kaffi og bumblebee = himnaríki! Skjannahvítt deig með karamelliseruðum möndlum og eggjarauðu vanillubúðingskremi! Guð minn góður!
Hann á heiður skilið fyrir að benda mér á þetta kombó!
Fór svo í smá búðarferð í dag og keypti allskonar af allskonar. Þurrkað kjöt og ofurgranolastangir, hnetur, Tassie lax ofl. Meira um það á næstunni! Er annars að borða þetta núna.
Glænýtt kalkúnakjöt beint frá slátraranum með salati og LÉTT KOTASÆLU! Ha Ísland.... LÉTT... KOTASÆLA!
Ferðalög | Breytt 24.9.2010 kl. 13:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
28.4.2010 | 04:40
Akureyri - Glasgow - London - Singapore - Melbourne - Hobart
HOKAY
*Anda inn*
Þvílík heljarinnar ofur atburðarrás ótrúlega ó...heppilegra atvika!
Byrjum á byrjuninni!
Flugfarið var pantað. Þar var ákveðið, af hinum geypilega vel að sér í öllum plan- og ráðleggingum Jens, að velja 10 tíma bið á Heathrow í staðinn fyrir 3ja tíma bið. Því eins og hann sagði "Maður veit aldrei hvað gæti komið fyrir og Heathrow er risi - betra að vera viss en óviss ekki satt?".
Ohhh.... *augnarúll* jú. Ég tek bara með mér teiknidót og eitthvað.
Hvað kom fyrir? Jú... ELDGOS! (augnarúll Elín... virkilega?) Hvorki meira né minna en glænýtt eldgos sem stoppaði alla flugumferð algeimsins í viku. Einni viku fyrir brottför ákvað Ísland að fá smá kvef og frekjaðist til að snýta sér korter í Ástralíuför hjá mér.
HVÍ GUÐ... HVÍÍÍÍ? Gargaði ég og skellti mér á skeljarnar með miklum tilþrifum í mínum sérlega vinnumatsal svo að eggjahvíturn og grænmeti slettust í allar áttir! Einn og einn sagði "pff Elín, það er vika í þetta. Nægur tími fyrir fjallið að spúa". Tveir og tveir sögðu "HAHAHAH...." þeir lifðu það rétt svo af. Upp fór ég úr hádegismatnum með eggjahvítur og ruccola í hárinu og góndi á síðuna hjá Icelandair og Qantas. Ég var helst að vonast til þess að ég gæti breytt tilkynningasíðunni með hugarorkunni einnisaman!
Það gekk ekki!
Ekki nóg með að Icelandair hafði stoppað flug. Quantas var hætt við líka. Það var því ekki nóg á þessu stigi máls að koma sér til Heathrow! Fari það bölvað og kolað alla leið norður og helst aðeins lengra en niður.
Helgin leið og mánudagurinn leit ekki vel út, þriðjudagurinn ekki heldur. Ég var með skeifu niður á rasskinnar og dró handabök með gólfi. Svaraði öllum eins og Eyrnaslapi í Bangsimon og var almennt mjög súr í hjartanu. Ojbara, ég var farin að hlakka svo mikið til.
En þá kom miðvikudagur! Ójá! Góðar fréttir.
Fimmtudagur! Mjööög gott. Enn betra. Qantas farið að fljúga og flugumferð söm við sig. Vikuspádóms vinnufólkið hafði kannski rétt fyrir sér eftir alltsaman? Einn dagur í að ég færi í loftið. Best að nota hann í að plana og pakka og almenna hamingju!
Á fimmtudags kvöldinu hringir Ernan mín í mig og segir "Elín... ertu búin að heyra? Það er búið að loka Keflavíkurflugvelli!!!!!!"
Ég stoppaði í smá stund, annað augað byrjaði að blikka óstjórnlega og hægra munnvikið kipptist til. Svo hló ég geðbilaðslega í um það bil mínútu og eftir það netta hjartaáfallspanikk fékk ég kökk í hálsinn og skeifan lét aftur sjá sig á meðan ég horfði, á mjög dramatískan hátt, út í tómið.
"Elín, askan er að smokra sér yfir Reykjavík svo það getur verið að það verði ekki flogið á morgun. Ég endurtek getur.... verið!"
ÓGUÐ...SVINDL... HVÍÍÍ GUÐ.... HVÍÍÍÍI? (Enginn skeljaskellur eða eggjahvítur í þetta skiptið)
"En þetta er samt allt í lagi...."
