Færsluflokkur: Egg
15.7.2009 | 15:13
Graskers prótein pönnsa
Búin að vera með grasker á heilanum í nokkurn tíma. Rak augun í niðursoðið grasker í Hagkaup um daginn. Það kallaði á mig! Ég varð að kaupa það!
Búin að hugsa mikið um hvað best sé að nota það í. Brauð, graut, lasagna, muffins, prótein pönnukökur... bjó til pönnukökuna í gærkvöldi fyrir viðbitið í dag! Ætla að móta graut um helgina, brauð í vikunni og vil endilega prófa mig áfram í lasagnagerð sem fyrst! Graskersmaukið er ekki ósvipað sætri kartöflu, hvað bragð og áferð varðar, og stútfullt af allskonar vítamínum og gleðilegheitum. Mjög fáar hitaeiningar, 40 he. í 122 grömmum. Ekki slæmt það!
1,5 dl eggjahvítur (4 - 6 stk)
60 gr. grasker. Ætli það hafi ekki verið um það bil 1/2 dl?
1 msk hreint prótein
kanill, múskat, vanilludropar
Steikja á pönnu og versogúú!
Niðurstaða:
Vantaði meira af kryddunum, fann vel fyrir blessuðu graskerinu. Svolítið, jah... kornótt? Veit ekki hvort það hafi verið gott eða vont! Kláraði samt pönnsuna og síðasti bitinn var barasta fínn.
Hvað geri ég öðruvísi næst?
Nota minna af graskeri, 1 msk kannski. Krydda smá meira og sleppi jafnvel próteininu! Hella helming af blöndu á pönnuna fyrir þynnri pönnsu og borða með einhverju gúmmulaði inní! Skyr, jógúrt, ávöxtum...
Verður eitthvað næst?
Hætti ekki fyrr en pönnsan verður ofur!
Egg | Breytt 23.9.2010 kl. 21:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.7.2009 | 20:07
Alt muligt eggjakökur...
...standa vel fyrir sínu! Allir hafa smakkað eina slíka.
Þið þekkið þetta... fullt af afgangs grænmeti í ísskápnum sem þarf að nota áður en eitthvað hræðilegt gerist. Yfirleitt, þegar ég er með hrúgu af afgangs grænmeti, þá bý ég mér til eggjaköku. Ég elska allra handa eggjakökur-, gums-, hræru... hvað þið viljið kalla það. Fullkominn hádegis-/kvöldmatur þegar ekkert annað er til. Bragðgott, einfalt, hollt og gott!
Ég fann inn í ísskáp skallot-, hvít- og rauðlauk, sellerí, sveppi, sæta kartöflu, papriku og brokkolí. Steikti sveppi og lauk á pönnu þangað til meyrt, bætti þá restinni af hráefninu við og steikti þangað til kartaflan var orðin al-dente. Krydda eftir smekk - ég notaði smá chilli, hvítlauk og engifer. Hrærði þá saman 3 eggjahvítur með mjólkurdreitli og hellti yfir. Þessu leyfði ég að malla þangað til botninn varð crispy og bjútifúl og eggjahvítan steikt í gegn. Renndi af pönnu og skutlaði smá hot sauce yfir! Mmhmm!
Með þessu fékk ég mér soja filet sem ég keypti um daginn og smá kotasælu.
Engin stóreldamennska í gangi en glæsilega fín máltíð og ferlega flott á litinn!
Dæmi um annað alt muligt ofurgums!
Allir út að njóta síðustu geislanna!
Egg | Breytt 23.9.2010 kl. 21:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.7.2009 | 11:54
Prótein pönnsa með banana, eplum, valhnetum og muldum hörfræjum
Aftur komin helgi og jú, aftur er það pönnsa. Ég var búin að gleyma því hvað mér þykja þessar pönnsur skemmtilegar. Kominn tími til að endurnýja kynnin! Ég var líka að kaupa mér eggjahvíturnar frá honum Garra - það verður því mikið um eggjakökur, pönnukökur og eggjahvítutengt át á næstunni!
