Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
4.10.2011 | 08:26
MEIRA BROKKOLÍ
Daginn.
Veginn.
Eitthvað meira sem endar á -inn!
Er að verða búin með 5 vikur af TRX/Bjöllum. Áhugavert ekki satt?
Jah, eiginlega bara 4 vikur þar sem táin tók sér viku í fýlu og leiðindi. Núna haltra ég um eins og önd á svelli og reyni eftir fremsta megni að hoppa ekki mikið á einari. Amk tábrotnum einari.
Síðustu vikur hafa þó einkennst af dularfullri brokkolí/blómkálsþörf. Ég borða þetta forboðna grænmetissull í öll mál, með öllu, allstaðar og við hvaða tilefni sem er virðist vera. Ef einhver svo gott sem nefnir orðið "brokkolí" þá æpi ég samstundis:
"JÁ....U, JÁ TAKK.. HINGAÐ... KASTAÐU ÞVÍ HINGAÐ, æðislegt, frábært... gott, flott".
Ég held þetta sé orðið sálrænt því ég er farin að dreyma brokkolí í tíma og ótíma.
Fyrir utan blómkál og brokkolí er allt annað ofnbakað grænmeti mín einasta, heitasta, æðislegasta ósk þessa dagana. Ofnbakað, hitað, eldað, soðið, steikt... í hvaða formi sem er í raun.
Svo lengi sem það er ekki í kökuformi, ég þooooooli ekki grænmeti í kökuformum!
Hohohoho...
...HVAÐ? Klukkan er ekki orðin tólf gott fólk. Kastið til mín beini. Húmor fyrir hádegi er ekki meðfæddur.
Hvað sem öðru líður þá hefur kvöldmatur síðastliðinna... kvölda... einkennst af eftirfarandi:
Green Curry súpa m/kókosmjólk og tonni... af grænmeti, ásamt grjónum og almennri gleði.
Einfalt, fljótlegt og ó... svo... ógeðslegaofurbragðgottogákkúratfínt!
Annars spurði hún Sylvía mig í kommentum síðasta pósts, hvort ég hefði verið að gata aumingjans skrokkinn á mér eitthvað frekar.
Og jú, það er víst svo.
Þeir sem finna götin fá verðlaun!! Jííhaawww.
Annars er mjög girnilegur Akureyrarpóstur á leiðinni. Við, the krakks, skelltum okkur í notalegheitakósýferð. Afmælis Egill átti sér stað ásamt allskonar sukki.
AfmælisEgill er meðal annars meðlimur, og söngvari, í hljómsveitinni Nóru sem var að senda frá sér nýtt lag... og ég svoleiðis öööölska þetta lag. Búin að vera táhaltrandi heimahúsum að reyna að kreista fram dans- og dillitakta. Það gengur upp og ofan... þó helst neðan. Áhugasamir geta hlustað hér.
Annars er þetta fyrsta skipti sem átvaglið heimsækir Akureyri almennilega, Brynjuís og Greifamatur þar með talinn.
Tek ekki með Akureyrarskiptið þar sem ég þaut í gegnum bæinn, beint á flugvöllinn, til að komast undan ösku og beint til Ástralíu.
Hef sumsé eytt meiri tíma í Ástralíu en á Akureyri. Nokkuð magnað það.
More to come.
30.5.2011 | 09:39
Umkringd snillingum
Fékk svo svaðalega góðar fréttir í dag. Ég er öll uppveðruð og fluffy í sálinni.
Hihiiiii
ok.. ok...
Þetta... er Erna... og litli Lallinn hennar
Erna er:
- besta vinkona mín
- tuðsvampurinn minn þegar ég þarf að rífast yfir, bæði, smá- og stórvægilegum hlutum
- bootcampf félagi extraordinaire og hefur, því tengt, borið átvaglið á bakinu upp brekkur
- mikil, mikil hvatning
- Lois
- alltaf til staðar
- allsvaðalega klárt eintak
- alltaf til í allskonar vitleysu
- lögfræðingur, eiginkona (lesist með mmmyeees), mamma, að æfa fyrir 5km hlaup
- allsvaðalegasti reddari sem fyrirfinnst á jörðinni. Þurfir þú hvíta brunaslöngu með fjólubláum, misstórum, doppum sem sprautar vanillubúðing, þá er hún manneskjan til að tala við.
- uppáhalds uppáhald
- verðandi dr. Erna!
