Færsluflokkur: Súpur

Létt og góð grænmetis og kjúklingasúpa

Ég elska súpur.

Ég elska líka mömmu mína. 

Mamman mín + súpur = Amen.. oh lord... haleluujah...

Það er eitthvað guðlegt við þetta dúó, það verður bara að segjast.

Hún gerir bestu súpur í heimi. Humar-/kjöt- og Osso búkkó þar efst á lista. Ógvöð.

Bara það að hugsa um þær fær munnvatnskirtlana í fúll svíng og hnén til að kikna. Ughhh!!!

Uppskrift og með því, vegna fjölda áskorana, beint frá ofursúpukvendinu komið.

300 lítrar af súpu

Létt og góð grænmetis og kjúllasúpa a la madre - fyrir 700 Spartverja

  1. Eitt stk. roðhænsn, skorinn í fjóra hluta. Hlutarnir kryddaðir og sett á þá smá olía. Síðan brúnaðir á pönnu. Lagðir til hiðar.
  2. Ekki minna en 14 gulrætur. Þær skornar í grófa bita; best að helminga eftir lengdinni og svo settar til hliðar. Þær bíða steikingar með lauknum.
  3. Laukur-aldrei minna en tveir venjulegir og aldrei minna en 4 hvítlauksrif. Þessir gaurar saxaðir og skornir, steiktir á pönnu með gulrótum þar til gljáandi.
  4. Kartöflur-frekar minni en stærri-10stk.
  5. 1/2 bolli brún grjón. 
  6. Smjörbaunir-ein dós. Síðust út í súpuna.
  7. Broccoli-einn sæmilegur haus skorinn í fleyga eftir endilöngu. Síðastur út í súpuna.
  8. Sveppir-eitt box frekar minni en stærri.
  9. Eitt gott búnt af vorlauk, en hann fer síðastur út í súpuna.

Aðferð:

Þegar búið er að steikja pútu, gulrætur og lauk, þá er stór pottur tekinn fram. Í hann fer einn og hálfur líter af vatni sem hefur verið sett í kjúklingakraftur (Oscar-tvær msk.) og 3 box af Knorr grænmetiskrafti. Síðan fer pútan út í og hún soðin dólgslega í 40 mín.

Átvaglsinnskot 

  • Dólgslega soðið fiðurfé er mjög mikilvægt í þessari uppskrift - helst þannig að tryllingslegur stríðsdans fylgi í kjölfarið. 

Síðan fara kartöflur og grjón útí og 5 mín. seinna, laukurinn og gulræturnar. Soðið áfram í tuttugu mínútur. Þá fylgja baunir, broccoli, sveppir og vorlaukur. Ekki sjóða allt heila klabbið í meira en 65 til 70 mín. Frá byrjun til enda. (tékka hvort kartöflurnar séu í gegn). Þetta er allt kryddað eftir smekk og ekki gleyma Maldon saltinu!

Annað atriði, mjög mikilvægt: Muna að passa upp á bein þegar maður borðar kjúllasúpu. Ekki borða svo græðgislega að beinið standi þversum í kokinu.

Annað... átvaglsinnskot

  • Fyrir utan þá mjög svo truflandi staðreynd að þú gætir í raun kafnað, þá er önnur, næstum meira, truflandi staðreynd að það gæti reynst hryllilega erfitt að borða meira af súpunni með kokið stútfullt af beinum! Já nei, við viljum ekki trufla einbeitinguna við átið á þann hátt!

Bon appetit!


Ossobúkkó og eplakaka

Jahérna hér... fuglarnir eru alveg að verða vitlausir! Ég vaknaði upp í morgun við fuglasöng og þeir hafa ekki hætt síðan - dásamlegt alveg hreint!

Fjölskylduhittingur með meiru. Vel heppnað rennsli, góður matur og ránvalginu (rándýr + átvagl) leyft að reika um sléttur Gúmmulaðihallarinnar án fylgdar. Þvílík dýrð og hamingja. Ég fékk yfirumsjón með eftirréttinum, sem var að sjálfsögðu karamellueplasprengja, á meðan móðir kær lét ossobúkkó malla, kjúkling grillast og nautatungu sjóða!

