Heimagert möndlusmjör með hunangi og kanil

Möndlusmjör með hunangi og kanil

Hnetusmjör er svo æðislega fínt út á t.d. grauta og skyr, rétt smá í skeiðina. Líka frábært að rista brauð með kanil-eggjablöndu, smyrja yfir það hnetusmjöri, smá sultu og banana. Hnetusmjör, hnetur og möndlur eru einfaldlega eitthvað sem er á góða listanum mínum! Þegar maður mallar það í heimahúsi er nokkuð víst að engin aukaefni/olíur/salt ofr. séu að flækjast fyrir - bara mjög, mjöög vel muldar möndlur! Svo eru hnetur og möndlur svo ótrúlega hollar og frábærar. Holla fitan og prótein... namm!

Ég útbý mér stundum hnetusmjör hérna heima, möndlusmjör eða blandað hnetusmjör. Stundum jafnvel með hörfræjum og allskonar sniðugu. Er bæði gaman og óóótrúlega bragðgott! Fékk mér nýtt eldhúsdót í dag og ákvað í tilefni af því að hræra í einn lítinn skammt af möndlusmjöri - fann einn poka af möndlum upp í skáp.

Möndlusmjör - tæplega 60 ml smjör

1 poki möndlur, mínar voru með hýðinu

1 tsk hunang eða Maple Syrup, rétt svo til að húða möndlurnar 

Kanill eftir smekk

Salt ef vill - ég sleppti því

Hræra saman möndlur, í heilu, hunang og kanil. Dreifa jafnt yfir bökunarpappír og rista í ofni í 15 - 20 min á 180 gráðum. Þegar möndlurnar eru ristaðar áður en þær eru hrærðar, verður smjörið mun skemmtilegra á bragðið og lyktin er ómótstæðileg. Lykt af ristuðum möndlum er himnesk!

Möndlur þaktar hunangi og kanil á leið í ofninn 

Eftir að búið er að rista möndlurnar þá þarf einfaldlega að setja þær í mixer og byrja að mixa. Getur tekið allt að 10 mínútum. Á einhverjum tímapunkti byrjar blandan að forma kúlu, þá bæti ég stundum pínkulítið af olíu með, nær ekki teskeið.

 Ristaðar hunangs og kanil möndlur tilbúnar í mix

Halda áfram að hræra... og hræra... af og til skrapa hliðar skálarinnar - hræra meira þangað til blandan verður að smjöri. Er nú ekki flóknara en svo. Því meira sem þú hrærir, því mýkri verður blandan að sjálfsögðu. Ef salt á að fara út í þá er ágætt að bæta því við í restina - ég geri það aldrei.

Möndlusmjör með hunangi og kanil - alveg að verða tilbúið 

Smjörið er með smá sætum keim af hunanginu og kanilnum og pínkulítið af ristuðum hunangs/hnetu leyfum. Maður finnur ristaða bragðið af hnetunum mjög vel og áferðin af smjörinu er mjög skemmtileg. Æðislegt bragð.

Möndlusmjör með hunangi og kanil 

Ég notaði þessa snilld að sjálfsögðu strax í kvöldnaslið mitt. Skeið af hreinu próteini, 1 tsk af nýmuldu möndlusmjöri og möndlur með. Næstum skammarlegt - þetta er eins og að borða nammi!

Kvöldnasl - prótein, möndlusmjör og möndlur 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnar Freyr Ingvarsson

Ég var að klára að lesa í gegnum síðuna þína.

Vá!

Takk fyrir innblásturinn.

bestu kveðjur, Ragnar

Ragnar Freyr Ingvarsson, 8.5.2009 kl. 06:54

2 Smámynd: Elín Helga Egilsdóttir

Þakka þér kærlega - komandi frá meistarakokki eins og þér þá er ég alveg tilbúin að setja eitt montprik í kladdann minn :)

Elín Helga Egilsdóttir, 8.5.2009 kl. 09:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband