Færsluflokkur: Snarl og pill
21.5.2009 | 22:37
Heimagerðar "Granola" stangir

Vaknaði fyrir allar aldir í morgun og hafði ekkert betra að gera en að búa mér til eitthvað smá heimanammi til að eiga. Get ekki, með hreinni samvisku, sagt að ég viti nákvæmlega hvað ég gumslaði saman í þessar stangir. En ég get svo sannarlega hripað niður 'um það bil' það sem ég notaði og hvað mætti betur fara. Þessar elskur eru alveg "eiturefna" lausar. Ekkert auka prótein, agave sýróp í staðinn fyrir sykur, náttúrulegt hnetusmjör, hnetur, fræ, múslí og þurrkaðir ávextir. Allt á góða listanum að sjálfsögðu, fullt af hollri fitu, trefjum, flóknum kolvetnum, próteinum og skrilljón hitaeiningum. Orkustangir með meiru og henta fullkomlega í t.d. hraðmorgunmat eða jafnvel sem snakk klukkutíma fyrir æfingu.
Ég elska crunch. Þið hafið kannski tekið eftir því. Ég elska hnetur og fræ, hafrar, allt saman í graut þangað til crispy og stökkt. Hiiiimneskt að bíta í og njóta! Ohh já... bragðið af bökuðum hnetum... og lyktin sem kemur í húsið þegar þetta er bakað. Yndislegt!
Granola orkubombur - 16 stangir +/-
1 bollar hafrar
1 bolli þurrkaðir ávextir (ég notaði döðlur og gráfíkjur)
1 bolli hnetumix (ég notaði möndlur, kasjúhnetur og pistasíur)
1/4 bolli sólblómafræ
1/4 bolli graskersfræ
3 msk hörfræ
1/4 bolli sesamfræ
smá kókos
pínkulítið af salti
kanill
1/3 bolli agave sýróp
3 kúfaðar msk hnetusmjör
1 msk olía
tæplega msk af púðursykri
vanilludropar, uþb tappin á flöskunni
Hita ofn í 175 gráður. Blanda saman höfrum, múslí, hnetum, fræjum, þurrkuðum ávöxtum, kókos og kanil. Setja til hliðar. Yfir meðalháum hita sulla saman blautu (síðustu 5 atriði á listanum hér að ofan) þangað til blandan byrjar að bubbla. Tekur kannski 2 - 3 mínútur. Hella hnetusmjörsblöndunni í skálina með þurrefnunum og hræra saman þangað til öll þurrefni eru þakin hnetusmjörsblöndunni. Passa að allt sé vel blandað því hnetusmjörsgumsið er það sem heldur öllu dúlleríinu saman.
Setja smjörpappír í, helst, ferkanntað kökuform eða eldfast fat. Hellda blöndunni eins og hún leggur sig á smjörpappírinn. Ég notaði ferkantað ál-kökuform. Það er betra að nota ílát sem hefur 'kannta' því þá er auðveldara að þrýsta blöndunni saman. Taka annan smjörpappír og leggja yfir blönduna og þrýsta henni niður í kökuformið þannig úr verði þéttur massi. Yfirborðsflöturin þarf að vera tiltölulega sléttur.
Þegar búið er að þrýsta blönduna í svo gott sem steypuklump þá henda inn í ofn í 10 - 20 mínútur. Best að fylgjast með krumsinu til öryggis.
Þegar þetta er tekið út úr ofninum þá er svolítið mikilvægt að leyfa blöndunni að kólna alveg áður en hún er skorin, annars eru miklar líkur á því að þið endið uppi með múslí! Sem er svosum ekkert slæmt þegar ég hugsa um það.
Nota stóran beittan hníf, skera í 16 parta, fleiri eða færri eftir smekk, finna flottustu stöngina, smakka og njóta hvers einasta bita í botn!
Þessar komu svo vel út. Ég var að reyna að "passa" upp á sykurmagnið, átti ekki hunang, annars hefði ég notað það. Þessar eiga það til að molna svolítið þegar bitið er í þær sem þíðir að ég hefði helst þurft að bæta við aðeins meira agave, eða hunangi. Getur verið að hunangið lími þetta betur saman. Það væri líklegast hægt að bæta við eggi eða mjólk, en þá verða þær ekki svona stökkar og fínar. Þrátt fyrir smá mulning þá eru þessar svakalega bragðgóðar. Oh men, eruð þið ekki að grínast. Þetta er fullkomið nammi fyrir mig. Allskonar mismunandi bragð af ristuðum hnetum og fræjum, smá keimur af kanil í hverjum bita, stökkt, smá sætt og endalaust skemmtilegt að borða. Namm!!