Sjáið bara hvað ossobúkkóið er svaðalegt!! Þetta var súpa fyrir  324 fílhrausta sjómenn og mikið assgoti var hún hryllilega góð!

Risa ossobúkkópotturSvo gott!

 

 

 

 

 

 

Þessi pottur mun vera þrýstipottur og er mikið þarfaþing mín kæru. Í þetta kvikindi væri hægt að setja steina og þeir myndu koma úr heitapottinum mjúkir sem bráðið smjer! Pabbi þolir ekki gripinn þar sem hann lenti í miklum þrýstipottshremminum sem barn. Sá pottur sprakk með miklum látum og skildi eftir sig verksummerki í marga mánuði á eftir. Fyrsta skipti sem potturinn á myndunum hér að neðan var notaður hélt pabbúla sig í öruggri fjarlægð á meðan mamma notaði sundurtogað herðatré til að hleypa gufunni út... aðfarirnar voru stórkostlegar!

Þrýstipottur að sjóða ossobúkkóketþrýstikvikindi

 

 

 

 

 

 

Kjúllinn fékk að hvíla sig í ofninum og fylgdarlið hans gert reddí. Sykur, rjómi og teitur - þetta bland getur bara ekki klikkað. 

Sykraðar kartöflur - ójá

Gúmmulaðihallarmóðir að sýna mikla snilldarinnar kartöflusnúningstakta!

"Wawoohmm!"

Swoooshh.. Flahhh

 

 

 

 

 

 

Undirbúningur fyrir eplakökumaraþon hafinn.

Byrjunarstig.

Risafat fyrir eplakökusprengjuna

Notuð voru 7 epli í þetta monster. Ég var í miklum skrælipælingum og gat með engu móti skinnflett eplin í einu skræli nema eitt.

Heilt skræl

Ég náði þó að útbúa Barbapabba í nokkur skipti.

Barbapabbaskræl

5 niðurskorin epli, gomma af hnetum, 4 Snickers, ógrynni af kanilsykri og smá púðursykur.

Karamellueplamonster að taka á sig mynd

Púðursykur, smjer, vanilludropar, kanill og sýróp hrært saman í karamellu og tveimur smátt niðurksornum eplum, ásamt hluta af hnetunum, bætt saman við. Ójá - úr þessu verður svaðaleg sósa og gumsinu hellt yfir stærri eplabátana.

Karamella að verða til

Hohooo

Hveiti, sykur og smjergumsi hrært saman og stráð yfir herlegheitin ásamt smá kanilsykri og suðusúkkulaði! Herre guð og allir englarnir! Þetta voru 400 gr. af sykri, 400 gr. af smjöri, 300 gr. af hveiti og 100 gr. af höfrum.

Guðminngóður!

Reddí inn í ofn

Nohm

Hambó á boðstólnum fyrir litla fólkið. Jah... litlu stelpurnar. Við kunnum víst ekki að búa til stráka í þessari fjölskyldu! Nema Dossan komi okkur á óvart núna í næstu viku, hihii!! Get ekki beðið! 

Og jú, Dossan mín á von á litlum Spaghettisen núna í sumar Joyful

Hambós

Veislan eins og hún lagði sig. Leit nú reyndar betur úr án flassins en guð minn góður... þetta var alltaman alveg svaðalegt. Móaflatarkjúllinn! Sósuna vantar inn á myndina - en hún fékk svo sannarlega að vera með.

Móaflatarkjúlli

Ossobúkkóið og Móaflatarkjúllateitur!

Þessi súpa... djísús! Hér tók ég smá pásu á bloggskrifum og stalst í afganga!

Ossobúkkó a la mama

Söltuð nautatunga með piparrótasósu! Mikið, svakalegt gúmmulaði!

Nautatunga og piparrótarsósa

Mér er sama hvað þið segið/haldið - nautatunga er ekkert nema ógeðslega gleðilegt ét! Get svo svarið það. Köld, daginn eftir, ofan á brauð - mmhmm!