- ... (þetta ku vera ofr. línan því punktarnir eru töluvert fleiri en fram koma hér)
- snillingur
Hún fær hrósið mitt í dag og hjemmelavet sushi, næstkomandi fimmtudag, fyrir einskæran brilljans og hamingju. Fékk ofurmasterslögfræðinámsstyrk í dag!!! Amen.
Geri aðrir betur. Ha...
Ojjj hvað ég á ofurklárt vinkvendi!
- 04:45 - Banana sjúfflé
- 05:00 - 50 mín hjólarúntur
- 06:00 - Rækt, bak og brjóst
- 06:50 - Hleðsla með kókos og súkkulaði - ágætis sull
Esjuveður? Já, ég held það barasta.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 11:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
24.5.2011 | 16:26
Hádegisvinnuát og elítufólk
Hádegismaturinn er einn af mínum uppáhalds uppáhalds mötum. Virkilega.
Ég hlakka alltaf til þess að setjast niður með hádegiselítunni minni, stundvíslega kl 10:46, og gúffa í mig risaskammt af salati. Flundurfersku og risastóru... salati.
Stundum með ábót, búbót, sokkabót, þokkabót.
Sokkabót er afskaplega óæskilegt til átu hinsvegar.
Eldhúselítan samanstendur yfirleitt af eldhússkvísunum mínum, Ernu og Þórunni, hnébeygju á Einari H. og Elínu H. Sem ku vera undirrituð.
Já, við borðum hádegismatinn okkar um 11 leitið.
Við hópinn hafa bæst nokkrir valinkunnir einstaklingar yfir mánaðanna rás. Snemmvaknarar og ræktarfrömuðir. Hjólagúbbar og Crossfit brjálæðingar.
Það er gleði.
Mikið sem eldhúskvendin eru nú frábærlega æðislegar samt. Maturinn, í orði, á ekki að byrja fyrr en 11:30. Eins og ég hef áður sagt. Dekur og meira dekur.
Typical ofur hádegismatur a la vinnan!
Fjóólublátt kál.
Núna er hinsvegar margt að gerjast í loftinu og eftir mánuð eða svo kem ég til með að þurfa að fara með mitt eigið ofursalat í vinnuna. Nýju vinnuna. Jebb.
Það verður öðruvísi.
Tilraunir á hádegismatartilraunir ofan í nánustu sumarframtíð... ef sumarið lætur þá sjá sig blessað.
Ég kem til með að sakna elítunnar minnar all svaðalega. Það verður bara að segjast.
Tímarnir framundan eru þó hryllilega spennó og tilhlökkunin allverulega yfirgripsmikil!
Í þessum töluðu...
...epli gúffað í morgunsárið og Hámark um 14:00 leitið í dag.
Saffran í kvöld? Já, það gæti bara vel mögulega verið!
Játningum hérmeð lokið.
Sjáið svo bara hvað amma mín elsku besta bjó til fallega fínt hálsmen handa mér!Öööölsk á það!
Esjan á morgun?
28.12.2010 | 13:44
Spaghettijól 2010
Jólin komu og þau fóru.
Með stæl.
Góðmundur og allir hans félagar léku lausum hala og áttu mikið meira en bara sjö dagana sæla. Eins og mamma orðaði það þegar undirrituð mætti í Gúmmulaðihöllina á aðfangadag.
"Guð minn góður, þarna kemur dökkhærða beinagrindin frá Hrauninu og étur okkur út á gaddinn!!"
Ég var kölluð Skeletor það sem eftir lifði kvölds.
Velmegunarbelgurinn stendur svo langt út frá miðjunni að stafurinn "Þ" ætti að skammast sín og taka "D" sér til fyrirmyndar. Tærnar sjást ekki þegar litið er niður á þær, fyrir utan þá óumflýjanlegu staðreynd að ég lít niður á tær bara almennt - ljótbífur með meiru, og þar sem einusinni gætu mögulega hafa talist verið útlínur á skrokknum eru óskilgreind mörk ítroðslu og geypileg góðæris ummerki. 2007 ofát án landamæra.
Stóðst ég jólaprófið í ár?
Já... svo um munar. Nokkurra daga áti var pakkað saman í eina kvöldstund og afganga daginn eftir.