Það er svosum hægt að nota hvað sem er. Finna eitthvað upp í skáp, hella því í skál, bleyta upp í því og henda inni í ofn. Hollt og gott snakk hvenær sem er! Fullkomið til að mylja út á hafragraut!
Svo eru þær líka svo ógeðslega flottar!
Snarl og pill | Breytt 23.9.2010 kl. 21:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.5.2009 | 16:20
Heilhveiti calzone og bakaðar kjúklingabaunir
Cal-a-zon-ay!! Ég elska að segja þetta!

Mig langaði svo ógeðslega mikið í eitthvað pizza-brauð kyns áðan, að eftir mikið hugsanastríð við sjálfa mig varð til yndislega frábærlega fínn calzone. Einmitt það sem mig langað í og ohhohoo hvað hann heppnaðist líka vel. Þar sem ég ætla ekki að endurtaka Pizza-Hut ævintýrið á næstunni þá ákvað ég að búa mér til degið sjálf, var næstum hætt við því ég nennti ekki að standa í öllu ger veseninu. Svo verð ég líka alveg eins og blaðra ef ég borða gerbrauð, get svo svarið það. Fann loks þessa frábæru uppskrift af pizzadegi á Café Sigrún. Það tekur innan við 10 mínútur að útbúa degið og voila! Ég notaði heilhveiti í staðinn fyrir spelt. Þetta er æðisleg uppskrift, hveiti, olía, lyftiduft og vatn. Krydd ef vill. Þetta líkar mér! Einfalt, bragðgott, sinnir sínu hlutverki vel og eintómlega hollt og hamingjusamt!
Eftir að degið var reddí, skipti ég því í tvennt. Flatti helminginn út og kom fallega fyrir á bökunarpappír. Setti á degið salsasósu, um það bil 30 gr. af sveppasmurosti, rúmlega matskeið af heimalöguðu guacamole og nokkra kirsuberjatómata í heilu. Þarnæst steikti ég, hvorki meira né minna, en 6 eggjahvítur á pönnu ásamt brokkolí og 1 hvítlauksrifi. Kryddaði með smá salti og pipar, rauðum piparflögum og smellti á deigið. Ofan á eggjahvítugumsið setti ég svo smá ost.
Lokaði herlegheitunum, penslaði með eggi og inn í 150 gráðu heitan ofn í um það bil 15 - 20 mínútur.
Líklegast er hægt að hafa þetta lengur, ég notaði bara nefið og puttana, þefaði, potaði og tók út úr ofni. Hélt fyrst að calzone-inn minn væri dáinn. Hann leit eins út og þegar hann fór inn í ofn! Þvílíkan og slíkan fölan lit á degi hef ég ekki séð í langan tíma en allt kom fyrir ekki, fulleldaður, mjúkur og fínn.
Úúúú, svo kemur þetta skemmtilega. Smakka!! Ég varð ekki fyrir vonbrigðum, þvílík gleði. Ég er mikil ostakerling en í þetta skiptið var það ekki vandamál. Það má að sjálfsögðu bæta t.d. út í brokkolíblönduna fetaosti, mozzarella, rjómaosti - you name it, til að gera þetta meira djúsí en treystið mér. Þetta var best. Hlakka líka mikið til að búa til fleiri svona. Þetta er æðifæði! Auðvelt að útbúa, auðvelt að gera þetta hollt. Stútfylla af grænmeti, sætar kartöflur, kjúklingur, fiskur... það hlakkar í mér hérna!
Það sem mér þykir svo frábært er að brauðið var ekki yfirgnæfandi. Þunnt brauð í svona rétt er einmitt eitthvað fyrir mig. Þá verður maður saddur af innvolsinu en ekki stútfullur af brauði. Brauðið var ekki þurrt, eiginlega bara fullkomið! Eldað, heitt brokkolí er líka guðdómlegt. Ég held að brokkolí sé mjög misskilið grænmeti, greyið. Ég elska það! Kemur svo vel út í öllum svona réttum. Mmhmmmm!