Þeir sem ekki vilja borða tungu sökum þess eins að þetta er jú "tunga", þá skuluð þið hugsa ykkur tvisvar um þegar þið eruð að borða rassinn á nautinu eða lærin! Wink Þið eruð að missa af heilmiklu skal ég ykkur segja.

Nautatungubiti

Allir sáttir með átið enda ekki annað hægt.

Afinn og Helga snillingurMJög virðulegar í stólunum

 

 

 

 

 

 

Anna Björg sætamúsAllir að spisa

 

 

 

 

 

 

Valdimar að trodda sérSætulínur og guli kisi

 

 

 

 

 

 

Amma fínalínaEnn setið að áti

 

 

 

 

 

 

EftirátsþreytaHornkerlingar

 

 

 

 

 

 

 greta lind mín

Guli kisi fékk hitakast og hlammaði sér á flísarnar sívinsælu með miklum dunk. Það er eins og hann hafi verið skotinn!

Kisa heitt

Karamellusprengjan alveg að verða til. Bíður sallaróleg og bubblandi eftir að hitta ísinn sem keyptur var með henni.

Karamellusprengja

Come to mama!!

Dossan gat ekki beðið

karamellugleðiDýrið eins og það lagði sig

 

 

 

 

 

 

Mmmhmm

Rjóminn fékk að sjálfsögðu að fylgja með! Það kemur ekkert annað til greina í eftirréttamálum!

Rjómi er gvöðdómlegur

Stórkostlegt kvöld, þau gerast varla betri en þetta mín kæru.

Og bara svo þið vitið af því - þá kláraðist eplakökumonsterið í gærkvöldi! 500 kíló af sykri, smjeri og eplaketi - Mafíósarnir standa alltaf fyrir sínu!


Æðisleg tær grænmetissúpa

Súpur geta verið svo góðar - sérstaklega þegar, jah.. þær eru góðar!

Ohh hvað þessi snilld var ákkúrat það sem mig langaði að bíta í eftir veikindaviku. Svona súpur eru alltaf í uppáhaldi hjá mér. Soðsúpur, stútfullar af grænmeti og gleðilegheitum. Einfaldar, fljótlegar, bragðgóðar. Átvaglið má líka borða þangað til eitthvað gefur sig... gæti ekki verið betra!

Steikti fullt af gróft skornum rauð-/hvít-/púrrulauk upp úr 1 msk olíu, ásamt gulrótum, sellerí og niðurrifnum engifer, þangað til laukurinn var orðinn mjúkur og gullinn. Bætti þá tæpum 6 bollum af vatni í pottinn ásamt 2 teningum af grænmetiskrafti. Já, ég veit, svindl. En þeir gefa gott bragð. Lét þetta malla saman þangað til vatnið var farið að bubbla og þá bætti ég rest af grænmeti út í. Barasta það sem ég fann í ísskápnum. Blómkál, gulrætur, niðursoðnir heilir tómatar (frá Ítalíu), kartöflur, sætar kartöflur, paprika og rófa. Skorið gróft í um það bil jafn stóra bita.

Æðisleg tær grænmetis soðsúða

Sjóða þangað til gulrætur/kartöflur eru tæplega al dente! Ég vil hafa rótargrænmetið aðeins undir tönn en ekki maukað. Voila! Guðdómlegt gums í skál! Það væri reyndar hægt að gera þetta enn meira gúmmó og bæta út í súpuna t.d. byggi.

Æðisleg tær grænmetis soðsúða

Bætti reyndar út í súpuna mína örbylgjuðum eggjahvítum og já, þetta verður hádegismaturinn minn á morgun. *Get ekki beðið* Eftirrétturinn var gúrmey. Kanilristaðar og crunchy!

Pecanhnetur

Átvaglið er mætt á svæðið! Nú er ekkert sem stoppar kvendið fram að jólum!!


Kæld mango súpa og humar

Hornafjarðarhumar létt kryddaður og steikur á salatbeðiÞað er nú ágætt að eiga kall sem er ættaður frá Höfn. Ómælt magn af humri sem streymir inn um dyrnar hjá manni! Ég kvarta ekki... humar er uppáhalds maturinn minn!

