22.7.2009 | 11:06
Heilhveiti graskers kanilsnúðar með döðlumauki
Kerlingin er með snúðamaníu!
Nýta restina af graskersmaukinu og þar sem ég er nýbúin að útbúa kanilsnúða, af hverju ekki aftur? Ef svo má að orði komast! Þetta eru meira brauðsnúðar með kanilbragði en hverjum er ekki sama ef útkoman bragðast vel!
Heilhveiti graskers kanilsnúðar: 12 - 14 stk
Deig:
2 og 1/4 tsk ger
1/4 bolli volgt vatn
3/4 bolli graskersmauk
1/4 bolli undanrenna
1/4 bolli létt AB-mjólk
1 msk hunang
2 og 1/2 bolli heilhveiti
2 msk mulin hörfræ (má sleppa)
1 og 1/4 tsk salt
1,5 tsk kanill, 1/4 tsk múskat og negull/engifer.
1/2 tsk vanilludropar
1 msk olía
Fylling, grunnur:
12 ferskar kramdar döðlur
1 tsk kanill - eftir smekk
2 msk hunang
3 msk létt AB-mjólk
Leysa gerið upp í volgu vatni - 5 mínútur um það bil. Á meðan blanda saman mjólk, létt AB-mjólk, graskeri og hunangi. Hella þá gervatninu út í graskersmaukið og blanda léttilega. Bæta þá við 2,5 bollum hveiti, 2 msk muldum hörfræjum, vanilludropum, salti, kanil, múskati og negul. Hræra létt saman, gott að hræra í vél ef möguleiki er á því, þangað til deigið er orðið mjúkt. Nota þá restina af hveitinu, msk í senn, og hnoða inn í deigið á hveitistráðum fleti. Hnoða deigið í 10 mínútur eða þangað til það verður teygjanlegt, aðeins klístrað viðkomu en festist ekki við puttana.
Hella þá msk af olíu í skál og setja deigkúluna í skálina.
Velta deigkúlunni upp úr olíunni, breiða svo klút yfir skálina og leyfa að standa í heitu rými í 45 mín, eða þangað til deigið hefur tvöfaldast að stærð. Sem átti sér ekki alveg stað hjá mér, en það stækkaði nokkuð.
Hnoða deigið niður og fletja það út í ferhyrning. Ég ætlaði að hafa deigið þykkt, en ég held það vanti þann litning í mig. Eins virðist ég ekki geta búið til brauð nema fylla það af hnetum, fræjum og korni....
Mjaka fyllingunni á deigið. Ég notaði sleif.
Leika sér. Setti smá af möndlum, granóla, sólblóma og graskersfræjum.
Rúlla upp og skera
Raða í eldfast mót þeim sem komast þar fyrir. Ég bakaði þá tvo sem eftir urðu sér. Leyfa dúllunum að hefast í 15 - 20 mínútur. Eldfasta mótið notaði ég til að sjá hvort einhver munur væri á mýkt á degiinu ef allir eru saman saman.
Henda inn í ofn í 20 mínútur eða þangað til fallega gylltir. Kæla svo í 10 - 15 mínútur.
Njóta! Ég fékk mér að sjálfsögðu einn strax... eða tvo. Kannski fjóra!
Skar svo eitt dýrið í tvennt til að sýna betur innvolsið. Sá á myndinni fyrir ofan lítur hálfparinn út eins og "Road kill" greyið! Græðgin alveg að drepa undirritaða!
Niðurstaða:
Virkilega góðir á bragðið - eins og nammi. Döðlumaukið gerir þá að sjálfsögðu mjöög djúsí og karamellukennda í miðjuna. Ef þið fílið "blautar" súkkulaðikökur þá fílið þið þessa. Munið bara að þetta er 100% heilhveiti svo þeir eru ekki fluffy eða "léttir" í sér. Hver snúður eru um það bil 5 kg... svona næstum. Kanillinn skilar sér vel. Svo eru þeir líka æðislegir á litinn út af graskerinu. Graskerið gerir deigið líka mýkra. Fullt af flóknum kolvetnum, trefjum, hollri fitu og próteinum. Enginn sykur, bara hunang og döðlur sem er mikið meira en nóg.
Hvað myndi ég gera öðruvísi næst?
Ef viljastyrkurinn leyfir... hafa deigið þykkara og baka snúðana sér! Ef þið viljið minna "djúsí" snúð, nota minna af fyllingu.
Verður eitthvað næsta skipti?
Jafnvel næstu skipti!
Meginflokkur: Matur og drykkur | Aukaflokkur: Bakstur | Breytt 23.9.2010 kl. 21:57 | Facebook
Athugasemdir
Mmm þetta er ekkert smá girnilegt
Bryndís R (IP-tala skráð) 23.7.2009 kl. 13:19
Þessir eru mikið nammi. Döðlumaukið gerir þá svaka djúsí og mjúka inní.
Elín Helga Egilsdóttir, 23.7.2009 kl. 20:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.