EN? "En" er yfirleitt gott! "Allt í lagi" er alltaf betra...
"Það verður flogið frá Akureyri no matter what.... EN"
EN!!! En er ekki alltaf gott - tek þetta til baka!
"En, þú gætir þurft að fljúga til Glasgow og þaðan til London.... EN..."
BWWWAAAAAAA!!!!
"EN... þú kemst pottþétt til London. Bara smá breyting á flugáætlun. Jens ætlar að halda okkur í lúppunni."
Shit shit shit... þetta er ekki að gerast. Þvílíkt alheims ofursvindl og óréttlæti. Hvað er að eiginlega að gerast hérna? Af hverju vill hinn almáttugi Sandalafem með hvíta skeggið ekki hleypa mér af þessu landi? Hverskonar eiginlega andsk... óheppnis karma er þetta? Hlýt að hafa stigið á flugu eða borðað forboðinn ávöxt!
Svona þegar ég hugsa um það þá væri ekki ósennilegt að ég hafi náð að éta alheilagan banana án þess að taka eftir ljósbaugnum í kringum hann!
Daginn eftir fer ég í vinnuna og upphefst mikið púsluspil hringinga frá Ernu og Jensa til skiptis. Ekkert var víst og klukkan var rétt 10 um morguninn. Hjartað í mér var við það að taka heljarflikk út úr bringunni með tilhlaupi! Allar útúrpælingar alheimsins farnar fyrir bý, eitthvað sem mitt planlagða skipulagða sjálf getur illa sætt sig við. Plastbox gott fólk, ég borða í plastboxum.
"Elín, ætla að sjá hvort hægt sé að breyta bókuninni, þá þarftu bara að koma þér til Akureyrar sem er ekki vesen því við erum einmitt að fara á eftir - þú færð bara far hjá okkur. Kannski fer flugvélin í nótt."
Heppilegt ekki satt?
"Elín, hringdu í Icelandair og segðu þeim frá tengifluginu og hvort hægt sé að breyta þessu á auðveldan máta"
"Elín, það er ekki víst að það verði flogið - gæti verið auKaflug frá Kef til Glasgow á morgun"
.
10:45
.
"Elín, aukaflug til Glasgow klukkan 23:00 í kvöld. Mæli með því og þú drífur þig með okkur til AK eftir 3 tíma. Hljómar það ekki flott?"
Ég hélt ég væri í annarri vídd! Get svo guðsvarið fyrir það. Fólk í vinnunni að reyna að tala við mig, ég að spá hvað ég þyrfti að taka með mér því ég var ekki alveg búin að pakka/plana/ákveða/lista. Sokkar, skór, visa, buxur, nammi, segja bless við alla, flugvalladót - díses flíses, ég átti að vera að vinna í rólegheitunum til klukkan 17:00 í dag og fara svo heim, hafa það notó og pakka. Hangsa með famelísen, snuddast.
"Elín, búið að breyta bókunum á þig: AK - Glasgow - London. Geturðu verið reddí eftir 2 tíma? Ef ekki, þá fer rúta klukkan 4 til AK fyrir þetta flug."
En ég er í vinnunni... óguðminngóðurégeraðfátaugaáfall!! Vinnufólkið mitt horfði á mig vorkunnaraugum. Annað augað í átvaglinu við það að poppa út úr höfðinu - og ekki sökum ofáts í þetta skiptið!
"Elín - farðu heim, pakkaðu, kláraðu og skemmtu þér æðislega vel. Viljum ekki hafa þig hérna... út... núna!"
Ég fór heim, pakkaði, keypti smá íslenskt nammi, sagið bless við alla sem ég gat sagt bless við, prentað út nýja flugseðla, athugaði með vegabréfið mitt á 3ja mínútna fresti, keyrði á Akureyri með Ernunni og Jensanum sem björguðu mér í enn eitt skiptið og var boðið, að auki við áður greindar ofurreddingar, kvöldmat hjá foreldrum hans Jensa.
Klukkan 08:30 fékk ég sms frá Ielandair sem sagði:
"Fluginu flýtt til klukkan 22:00"
Foooookk... meiri breytingar. Come on, hætta núna. Þetta er komið gott! En mjög jákvætt að við mættum um kl. 20:00 á Akureyrina. Klukkutími til að borða smá og drífa mig út á völl. Mjög magnað að sjá allar risaþoturnar á flugvellinum. Mikil upplifun. Fólk hvaðanæva að, komast heim til sín, í frí, til Ástralíu. Samansafn af allskonar ferðagúbbum.
