21.5.2009 | 22:37
Heimagerðar "Granola" stangir
Vaknaði fyrir allar aldir í morgun og hafði ekkert betra að gera en að búa mér til eitthvað smá heimanammi til að eiga. Get ekki, með hreinni samvisku, sagt að ég viti nákvæmlega hvað ég gumslaði saman í þessar stangir. En ég get svo sannarlega hripað niður 'um það bil' það sem ég notaði og hvað mætti betur fara. Þessar elskur eru alveg "eiturefna" lausar. Ekkert auka prótein, agave sýróp í staðinn fyrir sykur, náttúrulegt hnetusmjör, hnetur, fræ, múslí og þurrkaðir ávextir. Allt á góða listanum að sjálfsögðu, fullt af hollri fitu, trefjum, flóknum kolvetnum, próteinum og skrilljón hitaeiningum. Orkustangir með meiru og henta fullkomlega í t.d. hraðmorgunmat eða jafnvel sem snakk klukkutíma fyrir æfingu.
Ég elska crunch. Þið hafið kannski tekið eftir því. Ég elska hnetur og fræ, hafrar, allt saman í graut þangað til crispy og stökkt. Hiiiimneskt að bíta í og njóta! Ohh já... bragðið af bökuðum hnetum... og lyktin sem kemur í húsið þegar þetta er bakað. Yndislegt!
Granola orkubombur - 16 stangir +/-
1 bollar hafrar
1 bolli þurrkaðir ávextir (ég notaði döðlur og gráfíkjur)
1 bolli hnetumix (ég notaði möndlur, kasjúhnetur og pistasíur)
1/4 bolli sólblómafræ
1/4 bolli graskersfræ
3 msk hörfræ
1/4 bolli sesamfræ
smá kókos
pínkulítið af salti
kanill
1/3 bolli agave sýróp
3 kúfaðar msk hnetusmjör
1 msk olía
tæplega msk af púðursykri
vanilludropar, uþb tappin á flöskunni
Hita ofn í 175 gráður. Blanda saman höfrum, múslí, hnetum, fræjum, þurrkuðum ávöxtum, kókos og kanil. Setja til hliðar. Yfir meðalháum hita sulla saman blautu (síðustu 5 atriði á listanum hér að ofan) þangað til blandan byrjar að bubbla. Tekur kannski 2 - 3 mínútur. Hella hnetusmjörsblöndunni í skálina með þurrefnunum og hræra saman þangað til öll þurrefni eru þakin hnetusmjörsblöndunni. Passa að allt sé vel blandað því hnetusmjörsgumsið er það sem heldur öllu dúlleríinu saman.
Setja smjörpappír í, helst, ferkanntað kökuform eða eldfast fat. Hellda blöndunni eins og hún leggur sig á smjörpappírinn. Ég notaði ferkantað ál-kökuform. Það er betra að nota ílát sem hefur 'kannta' því þá er auðveldara að þrýsta blöndunni saman. Taka annan smjörpappír og leggja yfir blönduna og þrýsta henni niður í kökuformið þannig úr verði þéttur massi. Yfirborðsflöturin þarf að vera tiltölulega sléttur.
Þegar búið er að þrýsta blönduna í svo gott sem steypuklump þá henda inn í ofn í 10 - 20 mínútur. Best að fylgjast með krumsinu til öryggis.
Þegar þetta er tekið út úr ofninum þá er svolítið mikilvægt að leyfa blöndunni að kólna alveg áður en hún er skorin, annars eru miklar líkur á því að þið endið uppi með múslí! Sem er svosum ekkert slæmt þegar ég hugsa um það.
Nota stóran beittan hníf, skera í 16 parta, fleiri eða færri eftir smekk, finna flottustu stöngina, smakka og njóta hvers einasta bita í botn!
Þessar komu svo vel út. Ég var að reyna að "passa" upp á sykurmagnið, átti ekki hunang, annars hefði ég notað það. Þessar eiga það til að molna svolítið þegar bitið er í þær sem þíðir að ég hefði helst þurft að bæta við aðeins meira agave, eða hunangi. Getur verið að hunangið lími þetta betur saman. Það væri líklegast hægt að bæta við eggi eða mjólk, en þá verða þær ekki svona stökkar og fínar. Þrátt fyrir smá mulning þá eru þessar svakalega bragðgóðar. Oh men, eruð þið ekki að grínast. Þetta er fullkomið nammi fyrir mig. Allskonar mismunandi bragð af ristuðum hnetum og fræjum, smá keimur af kanil í hverjum bita, stökkt, smá sætt og endalaust skemmtilegt að borða. Namm!!
Það er svosum hægt að nota hvað sem er. Finna eitthvað upp í skáp, hella því í skál, bleyta upp í því og henda inni í ofn. Hollt og gott snakk hvenær sem er! Fullkomið til að mylja út á hafragraut!
Svo eru þær líka svo ógeðslega flottar!
Meginflokkur: Matur og drykkur | Aukaflokkar: Bakstur, Millimál, Snarl og pill | Breytt 23.9.2010 kl. 21:04 | Facebook
Athugasemdir
Mikið líst mér vel á þær þessar. Myndirnar eru flottar.
Hólmfríður Pétursdóttir, 22.5.2009 kl. 00:02
Takk fyrir kærlega. Svakalega bragðgóðar, en nokkuð gjarnar á að molna. Fullkomnar til að brytja t.d. út í súrmjólk eða hafragraut. :)
Elín Helga Egilsdóttir, 23.5.2009 kl. 17:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.