Annar í áti sló ekki slöku við og var síður er svo eftirbátur sykurvímu og rjómasturtu aðfangadags. Vélindað fylltist rétt fyrir klukkan 21:00 á aðfangadag og ég þurfti að halla höfðinu aftur til þess að geta:
- Andað
- Borðað meira
- Stundað annan í áti
Þriðji í áti var nokkuð slakari en forverar hans tveir, slakari í þeim skilningi að ekki var étið frá morgni til kvölds... meira bara... kvölds! Ef til er græðgisblætisguð í þessum heimi þá mun ég eflaust heimsækja hann í nokkrar vikur eftir að ég hverf yfir móðuna miklu.
Gott fólk, yfir helgina náði undirrituð að slurka í sig um það bil kílói af graut. Rúmlega. Geri aðrir betur. Ég og Rísó eigum að sjálfsögðu í leynilegu ástarsamandi, matarpervismi af hæstu sort. Einkennist af troðslu, þar til grjón eru uppurin, og eftirsjá þegar umrædd stund rennur upp.
Kærið mig!
Jólin eru þó alltaf yndisleg með meiru. Við höfðum það ljúft, gott og allt sem talist getur uppáhalds í þessum heimi. Mikið sem við erum heppin að geta átt, og leyft okkur, daga sem þessa í faðmi fjölskyldu og vina.
Látum myndirnar tala. Velmegunabumban var/er of hræðileg til að ég fari að sporta þeirri náhvítu synd framan í alþjóð. Ég vil helst ekki að þið missið matarlystina mín kæru. Þið verðið bara að trúa mér.
Yfir og út, þar til annað kemur í ljós.
Æði "hressar" jólasystur.
Grautarhermennirnir mínir! Ég át heila skál... ein... og óstudd!
Tók 2,5 daga í gjörninginn.
Jólalax með heimagerðri ofursósu.
Fjórir diskar og já, ég ét mig yfirleitt alltaf sadda af forrétt!
Sadda sjáið til... ekki pakksadda! Restin af kvöldinu fer í það.
HAHH!!
Þetta er nákvæmlega eins og atirðið úr Christmas Vacation - þegar kalkúnninn er skorinn!
Og já... ekki hafa áhyggjur gott fólk.
Afi fékk blessað jólarassgatið á öndinni! Ef aumingjans öndin hefði nú bara vitað hvað beið hennar.
Greyið!
Myndin hér að neðan er bönnuð innan 18!
Þið getið svo margfaldað neðangreindan skammt með 3,5.
Munið mín kæru, ég lýg aldrei til um magn af mat sem ofan í gapholið hverfur!
Margfalda þennan með 3,5 mínus kartöflur á 1 disk.
Millimál.
Í öll mál... helst.
Áthvíld og pakkaupprífelsi.
Kósíheit.
Kjaft, spjall, raus, mas, hlátur, meiri pakkar.
Gúmfey sokkar - ómissandi á jólunum!
Eins og með jólaöndina, ef það eru ekki sokkar þá eru ekki jól... óhh... dramtíkin!
Grautarstundin runnin upp mín kæru!
Óheilögrjómasletta með grjónum!
GUÐ MINN GÓÐUR
Fallegt ungrú... jólafallegt!
Jebb.
Eigum við að fara út í stærðfræðina hérna?
Marföldun í hæsta gæðaflokki.
Neðangreint * 7.
Og það var bara aðfangadagsátið, annar- og þriðji ekki með taldir!
Smá slökun áður en herskarinn mætir!
Átþreyta og kjötsviti upp á sitt besta!
Loks mætti rest af Speghettiliðinu í Höllina. Húsið var bókstaflega morandi í fólki!
Sæta fína Guðrún Hrefnan mín.
Sæta og fína Helgan mín.
Jólasnær með jólagleraugun
Annar í afgangs-áti.
Og nei, átið átti sér ekki stað í þeirri röð sem myndirnar gefa til kynna.
Þið megið vita það, ójá, að grauturinn er alltaf það fyrsta sem inn um varirnar fer annan í áti! Helst þrjár skálar.
Þar á eftir kemur laxinn og öndin en gröðguð í eftirrétt.
Þannig rúllar Spaghettilýðurinn!
Þriðji... í áti!
Frómasían og rækjukokteillinn hennar ömmu er ómissandi 26. át.
Jebb.
Sinnum 3.
Hérna gat ég hinsvegar ekki meir.
Ketið fékk átvaglsfrí.
En ástæðan var einfaldlega...
...ójeah!
Eftirréttarsítrónufrómasía!!
Ég vil heyra ykkur segja FJÓRIR!
