4.6.2009 | 18:23
Týpískt mataræði á virkum Elludegi
Eftir æfingu veð ég í vinnuhús með hálfa tösku af nesti í formi próteins, ávaxta, grænmetis og allskonar skrauts eins og hörfræja, hafra ofl. Dagurinn í dag fór sem hér segir:
09:00 Morgunmatur - matur eftir morgunbrennslu!
Einn GM. Grænt Monster. Samansett úr einum skammti hreinu próteini, 2 msk hörfræjum, 100 gr. spínati, 1/2 banana, hafragraut og smá vatni. Allt í blender, helst beinustu leið þaðan ofan í magann á mér, á mjög dömulegan hátt þó, en betra fyrir viðstadda, nærstadda og vinnufólk að verða ekki vitni að því. Fyrsta stoppistöð sjeiksins var því í risa ULTIMATE NUTRITION glasi. (Lesist mjög hátt með miklum áherslum!) Ég notaði hafragraut í vinnunni í staðinn fyrir hreina hafra, kemur svosum á sama stað niður. Hér væri líka sniðugt að fara auðveldari leið og fá sér bara einn skammt M&M (Muscle Milk) - það er bara svo mikil snilld að vera búin að fá sér tonn af grænmeti fyrir hádegi!
10:30 Morgunkaffi
Alveg að drepast úr hungri, þrusaði í mig 1/2 banana. Ég geri ráð fyrir því að allir viti hvernig eitt slíkt kvekendi lítur út svo ég sleppti því að taka mynd af honum. Þið verðið bara að trúa mér.
12:00 Hádegismatur
Alltaf frábær matur í vinnunni. Salatbar með meiru, ávextir, skyr, jógúrt og heitur hádegismatur. Ekki kjúlli í þetta sinn svo ég próteinaði mig upp með eggjahvítum og smá kotasælu. Fékk mér fullt af káli, mango, gúrku og papriku. Sáldraði svo yfir þetta furuhnetu- og graskersfræja mixi. Afskaplega lúffengt salat. Með þessu fékk ég mér eitt grænmetisbuff - þau eru alltaf ágæt... í hófi.
Ég gat að sjálfsögðu ekki hamið mig, fór aðra ferð í eggjahvíturnar og mangóið. Læddist óvart með á diskinn kotasæla, paprika, nýrnabaunir, radísur og fræmix. En þetta var lítill og krúttaralegur skammtur.
Ég fer ekki nánar út í það hér en eggjarauður... í föstu formi, er það næsthræðilegasta sem ég borða. Það er eitthvað svo ónáttúrulegt við áferðina á þeim ((hrollur))! Ef borða skal eggjarauður, þurfa þær að vera mjúkar og helst leka ofan í ristað brauð. Ohmm!
Eftir grænmetisgleðina skreiddist ég svo í nammiskápinn og náði mér í aðeins meira prótein. Líka góð leið til að drepa nammipúkann sem var við það að springa út úr bringunni á mér með látum.
15:00 Kaffi
Próteinshake með frosnum jarðaberjum -> skammtur af hreinu próteini, vatn og 5 frosin jarðaber í blender að auki við 1/3 mango og lítið epli. Mjög gott. Mangoið var fullkomið. Mjúkt, ískalt og djúsí.
19:00 Kvöldmatur
Neyddist til að seðja sárasta hungrið með 2 döðlum, 3 möndlum og appelsínusafa klukkan 18:00. OfurErna vinkona kom í mat í kvöld og ég aðeins of sein úr vinnunni. Bjuggum til uppáhalds einfalda, en samt elegant, kjúklingaréttinn minn. Hann lítur alltaf út fyrir að hafa verið eldaður af 40 mömmum, segi ykkur það... en bara næstum því! Sætar kartöflur, gulrætur, laukur, hvítlaukur, blómkál, kirsuberjatómatar - skorið gróft og hent í fat. Kjúllinn kryddaður, lagður ofan á grænmetið og inn í 180° heitan ofn þangað til dýrið dettur í sundur. Tekur yfirleitt 1,5 - 2 tíma og fuglinn er perfecto í hvert skipti. Ofnbakað grænmeti klikkar aldrei, þó sérstaklega þessi blanda. Ég eeelska ofnbakað/grillað rótargrænmeti. Með þessu var svo CousCous sem ég bætti út í svissuðum karamelliseruðum lauk og sveppum ásamt léttri soðsósu.
21:30 Fyrir svefninn
Hér fæ ég mér alltaf skammt af 'fyrir svefn' próteini og tvær omega369 töflur. Stundum breyti ég þessari máltíð í ís. Mmmmhmmm.
Ég get því ekki kvartað. Ég setti ofan í mig helling af góðum mat í dag. Banani, epli, mango, 5 jarðaber, 500 gr. í formi grænmetis, kjúkling, hafra, grænmetisbuff, eggjahvítur, döðlur, möndlur og fullt af úrvals próteini. Lífið er ljúft og maginn fullur!
Óvirkir Elludagar eru ekki fyrir viðkvæma!
Meginflokkur: Matur og drykkur | Aukaflokkur: Heilsdagsát | Breytt 23.9.2010 kl. 21:13 | Facebook
Athugasemdir
Vá hvað ég er ánægð með að heyra að það er einhver annar en ég sem hugsar svona um eggjarauður í föstu formi, igh. En mjúkar og heitar, mmmm :)
R (IP-tala skráð) 5.6.2009 kl. 17:47
Við erum fleiri en við höldum. Ég segi það satt... ættum að stofna félag sem sérhæfir sig í að leggja fæð á eggjarauður í föstu formi! :)
Elín Helga Egilsdóttir, 6.6.2009 kl. 17:36
Ég er búin að bíða og bíða og bíða og bíða og bíða og bíða og bíða .......... loks kom sagan af eggjarauðunum :()
Muhahahaha!
Dossa... (IP-tala skráð) 6.6.2009 kl. 20:43
Ég varð náttúrulega að koma henni inn á einhverjum tímapunkti! En hafði þó bremsuna á og sagði ekki alla söguna :D
Elín Helga Egilsdóttir, 6.6.2009 kl. 22:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.