20.5.2009 | 16:20
Heilhveiti calzone og bakaðar kjúklingabaunir
Cal-a-zon-ay!! Ég elska að segja þetta!
Mig langaði svo ógeðslega mikið í eitthvað pizza-brauð kyns áðan, að eftir mikið hugsanastríð við sjálfa mig varð til yndislega frábærlega fínn calzone. Einmitt það sem mig langað í og ohhohoo hvað hann heppnaðist líka vel. Þar sem ég ætla ekki að endurtaka Pizza-Hut ævintýrið á næstunni þá ákvað ég að búa mér til degið sjálf, var næstum hætt við því ég nennti ekki að standa í öllu ger veseninu. Svo verð ég líka alveg eins og blaðra ef ég borða gerbrauð, get svo svarið það. Fann loks þessa frábæru uppskrift af pizzadegi á Café Sigrún. Það tekur innan við 10 mínútur að útbúa degið og voila! Ég notaði heilhveiti í staðinn fyrir spelt. Þetta er æðisleg uppskrift, hveiti, olía, lyftiduft og vatn. Krydd ef vill. Þetta líkar mér! Einfalt, bragðgott, sinnir sínu hlutverki vel og eintómlega hollt og hamingjusamt!
Eftir að degið var reddí, skipti ég því í tvennt. Flatti helminginn út og kom fallega fyrir á bökunarpappír. Setti á degið salsasósu, um það bil 30 gr. af sveppasmurosti, rúmlega matskeið af heimalöguðu guacamole og nokkra kirsuberjatómata í heilu. Þarnæst steikti ég, hvorki meira né minna, en 6 eggjahvítur á pönnu ásamt brokkolí og 1 hvítlauksrifi. Kryddaði með smá salti og pipar, rauðum piparflögum og smellti á deigið. Ofan á eggjahvítugumsið setti ég svo smá ost.
Lokaði herlegheitunum, penslaði með eggi og inn í 150 gráðu heitan ofn í um það bil 15 - 20 mínútur.
Líklegast er hægt að hafa þetta lengur, ég notaði bara nefið og puttana, þefaði, potaði og tók út úr ofni. Hélt fyrst að calzone-inn minn væri dáinn. Hann leit eins út og þegar hann fór inn í ofn! Þvílíkan og slíkan fölan lit á degi hef ég ekki séð í langan tíma en allt kom fyrir ekki, fulleldaður, mjúkur og fínn.
Úúúú, svo kemur þetta skemmtilega. Smakka!! Ég varð ekki fyrir vonbrigðum, þvílík gleði. Ég er mikil ostakerling en í þetta skiptið var það ekki vandamál. Það má að sjálfsögðu bæta t.d. út í brokkolíblönduna fetaosti, mozzarella, rjómaosti - you name it, til að gera þetta meira djúsí en treystið mér. Þetta var best. Hlakka líka mikið til að búa til fleiri svona. Þetta er æðifæði! Auðvelt að útbúa, auðvelt að gera þetta hollt. Stútfylla af grænmeti, sætar kartöflur, kjúklingur, fiskur... það hlakkar í mér hérna!
Það sem mér þykir svo frábært er að brauðið var ekki yfirgnæfandi. Þunnt brauð í svona rétt er einmitt eitthvað fyrir mig. Þá verður maður saddur af innvolsinu en ekki stútfullur af brauði. Brauðið var ekki þurrt, eiginlega bara fullkomið! Eldað, heitt brokkolí er líka guðdómlegt. Ég held að brokkolí sé mjög misskilið grænmeti, greyið. Ég elska það! Kemur svo vel út í öllum svona réttum. Mmhmmmm!
Mig langaði líka í eitthvað smá snarl í dag og prófaði að henda inn í ofn kjúklingabaunum sem ég svo grillaði þar til stökkar. Kom bara svolítið vel út. Ætla að prófa það aftur. Held nú reyndar að ég hafði grillað þessar svona um það bil 10 mínútum of lengi - en bragðið og áferðin er skemmtileg.
1 dós kjúklingabaunir, skolaðar, þurrkaðar eilítið
Olía, ég notaði 1 tsk af olíu
kanill, cumin, chilli, paprika.... þið ráðið
smá salt og pipar
Hræra saman baunum, olíu og kryddi. Breiða úr baununum á bökunarpappír og inn í 175 - 200 gráðu heitan ofn í 40 - 60 mínútur. Fer svolítið eftir ofninum sem þið eigið. Líka ágætt að kíkja á þær af og til, hræra í og fylgjast með til öryggis. Þær eiga það til að brenna fljótt. Athugið, að ef þær eru ekki alveg stökkar eftir dvöl í ofni þá getur verið ansi erfitt að tyggja þær daginn eftir. En sumir vilja hafa þær svolítið chewy. Annars er ég ekki frá því að ég líti út eins og ein svona baun ákkúrat núna!
Mér finnst þetta sniðugt snakk, trefjar, lítið af fitu og prótein! Svo er skemmtilegt að borða þetta, smá hint af kanil og sterku - geggjað.
Annars er það smokkfisk veisla í kvöld, það verður geðveikt. Gaman að vera ég í dag!
Meginflokkur: Matur og drykkur | Aukaflokkar: Bakstur, Kjúklingur/Kalkúnn, Snarl og pill | Breytt 23.9.2010 kl. 21:03 | Facebook
Athugasemdir
ég ætla að prófa þetta, mjööög girnilegt. Heimagerðu skyndibitarnir eru alltaf bestir
evags (IP-tala skráð) 20.5.2009 kl. 16:58
Mikið er ég sammála þér þar. Þá ræður maður ferðinni alveg sjálfur.
Og húhh, þetta var svaðalega gott :D
Elín Helga Egilsdóttir, 20.5.2009 kl. 17:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.