Færsluflokkur: Meðlæti (sósur/salöt)
5.8.2009 | 19:12
Meðlæti munar öllu
Brokkolí og blómkál... mjög misskilið grænmeti að ég held. Ekki margir sem gleypa yfir því nema þá kannski sem aukahlutverk í súpu eða pottrétt. Sérstaklega í mat þar sem það "sést ekki" greinilega. Ég eeelska B-in tvö. Hrá, steikt, soðin, grilluð, hituð, á pizzur, pasta, súpur, sósur, ídýfur, gratín... blómkálið sérstaklega. Mhhh...
Kjúklingabringa og sætar kartöflur á boðstólnum í kvöld. Alltaf gott. Með var að sjálfsögðu blómkálsbland. Blómkál, rauðlaukur, laukur, baunir og krydd af ýmsum toga. Hitað í ofni og voila. Bara gott!
Jæja, ætla að heisækja Gúmmulaðihöllina og sjá hvað eftir er af eldhúsinnréttingunni. Móðir mín kær tók sig til og byrjaði að rýma fyrir þeirri nýju - upp á eigin spítur. Mér var tjáð í dag að eldhúsið liti út eins og eftir Hiroshima, pabba til mikillar gleði, þar sem hann er fastur út á sjó (að finna nýja og fína fiska fyrir fjölskylduna til að prófa að elda) og getur enga umsjón með niðurrifi haft! Ætla að taka þetta út og meta stöðuna... kannski furðufiskarnir verði eldaðir hérna í Gúmmulaðihellinum þegar þeir mæta loks í hús!
Meðlæti (sósur/salöt) | Breytt 23.9.2010 kl. 22:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.7.2009 | 20:19
Grillum á okkur gat
Mamma og pabbi ákváðu, í snatri, að keyra hringinn í kringum eyjuna okkar og skildu ungviðið, með nýfengið bílpróf, eitt eftir í uppeldisstöðvunum! Systir mín kær var því í mat hjá okkur í kvöld og í tilefni þess voru kjúklingalundir á matseðlinum. Tókum þetta skrefinu lengra og bjuggum okkur til grillpinna og náðum næstum því að grilla alla máltíðina! Byggsalatið slapp við grillið - ég var samt alveg á því að pakka því inn í álpappír og skella í grillun!
Kjúklinga grillspjót
Allt grænmeti sem þú hefur lyst á. Rauðlaukur... ohh, grillaður rauðlaukur. NOM!! Paprika, sveppir og tómatar urðu fyrir valinu. Tómatarnir brunnu af aumingjans prikunum og hurfu ofan í grillið mér til mikillar óhamingju, nota því svoleiðis ekki aftur. Kjúklingurinn penslaður með blöndu af BBQ sósu, honey dijon sinnepi, hot sauce og salsasósu.
Byggsalat með sólþurrkuðum- og ferskum tómötum, ólívum, fetaosti möndlum
Ætlaði að sejta út á byggið pestó en haldið þið að gúmmulaðihellirinn hafi ekki verið pestólaus! Ótrúlegt! Saxaði því niður nokkra sólþurrkaða tómata, ólívur, ferska tómata og steinselju. Notaði smá af olíunni af sólþurrkuðu- og ólívunum. Setti líka út í salatið fetaost og niðursneiddar möndlur! Svakalega gott. Byggið er að sjálfsögðu eitt af mínum uppáhalds kornum. Æðislegt að borða það! Áferðin er fullkomin! Næst þegar ég geri svona meðlæti hef ég niðurskorinn rauðlauk með - matargestur kvöldsins er ekki rauðlauksæta!
Grillaðar sætar kartöflur með paprikukryddi og oregano
Ekki mikill galdur hér á ferð. Skera niður kartöflurnar, ég notaði eina stóra. Setja smá olíu og salt, paprikukrydd eftir smekk ásamt oregano. Pakka inn í álpappír, setja á grillið og grilla þangað til mjúkar. Fylgjast vel með bögglinum svo kartöflubitarnir, sem liggja á botninum, brenni nú ekki.