Mig langaði líka í eitthvað smá snarl í dag og prófaði að henda inn í ofn kjúklingabaunum sem ég svo grillaði þar til stökkar. Kom bara svolítið vel út. Ætla að prófa það aftur. Held nú reyndar að ég hafði grillað þessar svona um það bil 10 mínútum of lengi - en bragðið og áferðin er skemmtileg.
1 dós kjúklingabaunir, skolaðar, þurrkaðar eilítið
Olía, ég notaði 1 tsk af olíu
kanill, cumin, chilli, paprika.... þið ráðið
smá salt og pipar
Hræra saman baunum, olíu og kryddi. Breiða úr baununum á bökunarpappír og inn í 175 - 200 gráðu heitan ofn í 40 - 60 mínútur. Fer svolítið eftir ofninum sem þið eigið. Líka ágætt að kíkja á þær af og til, hræra í og fylgjast með til öryggis. Þær eiga það til að brenna fljótt. Athugið, að ef þær eru ekki alveg stökkar eftir dvöl í ofni þá getur verið ansi erfitt að tyggja þær daginn eftir. En sumir vilja hafa þær svolítið chewy. Annars er ég ekki frá því að ég líti út eins og ein svona baun ákkúrat núna!
Mér finnst þetta sniðugt snakk, trefjar, lítið af fitu og prótein! Svo er skemmtilegt að borða þetta, smá hint af kanil og sterku - geggjað.
Annars er það smokkfisk veisla í kvöld, það verður geðveikt. Gaman að vera ég í dag!
Snarl og pill | Breytt 23.9.2010 kl. 21:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.5.2009 | 22:09
Ís fyrir svefninn
Já, þið lásuð rétt. Ís... alvöru, alvöru ís!
Ég keypti mér ísvél - hún lítur svona út!
Í blender setti ég 1 dl vatn, 1 dl undanrennu og 1 skammt af próteini. Blandan var næfurþunn.
Ég hellti blöndunni í ísvélina
Fyrst leit hún svona út...
...svo leit hún svona út - léleg mynd engu að síður....
... ó gott fólk... VOILA, MUAHAHHHAAAA... IT'S ALIVE! ÍS!
Hellti yfir þetta hnetusmjöri og krumsi!
Áferðin alveg eins og á "ekta" ísvélar búðarís! Ég segi ykkur satt! Þetta er æðislegt!
Ég á eftir að nota þetta tæki svo mikið! Hugsið ykkur allt sem er hægt að búa til með þessari snilld. Allir ávextir heimsins - jógúrtís, kókoshnetuís, banana og jarðaberjaís, súkkulaðiís, skyrís, hnetusmjörsís, ís með kökudeigi, múslí, próteini.... HÖFRUM - svo margir möguleikar og allir samviskulausir!
Nú get ég dáið hamingjusöm!
Snarl og pill | Breytt 23.9.2010 kl. 20:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
7.5.2009 | 21:44
Heimagert möndlusmjör með hunangi og kanil

Hnetusmjör er svo æðislega fínt út á t.d. grauta og skyr, rétt smá í skeiðina. Líka frábært að rista brauð með kanil-eggjablöndu, smyrja yfir það hnetusmjöri, smá sultu og banana. Hnetusmjör, hnetur og möndlur eru einfaldlega eitthvað sem er á góða listanum mínum! Þegar maður mallar það í heimahúsi er nokkuð víst að engin aukaefni/olíur/salt ofr. séu að flækjast fyrir - bara mjög, mjöög vel muldar möndlur! Svo eru hnetur og möndlur svo ótrúlega hollar og frábærar. Holla fitan og prótein... namm!
Ég útbý mér stundum hnetusmjör hérna heima, möndlusmjör eða blandað hnetusmjör. Stundum jafnvel með hörfræjum og allskonar sniðugu. Er bæði gaman og óóótrúlega bragðgott! Fékk mér nýtt eldhúsdót í dag og ákvað í tilefni af því að hræra í einn lítinn skammt af möndlusmjöri - fann einn poka af möndlum upp í skáp.
Möndlusmjör - tæplega 60 ml smjör
1 poki möndlur, mínar voru með hýðinu
1 tsk hunang eða Maple Syrup, rétt svo til að húða möndlurnar
Kanill eftir smekk
Salt ef vill - ég sleppti því
Hræra saman möndlur, í heilu, hunang og kanil. Dreifa jafnt yfir bökunarpappír og rista í ofni í 15 - 20 min á 180 gráðum. Þegar möndlurnar eru ristaðar áður en þær eru hrærðar, verður smjörið mun skemmtilegra á bragðið og lyktin er ómótstæðileg. Lykt af ristuðum möndlum er himnesk!