Ég gerði kalt mango og avocado humarsalat í vetur sem kom svo skemmtilega vel út. Humarinn og mangoið áttu mjög vel saman, enda var þetta bragðgóð og, ó svo gleðileg máltíð. Ákvað því að taka smá twist á þetta og búa til mango súpu sem ég er búin að vera að hugsa um í nokkurn tíma. Köld, fersk súpa sem auðvelt er að bragðbæta að vild. Sæt, súr, sterk - virkar í allar áttir! Væri jafnvel hægt að nota hana sem "dressingu" á salöt, fisk... eða sem lítinn smakk forrétt. Setja smá skammt af súpu í staupglas og rjóma yfir! Þá þykir öllum mikið til þín koma!

Kæld mango súpa - fyrir 2 til 3 sem máltíð ásamt meðlæti

Grunnur

1 skrapað og skrælt mango, tæplega 500 grömm. Þarf að vera nokkuð vel þroskað.

1/4 bolli rúmlega, létt AB-mjólk. Má nota líka nota jógúrt eða t.d. kókosmjólk.

1/2 bolli appelsínusafi. Meira eða minna eftir smekk.

1 msk hunang

Svona er uppskriftin í grunninn. Flóknara er það ekki. Svo kemur að því að ákveða hvort súpan eigi að vera sæt, t.d. sem sósa yfir e-n girnilegan eftirrétt eða vel krydduð... þið ráðið.

Krydd

Dass kanill, múskat. Rétt þannig að bragðið finnist. En bara rétt svo.

Smá wasabi paste, eftir smekk. Jafnvel engifer. Ég notaði reyndar ekki engifer, átti ekki, en það hefði komið vel út.

Salt og pipar

Fyrst set ég grunninn, eins og hann leggur sig, í blender og hræri saman þangað til nokkuð mjúkt. Þá fer ég að bæta við kryddum og smakka mig áfram.

Kæld mango súpa

Blanda svo vel, inn á milli þess sem þú kryddar þessa elsku, þangað til súpan lítur um það bil svona út.

Kæld mango súpa

Þá er ágætt að setja hana inn í ísskáp í 1 - 2 tíma. Ég reyndar gerði það ekki, græðgin alveg að drepa mig. En allt sem ég notaði var búið að vera inn í ísskáp, mangoið, AB-mjólkin og safinn, svo þetta slapp bara vel. Ég tók mig svo til og skreytti súpudiskinn með AB-mjólk. Svona er maður svaðalega pro.

Kæld mango súpa

Nokkrum humarskottum komið vel fyrir ofan á súpunni og smá kóríander yfir.

Kæld mango súpa með humri

Svei mér þá. Þetta fannst mér geggjaðslega gott. Súpan er að sjálfsögðu ein og sér ótrúlega góð og kom mjög skemmtilega á óvart. Súrt, sætt bragðið af mango með smá keim af appelsínusafanum. Létt AB-mjólkin gerir skemmtilega áferð, mjúka og rjómakennda. Meiriháttar fersk og fín! Í hverju smakki veist þú að það er kanill í súpunni, múskatið rétt læðir sér með og í enda hvers bita sparkar wasabíið vel í bragðlaukana! Ég ætla svo sannarlega að leika mér með þetta í sumar. Svo ferskt og bragðgott. Hægt að nýta þetta á marga mismunandi vegu! Sérlega ánægð með að hafa látið á þetta vaða.

Kæld mango súpa með humri

Humarinn og súpan saman virkuðu vel fyrir mig. Ég kryddaði humarinn með fiskikryddi, smá wasabi salti og pipar, og steikti upp úr örlítilli olíu. Þessi tvenna á góða samleið. Næst þegar ég geri þetta kem ég þó til með að hafa humarinn kaldan og skera í smærri bita. Kryddið af humrinum, seltan á móti sætri súpunni var skemmtileg og yfirgnæfði ekki sætt bragðið af kjötinu. Svo kom að sjálfsögðu wasabi bragðið í endann með hint af kanil, löngu eftir að súra bragðið af mangoinu var farið. Ohh þvílíkt nammi!