Grillaður laukur - sælgæti
Í lokin, komman yfir JÍHA-ið. Grillaðir laukar af öllum stærðum og gerðum. Rauðlaukur, venjulegur laukur og hvítlaukur. Pakkað inn í álpappír og grillað í mauk. Þeir verða svo sætir og djúsí.. mmmhmm!
Æðisleg máltíð í alla staði. Grill-eitthvað er alltaf gott, alltaf sumarlegt, alltaf gleðilegt.
Meðlæti (sósur/salöt) | Breytt 23.9.2010 kl. 21:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.7.2009 | 15:59
Kósýness og leti heimafyrir
Veðrið er notalegt, góð helgi að baki og sunnudagurinn nýttur í almennt hangs og leti! Vöðvar rétt hreyfðir til að finna sér gott ét inn í eldhúsi og skipta um rás á sjónvarpinu. Ljúfa líf.
Hádegismaturinn var léttur og góður. Virkilega. Átti eina risastóra sæta kartöflu sem ég henti inn í 200 gráðu heitan ofn þangað til skinnið losnaði frá. Ætli hún hafi ekki fengið að malla í 1 eða 1,5 tíma. Verða súper sætar og djúsí þegar þær eru ofnbakaðar! Kartöfluna skar ég svo í tvennt og smurði með kotasælu-skyrblöndu.
Kotasæla, skyr, Dijon honey mustard, þurrkuð steinselja = hamingja! Toppað með papriku hummus.
Þetta létt- en ljúfmeti var svo klárað með einni af þessum yndislegu ponku litlu perum sem flæða í öllum verslunum. Rauðar og gular, æðislegar á bragðið! Þær sem ég hef bitið í, ég veit ekki hvernig skal lýsa því. Karamelukenndar! Mmmm...
Meðlæti (sósur/salöt) | Breytt 23.9.2010 kl. 21:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.7.2009 | 09:03
Æðisleg döðlu og jarðaberjasulta
Einn lesandi af þessu bloggi mínu, Ásta, benti mér á sultu sem hún býr sér stundum til. Mér fundust þessi hráefni og tegund af sultu frábær og prófaði að sjálfsögðu samdægurs að búa hana til! Það er einfalt að búa sultuna til, hráefnin sem fara í hana eru einungis tvö, hún er sykurlaus - meiriháttar bragðgóð og skemmtileg! Við mister Paulsen erum svakalega hrifin af henni!
Döðlu og jarðaberjasulta
150 gr. frosin jarðaber
100 gr. döðlur
Sjóða saman í potti, hita vel, merja saman og kæla. Getur þetta verið auðveldara?
Ég notaði þurrkaðar döðlur, án efa betra að nota ferskar. Hægt að kaupa þær í t.d. Bónus. Úr þessum hráefnum urðu til um það bil 280 gr. af sultu. Nógu mikið til að fylla krukku eins og þessa.
Það er reyndar ekki mikið eftir í þessari krukku. Palli er búinn að vera að beyglast og möndlusmjörast í nokkra daga! Sultan er nokkuð þykk og í henni leynast smá bitar úr jarðaberjum og döðlum. Ég, eins og sönnum víking sæmir, notaði handafl og stappaði gumsið með gaffli. Líklega betra að nota t.d. töfrasprota eða matvinnsluvél.
Þetta er best! Sultan góða og heimagerða möndlusmjörið! Hamingja og gleði í einni lítilli skeið eða á brauð eða ofan á graut eða með kotasælu....
Bestu þakkir Ásta fyrir meiriháttar uppskrift! Ég kem án efa til með að eiga alltaf skammt af þessari snilldar sultu í ísskápnum hjá mér!
Meðlæti (sósur/salöt) | Breytt 23.9.2010 kl. 21:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
14.7.2009 | 19:44
Humarsalat með léttri hunangs-sinnepssósu
Létt og laggott! Einfalt og fljótlegt að setja saman. Bragðgott. Hollt!
Salat og kirsuberjatómatar í grunninn. Steikja papriku, rauðlauk og sveppi á pönnu - setja til hliðar. Steikja humar og krydda með því sem vill. Salt, pipar, fiskikrydd. Rétt áður en humarinn er til setja möndluflögur út á pönnuna. Fyrst setja salat og tómata í skál, þar á eftir steikta grænmetið og ofan á grænmetið fer humarinn. Ofan á humarinn góða fara ristuðu möndlurnar og yfir allt heila klabbið fer hunangs sinnepssósan.