"FJÓRIIIIIIR"
Ofátsgræðgismúrinn hefur hérmeð verið felldur, sprengdur og grafinn! Tvöfalt. Þrefalt... Margfalt.
Svona nú... allar syndir og ósyndir upp taldar í máli og myndum.
Pheew *anda inn*-*anda út*
Vona að þið hafið ekki sofnað á leiðinni!
Svo er ekki nema korter í 2011. Vissuð þið þetta?
Jáhérnahéri og allir hans fylgdarmenn.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 14:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
29.11.2010 | 21:05
Þeink jú 2010
Yfirstaðið!
Jahérna. Ár síðan síðast. Tíminn er svo fljótur að líða.
Tugurkey, sósa, salat, stappa, eftirréttir, vinir og kósýheit!
Dagurinn og Gunni enn erlendis að námast. Ernu, Jens og Lalla litla var einnig sárt saknað en þau komust ekki sökum veikinda. Fengu þó senda til sín afganga fyrir 100 manna her.
Veltum einmitt fyrir okkur í boðinu góða, hvurslags ástandi við hefðum verið í, í fyrra. Keyptum 10 kg. + af kalkún, meðlæti og meðþví ásamt eftirrétum og það var klárað... allt... ekki einusinni krums eftir.
Þetta árið var svipað magn af mat framreytt, en afgangarnir dugðu vel í amk tvær veislur til viðbótar. Enda fór sögum um það hvurslags skelfingar-svip aumingjans maðurinn setti upp sem tók við kalkúnapöntun þessa árs. Sérstaklega eftir að hann vissi hversu margir hausar sætu að dýrinu.
"Bara 10.. en... en þessi kúni er 12048 kíló..."
Þetta árið... þá hafði hann rétt fyrir sér! Sá hlær greinilega best sem síðast... hlær... eða svoleiðis.
Jæja, eplaskurður fyrir Valdorfinn á meðan kúni brúnast í ofni.
Egill þykist vera að þefa af eplinu... einmitt. En við vitum betur. VIÐ VITUM BETUR.
Þetta er feitast laumubiti!
Ferlíkið út úr ofni, útglennt - og hálf dónalegt - bíðandi eftir skurði og limlestingum.
Fallegri lýsing, á fyrir-kalkúnaáti, er vandfundin mín kæru.
"Fyrirgefðu.... uu.. fyrirgefðu. Ég ætla að fá eitt læri takk.".
Eldhúsið er staðurinn.
Þar safnast fólk saman til að góna sem mest það má í átt að matnum , til þess eins að góna. Þetta er hálfgert hrafnaþing.
Ég tók þátt í góninu enda engin furða, maturinn er falinn bakvið mannmergðina.
Ég náði þó að hrista af mér matarmóðuna til að festa þetta stórkostlega móment á filmu. Egill tók þá hamingjugleðikast og stökk fyrir myndavélina. Það heppnaðist svona vel!
Nei... hann datt ekki og seinni tilraun heppnaðist aðeins betur.
Takið eftir því að enginn virðir athæfið viðlits sökum mataráhuga - nema Snæbjörn!
Jú, og Jóhann.
Ég held samt að það sé matur í sjónvarpinu!
Heimspekilegar ísskáps-umræður í gangi.
"Ég keypti mér ísskápsstál í fyrra sem heldur 5 kg. poka"
"Ég átti einusinni ísskáp sem var fjólublár"
Þórunn okkar kær, gestgjafi annað árið í röð, að bera fram bestu kartöflustöppu austan við Hallbjörn.
Jólalegt með eindæmum.
Loksins var Tugurkey skorinn. Það þurfti 4 menn, og greiða frá almættinu, til að koma því í kring en það hafðist. Sem guðs betur fer. Hungrið, þó aðallega græðgin, var farin að segja allverulega til sín á þessum tímapunkti.
Tilhlökkunarmatarátsspenningur í sinni hreinustu mynd.
Hjölli greyið fékk bara sultu á sinn disk.
Hann ákvað, þrátt fyrir smá sorg, að taka því vel því jú, það er nú meira en margir aðrir fá!
Á meðan hrúgaði velmegunar Egill ofurkalkún á sinn disk í anda 2007.
Þetta er ein massíf 2007 kalkúnahrúga!
Seinna um kvöldið, þá drakk hann sósuna!
Elín Lóan mín sæta fína ánægð með þetta eðalát.
Gott ét, of södd, gátum ekki andað en samt...