Kæld mango súpa með humri

Humarinn sem var svo ekki notaður í súpuna hvíldi sig á salatbeði, þó ekki í langan tíma því hann kláraðist á mettíma. Úff... mikið ofboðslega er humar góður.

Eðal humar, léttilega kryddaður og steikur.

Að sjálfsögðu fékk ég mér sætan bita eftir matinn. Keypti mér ferskar döðlur í Bónus um daginn, þær eru æði. Skar steininn úr einni, setti inn í hana macadamia hnetu, súkkulaðibita og smá hnetusmjör! Alveg hægt að sleppa sér í svona nammiáti! Mælimeð'essu!

Fersk daðla með macadamia hnetu, dökku súkkulaði og hnetusmjöri


Búlgarskar gesta pylsur og sæt-kartöflusúpa!

Frábært fjölskyldukvöld og matur í stíl!

Var að koma úr einu svaðalegasta fjölskyldu matarboði sem haldið hefur verið hérnamegin alpafjalla - fyrir utan Móaflatar kjúlla fjölskylduboð, en það er saga í annað blogg! Gesta pylsur eru hafðar í þessu bloggi þar sem þetta er fyrsti maturinn sem ég segi frá sem ég geri ekki sjálf! Ég bara varð!

Sumarið góða gengið í garð, heimkoma Búlgaríufara, allskonar smakk, meðlæti og gott fjölskyldufólk með læti! Ekta Spaghettisen Mafioso matarboð! Ahh, gotta love it!

Allir komu með eitthvað sem endaði í mat fyrir 301 fullvaxinn Spartverja og hver bitinn á fætur öðrum betri. Þvílík snilld. Allskonar straumar í gangi. Búlgaríu fararnir litaðir af siðum og venjum Búlgara, grísakótilettur, grillaðar kjúllabringur með sætu kartöflu frönskum og að sjálfsögðu heilsumatur ala-Ella! Fjölhæfur skemmtilegur matur!

Íslenskur Búlgaríumatur, pylsur, salat með búlgörskum osti, grillmatur og vín! 

Pylsurnar í Búlgaríu eru víst mikið gæðafæði og Búlgarar eru mjög alvarlegir pylsuétarar. Þeirra pylsur eru þó ekki eins og okkar SS pylsur heldur hakk-krydd, -pylsur, -kladdar, -bollur. You name it. Svava og Snær komu heim frá Búlgaríu hlaðin góðum hugmyndum og hráefnum. Komu t.d. með ost sem notaður var til að rífa yfir salatið ásamt kryddi sem herrafólk Búlagríu notar í t.d. pylsurnar sínar. Osturinn þurfti að liggja í vatni áður en hægt var að nota hann - mjög saltur en bragðið af honum svakalegt! Sterkur, svolítið þurr en límist samt saman. Alveg meiriháttar!

Búlgarskar pylsur og pylsuþjófur í hægra neðra horni!

Hér er einn fjölskyldumeðlimur að stelast í búlgarskt pylsu-smakk.

Íslensku Búlgaríupylsurnar voru samsettar úr svína- og nautahakki, eggjum, kryddi og leynikryddinu frá Búlgaríu! Hakkið mótað í pylsur og svo smellt á grillið. Mikið svakalega voru þær góðar! Skemmtilegar að bíta í og bragðið frábært. Mjög sterkar! Væri hægt að útfæra þessa máltíð á svo marga mismunandi skemmtilega vegu! Geggjað! 

Pylsur, kjúlli, lettur, teitur og súpa í bakgrunn! 

Hér sást pylsurnar í öllu sínu veldi. Sumar meira að segja eldaðar á pinna. Kjúlli, sætu kartöflu franskar, kótiletturnar og salatið góða með búlgarska ostinum. Súpan góðan að malla í bakrunn. 

Meðlætið góða. Hummsus, salat, brauð og með því. 

Restin af hlaðborðinu. Ristaðar tortilla flögur, bankabyggsbrauð, hummus, salat og dúllerí til að bæta út á salataið. Rauðlaukur, ólívur, auka ostur og smá olía. 