Sinnepssósuna hrærði ég saman úr 1 dl Létt AB-mjólk, rúmlega msk. honey Dijon sinnepi, smá hunangi, salti, sítrónusafa og pínkulítið tahini. Hún var eðal fín! Væri hægt að nota hana á samlokur, með hrísgrjónum, kjúlla... alveg að gera sig. Mmm.
Næst þegar ég geri svona sleppi ég kálinu alveg, steiki meira af grænmeti og nota tonn af möndlum. Möndlur, humar, sinnepssósa, steikt grænmeti = AMEN!
Þetta var gott. Mjög gott. Ég er sérlega hrifin af sinepssósunni með humrinum!
Meðlæti (sósur/salöt) | Breytt 23.9.2010 kl. 21:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.6.2009 | 09:50
Brokkolísalat sem kemur á óvart
Eitt orð - ÆÐI!
Ég fór í útskriftarveislu til Ernu vinkonu um daginn. Þar smakkaði ég eitt besta salat sem ég hef smakkað í langan tíma. Brokkolísalat með rúsínum, sólblómafræjum, rauðlauk og æðislegri dressingu. Nú veit ég ekki nákvæmlega hvaða undur var sett í dressinguna en ég prófaði að leika þetta ævintýri eftir og viti menn!! GEGGJAÐ! Varð ekkert smá hamingjusöm þegar ég smakkaði hjá sjálfri mér. Svo gerði ég það líka nokkuð hollt. Hunang, sýrður rjómi í staðinn fyrir majones og sykur geri ég ráð fyrir!
Brokkolísalat
1 - 2 hausar smátt skorið brokkolí, svolítið eftir smekk.
1,5 dl rúsínur
1,5 dl sólblómafræ. Ég ristaði mín uppúr 1/4 tsk olíu og smá salti.
1 smátt skorinn rauðlaukur.
Forsteikt beikon, smátt skorið og kælt (ég sleppti því)
Hræra öllu saman nema beikoni.
Dressing:
1,5 dl 5% sýrður rjómi
2 - 3 msk hunang. Ég notaði Acacia hunang, 3 msk. Væri líklega alveg jafn gott með 2 msk.
3 tsk rauðvínsedik
smá salt ef vill
Hræra dressinguna saman og hella yfir salatið.
Ég lét salatið mitt bíða í nokkra tíma inn í ísskáp. Aðallega af því að ég útbjó það klukkan 14:00 og maturinn var ekki fyrr en 19:00. Ef hafa á beikonið með, bæta því þá við eftir að salatið hefur fengið að standa inn í ísskáp, rétt áður en það er borið fram. Ég sleppti reyndar beikoninu alveg, en hafði til hliðar steikt beikon sem hægt var að strá yfir salatið ef viðkomandi vildi. Kom flott út... mjög fott. Þetta salat er brjálæðislega gott og betra eftir geymslu! Hægt að nota með kjúlla, fisk, grillkjöti... hverju sem er! Þetta kláraðist líka upp til agna í matarboðinu!
Prófið þetta salat - þið verðið ekki vonsvikin!
Meðlæti (sósur/salöt) | Breytt 23.9.2010 kl. 21:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
19.6.2009 | 18:51
Stóra, feita, gríska fjölskyldan mín!
My Big Fat Greek Wedding. Án efa ein af mínum uppáhalds myndum. Ef þið eruð ekki búin að sjá þessa mynd þá mæli ég eindregið með henni. Virkilega þægileg, notalegt að horfa á hana og mér líður hreinlega vel í hjartanu og sálinni þegar hún líður áfram. Low budget mynd um stóra, háværa, matglaða gríska fjölskyldu með allskonar furðulega siði. Allir heita eftir öllum og yfirleitt sama nafni. Minnir mig óstjórnlega á fjölskylduna mína þegar hún kemur öll saman. Hvað þá yfir góðum mat. Hinn helmingurinn benti mér einmitt á það í fyrsta skipti sem hann sá þessa mynd. "Elín... þetta er eins og heimildarmynd um Spaghettifjölskylduna þína". Kannski ástæðan fyrir því að hún fellur svona vel í kramið. Yfirleitt er þó vitnað í mína famelíu sem "Ítalska Spaghettifjölskyldan" eða "Spaghettisen Mafioso". Við erum samt sérstaklega löghlýðið og yndislegt fólk.. ég lofa því! Kyssum mikið, knúsum helling og tölum mjög... mjög hátt. Inn á þessa mynd vantar þó fjóra ketti, tvo hunda og Pétur og Pál. Ég grínast ekki!