..samt er alltaf pláss fyrir eftirréttina. Þrennskonar gúmmulaði í bland við þreyttan rjóma, ís og kaffi.
Ljúfa líf!
Tiltekt átti sér að sjálfsögðu stað seinna um kveldið!
Það lítur út fyrir að Ómar hafi fundið fordyri helvítis!
Takk fyrir mig elsku bestu! Aftur! Þetta var yndi í dós!
Ég er lukkunnar panfíll að vera partur af svona eðalfínum hópi af fólki. Ég fer ekkert ofanaf'ðví! Lukkunnar panfíll!
Panfíll?
Hmmh.. hvort heldur sem er. Ef panfíllinn er lukkunnar, þá er ég svo sannarlega panfíl.
Bezt!!
29.10.2010 | 08:56
Halógen 30.10.2010
Í boði móður minnar og Gúmmulaðihallarinnar vil ég kynna:
Mikilvægir aukaleikarar
Bakstur: Ella og múmíubörnin
Smakkarar: Systir og stjúpsystir
Borðarar: Allir fyrrnefndir ásamt Spaghettisen og Sandalafem aka Djákninn/Pabbúla!
9.10.2010 | 15:23
Ég ætla aldrei að borða aftur
Hef látið þessa setningu flakka, nokkrum sinnum á ári, í um það bil 23 ár.
Hún þreytist seint.
En í þetta skipti held ég að ég hafi sprengt allt sem hægt er að sprengja.
Nánast matarskírlífi í 4 vikur, nánast... ekki alveg, en allt að því.
Hleypti villikvikindinu lausu í gær með miklum látum Mikil var dýrðin meðan á því stóð, þó svo hún hafi ekki verið jafn stórkostleg eftirá.
Að auki við ofát og almennt of-allt, þá ákvað ég að fá mér smá hvítt. Því við vorum nú að borða þessa snilld... ha... þá þarf smá hvítt er það ekki?
2 hvít, 1 rautt og undirrituð spangólaði sem mest hún mátti...
"DOOWN ON THE CORNER... HOWDY IN THE STREET"
...ásamt...
"COOVER OF THE ROLLING STOOOONES"
...og talaði út í eitt í um það bil 2 tíma. Hvaðan þessi gífurlegu áhrif alkóhóls komu er enn ekki alveg vitað, en það verður rannsakað af virtum Háskóla í Jemen! Læt ykkur vita hvað kemur út úr því.
Hljóp inn í eldhús eftir spangól og skellti í hindberja og bananakrums, í staðinn fyrir epli því jah, þau voru ekki til.
Þetta er eina sönnun þess að krumsið hafi í raun og veru verið bakað og hafi einhverntíma verið til á þessari jörð!
Eftir krumsát, um 23:00 leitið, lagðist ég aðeins út af sökum átstopps og þeirrar staðreyndar að ég var farin að gráta hindberjum og einstaka hrísgrjóni.
Svo vaknaði ég í morgun, 12 tímum síðar hvorki meira né minna, alveg jafn södd og þegar augun lokuðust... óvart.
Elskurnar mínar.
Ég ætla aldrei... að borða aftur!
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 15:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
3.10.2010 | 15:01
Óvænt dansgleði
Gærdagurinn leystist upp í allsherjar dansfiestu! Alveg óplanað.
Aumingja fæturnir.
Aumingja tærnar.
Aumingja skrokkurinn.
Gamalmennið að taka völdin? Grautarætan sem komin er í bælið klukkan 22:00, flesta daga, enn uppi á miðnætti að marsera við Pál Óskar í kaupbæti... eins og freðmýrartröll. Svo glæzt var sveiflan gott fólk!!
Hef ekki dansað svona í langan, langan tíma... og með uppáhalds kvendunum mínum í þokkabót. Hrundum óvænt inn á ball með Páli Óskari og hann klikkar seint mín kæru. Tók sporið tryllingslega frá 24:00 - 03:00...
*hné í enni* - * hæll í hnakka*
...og þá sagði skrokkurinn "NEI TAKK... FREKAR VILL ÉG TVÖFALDAN BOOTCAMP EÐA RASSAVÉL Í KLUKKUTÍMA". Hverskonar eiginlega... upsteyt og læti. Ég hef haldið sjúklegri snúning lengur út en auma þrjá tíma. Svo mikið er víst.
En óendanlega skemmtilegt kvöld engu að síður í ægilega jákvæðum félagsskap.