Prótein pönnukaka með banana, heitum kanilstráðum eplum, valhnetum og hörfræjum
1,5 dl af eggjahvítum (4 - 6 stk)
1 msk hreint whey prótein
1 tappi vanilludropar
1 tsk, túmlega, kanill
1/2 banani, skorinn í sneiðar
Hræra allt saman nema bananasneiðarnar. Hita pönnu, spreyja pínkulítið af olíu á hana og leggja bananasneiðarnar á pönnuna.
Eftir það, hella eggjahvítunum yfir bananann.
Ég er letipúki og hitaði eplasneiðarnar í örbylgjuofni þangað til mjúkar. Raðaði þeim þá á pönnukökuna og stráði kanil yfir. Yfir eplasneiðarnar fór svo 1 msk af muldum hörfræjum, 2 muldar valhnetur, möndluflögur og smá múslí.
Ég bjó svo til "sósu" úr 1 msk hreinu próteini og vatni. Dreifði henni yfir herlegheitin.
Pakka pönnsunni saman. Bananarnir verða æði þegar þeir eru steiktir svona. Eins og karamella!
Mmmmhmmm...
Kanill og epli klikka aldrei! Eplapie í morgunmat!
Stelpukvöld í kvöld! Systir mín kær kemur til mín á eftir og við ætlum að nýta tímann vel! Góna á 'stelpumyndir', borða góðan mat og kjafta á okkur gat!
Egg | Breytt 23.9.2010 kl. 21:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.7.2009 | 20:04
Grænmetis sjúklingur
Ég er búin að vera sjúk í ofnbakað grænmeti alla vikuna og það virðist ekkert lát vera þar á. Ofnbakaðar sætar kartöflur, gulrætur, blómkál, laukur (allskonar), paprika... ohh það er svo gott! Bjó mér til semi tortillu í kvöld fyllta af ofnbökuðu ofurgrænmeti og afgangs kjúkling. Hitti svona líka beint í mark!
Tortilluna hrærði ég saman úr 1 dl eggjahvítum, 1 msk próteini, hot sauce, oregano, salti og pipar. Steikt á pönnu þar til eggin eru steikt í gegn. Tók þá grænmetið, kryddaði með chilli, papriku, engifer, dukkah og smá curry paste - nánast copy paste (Curry paste - copy paste.. hahh!) af síðustu máltíð, þið sjáið kannski mynstrið?
Rúllaði eggjahvítu tortillunni upp, utan um gumsið...
...afrakstur "erfiðisins" myndaður í bak og fyrir!
Ojjjj hvað þetta var gott! Endalaust kátur maginn ákkúrat núna! Holl, GÓÐ og fljótleg máltíð, full af hamingjusömum og gleðilegum kolvetnum, próteinum, fitum og guð má vita hverju öðru! Ég sit líka hérna með bumbuna út í loftið svoleiðis pakksödd!
Vona svo sannarlega að þið hafið notið kvöldmatarins jafn vel og ég! Mmhhhmm...
Egg | Breytt 23.9.2010 kl. 21:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.7.2009 | 14:23
Laxasneiðar í eggjaköku með capers, rauðlauk og rjómaosti
Ég bjó þetta til um daginn og átti alltaf eftir að birta pistilinn... svo, versogú!
Átti lax í frystinum sem ég vildi nýta í eitthvað. Skar mér um það bil 200 gr. stykki af fiskinum, skar stykkið í þunnar sneiðar og leyfði að marinerast í, hálfgerðri graflaxsósu, dressingu yfir nótt. Dijon sinnep, hunang, sítrónusafi, smá salt og dill. Ég hrærði þessu saman eftir smekk. Væri líka hægt að nota sætt sinnep og sleppa hunanginu. Ég hrærði svo saman 3 eggjahvítum, smá salti, pipar, mjólk og dilli. Raðaði nokkrum laxabitum á miðlungs heita pönnu, hellti eggjahvítublöndunni yfir fiskinn og svo meira af laxi ofan á eggin. Ætli ég hafi ekki notað 100 gr., rúmlega, af laxi.
Þessu leyfði ég í raun bara að malla þangað til eggin voru steikt í gegn. Þá braut ég kökuna saman og færði yfir á bökunarpappír. Smurði á kökuna smá rjómaosti, kannski msk. Kom henni svo vandlega fyrir inn í 175 gráðu heitum ofni, grill, í 3 mínútur. Rétt til að fá smá crisp.
