9.9.2010 | 09:49
Ástralía 1 - Ísland 1
Útlendingurinn kom og hann fór. Hann naut Íslandsins í botn og ég svoleiðis stútfyllti mannin, og sjálfa mig, af allskonar bjóði og óbjóði. Honum, og maganum á mér, til ævarandi hamingju og gleði þó.
Hr. Jújú: "Hvað er þetta... má borða það... oj Elín ekki með sjöri... mmm, kanilsnúður".
Efst á lista Ástralans:
Mömmumatur - smokkfiskurinn bara det beste som er ásamt ómynduðum pönnsum ofl.
Ég ætlaði út með hann að borða en hann bað, mjög auðmjúkur, um smokkfiskinn hennar mömmu í staðinn. Hann fékk því smokkfiskinn í tvígang.
Fjöruborðið.
Pulsur - enginn steiktur eða hrár. Bara sósurnar ásamt kókómjólk.
Skyr - græna vanilluskyrið sökum vanillukorna. Ef hægt er að kalla mat "sexy" þá þykir þessum kokki matur, sem inniheldur alvöru vanillukorn, mjög svo kynþokkafullur.
Danska kirsuberjasósan með risalamande!
Kanilsnúðar, ásamt kókómjólk.
Appelsín.
Íslenskt smjör.
Nóa Kropp.
Daim - ekki íslenskt, en elskað og dáð af herra Nýja sjálandi.
Hann gaf ekki mikið fyrir:
Lunda, lyfrarpylsu og blóðmör, harðfisk, sviðasultu og án efa eitthvað annað sem ég man ekki í augnablikinu. En borðaði það samt sem áður.
Svo fékk ég þær fréttir í gær að til hans hafi komið einstaklingur frá Bretlandi, færandi hendi, með þurrkaðan Steinbít og sagði "Ég er hérna með glænýtt smakk frá Íslandi, þetta er ofursmart og exotískt í eldhúsið hjá þér maður". Jújú horfði á gumsið mjög svo snöggt og snarlega, góndi svo á Bretann, hló pínkulítið, og bað hann vel að lifa. Þessi ófögnuður ætti hvorki heima í hans sérlega eldhúsinu eða upp í áströlskum munnum.
Takk fyrir það. Íslenskur harðfiskur tekinn og snúinn niður á ljóshraða.
Ofurát og ofurskemmtilegheit eru þó að baki. Virkilega gaman að upplifa landið ljúfa kæra í gegnum óundirbúin(n) augu/eyru og maga. Skemmtilegra en ég átti von á - borðaði hinsvegar jafn mikið og ég átti von á. Ótrúlega gleðilegt að taka át-letifrí með lærðum kokki, get svo svarið það, átvaglið naut þess í blússandi botn.
Hr. Jújú: "Hvernig ætli.. hmm.. örugglega smá paprika í þessu ooooog... " *smjatt* "...chilli..." *smjatt* "...hefur samt líklegast verið látið sitja í pottinum í allan dag, ekki vont, en gæti verið betra".
Átvaglið: :D
10 dagar síðan ég hreyfði á mér rassinn. Ég er búin að éta eins og bestía og ég grínast ekki með það. Þetta var ein... stór... veisla... í 10 daga. Held ég hafi náð að gúlla jafn miklu og ég gerði á meðan ég var í Ástralíunni, get svo svarið það, og *gleði* hvað átvaglið hafði það ljúffengislega fínt.
Verður samt notalegra en brakandi hrein rúmföt að komast aftur í spriklið. Fór af stað, galvösk, í fyrradag. Tók einn intvervalhring og hélt ég myndi ekki hafa það af. Já lömbin mín, þetta er fljótt að láta sig hverfa. Það er því bannað að halda að maður geti verið duglegur í 2 mánuði, éta og vera latur í 10 daga, og taka upp hanskann þar sem frá var horfið. Oneiiii...
...tekur smá tíma að ná þessu upp aftur, en ef þú byrjar um leið og át-tíðin er yfirstaðin, þá tekur það skemmri tíma en það tæki ef þú tækir þér t.d. eina auka átviku sökum leti. Sparkaðu í rassgatið á sjálfri(um) þér og komdu þér aftur í gírinn. Jííhaaaw.
Nú verður þessi mánuður tekinn með tvöföldu trompeti, interval og Bootcamp í bland við almenna hamingju og EKKERT sukk næstu 3 vikurnar. Jebb. Ég er búin að éta nóg. Reyndi meira að segja að éta útlendinginn...
...það gekk illa. Vantaði allan kanil á hann.
Meginflokkur: Matur og drykkur | Aukaflokkar: Ferðalög, Hugleiðingar | Breytt 24.9.2010 kl. 21:45 | Facebook
Athugasemdir
Díses, þú ert svo ógeðslega dugleg.
Alltaf þegar ég er búin að vera í "pásu" þá verð ég ógeðslega löt og nenni ekki neinu. Sérstaklega ef matarræðið fer allt í rugl.
Þú ert mikil hvatning fyrir mig. Ákkúrat það sem mig vantaði. Af hverju eyða einum degi í viðbót í sukk þegar þú getur komið þér af stað aftur í staðinn? Byrja að vinna í skaðanum um leið og kostur er á.
Takk. Þú ert æði!!!
Lilja (IP-tala skráð) 9.9.2010 kl. 09:57
þú ert svo dugleg, svo gaman að lesa pistlana þín.
en mig langar að spurja þig, þar sem ég er að fara taka mig hressilega á núna. þegar þú ert í rútínu, að mæta í ræktina og borða hollt, er einn dagur í viku hjá þér nammidagur eða sleppiru alveg namminu? ;)
kristín B (IP-tala skráð) 10.9.2010 kl. 08:07
Lilja: Ohhh elsku besta. Takk fyrir mig.
Kristín B: Yfirleitt ef ég er að rútínast með þetta daglega þá á ég já "nammidag" einn dag í viku. Fer svolítið eftir veðri og vindum Á það alveg til að éta burger á "venjulegum" degi eða kökusneið þegar hún býðst. Núna t.d. er ég búin að vera borðandi stanslaust í 10 daga og þá ætla ég að taka mér 2 - 3 vikna sukkfrí og fá skrokkinn til að emja svolítið.
Eins og ég segi, fer allt eftir því hvernig mér "líður". Ef ég er búin að vera ofurdugleg í langan tíma þá þykir mér allt í lagi að vera með tauminn aðeins lausari.
Elín Helga Egilsdóttir, 10.9.2010 kl. 15:27
Takk fyrir skemmtilega pistla :)
En uuu hérna, með þennan smokkfisk, hefur komið uppskrift af honum eða er mig að misminna? Er búin að leita og leita og leita og leita... Væri frekja af minni hálfu að langa í þessa uppskrift? :)
Helena (IP-tala skráð) 11.9.2010 kl. 14:28
Hola mín kæra. Nei heyrðu, engin uppskrift af smokkfisknum komin hingað inn ennþá.
Þarf að rukka móðurdýrið um hana - hún fer á gúrmeylistann!
Elín Helga Egilsdóttir, 12.9.2010 kl. 19:53
Ég er að spá í að flytja eitthvert svo ég geti komið í heimsókn og fengið svona túr um landið... Mmmmmm!!
Erna (IP-tala skráð) 13.9.2010 kl. 15:30
Hahahha... special deal for you my friend!
Erna... þarf að ræða há-alvarleg mál við þig, ræktarlegs eðlis. Þarf að fá þig til að taka þátt í tilraun með mér!
TILRAUN EXTRAORDINAIRE!
Elín Helga Egilsdóttir, 14.9.2010 kl. 09:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.