Kom svo í ljós að þetta var síðasta flug áður en vellinum yrði bókstaflega lokað. SÍÐASTA FLUGIÐ! DÍSES... KRÆSTMUNDUR! Ég sór þessa eið að hætta að anda almennt um leið og vélin væri komin í lofið. Reyndar ekki sniðugasti eiðurinn til að sverja svona þegar ég hugsa um það.
Og jújú, Jensinn hafði aftur rétt fyrir sér! Ef ég hefði nú ákveðið að bíða með þetta þangað til daginn eftir... hmm haa?
Inn á velli fóru svo allir í tékk inn. Viti menn, þar hitti ég handa Huldu að störfum! Hulda, sem kommentar stundum hérna hjá mér. Ég tók reyndar ekki af okkur mynd því hún var að vinna skvísan en þvílík snilld! Það var æðislegt að hitta hana þarna - hverjum hefði dottið það í hug? Svo gaman að sjá andlitin á bak við nöfnin
Svo var fluginu frestað. Smá kippur í hjartað en að ástæðulausu. Rúturnar sem fóru klukkan 16:00 voru aðeins seinar fyrir því þær gerðu jú ráð fyrir 23:00 flugi + það tók lengri tíma en haldið var í fyrstu að koma öllum i gegnum tékk.
Þá kom að því! Loksins! Út í vél. Við fengum að fara út í vél.
Inn í vél! OK OK.. ekki brosa, ekki blikka... ekki hreyfa þig. Ekki gera neitt jákvætt. Ekki jinxa þetta Elín.
Vél í lofið!
WOOHOOOOOOO!!! PUT ANOTHER SHRIMP ON THE BARBIE MATE!
Svo þegar í loftið var komið og maturinn á leið fram vorum við beðin, af flugfreyjum, að taka tillit til aðstæðna. Mikið ys og þys, allt að gerast og ekki nægur tími til að taka til nægan mat fyrir alla.. hahh! Stórkostlegt. Það hlógu allir í vélinni!
"Ef þið eruð ekki rooosalega svöng, vilduð þið þá vera svo væn og fá ykkur bara snarl?"
Komin til Glasgow! Guð minn góður. Inn á hótel, upp í rúm, rotast!
Sturta!
Heathrow!
Sushi!
Skrifa bloggfærslu og það er 1,5 tími í flug til Singapore!
Guð... minn... góður!
*Anda út*
Elín, átvagl, áferðaperri, landafjandi. Erna og Jens sögðu þessa helför mína til Ástralíu eins og þátt í 24! "Kemst Elín af landinu eða ekki?"
Á mjög dramatískan hátt, séð úr þyrlu, sést bílinn hjá Ernu og Jensa keyra á 300 km. hraða til Akureyrar með öskuna í baksýnisspeglinum allan tíman. Úr bílnum stekk ég á ferð og inn í vél sem tekur strax á loft. Um leið og dekk vélarinnar lyftast frá jörðinni springur flugvöllurinn í loft upp og eldtungurnar sleikja stélið á vélarófétinu.
Dramatískt með eindæmum!
Erna og Jens aðstoðuðu mig í að panta flugið. Jens bókstaflega reddaði mér til Glasgow - London á meðan ég sat lömuð af heiladauða í vinnunni og jú, þau komu mér til Akureyrar líka. Ekki nóg með það, þá var mér boðið í mat, fyrir langþráð flug, hjá foreldrum hans Jensa! Landafjandi Íslands búinn að slímsetjast á alla og allt sem bestu vinum sínum tengist. Ekki einusinni foreldrar fá frið fyrir mér.
Vinnufólkið mitt er búið að vera mér 100% innan handar síðan ég pantaði farið. Ég er búin að vera andlega "fjarverandi" alla þessa viku sökum stress og almennrar "ómægod þetta er að gerast" - "búið að hætta við öll flug" vegna ferðarinnar og þau sögðu ekki eitt.... orð. Ráku mig svo heim til að redda deginum fyrir flug!
Aumingjans fjölskyldan mín búin að þola alla liti regnbogans hvað varðar skap og atferli undirritaðrar.
Ég hef sagt það svo oft og fæ ekki nóg af því... ég er eitt, heppið, átvagl!
