4.9.2009 | 09:52
Hafraklattar sem ekki þarf að baka - taka 1
Nanna Gunnarsóttir spurði mig að því um daginn hvort ég ætti til uppskrift af hafraklöttum svipuðum þeim sem Matarkistan er að selja. Hér á eftir kemur uppskrift af hafraklöttum sem ég geri stundum. Hráefnin eru ekki alltaf þau sömu en útkoman er ávallt að mínu skapi. Hafraklattarnir sem Matarkistan framleiðir eru æðislegir enda smjör og hrásykur í þeim. Maður finnur það meira að segja á lyktinni. Mmmm... Ég nota helst hunang í staðinn fyrir sykur, og smjör, jah... maður deyr svo sannarlega ekki af smá smjörklípu. En það er án efa hægt að nota eplamauk eða kókosolíu í staðinn. Ég ætla svo að setja inn hinar tvær uppáhalds hafraklatta/viðbits-stanga uppskriftirnar mínar við tækifæri!
Hafraklattar
1/2 bolli kókosmjöl
1/2 bolli sólblómafræ
1/4 bolli hveitikím
1/4 bolli uppáhalds múslí eða t.d. sesamfræ.
1/4 bolli niðurskornar aprikósur
1/4 bolli niðurskornar döðlur
1/3 bolli hunang
1,5 msk smjör
1/2 tsk vanilludropar
Hræra saman höfrum, kókosmjöli, sólblómafræjum og hveitikími í stórri skál. Setja döðlur, aprikósur, hunang, smjör og vanilludropa saman í pott og hræra saman þangað til döðlur og apríkósur eru farnar að bráðna saman við hunangsblönduna og hunangið rétt farið að bubbla. Færa þá pott af hita og byrja á því að skófla þurrefnum ofan í hunangspottinn þangað til áferðin er orðin að þínu skapi. Það var smá eftir af þurrefnum í mínum skammti. Rúmlega 1/2 bolli kannski?
Hella blöndunni á smjörpappír, móta í ferhyrning, og þrýsta á með t.d. skurðabretti! Móta aftur, þrýsta hliðum saman og aftur þrýsta á með skurðabrettinu, eða þangað til blandan er orðin þétt og helst vel saman. Setja þá inn í ísskáp og bíða eftir að hún kólni vel - taka þá út úr ísskápnum og skera í minni bita. Ég skar mitt niður í 8 bita. Hægt að hafa færri/fleiri ef vill.
Virkilega þéttir og góðir bitar. Haldast vel saman við stofuhita og bragðið og áferðin meiriháttar flott. Munið bara að hunangið sem þið notið kemur vel fram. Svo veljið hunangið ykkar vel! Pallinn fílar þessa í botn og vinnufólkið mitt líka. Gott að hafa svona tilraunadýr í vinnunni... ekkert nema jákvætt!
Meginflokkur: Matur og drykkur | Aukaflokkar: Bakstur, Snarl og pill, Uppáhalds | Breytt 24.9.2010 kl. 10:02 | Facebook
Athugasemdir
Þetta er mjög girnilegt. Ég hef ekkert verið að gera svona stangir en þessar hljóma frekar einfaldar og góðar.
Erna (IP-tala skráð) 4.9.2009 kl. 13:50
Mjöög góðar og sjúklega ávanabindandi! Ég veit ekki hvort það sé gott eða slæmt... en miðað við innihald, þá hlýtur það að vera "í lagi" ...amk. af og til.
Elín Helga Egilsdóttir, 4.9.2009 kl. 14:32
Jömmí - þessar hljómar ótrúlega vel og fara pottþétt á to-do listann. Hvað heldurðu að sé ca. kcal magn í kökunni? Svona svo maður gleymi sér ekki algjörlega þótt maður sé ekkert í því að telja kaloríurnar ;)
R (IP-tala skráð) 4.9.2009 kl. 17:49
Fínar myndir....ég sé dödlurnar!!! nammi namm! Heilsu Snickers....svávegis súkkuladihjúpur skadar varla...svona einstaka sinnum.
Hungradur (IP-tala skráð) 4.9.2009 kl. 20:39
Skil þig vel R. Þó þetta sé "hollustu'nammi'" þá þýðir það ekki að það sé hægt að borða endalaust af þessu. Fitan kemur mestmegnis úr sólbóla- og sesamfræjum og kókosmjöli. Aðeins úr smjerinu að sjálfsögðu - en afskaplega lítið. Holla fitan rúlar... feitt! Það er líklegast nokkuð meira af próteini í þessum stöngum þar sem ég var ekki með hveitikímið 110% á hreinu. En þetta ætti að gefa um það bil næringargildi pr. stöng, miðað við 8 stangir. Fullkomi í morgunmat með 1 ávexti t.d.
Kcal: 230 Prótein: 4,5 Kolvetni: 23 Fita: 13 Trefjar: 4,5
Hungraður: Sammála! Taka fondú-fílínginn á þetta, 80% súkkulaði og þessi stöng = heilög tvenna!
Elín Helga Egilsdóttir, 5.9.2009 kl. 11:00
Ég prufaði þessar í gær, setti reyndar aðeins minna af hunangi og eina msk af hnetusmjöri í staðinn, og þær eru alveg æði! Get ekki beðið eftir að fá mér eina á eftir, e.t.v. með soldlu súkkulaði fyrst það er nú einu sinni laugardagur! :)
Takk annars fyrir frábæra síðu. Er búin að prufa mikið af uppskriftunum og margar oftar en einu sinni :)
Eygló (IP-tala skráð) 5.9.2009 kl. 12:08
Ohh, en gaman að heyra Eygló og takk kærlega fyrir mig. Hnetusmjör í þessar er mjööög góð hugmynd. Ætla að henda í hnetusmjörs-skammt í dag!
Elín Helga Egilsdóttir, 5.9.2009 kl. 12:11
Jömmí :) þessar eru eiginlega nákvæmlega eins og þær sem ég geri stundum, nema ég sleppi smjörinu alveg. Bý til klísturblönduna úr bara hunangi og maukuðum apríkósunum og döðlunum í potti. Mér finnast graskersfræ koma mjög vel út líka. Baka þær stundum í ofni í dáldinn tíma og fæ þær þá stökkari og bragðmeiri. Svo sker ég í litlar stangir og á alltaf í ískáp eða frysti til að grípa til :)
Laufey (IP-tala skráð) 7.9.2009 kl. 20:33
Það er einmitt snilldin við svona heimagerðar stangir. Hægt að leika sér með innihaldið fram og til baka! Æðislegar þegar búið er að stinga þeim aðeins inn í ofn, sammála því - aðeins stökkar, áferðin virkilega skemmtileg. Bara gott
Elín Helga Egilsdóttir, 7.9.2009 kl. 20:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.