Eftir að búið er að rista möndlurnar þá þarf einfaldlega að setja þær í mixer og byrja að mixa. Getur tekið allt að 10 mínútum. Á einhverjum tímapunkti byrjar blandan að forma kúlu, þá bæti ég stundum pínkulítið af olíu með, nær ekki teskeið.
Halda áfram að hræra... og hræra... af og til skrapa hliðar skálarinnar - hræra meira þangað til blandan verður að smjöri. Er nú ekki flóknara en svo. Því meira sem þú hrærir, því mýkri verður blandan að sjálfsögðu. Ef salt á að fara út í þá er ágætt að bæta því við í restina - ég geri það aldrei.
Smjörið er með smá sætum keim af hunanginu og kanilnum og pínkulítið af ristuðum hunangs/hnetu leyfum. Maður finnur ristaða bragðið af hnetunum mjög vel og áferðin af smjörinu er mjög skemmtileg. Æðislegt bragð.
Ég notaði þessa snilld að sjálfsögðu strax í kvöldnaslið mitt. Skeið af hreinu próteini, 1 tsk af nýmuldu möndlusmjöri og möndlur með. Næstum skammarlegt - þetta er eins og að borða nammi!
Snarl og pill | Breytt 23.9.2010 kl. 20:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.4.2009 | 23:13
Heimalagaður Ricotta ostur

Ég get búið til rocotta ost heima hjá mér! Mikið óstjórnlegt hamingjukast átti sér stað fyrir framan tölvuskjáinn þegar ég uppgötvaði þetta og að sjálfsögðu stökk ég upp og bjó til smá ost. Getið þið ímyndað ykkur allt góðgætið sem hægt er að útbúa með þessari snilld? Sætu kartöflu ricotta gnocchi, pasta, brauð, ídýfur, með heimalöguðu flatbrauði, á pizzur, sósur, brauðfyllingar, samlokur... oh djíses!!
Svo auðvelt að græðgispúkinn í hjartanu á mér fékk fjörfisk í lærið!
Margar uppskriftir til - allt frá því að nota mjólk, sítrónusafa eða edik upp í mjólk/rjóma/súrmjólk/áfnir! Virðast vera nokkrar útfærslur til og treystið mér, ég mun án efa prófa þær allar á næstunni!
Í þetta skiptið notaði ég 1 líter af léttmjólk og 1 líter létt súrmjólk! Þetta er líklegast einfaldasta útfærslan af þessu lostæti, en kom svakalega vel út. Það átti í raun að nota nýmjólk og súrmjólk. Með því móti verður osturinn rjómakenndari, en svona er þetta þegar maður horfir á rassinn á páskunum renna úr hlaði og allan matinn sem var gleyptur í heilu! Sumar uppskriftir sem ég skoðaði innihéldu meira af mjólk, minna af súrmjólk, aðrar notuðu dash af rjóma... hlakka mikið til að prófa mig áfram!
Ricotta
1. Hella saman mjólkinni og súrmjólkinni í stóran pott. Helst með þykkum botni og hita á meðal hita. Hræra í blöndunni af og til og skrapa upp af botninum svo það brenni ekki. Eftir því sem mjólkurblandan hitnar þá byrja hálfgerðir klumpar að myndast á yfirborði hennar. Þegar blandan er orðin rjúkandi heit, hætta að hræra.
2. Þegar blandan verður um 80 gráðu heit hefur hún skilið sig að fullu, eftir situr hvítur þykkur massi og whey-ið, gráleitur vökvi. Slökkva strax á hitanum, taka af og leyfa að sitja á meðan sigti og co. er preppað.
3. Yfir stórum potti, eða vask, stilla upp sigti og leggja yfir sigtið t.d. tusku eða bleyjuklúta. Varlega veiða hvíta massann upp úr pottinum og setja í klútinn. Þegar allur massinn er kominn yfir í klútinn og farið er að hægja á vökvanum sem lekur frá, binda enda tuskunnar/klútsins saman þannig úr verði vöndull, snúa upp á klútinn - binda fyrir og láta hanga í um 15 mínútur til að allur auka vökvi síjist frá. Ég lét mitt hanga á krananum yfir eldhúsvaskinum :)
4. RICOTTA. Tæplega 2 bollar. Annað hvort nota ostin strax í eitthvað sniðugt eða setja hann í lokað ílát og inn í ísskáp. Ætli þetta geymist ekki í tæpa viku.
