Fíkjur, undursamlegar fíkjur

Þurrkaðar fíkjur eru æðislegar. Dísætar og karamellukenndar. Gaman að bíta í þær. Seigar að utan, mjúkar og djúsí að innan með pínkulitlum fræjum sem poppa þegar bitið er í þau! Fullkomnar sem sætusnarl, ef maður er t.d. í 'nammibindindi' og sykurpúkinn alveg að stúta sálartetrinu. Þessi kúlublanda var einróma samþykkt í vinnunni minni. Sem er gleðilegt fyrir mig og átvaglið hið innra.

Fíkju og fræboltar

Fíkju og fræboltar1 bolli þurrkaðar fíkjur. Um það bil 170 gr.

1 bolli sólblómafræ

Niðurrifinn börkur af lítilli sítrónu

2 msk hörfræ. Má sleppa.

1/4 tsk salt

1 - 3 msk hunang og/eða agave sýróp

Viðbætur, ef vill, sem hægt er að bæta í deigið eða rúlla kúlunum uppúr: kanill, kakóduft, flórsykur, hnetumulningur, kókos....

Hella sólblómafræjunum í matvinnsluvél og mala þangað til nokkuð fínt. Þá bæta við fíkjunum og jú, hræra þangað til nokkuð fínt. Ef þú vilt gera matvinnsluvélinni greiða, þá er gott að skera þær í minni bita. Þegar fræ og fíkjur eru orðin að svo til fínu mjöli, bæta við sítrónuberki, salti, hörfræjum og 1 msk hunangi. Hræra vel saman. Ef hægt er að útbúa kúlur úr deiginu, á þessu stigi, þannig að þær haldist saman, þá má byrja að rúlla. Annars bæta við annarri msk hunangi og hræra aftur eða þangað til kúlurnar molna ekki sundur. Bæta núna 'viðbótum' við, ef vilji er fyrir hendi, annars rúlla upp úr kakódufti, kanil ofr.

Fíkju og frækúla

Hafið þið ekki smakkað samskonar fíkjukex og sést á myndinni hér fyrir neðan?

Fíkjukex

Ef svo er, þá eru þessar kúlur svo til eins og gumsið sem er inn í kexinu hvað áferð varðar. Bragðið er æði. Sítrónubörkurinn gefur skemmtilegt "Hmm.. hvað er þetta?" í hvern bita og frískar mjög upp á sætar fíkjurnar! Karamelluboltar með meiru og hunangið lætur aðeins vita af sér. Dúllið sem liggur svo utan á kúlunum gefur þeim mismunandi líf, kanill og súkkulaði eru í uppáhaldi hjá mér. Svo eru þær að sjálfsögðu á holla listanum, sem er alltaf jákvætt. Mikið gott.. mikið gaman!

Fíkju og fræboltar


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband