25.6.2009 | 21:01
Smákökugleði
Fékk bökunarpöddu í hausinn og ákvað að búa til smákökur úr því sem ég átti hérna heima. Komu bara mjög vel út, rosalega bragðgóðar og skemmtilegar. Eins og með allar smákökur þá voru þessar dáásamlegar nýkomnar út úr ofni með mjólk! Namm! Nokkuð hollar miðað við að vera smákökur. Hörfræ, hnetur, kókos og olía - við þurfum fitu í skrokkinn. Heilhveitið gefur flókin kolvetni, trefjar og prótein. Döðlurnar sæta kökurnar og gefa okkur trefjar. Eplamaukið setti ég á móti olíunni, hefði líklegast mátt vera aðeins meira af því. Hunangið er svo eitt náttúrulegasta sætuefni sem finnst! Agave sýrópið setti ég með því ég átti það - sykurinn í agave sýrópinu fer 5 sinnum hægar út í blóðið en venjulegur sykur. Við nýtum þar af leiðandi sykurinn í agave sýrópinu betur en venjulegan sykur. Ég reyni samt alltaf að nota hunang til að sæta kökur og brauð. En það er svo lítið af agave í þessari uppskrift - við leyfum það alveg
Heilhveiti smákökur með döðlum og hnetum
1 bolli heilhveiti eða spelt. Átti ekki spelt.
1 tsk lyftiduft
1/2 tsk matarsódi
1 - 2 msk hörfræ
1/4 tsk salt
Nokkrir muldir valhnetukjarnar - slatti í poka ef þú ert hnetufíkill.
2 msk kókosflögur
Dökkir súkkulaðibitar - ef þú ert í helgarstöði með gvöði!
3 msk hunang
1 msk agave sýróp
2 niðurskornar, ferskar döðlur. Hefði sett fleiri en átti því miður ekki meira.
2 msk eplamauk
2 msk olía
1 msk hnetusmjör
1 tsk vanilludropar
Stilla ofn í 175 gráður. Hræra saman fyrstu 7 hráefni, hveiti - kókosflögur, í stórri skál og setja til hliðar. Hræra þá vel saman restinni af hráefnunum í annarri skál, hunang - vanilludropar, og blanda svo við hveitiblönduna. Skúbba deiginu með skeið á bökunarpappír og baka í ofni í 10 - 12 mínútur. Ég hlakka mikið til að geta mulið eina svona elsku yfir hafragraut eða jógúrt... mmmmhmm!
Verði ykkur að góðu!
Meginflokkur: Matur og drykkur | Aukaflokkur: Bakstur | Breytt 23.9.2010 kl. 21:30 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.