Þetta tók innan við klukkutíma frá byrjun til enda. Ostinn er svo hægt að krydda t.d. með salti, setja inn í ísskap yfir nótt og daginn eftir - oh men. Taka smá bút af ostinum, krydda, sáldra með olíu, strá hnetum yfir og bera fram sem meðlæti á t.d. snittur eða sem forrétt!
Ástæðan fyrir því að súrmjólk, sítróna eða edik er notað er sú að sýran skilur mjólkina. Sumar uppskriftir sem ég fann byrjuðu á því að hita t.d. mjólk upp í 80 gráður og eftir það er sýrunni bætt við - blandan skilur sig strax. Mitt gums náði þó að skilja sig á ljóshraða, veit ekki hvort þetta hafi verið of heitt hjá mér og/eða hvort ég hafi verið með blönduna yfir hita of lengi... en það virtist ekki koma að sök. Mér fannst þetta geðveikt!
Það verður amk gaman að prófa sig áfram! Ég er forfallin ostaæta!
Snarl og pill | Breytt 23.9.2010 kl. 20:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.4.2009 | 22:02
Hollustu muffins og heimagert múslí
Það er eitthvað svo gleðilegt við að búa sér til mat - sérstaklega ef það er auðvelt og ódýrara en að fara út í búð og versla sér sömu vöru. Líka ótrúlega fullnægjandi að eiga afganga og geta nýtt þá í eitthvað djúsí og skemmtilegt.
Múslí er allra meina bót og gefur skemmtilegt kikk í ab-mjólkina, hafragrautinn á morgnana eða yfir salat. Heimagert múslí er að sjálfsögðu eitthvað sem allir geta gert og ráða þar af leiðandi hvort það sé sætað með sykri, hunangi, agave nú eða bara rúsínum og þurrkuðum ávöxtum. Eru svosum engir galdrar við múslígerð - ég bjó mér til múslí í síðustu viku sem heppnaðist svaka vel.
Múslí

2 bollar grófir hafrar
1/2 bolli kókos
1/2 bolli sólblómafræ
Hnetur - ef vill. Möndlur eru persónulega mitt uppáhald.
2 msk hunang (acasiu hunang, líka hægt að nota agave sýróp)
1 msk olía
1 tsk vanilludropar
Best að byrja á því að hita ofninn í 150 gráður. Blanda svo saman olíu, hunangi og vanilludropum. Hella öllum þurrefnum út í og blanda saman þangað til hunangið og olían hafa þakið allt heila klabbið. Hella blöndunni á smjörpappír og inn í ofn í um það bil 10 mínútur. Þá er gott að hræra aðeins í og inn í ofn aftur í 5, hræra og svo 3 mín eða þangað til hafrar og korn eru orðin fallega gyllt. Fer alveg eftir ofninum, ef þetta er kjarnorkuofn þá er betra að fylgjast vel með blöndunni svo hún brenni ekki.
Nú skal múslíið tekið út úr ofninum og kælt. Ég bæti alltaf við rúsínum í múslíið mitt eða þurrkuðum bönunum. Þetta múslí verður cruncy og smá sykrað - alger snilld og ofboðslega bragðgott.
Það þarf auðvitað ekki að hafa hunang og olíu - mér finnst alveg jafn gott að henda höfrum og korni inn í ofn og þurrista. Olían og hunangið bæta um það bil 10 hitaeiningum við hvern skammt sem er um 1/4 úr bolla og 120 hitaeiningar. Kókosinn og sólblómafræin rífa þetta ansi vel upp :)
'Hollustu' muffins
Svolítið eins og mini Frittatas. Eggjakökur með meiru, fullar af prótíni og flóknum kolvetnum. Ekki lausar við eggjakökufílínginn en samt eins og muffins ef kryddaðar rétt. Hittu beint í mark hjá mér, finnast þær æði!

5 - 6 dl eggjahvítur (uþb 15 - 18 eggjahvítur)
3 dl muldir hafar (uþb 150 grömm)
1/2 msk lyftiduft
1/2 msk matarsódi
1 msk vanilludropar, sítrónudropar? Þið ráðið.