Eftirleikurinn er nú auðveldur. Skera niður rauðlauk, mjög smátt, ásamt steinselju og krækja í nokkur capers korn. Dreifa því yfir kökuna og hananú, þessi líka snilldarinnar glæsilegi hádegis- eða kvöldmatur tilbúinn!
Þetta var ekkert smá frábært. Maginn sérstaklega sáttur eftir gjörninginn og bragðlaukarnir líka. Dressingin sem laxinn var í gaf ofboðslega gott bragð í eggjakökuna, sinnepið kom sterkt þar inn. Gaf skemmtilegan keim á móti hunanginu. Rjómaostur með capers og rauðlauk er að sjálfsögðu æði og biti af fisk með fær mann bara til að brosa. Mikill samhljómur, í bragði, í gangi á þessum disk!
Virkilega, virklega skemmtilegt og bragðgott!
Til gamans má geta að næringargildið í þessari máltíð er æðislegt! Um það bil 300 hitaeiningar, 32 gr. prótein og 16 gr. fita. Mjög flott fyrir þá daga sem hvílt er. Lítið af kolvetnum, meira af fitu og próteinum! Frekar flott!
Egg | Breytt 23.9.2010 kl. 21:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.6.2009 | 06:37
Salsa, hvenær dags sem er
Góðan daginn mín kæru!
Gerði einn af mínum uppáhalds grautum í morgun. Yfirleitt set ég nú heilt egg ofan á grautinn en æfingin á eftir kallar. Væri líka gott að bæta við þetta avocado, skinku.. setja ost út í grautinn svo eitthvað sé nefnt!
Salsa hafragrautur með ostsneið, eggi og tómötum
Sjóða saman:
1 dl grófa hafra
1 dl undanrenna
1/4 skeið prótein (má sleppa)
1 eggjahvíta
sletta hot sauce
Hræra blönduna vel saman áður en hún er soðin. Hræra líka vel í grautnum á meðan suðu stendur - eggið gæti annars fest sig skemmtilega við botninn á pottinum.
Hafragrautsskraut:
Ostsneið, að eigi vali, lögð ofan á heitan grautinn. Þar á eftir steikti ég eggjahvítu á pönnu, má vera heilt egg að sjálfsögðu. Mjög gott þegar rauðan lekur yfir grautinn. Lagði eggjahvítuna yfir ostinn. Þar á eftir setti ég kúskús og tómatbland ofan á eggjahvítuna, smá salsasósu, pipar, steinselju og loks sáldraði ég parmesan osti yfir herlegheitin.
Bjúútifúl morgunverður! Gersamlega æðislegur - eins og einn amerískur, ég segi það satt!
Osturinn að bráðna yfir grautinn... mmmm! Jæja, nóg í bili. Ætla að skella mér í ræktarhús og gera eitthvað sniðugt!
Egg | Breytt 23.9.2010 kl. 21:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.6.2009 | 13:44
Eggjabrauð - síðasti hádegismatur sumarfrísins
Þá er sumarfríið alveg að klárast. Ég get ekki kvartað, þetta voru meiriháttar góðar tvær vikur! Afslappelsi í hámarki, letipúkinn viðraður, átvaglinu hleypt lausu - alveg eins og það á að vera.
Vaknaði svo í morgun með eggjabrauð á heilanum. Get svo svarið það - ég átti í mesta basli með að koma mér í ræktina því eggjabrauðið ásótti græðgispúkann svo stíft. En það hafðist og jú, ég fékk mér eggjabrauð um leið og ég steig fæti inn í hreinasta hús á Íslandi! Eða... eggjabeyglu og eggjabollu? Með þessu hafði ég skál fulla af ávöxtum og próteindrykk. Einn skammtur hreint prótein, klakar, vatn og banani.. mmhmm!
Eggjahræruna gúmmslaði ég saman úr 1 heilu eggi og 3 eggjahvítum, slettu af Undanrennu, vanilludropum, kanil, múskati og smá salti og pipar. NAMMI! Leyfði beyglum og bollum að baða sig upp úr eggjablandinu í 2 eða 3 mínútur og skellti þeim svo á heita pönnu. Steikti þangað til kom stökk og fín skorpa. Þvílíkt sælgæti!