Óvæntur dans... er góður dans!
Vaknaði því heldur seint. Gúllaði í mig eggjaköku, sofnaði aftur, gúllaði í mig hindberja-chiagraut með kotasælu. Það... er svakalegt gott fólk! Uppskrift væntanleg á næstu dögum.
Tók ekki myndir af nokkrum sköpuðum hlut og er núna að fara í lasagna innkaup fyrir kvöldið.
Sunnudagar nýttir í eðalmat. Einn tekur að sér eldamennsku og svo setjast allir saman við matarborðið, smjatta, tala um daginn og veginn og njóta þess að vera til!
Sjáumst í kveld!
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 15:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.9.2010 | 14:57
Gestakokkur
Fékk að gestakokka í vinnunni í dag.
Þar sem kjúlli hefur oftar en ekki orðið fyrir vali gestakokka ákvað ég að snúa vörn í sókn og útbúa uppáhalds fiskrétt Gúmmulaðihallarinnar. Arabíska ofurþorskréttinn.
Hann kom æðislega vel út og fólki þótti hann gvöðdómlega fínn.
Fyndið að vinna í svona stóru eldhúsi og útbúa mat fyrir milljón manns. Það er allt stórt eða mikið eða ofur... Ég keypti t.d. smá Aromat sem ég ætlaði að nota. Eldhússkvísurnar mínar áttu hinsvegar nóg af því.
Það er hægara sagt en gert að halda með báðum krumlum utan um kryddstauk og reyna að krydda "pent" mín kæru! Ójá!
17 sítrónur, 40 paprikur, 10 kg. sveppir, 25 kg. þorskhnakki, 36 tómatar, 12 pakkar döðlur, 600 tonn ólívur...
...hihiiiii hvað þetta var geðveikt gaman!!!
Byrja á því að kreysta "nokkrar" sítrónur og leggja fiskinn í vökvann.
YOU'RE DOING IT WRONG!
Hvað sjáið þið fyrir ykkur þegar þið hugsið "Ein dós af ólívum"?
Jæja, allt hráefni reddí og þá byrjar brælan!
Grænmetið fyrst...
...svo fiskurinn!
Sjáið þið grautargleðina fyrir ykkur? 100 tonn af graut!
Raða í risaföt og loksins inn í ofn!
Nohm! Nohm nohm nohm!
HÁ.. alvarlegt mál!
Vona að ég fái að vera gestakokkur aftur - þá verður lasagna eða kjötbollur í sterkri tómatsósu fyrir valinu! Get þó sagt ykkur það að vinna í mötuneyti, og að þurfa að elda fyrir marga mismunandi bragðlauka, er afskaplega... afskaplega vanmetið. Þið skuluð því vera góð við eldhúsfólkið ykkar sama á hvaða vettvangi það er!
Þetta var þvílíkt ys og þys og at og vá. Var að án stopps frá 09:00 til klukkan 14:00! Búa til, bera fram, ganga frá og allt þar á milli! Tíminn flaug og ég át... og át... og át smá meira. Þetta er fullkominn "pill"-vettvangur!
Stórkostlegt!
Takk fyrir mig mínar elsku bestu Erna og Þórunn! Þetta var ekkert nema gleðin einar!!!
Eldhúsm"ellan" kveður að sinni.
Vinir og fjölskylda | Breytt 1.10.2010 kl. 09:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.9.2010 | 10:59
Stundum er bara ekki hægt að segja nei!
Sama hvað þið þrætið fyrir það.
Stundum... þá er bara ekki hægt...
...að segja nei!
Þó svo þið bítið ekki í dýrðina þá er heilinn á yfirsnúning, átvaglið óstýrlátt og bragðlaukagúbbinn í 120% vinnu við að framleiða munnvatn!
Mér er sama hvað þið segið.
Þó svo út úr ykkur heyrist pent "Nei takk!" og fólk heldur að sjálfsstjórnin sé svo massíf að heilagur andi kæmi ekki til með að hræra við villikvikindinu hið innra!
Þá er ekki ein fruma innan veggja þinnar sérlega yfirveguðu persónu sem er sátt við það!
Borðið mitt er t.d. geymslusvæði fyrir bollurnar sem hvíla sig í hægra neðra horni myndarinnar hér að ofan!
Það er mjög krefjandi að vera ég ákkúrat þessa stundina!
Mjög... krefjandi!
Vinir og fjölskylda | Breytt 24.9.2010 kl. 21:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)