Hræra saman þurrefnum - hræra eggjahvítunum og vanilludropum saman við. Þá er grunnurinn að deiginu kominn. Hena inn í 200 °C heita ofn og baka í 20 min. Það má líka salta eftir smekk. Deigið er mjög þunnt.
Svo byrjar leikurinn. Ég bjó til muffins með 'banana og möndlum', 'banana, eplum og fíkjum', 'banana, möndlum og hunangi', 'banana, döðlum og möndlum', 'eplum, kanil og rúsínum', 'eplum, valhnetum, kanil og fíkjum', 'valhnetum, möndlum og hunangi'... you name it! Svo bara henda inn í frysti, taka út, nokkrar sek í örrann og húrra - flottur morgunmatur!
Úr þessum skammti útbjó ég 18 kökur. Ein máltíð eru 5 kökur.
Næringargildi per köku

Um það bil, svo bætir maður einhverju gúmmulaði við - en þetta er viðmiðið.
Hitaeiningar: 45
Prótein: 4,7
Kolvetni: 4,7
Fita: 0,5
Trefjar: 0,3
Snarl og pill | Breytt 23.9.2010 kl. 20:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.3.2009 | 23:33
Próteinstangir, taka 2
Varð að prófa meira í kvöld úr því ég byrjði á þessu um helgina - og ekki hætt enn! Hægt að gera endalausar útfærslur af þessu dóti!
Gerir 4 karamellusúkkulaði

Botn
2 dl grófir hafrar
1 eggjahvíta
1/2 vel þroskaður banani
1 skeið hreint súkkulaði whey prótein
1 msk hörfræ
1. Hræra saman eggjahvítu og banana þangað til létt og ljóst
2. Bæta próteininu saman við
3. Blanda út í höfrum og hörfræjum, láta standa í um 15 mínútur
4. Setja í form og inn í 140 gráðu heitan ofn þangað til stíft. Tíu mínútur ca
Karamella
2 skeiðar hreint vanillu whey prótein
2 msk náttúrulegt/lífrænt, ósaltað, ósykrað hnetusmjör
smá vatn
1. Hræra saman hnetusmjöri og próteini
2. Blanda smá vatni út í og hræra áfram. Á að mynda mjög þykkt og klístrað deig, eins og karamella.
Hella kreminu yfir botninn, helst í forminu ennþá og inn í frysti. Skera niður í 4 hluta þegar karamellan er orðin nógu stíf. Hægt að þekja með hnetum, súkkulaði, kókos, fræjum, höfrum....
Botninn varð svolítið þurr hjá mér, geri fastlega ráð fyrir því að það sé próteininu að kenna. Hægt að nota t.d. heilt egg eða heilan banana til að fá rakann í deigið og fituna.
Næringargildi í 1 stöng uþb
Hitaeiningar: 203
Prótein: 24 gr
Kolvetni: 20,5
-þarf af 1,4 gr sykur
Fita: 6,25
Trefjar: 1,5
Snarl og pill | Breytt 23.9.2010 kl. 20:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.3.2009 | 22:59
Próteinstangir - home made, no bake
Veit um nokkra sem eru ekki par hrifnir af þessum prótein stykkjum sem finna má út í búð. Mörg hver eru reyndar stútfull af sykri og annarri "óhollustu", gefið, þetta er súkkulaði elsku fólk - ég hef þó samið minn frið við þau. Mér persónulega finnst flundur fínt að grípa mér eitt stykki af og til og ef allt matarræði er á sínum stað, þá er eitt prótein súkkulaði flott mál!

Fór á netið, eins og svo oft áður, og gramsaði eftir Home-made prótein stöngum og fann þessa alveg ágætis síðu. Ef þetta er gert í heimahúsi ræður bakarameistarinn alveg hvað sett í súkkulaðið/stöngina, hvort sykur frændi megi vera með o.fr. Svakalega sniðugt að eiga þetta t.d. á milli mála - jafnvel grípa í á morgnana eða hey, ef þið eruð að drepast úr nammiþörf - þá er þetta eitur snjallt!!
Eins og ég hef sagt áður þá er M&M bragðbesta prótein sem ég hef smakkað. Hægt að kaupa þessa snilld hjá honum Dóra í Perform í Holtasmáranum. En M&M stendur eitt og sér sem heil máltíð og mér finnst askoti blóðugt að "eyða" því í t.d. eftirrétti og viðbit sem þetta. Þar af leiðandi prófaði ég hreint prótín í þessa uppskrift til tilbreytingar. Kom alveg hreint ágætlega út, ekki ósvipað Snickers á bragðið. Mjöög djúsí og gaman að bíta í!