Á beygluna setti ég sykurlausa sultu, banana og hnetumúslí. Ég held að myndin segi svosum allt. Smá kanilbragð, múskat, vanilludropar - banani, sulta, crunchy múslí og fullkomlega eldað eggjabrauð. Þetta eggjabrauð var perfecto!
Til að vera góð við sjálfa mig þá fékk ég mér svo smá bita af skyrgumsinu mínu síðan í gær. Om nom nom!
Eftir daginn í dag verður svo sett af stað svakalegt sumar átak. Hlakka ekkert smá til. Þáttakendur eru hið minnsta undirrituð, hinn helmingurinn og móðir mín kær. Það verður mikil áskorun fyrir mig að búa til bragðgóðan og skemmtilegan mat sem þarf að standast allra hörðustu matarræðis 'reglur' líkamsræktarfíkla! Án þess þó að maður fái leið á matarræðinu! Ójá! Þessi snilld kemur til með að standa fram í septermber og að tímabili loknu birtast hinar alræmdu fyrir og eftir myndir í einhverju formi.
Sumarið leggst vel í mig mín kæru, þetta verður æði! Stay tuned!
Egg | Breytt 23.9.2010 kl. 21:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.5.2009 | 12:50
Heilhveiti bananabrauð með hörfræjum og döðlum
Ó JÚ VÍST!!
Það held ég nú mín kæru! Bananabrauð dettur aldrei úr tísku. Bananabrauð er jafn klassískt og hafragrautur, að minnsta kosti á mínu heimili. Ég er samt vön að gera hafra bananabrauð, mikið sjokk þar finnst ykkur ekki? Þar af leiðandi er þetta svolítið nýtt fyrir mér, en aðferðin og innihaldið er yfirleitt á svipuðum nótum. Ég var líka að reyna að stefna að því að útbúa "hreint brauð". Brauð sem inniheldur engar hnetur, fræ, þurrkaða ávexti... gekk ekki betur en svo að hörfræin og döðlurnar lummuðu sér í degið á síðustu stundu. Það lítur allt út fyrir að það vanti 'hreina brauðs' litninginn í mig. Ég virðist ekki geta búið til brauð nema að fylla það af gleðilegheitum! Það er bara svo gaman að borða brauð sem er ekki silkimjúkt. Bíta í einstaka fræ hér og þar, fyrir utan bragðið sem fræin gefa.
Svo er líka svo yndislega fínt að baka og vesenast í eldhúsinu. Sérstaklega þegar veðrið er svona. Einhver róandi tilfinning sem fylgir því að elda, þó aðallega baka, og maður lifandi, lyktin sem kemur í húsið þegar gúmmulaðið er í ofninum! Ekkert.. sem stenst það. Heimilislegra og notalegra verður það nú ekki! Kúra sig upp í sófa með sæng, húsið ilmar af bökunarlykt sem maður fær að njóta á meðan góð mynd er í gangi í sjónvarpinu og úti er leiðinda veður! Kóósýý!
En jææja, hvernig væri nú að kerlingin hætti að blaðra og sýni gripinn?
Bananabrauð með hörfræjum og döðlum
1/2 tsk matarsódi
1/2 tsk kanill (ég setti auðvitað aðeins meira)
1/2 tsk salt
1/4 tsk múskat, um það bil, ég raspaði þetta í hveitið
2 - 3 msk hörfræ
10 niðurskornar döðlur
1/2 bolli létt AB-mjólk eða jógúrt
1 eggjahvíta, eða heilt egg og sleppa olíunni
1 msk olía
2 stórir, vel þroskaðir bananar
1/2 tsk vanilludropar
2 msk hunang eða agave.. eða sykur ef vill, þá þarf líklegast aðeins meira af sykrinum
Hita ofn í 175 gráður. Hræra saman þurrt, hræra saman blautt og bæta svo blautu í þurrt. Ég set döðlur í þurra flokkinn og banana í blauta. Ég stappaði bananana frekar gróft þannig að það voru bananabitar í blöndunni. Muna bara að hræra degið ekki of mikið. Inn í ofn í um það bil 60 - 70 mínútur eða þangað til eitt stykki prjónn, sem stungið er í brauðið mitt, kemur út svo til hreinn.
Hvað get ég sagt. Þetta er æðislegt brauð. Ég á svo ægilega bágt með mig í kringum bananabrauð, mér finnast þau svo góð. Ég er því kannski ekki best að dæma, ég veit ekki. Þetta brauð var með stökka skorpu, þétt, mjúúkt og karamellukennt að innan. Þið sjáið það á þessari mynd, algerlega geggjað. Ótrúlega skemmtilegt bragð af brauðina og múskatið kemur sterkt inn. Gaman að bíta í karamellukennda banana- og döðlubita hér og þar. Ohhhh... namm! Brauð að mínu skapi!
Brauðið, þó svo það hafi bara verið 2 msk af hunangi, var alveg nógu sætt fyrir minn smekk. Döðlurnar og bananinn gefa líka mikið sætubragð, sérstaklega þar sem bananarnir sem ég notaði voru orðnir svartari en allt sem er svart. Hörfræin gefa líka skemmtilega áferð og eru auðvitað ó svo holl fyrir skrokkinn. Full af hollri fitu.
Annars fékk ég mér grænt monster í hádegismat ásamt eggjahvítuköku sem smurð var með salsasósu og gúrku. Monsterið var samansett úr skyri, frosnum banana, 1 bolla af vatni, klökum og spínati. Klikkar ekki. Ótrúlega er þessi drykkur að gera það gott í minni bók. Í sitthvortu lagi var þetta æðisleg máltíð - en jemundur, ég mæli ekki með grænu, ísköldu monsteri og salsasósueggjaköku, undir sama hatti. Igh!
Á morgun ætla ég svo að baka heilhveiti- kanilsnúða og pönnsur. Verður gaman að sjá hvernig kanilsnúðarnir koma út. Kanilsnúðar eru nefnilega á snobblistanum hjá mér!
Egg | Breytt 23.9.2010 kl. 21:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.5.2009 | 19:16
Túnfisk eggjakaka með tómatmauki, kanil og banana

Ekkert sem ég hef ekki mallað í graut áður, en kom skemmtilega út.
Kanill er góður, lykt af kanil er góð og kanill fer vel með sterku. Banani og kanill fara vel saman, túnfiskur og hunts tómatmauk líka - flest allt fer vel í eggjaköku svo af hverju ekki prófa þetta allt saman?
1 dós túnfiskur
1 dós hunts niðursoðnir tómatar
krydd
auðvitað kanill
1,5 dl eggjahvíta
bananasneiðar eftir smekk
Steikti eggjahvíturnar á pönnu þannig úr varð pönnukaka - taka af hita.
Steikja túnfisk úr dós með því kryddi sem til er upp í skáp.. og auðvitað því sem þér þykir gott. Ég notaði t.d. papriku, chilli, hot sauce (vel af henni) og svo yndislega, yndislega kanilinn minn. Hellti svo tómatmaukinu yfir og leyfði að malla þangað til úr varð þykkur pottréttur.
Á helminginn af eggjakökunni setti ég svo gumsið, eina ostsneið þar yfir, lokaði kökunni, sáldraði yfir með smá mozzarella og áröðuðum bananasneiðum! Setti þetta svo alltsaman inn í ofn þangað til osturinn bráðnaði ofan á kökunni, kanntarnir krispý og bananinn steiktur! Út úr ofni og smá kanill yfir!
Gott gott gott - kom vel út. Næst set ég bananann með í maukið! Ekki vera hrædd, þegar búið er að krydda, steikja og bragðbæta túnfiskinn finnst ekkert bragð af honum annað en það sem þú notaðir til að krydda hann með. Skemmtileg tilbreyting og bragðgóð. Gaman að finna bragðið af sterkri tómatsósunni á móti kanilnum og bíta í sætan bananann í leiðinni... ójá! Hafði með þessu guacamole og smá kasjúnetur ásamt ííísköldu mango í eftirrétt!
Máltíðin í heild sinni innan við 400 hitaeiningar og rúmlega 35 gr. prótein. Fullt af omega3, hollri fitu, andoxunarefnum. Létt og laggott!
Egg | Breytt 23.9.2010 kl. 20:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)