3.8.2009 | 20:47
Pistasíuís - hreint lostæti
Hentar það ekki fullkomlega að skella inn eins og einni ísuppskrift í þessu glæsilega fína veðri? Ís er uppáhaldið mitt. Ég gæti borðað hann þyndarlaust. Ofur 3ja kílóa pistasíupokinn sem ég keypti um daginn er við það að klárast svo ég ákvað að nýta síðustu pistasíurnar mínar í þennan gjörning. Ég sé ekki eftir því! Hann heppnaðist vel... of vel!
Pistasíu ís - 3 bollar
1 og 1/4 bolli ósaltaðar, óristaðar, skelflettar pistasíur.
1/3 bolli sykur
2 bollar nýmjólk
2 msk maizamil. Sterkja, fæst í Bónus.
2 msk hunang
1 msk sítrónusafi eða eitthvað gott hnetu eða ávaxta líkjör. (amaretto, grand marnier...) Ég notaði sítrónusafa úr ferskri sítrónu. Átti ekki líkjör. Hjálpar til við að halda blöndunni mjúkri inn í frystinum.
Aðferð:
1. Mylja pistasíur og sykur, smátt, í matvinnsluvél. Setja til hliðar.
2. Hella 1/4 bolla, af mjólkinni, saman við sterkjuna þangað til vel blandað. Setja til hliðar.
3. Í potti, yfir meðalhita, hella saman pistasíum og rest af mjólk (1 og 3/4). Hræra í af og til með sleif og leyfa bubblum að koma upp. Ekki sjóða.
4. Hella þá sterkjublöndunni saman við og hræra í 2 - 3 mínútur aukalega yfir hitanum. Blandan er tilbúin þegar pistasíublandan þekur skeiðina og sé fingri rennt niður eftir skeiðinni þá myndast far.
5. Þá er tímabært að færa pottinn af hitanum og leyfa blöndunni að kólna í nokkrar mínútur.
6. Blanda út í pottinn hunangi og sítrónusafa eða líkjöri. Leyfa blöndunni að kólna þar til hún nær stofuhita en hræra í henni af og til svo ekki myndist húð ofan á ísnum. Nú er gott að breiða yfir ísinn, eða setja hann í lokað ílát, og inn í ísskáp þangað til vel kaldur. Yfir nótt er best.
7. Hella ofurísböndunni í ísvél og bíða eftir að eitthvað stórkostlegt gerist!
Úff... hvar á ég að byrja? Ég get a.m.k. sagt ykkur það að þegar ég og Palli tókum fyrsta bitann, litum við á hvort annað og flissuðum! Ég bjóst ekki við þessu bragði og þessari áferð! Ef ykkur þykja pistasíur bragðgóðar þá mun þessi ís ekki svíkja ykkur. Flauelsmjúkur ísinn með þessu ljúfa pistasíubragði og stútfullur af pistasíubitum. Sætan nægjanleg og vinnur vel á móti hnetubragðinu. Maður saknar þess ekki að hafa eggjarauður til að mýkja hann upp. Ææææðislegur ís, auðvelt og fljótlegt að búa hann til. Kannski ekki á holla listanum, ekki á ofur-óholla listanum heldur - ég held ég finni ekki nógu lýsandi lýsingarorð til þess að gera undrinu nægjanlega frábær skil, get svo svarið það.
Myndirnar gætu því miður litið betur út, en þið vitið hvernig þetta er stundum hjá mér - ég gat ekki beðið lengur með að smakka. Þetta bjútí var að bráðna fyrir framan trýnið á mér! Athugið samt að ég laug ekki þegar ég sagði að ísinn væri stútfullur af hnetum - en persónulega þykir mér það geggjað!
Þennan ís kem ég til með að bjóða upp á í matarboði, á næstunni, með vanillurjóma! Ég á líka afgang, ójá. Ég hlakka mikið til næsta laugardags!
Meginflokkur: Matur og drykkur | Aukaflokkar: Bakstur - "óhollt", Svindl, Uppáhalds | Breytt 23.9.2010 kl. 22:06 | Facebook
Athugasemdir
nammi namm... ég ákvað að skella líka í pistasíuís því ég átti svo fínar pistasíur. Ég setti mjólk, banana, kókospaste, pistasíur og smá agave. Blandan í mixernum bragðaðist yndislega og nú er þetta gúmmulaði í frosti, hlakka til í kvöld :)
Laufey (IP-tala skráð) 7.8.2009 kl. 15:50
Úúúhh hljómar vel! Pistasíur, kókospate og banani - mjöög jákvæð blanda! Verð að prófa það einhverntíman!
Elín Helga Egilsdóttir, 7.8.2009 kl. 23:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.