Maður velur sér vini og ég hef valið mér stórkostlegt fólk til að umgangast. Ég er meiriháttar heppin með fjölskyldu og vinnufólk og allir þessir einstaklingar áttu þátt í því að bókstaflega koma mér hingað. Ég náði líka mjög lymskulega, virðist vera, að flækja um það bil alla sem ég þekki inn í þessa svaðilför mína á einn eða annan hátt!
Þið eruð öll yndisleg! Á engin fínni orð sem geta lýst þakklæti mínu, get bara sagt takk og takk fyrir að vera til mín kæru.
Almennilegt mynda og matarblogg væntanlegt á næstu dögum. Ég er þegar búin að borða kanínu, ávaxtaleður, vegamite á ristað brauð og allskonar ástralskt nammi. Matvöruverslanirnar hérna eru... óguð! Engin orð! Þið verðið bara að sjá myndirnar!
Ég veit ekki af hverju, en mig langar sjúklega í lifrarpylsu ákkúrat núna!
Ferðalög | Breytt 24.9.2010 kl. 13:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
11.12.2009 | 00:40
Útlönd eru góð, heima er best
Hellú mín kæru!
Eins glimrandi fínt og það er nú að komast í frí, fara til útlanda og brjóta upp rútínuna þá er ekkert jafn notalegt og að komast aftur heim. Gúmmulaðihellirinn tók vel á móti okkur, eins heimilislega gúmfí og kósý hann er ákkúrat þessa stundina, hreinn og fínn.
Ég get svo svarið það að ég held við höfum náð að labba Boston þvera og endilanga hið minnsta fimm sinnum. Iljarnar á mér eru ekki sáttar við labb maraþonið síðustu fjóra daga en þær komast vonandi yfir það. Láta mig vita með miklum eymslum og volæði í hverju skrefi. Toppstykkið var líka rétt búið að taka tímamismuninn í sátt þegar við fórum aftur heim. Hressandi fyrir systemið - sjússa aðeins upp svefnrútínu, matarræði og hreyfingu almennt. Mikið verður gott að komast í ræktina á morgun! Get ekki beðið!
Þetta var hinsvegar góð ferð. Jólastemningin beint í æð, endalaust labb, skopp á milli kaffihúsa og veitingastaða - ekkert nema æði. Skondna við þetta allstaman er að á meðan ég var úti þá var ég mjög dugleg að "velja rétt", "borða hollt" nema í þau tvö skipti sem ég og ofur Ostakökuverksmiðjan hittumst. Ostakökurnar þarna... jesús! Ég þarf að fara að Ostakakast! Núna sit ég hér heima, hálf vakandi-sofandi, búin að ganga frá góssinu með RUÐA KASSANN í fanginu. Við Palli erum að jólamyndast og nammiétast. Skamm Elín - en samt ekki. Langaði í nammi - þá fær átvaglið nammi!
En vindum okkur að myndum og almennri hamingju. Jú, ég tók áleggið af og skildi brauðið eftir.
Flugvélamatur eins og hann átti að líta út og leit út í raun og veru. Iss... svo borgaði ég 600 kall fyrir þetta! Tók hnetumix með fyrir holla fitu að sjálfsögðu. Palli borðaði smartísið, grjónin og tiramisubitann - ég pillaði kjúllann, hneturnar og kálið æpandi af hungri. Síðasta manneskjan í flugvélinni sem fékk mat afgreiddan. Allt eftir bókinni!
Dagur numero uno. Mjög menningarleg gerðum við okkur tilbúin í heljarinnar göngutúr um Boston. Palli er eins og 1000 ára gömul babuska - æðislegt!
Frekar góð með okkur örkuðum við íslendingarnir af stað og 5 mínútum seinna var rassinn dofinn af kulda og nefið næstum dottið af. Gladdi mig óstjórnlega þegar við fundum Starbucks! Hiti, nef að þiðna og jólatónlist. Tók nettan dans á gangstéttinni fyrir utan - gleðiköstin klikka ekki!
Hiti kominn í skrokkinn og jólatónlist og snúðalykt búin að fylla upp jólamælinn. Svolítið eins og að safna lífi í tölvuleikjum og Strarbucks er check pointið... aaaallavega - út að labba og skoða. Fyrsti dagurinn var æði. Snjór yfir öllu, frost beit í kinnar - fullkomlega jólalegt og frábært. Palli tók smá hitadans, hann var hættur að finna fyrir tánum á þessum tímapunkti.
Aftur tók ég tryllingsgleðidans þegar ég rakst á Crate and Barrell. Ég eeelska þessa búð!
