10.4.2009 | 10:35
Hafragrautur - Bezt í heimi!
Óður til hafragrautsins!
Fyrir utan að vera heimsins besti morgunverður, þá eru hafrarnir ódýrir, bragðgóðir, meinhollir og halda manni hamingjusömum til hádegis! Hafrarnir eru uppspretta flókinna kolvetna og trefja auk þess að innihalda ýmis vítamín og steinefni. Hafrar eru líka sneisafullir af vatnslosanlegum trefjum sem hafa mjög góð áhrif á líkamann. Þær lækka bæði blóðkólesteról svo og blóðsykursvar líkamans eftir hverja máltíð. Það er því talið að neysla hafra geti í einhverjum mæli spornað við sykursýki og fylgikvillum hennar.
Ef grauturinn er eldaður ala-Ella þá verður hann í öllum tilfellum þykkur og hafrarnir aldrei eldaðir í mauk. Þó ekki svo þykkur að hann leki ekki af skeið! Þannig er hann langsamlega bestur, ekki vatnsósa og áferðin skemmtileg - svo er líka bara svo gaman að borða hann.
Útfærslurnar af grautnum eru milljón og hver annarri betri. Ég sauð mér t.d. niður í morgun graut með eplum, kanil, vanilludropum, grófum höfrum og smá próteini. Ofan á grautinn setti ég svo 1 tsk. af hunangi, epli, banana, bláber, heslinetukurl og smá hnetusmjör í skeiðina. Yndislegt alveg!
Það sem ég hef verið að dunda mér við er t.d. eftirfarandi:
Hrærður bananagrautur með vannilludropum, múslí og berjum
Hnetusmjörs karamellusprengja.
Grautur með hnetum, möndludropum og muldri hollustu muffins.
Hnetusmjöri, möndlum, sultu og banana.
Grautur með steiktu eggi, avocado bitum, osti og smá skinku.
Jógúrt grautur með ristuðum hnetum og rúsínum.
Hnetusmjörsgratur með hrærðum banana, hunangi og möndlum.
Grautur með stappaðri sætri kartöflu, kotasælu og hráskinku.
Sæt kartafla, kókos, ristaðar möndlur með smá jógúrti og sultu.
Kókossprengja með ristuðum möndlum og hentusmjöri.
Svona mætti lengi telja. Veit eiginlega ekki alveg hvað ég er búin að útbúa mikið af þessu en þetta er eitthvað sem fær mann til að fara framúr á morgnana! Grauturinn þarf nefnilega ekki alltaf að vera sætur! Mmmmmhmmm!
Held ég láti það eftir mér að birta eina og eina færslu af grautunum mínum með mynd og alles - rétt svona til að rífa upp stemmarann fyrir hafragrautnum!
Meginflokkur: Matur og drykkur | Aukaflokkur: Hafragrautur | Breytt 23.9.2010 kl. 20:39 | Facebook
Athugasemdir
Rosalega eru þetta girnilegar uppskriftir hjá þér, en ég öfunda þig svo af hráefnunum, býrðu úti? Ekki er hægt að fá t.d. kalkúnahakk hér á landi er það?
R (IP-tala skráð) 10.4.2009 kl. 12:11
Þakka þér kærlega fyrir :)
Ég bý reyndar ekki úti og nei, það er því miður ekki hægt að fá t.d. kalkúna- eða kjúklingahakk hérna heima. Væri sko alveg til í það!
Keypti mér kalkúnakjöt í Hagkaup sem ég hakkaði sjálf niður. Fæst í 100 gramma pakningum, 10 saman í pakka. Mikil snilld sem það er.
Elín Helga Egilsdóttir, 10.4.2009 kl. 15:02
Frábært, oft þarf að benda manni á einhverjar svona einfaldar lausnir :) Takk fyrir mig!
R (IP-tala skráð) 10.4.2009 kl. 19:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.