Í tilefni þess að myndin var sýnd á Skjá einum í gær þá ákvað ég að búa til grísk innblásinn kvöldmat. Grískur Souvlaki kjúklingur með Tzatziki sósu ásamt quinoa salati undir grískum áhrifum!
Grískur Souvlaki kjúklingur
1 og 1/2 tsk ferskt oregano eða 1/2 tsk þurrkað.
1 tsk. ólífu olía
1/2 tsk salt
4 pressaðir hvítlauksgeirar
500 gr. kjúklingabringur. Bein- og skinnlausar.
Setja allt saman í t.d. zip-lock poka og hrista til að sameina. Geyma í ísskáp í 30 mín. Grilla kjúllan svo þangað til fallega brúnn og í guðs bænum ekki bleikur að innan.
Tzatziki sósa
1/2 skræld gúrka. Taka fræin innan úr henni, skera smátt og þerra kjötið.
1/2 bolli létt AB-mjólk. Má að sjálfsögðu nota venjulega jógúrt, nú eða gríska sem væri best.
1 msk sítrónusafi.
1/4 tsk salt
1 pressaður hvítlauksgeiri
1/2 msk. tæplega dill
Hræra allt saman. Flóknara var það nú ekki. Ég sigtaði sýruna þó frá AB mjólkinni fyrst. Það er líka hægt að gera við t.d. gríska jógúrt, en þarf ekki endilega.
Grískt quinoa salat
2/3 bolli tæplega soðnar kjúklingabaunir
1 bolli eldað quinoa (1/3 bolli þurrkað rúmlega)
1/2 smátt skorinn rauðlaukur
1/2 smátt skorin, stór gúrka
Nokkrir kirsuberjatómatar. Skornir í fjóra parta.
1/4 bolli kalamata ólífur. Um það bil 15 ólífur?
1/3 bolli smátt skorin steinselja
Mulinn fetaostur eftir smekk
Dressing:
4 msk sítrónusafi, 2 msk ólífuolía, 1 msk dijon sinnep, 2 pressaðir hvítlauksgeirar ásamt salti og pipar eftir smekk.
Hræra saman öll hráefni í salatið og hella dressingu yfir. Ég notaði kannski 1/3 af dressingunni. Mylja svo fetaost yfir í lokin. Ef það verður afngangur, ekki víst, þá geymist salatið vel í ísskáp yfir nótt, jafn gott ef ekki betra daginn eftir. Gæti orðið svolítið mússí út af gúrku og tómötum. En bragðið, og áferðin, er svakalegt! Namm!
Ofboðslega fínt alveg hreint. Kjúllinn var hinsvegar frekar bragðlaus, hefði líklegast mátt liggja lengur í leginum. Miklar líkur á því að ég hafi gert eitthvað af mér, hver veit. Salatið og sósan slógu hinsvegar í gegn. Ótrúlega gott. Þó svo kjúklingurinn hafi verið bragðlítill þá var hann frábær með sósunni og salatinu. Þessi sósa væri einnig flott fyrir fisk. Mmmmm! Salatið væri líka hægt að setja inn í torillu sem fyllingu með kjúlla eða fisk. Æðislegt.
Fyrsta skipti sem ég elda eitthvað úr quinoa. Quinoa fræið er stútfullt af próteinum og vítamínum. Þetta var ein af undirstöðu fæðutegundum Incanna og er í öðru sæti á eftir kartöfu hvað nærigargildi varðar! Hlakka mikið til að leika mér með þetta hráefni!
Meðlæti (sósur/salöt) | Breytt 23.9.2010 kl. 21:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)