Ég ákvað að nota mjög auðveldan grunn að þessu "snakki". Það er hægt að leika sér heilmikið með þetta og ég á án efa eftir að gera þetta meira "djúsí" Elinizað ala Erna í næsta skiptið. Þetta gefur ykkur amk smá hugmynd um hversu einfalt þetta er :)
Próteinstangir - 10 stykki
1 bolli grófir hafrar
6 skeiðar hreint whey prótein (notaði 2 súkkulaði, 4 vanillu)
2 msk hörfræ
5 msk lífrænt hnetusmjör, ósaltað (myndast olía ofan á hnetusmjörinu, þarf að hræra saman)
1 tsk vanilla
1/2 bolli vatn, minna eða meira eftir próteininu
1. Hræra saman þurrefnin (Hægt að djúsa upp með hnetum, ávöxtum, múslí ofr)
2. Bæta við hnetusmjörinu og vanilludropunum (hægt t.d. að setja kanil með)
3. Setja vatn útí, hræra þangað til deigið blandast vel - verður mjög klístrað. Næstum eins og karamella.(Hér væri líka hægt að nota mjólk til að blanda saman þurrefnin)
4. Pama glerfat eða setja t.d. bökunarpappír eða plastfilmu í form. Smyrja deiginu í formið og frysta/setja inn í ísskáp. Þegar gumsið er orðið nógu stíft, skera í 10 bita og beinustu leið inn í frystinn aftur. Ég reyndar hjúpaði mitt með kókosmjöli og troddaði svo aftur í frystinn.
Ef þetta er tekið úr frystinum þá koma stangirnar til með að verða linar. Það er því sniðugt að geyma þær ekkert of mikið í hita nema að sjálfsögðu þið viljið borða þær í hálfgerðu hafragrauts formi ;)
Mmm, spáið samt í því ef það væru t.d. stappaðir bananar og döðlur í þessu til að sæta upp. Möndlur, jafnvel múslí til að fá smá crunch! Hjúpa með hökkuðum hnetum eða dökkum súkkulaðispænum! Oh men!

Næringargildi per stöng
Hitaeiningar: 165,2
Prótein: 17,5
Fita: 6,7
Kolvetni: 9,1
Þar af sykur: 1,4
Trefjar: 1
Þið gætuð líka skipt þessu niður í 8 stangir, þá eru um það bil 21 gr af próteinum í hverri stöng og 206 hitaeiningar. Æpandi fullt af flóknum kolvetnum, próteini, hollri fitu - gæti ekki verið betra!
Eins og barnabörnin mín koma líklegast til með að segja í framtíðinni
"Mmmm, alveg eins og próteinstangirnar hennar ömmu!".
Snarl og pill | Breytt 23.9.2010 kl. 20:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.3.2009 | 22:13
Tilraunaflögur - vel heppnað og crunchy snakk
Úr því ég er nú komin í gírinn þá átti ég smá afgangs deig úr Tiramisu prufunni minni áðan. Datt í hug að búa til svona litlar skonsur sem væri hægt að nota eins og snittubrauð en nei, skonsurnar snarbreyttust í snakk! Svona líka fínt!

Snakk
2 Eggjahvítur
1 - 1,5 skúbbur vanilluprótein
Eitthvað sniðugt krydd, ég notaði t.d. pizzakrydd og smá oregano
1. Hita ofn í 140 gráður.
2. Hræra vel saman innihaldsefnum, ætti að mynda þykkt deig.
3. Hita pönnu vel, engin olía, og setja eins og tsk/msk af deigi á pönnuna og dreifa úr, svo úr verði þunn plata.
4. Snúdda ofurlitu pönnukökunni við þegar hún er orðin brún á pönnuhliðinni :)

Þegar búið er að útbúa svona litlar flögur úr öllu deiginu skal safna þeim saman og henda inn í ofn þangað til brúnar og almennilega stökkar. Þegar þær eru reddí heyrist meira að segja snakkhljóð í þeim þegar maður kemur við þær... og þær beyglast og vinda upp á sig.
Eðal að borða salsasósu með, nú eða uppáhalds - guacamole, hummus eða jógúrtsósu! Mmmhmm!
Snarl og pill | Breytt 23.9.2010 kl. 20:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)