Sæt kartöflusúpa, Bygg brauð og tvennskonar hummus 

Súpan var geggjuð þó svo myndin hérna geri henni kannski engan greiða. Mikið svakalega var hún góð. Ekkert nema hollustan, stútfull af vítamínum og góðum kolvetnum. Þykk og skemmtileg. Fullkominn kvöld- eða hádegismatur - létt og fín!

Sæt kartöflusúpa - æðisleg súpa og æðisleg á litinn!

Byrjaði á því að hita 2 stórar sætar kartöflur í ofni þangað til mjúkar í gegn og sauð niður 1,5 lítra af kjúklingasoði. Á meðan svissaði ég sellerí, lauk og vorlauk í tæpri matskeið af olíu þangað til meyrt. Bætti svo niðurrifnum ferskum engifer út í laukblönduna, cumin og niðurskornum chilli. Lét malla þangað til eldhúsið fylltist af yndislega fínni lykt. Eftir það bætti ég út í pottinn niðurskornum gulrótum og kartöflunum. Hrærði saman þangað til kartöflurnar og gulræturnar voru þaktar kryddblöndunni og bætti þá kjúklingasoðinu saman við. Lét malla í 20-25 mín, eða þangað til gulræturnar voru orðnar mjúkar. Þá hellti ég súpunni í litlum skömmtum í matvinnsluvél og hrærði skammtana, einn í einu, saman þangað til blandan var orðin mjúk. Lét svo súpuna malla á lágum hita og bætti við salti og pipar eftir smekk.

Súpan kom á óvart og heppnaðist æðislega vel. Með súpunni var niðurrifinn ostur, sýrður rjómi, grísk jógúrt og ristaðar furuhnetur. Allt var prófað en gríska jógúrtin var algerlega toppurinn með þessari súpu - himneskt! Smá sýra á móti sætunni í súpunni og kryddinu - engifer, chilli, cumin.. oh djísús! Gerir smá rjómafílíng.... Þessa súpu geri ég aftur!

Bankabyggsbrauð - mjúkt/blautt í miðjunni, þétt, mettandi, trefjaríkt! 

Byggbrauðið var líka æði! Brauð, nákvæmlega eins og ég vil hafa það. Þétt, þungt, bragðmikið, saðsamt og svolítið "blautt". Uppskriftina af brauðinu er að finna hér. Heitir Bankabyggsbrauð. Notaði reyndar ekki nema 4 dl af létt-AB mjólk, af því að það var nægur raki í bygginu. Muna bara að setja brauðið inn í ísskáp, annars er mjög erfitt að skera það. Lítur út fyrir að vera óbakað, en er það ekki. Ekki örvænta - bakaði mitt í góðar 60 mínútur og skar að sjálfsögðu í það strax - mikið vandaverk ef þú vilt að brauðsneiðin líti út eins og sneið en ekki hrúga af byggi! En það tókst! Hollustubomba - trefjaríkt, prótein og fullt af góðum flóknum kolvetnum!

Dossu fannst hummusinn góður! 

Hummusinn er alltaf góður. Notaði hann með brauðinu og ristuðum niðurrifnum tortilla flögum. Milljón uppskriftir til á netinu en ég dass-a þetta alltaf. Kjúklingabaunir, tahini, sítrónusafi, engifer, smá paprikukrydd, salt og pipar eftir smekk og pínku olía. Fer eftir því hvernig áferð þú vilt á hummusinn. Hræra saman í mauk.. og voila! Hummus! Hafði annan helminginn venjulegan og bætti sólþurrkuðum tómötum í hinn - kom vel út. Ójá! 

Sæt kartöflusúpa með jógúrt og osti, kúlli, hummus og grænmeti! 

Svona leit fyrsti skammtur af matnum mínum út. Undir venjulegum kringumstæðum hefði ég látið þetta nægja en nei... meiri súpa, pylsur, narta í hummus... meiri súpa.. hummus... salat... kjúlli... og þá leið yfir mig! 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband