11.4.2009 | 13:28
Beygla í beyglugerð
Í heilagri för minni að hinum týnda kaleik matargerðar þá hef ég komist að áráttunni sem fylgir því að þurfa nauðsynlega að búa til eitthvað sem auðveldlega er hægt að kaupa út í búð. Ef það heppnast vel þá er einhver pervisin hamingja sem fylgir því, eins og t.d. að eyða 2 klukkutímum í að búa til beyglur! Hvað er málið með það?
En ungfrúin hefur viljað beyglast síðan um jól og ég lét það loksins eftir mér í þetta skiptið. Svo er orðið beygla líka á fyndnuorðalistanum mínum. Ekki hægt að segja að þetta sé hollustufæða, en á mörkunum þó. Heilhveitibeyglur, hveiti og ger, jú... en heilhveiti að 2/5 hluta þó! Það er einfaldara en margan grunar að beyglast og nokkuð skemmtilegt í þokkabót. Svo er líka frekar fönkí að komast að því að maður getur actually búið til hel fínar beyglur í heimahúsi! Það er, ef og þegar beygluandinn leggst yfir mann. Svo er eitt stykki beygla barasta ágæt í hádegismat eða t.d. eftir massíva lóða-ofur æfingu!
Það er þó ekki hættulaust að baka og búa til beyglur. Hætturnar leynast víða og aðal beyglan náði, á mjög listrænan hátt þó, að kveikja í steikarspaða og skera sig í baugfingur vinstri handar við beygluskurð! Magnað að þurfa að skera sig í baug-puttan til að komast að því hvað hann skiptir miklu máli í t.d. lyklaborðspikki, skóreimingum og að klóra sér í hausnum!
12 stykki eðal heilhveitibeyglur
4,5 tsk þurrger
2 msk hunang
2 bollar volgt vatn
2 bollar heilhveiti
2 tsk salt
3 - 3,5 bollar hveiti
12 dl vatn til suðu
Byrjum á því að stilla ofninn á 200 gráður, yfirhita.
1. Blanda saman þurrgeri, hunangi og 2 bollum af volgu vatni. Hræra vel saman.
2. Blanda saman við þurrgersblönduna heilhveitinu og saltinu. Hræra vel.
3. Blanda saman við það hveitinu þangað til það myndar mjúkt deig.
4. Hella deigblöndunni á hveitistráðan flöt og hnoða, bætandi við auka hveiti, þangað til deigið verður teygjanlegt og mjúkt. Athuga skal að deigið er mjög mjúkt og klístrað til að byrja með.
5. Setja deig-kúluna í olíusmurða skál, velta henni svo við í skálinni svo toppurinn á deiginu smyrjist einnig með olíu.
6. Breiða klút yfir skálina og láta sitja í 1 - 1,5 klst. eða þangað til deigið hefur tvöfaldast að særð.
7. Hnoða deigið niður og búta það í 12 jafnstórar kúlur.
8. Pota gat í hverja kúlu þannig að gatið sem myndast verði um 3 cm í þvemál. Einnig hægt að búa til lengjur sem eru svo festar saman í endana. Leggja til hliðar á léttilega pam-aðan bökunarpappír.
9. Leggja klút yfir beyglurnar og láta hvíla í 12 - 15 mínútur. Nú er sniðugt að byrja að sjóða 12 bollana af vatninu og þegar bubblurnar byrja að myndast, lækka aðeins hitann. Setja salt og/eða sykur í vatnið ef vill.
10. Eftir að beyglurnar hafa fengið bjútíblund setja þær í miðjan ofninn með yfirhita, 2 mín hvora hlið.
11. Taka beyglurnar út úr ofninum og setja þær varlega út í sjóðandi vatnið, 3 - 5 í einu, fer eftir stærð pottsins, í 3 mín. hvorri hlið.
12. Þerra beyglurnar, smyrja með eggjahvítu, skreyta með hverju sem er og stinga inn í ofn í 20 - 25 mín. Muna að taka af yfirhita og hafa bæði yfir og undir.
Beyglurnar heppnuðust svakalega val, bragðið af þeim var hlutlaust, en gott. Geypilega gaman að bíta í þær, með stökka skorpu og mjúkar að innan, alveg eins og búðarbeyglur, chewy og skemmtilegar!
Næst þegar ég geri þetta ætla ég að prófa að bragðbæta einhvern hluta deigsins með t.d. kanil og rúsínum, kanil, hvítlaukskryddi, kornblandi - held það gæti komið skemmtilega út! Bakarastubburinn var amk. svaka ánægður með sjálfan sig eftir baksturinn og át beyglurnar með bestu lyst. Prófaði líka að rista þær daginn eftir og ójá, toppeinkunn frá montrassinum!
Meginflokkur: Matur og drykkur | Aukaflokkur: Bakstur | Breytt 23.9.2010 kl. 20:43 | Facebook
Athugasemdir
mmm takk fyrir :)
Gunnar (IP-tala skráð) 11.4.2009 kl. 13:57
Elín....ertu aaalltaf að baka eða elda?
Inam (IP-tala skráð) 11.4.2009 kl. 19:48
Undanfarið hef ég óneitanlega verið duleg við að djöflast eins og trunta í eldhúsinu - ber reyndar meira á því þegar ég hendi öllu hingað inn sem ég geri!
Ég á mér samt alveg líf... vona ég... held ég... :O
Elín Helga Egilsdóttir, 11.4.2009 kl. 20:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.