Ástæðan er meðal annars eftirfarandi! JÓLALEGT JÁ TAKK! Jólatilhlökkunarmælirinn sprakk og lítið sveppaský spratt upp úr höfðinu á mér!
Ég fann að sjálfsögðu Ben&Jerry's ís. Butter Pecan er tegund sem ég var með á heilanum fyrir um það bil 8 árum síðan. Svo hvarf hann af Íslandinu. Ég varð að smakka hann aftur. Ég bara varð... og ég fann hann! Mikil spenna í loftinu þegar fyrsti bitinn var japlaður... ísinn stóð fyrir sínu!
Palli gerði miklar væntingar til þessa íss. Ég er bara búin að vera að tala um þessa dýrð við hann síðan við kynntumst fyrst. Hann bjóst við því að regnbogar og litlir hvolpar myndu birtast við át á þessari alheilögu frosnu mjólkurvöru og að svarið við öllu í heiminum yrði ljósara en talan 42!! Ég held hann hafi ekki séð hvolpa. "Elín.... þetta er vanilluís með pecanhnetum! Mjög góður... en Elín. Vanilluís... með pecanhnetum!".
Maður fer ekki til Boston nema smakka "Clam chowdah" og "Maine Lobstah". Sem við gerðum að sjálfsögðu. Súpan var mikið frat. Eins og brokkolísúpa á góðum haustdegi! Við skiptum súpunni og Palli endaði á að hamsa hana í sig. Humarinn hinsvegar.. ójá. Humarinn var ljúfur sem lamb humar.
Reyndar þykir mér íslenski humarinn alltaf bestur. Töluvert meira fiskibrað af t.d. þessu eintaki og kjötið í grófari kanntinum. Palli komst mjög fljótt að því. Eftir fyrsta bitann voru miklar og jákvæðar humaryfirlýsingar í gangi og humarlufsur, sem héngu fastar í tönnunum á Palla, svoleiðis frussuðust í allar áttir eins og Zoidberg væri að tala - þið kannist kannski við hann úr Futurama. Hvort heldur sem er var það svo hryllilega fyndið að ég trylltist úr hlátri. Ég hló svo mikið að ég hélt hvorki vatni né vind (krúttaraleg lýsing ekki satt?) og á endanum var ég byrjuð að slefa - ég grínast ekki. Aumingja þjónninn hefur líklegast haldið að ég væri að kafna þar sem tárin runnu niður kinnarnar og ég hélt klút upp að munninum svo ég myndi nú ekki frussa yfir máltíðina. Athugið svo eitt, myndin af lufsunum hér að neðan er eftir að Paulsen var búinn að hreinsa aðeins til.
Herra Páll og smekkurinn.
Að auki við humarinn pöntuðum við okkur krabbasalat. Það var ljúffengislega gleðilegt að borða. Ég stútaði því svo gott sem ein.
Eftir átið fórum við sérstaka ferð í þessa snilldar búð! Mekka alls sem ég dýrka og dái!
Fair trade, lífrænt, gerviefnalaust, hnetu- og matvöruofurúrvalshimnaríki! Vildi óska að ég gæti keypt um það bil allt þarna inni og komið því heim! *Fnaaas*
Quincy market var skoðaður vel og vandlega. Ristastórt langt hús, í raun bara gangur sem er stútfullur af matvöruverslunum. Stjörnutorg margfaldað með fimm ljósárum og öllum freistingum sem þér dettur í hug.
Líða tók að kveldi og við fórum í svakalega túristalegan hestvagnatúr. Eins túristalegur og hann var þá var það lúmskt skemmtilegt. Sátum í rólegheitunum með teppi yfir okkur. Vantaði bara kakó og smákökur.
Til að toppa jólagleðina þennan daginn fann ég risatré! Á þessum tímapunkti hefði ég líklegast unnið jólasveininn í sjómann og fengið einn álf í kaupbæti!
Til að gera langa sögu stutta!
Palli vs. Ella
Cheesecake factory! Halelújah, amen, oh lord... ostaguðinn tilbeðinn með mikilli áfergju. Brúna brauðið er eins og rúgbrauð - bara mjúkt og fluffy.
Djúpsteikt mac'n'cheese. Subbulegur Sæmunur a la Ragga. Við skildum bæði skurnið eftir.
Palla matur - Ellu matur og svo... ójá... ostakökurnar!! Himnaríki í kökuformi!
Sameiginlegt át.
Ég var mjög forvitin að smakka kolkrabbann. En guð... óguð hvað hann var hræðilegur. Bragðið var ekki slæmt en áferðin! Eins og að tyggja gúmmímottu með plasttöppum og... ((hrollur))... ekki það að ég hafi oft tuggið gúmmímottur með plasttöppum. Þetta var skelfilegur biti og honum komið fallega og laumulega fyrir inn í munnþurrku!
Kjúllasalat með mozzarella og ristaðri papriku ásamt mjög vel þegnum ávaxtabolla.
Svo þarf maður að sjálfsögðu alltaf að smakka ís sem þykist vera tiramisu og panna cotta ásamt kasjúhnetum á stærð við stórutá og girnilegu "gúrmey" nammi. Það stendur í "Alltaf að prófa" bókinni. Einmitt! Henni skal ætíð hlíða!
Enn ein ferðin á Cheesecake. Síðasta ferðin... hér var litla Palla bannað að fá sér bjór. Hinn 28 ára gamli snúður pantaði í sakleysi sínu einn Sam Adams og var kurteisislega beðinn um að sýna skilríki, mér til tryllingslegrar hamingju. Ekkert vegabréf, enginn bjór og aumingja bjórlausi Palli sat uppi með límonaði! En það var allt í lagi - ostafylltar, grillaðar döðlur vafnar beikoni björguðu bjórleysingjanum! Jebb, það sést langar leiðir - þetta var bara gott!
Aftur Palli vs. Ella. og ostakökurnar. Jarðaberja og karamellu-hnetusmjörs. Gvöðmöndör! Snæddar í sameiningu og eintómri gleði. Ef þessar ostakökur væru seldar hérna heima, þá myndi ég skipta út nammidags bragðaref fyrir eina sneið!
Jasoh... fjórir Bostondagar næstum því upptaldir í áti. Nokkuð gott. Líka nokkuð gott þegar ég mætti heim þá beið mín eftirfarandi ofurgræja! Ég trylltist af gleði!
Nú er ekkert sem stoppar kvendið í bakstri og jólapakkagerð!!!Bring it on!
Yndislega fína rútínan mín er hafin að nýju. Forstart á jólapakkaundirbúning á morgun og bakstur helgina á eftir. Fer ekkert út af sporinu fyrr en.. ója, þið vitið það. 24. des. klukkan 18:00!
Elsku fólkið mitt... 13 dagar, 24. desember klukkan 18:00!
Ferðalög | Breytt 24.9.2010 kl. 11:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
5.7.2009 | 16:59
Notaleg helgi að baki
Þrátt fyrir víkjandi veikindi þá var þessi helgi eðalfín. Bæði hvað mat, afslappelsi og athafnir varðar. Engin orð, bara myndir. Enda eldaði ég ekki bofs alla helgina!
Klettabrekkan, hótel a la mamma a la Palli.
Sumir orðnir aðeins stærri.
Hádegismatur. Undirrituð.
Hádegismatur. Hornfirðingurinn aka. Palli.
Kaffi Tulinius...
...og hlaðborðið sem því fylgdi! Mjög gleðilegt! Hörð á því og þefaði ekki einusinni af kökunum!
Ekki alveg jafn gleðilegt.. en smakkanlegt.
Ógleðilegt - ósmakkanlegt!
Smá hlé tekið á matarsmkakki, áti og kökusniffi og steinar veiddir af áfergju... einn af mínum laumulegu uppáhalds hlutum!
My prrreccioous! Auðvitað bara hvítir steinar.
Steinarnir voru veiddir á Holtaseli þar sem amma og afi Palla eiga heima. Ekta íslenskur bóndabær sem hefur að geyma amk 200 kindur og lömb. Þar fær maður mjólk beint af kúnni ásamt heimabökuðum kleinum og kringlum.
Fann einn Hornafjarðarmann grillandi humar... en þó ekki gefins!
Af grillinu og beint í brauðið! Humarloka, nahama! Aðeins betra en Hlölli!
Síðdegisát númer 1.
Síðdegisát númer 2.
Og ein svakalega dónaleg gulrót! Síðdegisát númer 3.
Hoffellsjökull.
Kvöldmatur númer 1. Humar! Hvílík tilviljun!!
Kvöldmatur númer 2. Ójá!
Haldið heim kjúklingasalat.
Þá er ég búin að skúbba helginni saman á mjög stórum stiklum í máli og myndum. Það er nú ekkert voðalega erfitt að halda sig réttu megin við línuna þegar farið er í frí!
Ferðalög | Breytt 23.9.2010 kl. 21:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)