Hafra- og bananabrauð með smá twisti

Fann þessa uppskrift á netrápi um daginn. Er víst komin frá einhverri svaka vaxtaræktarskvísu. Próteinríkt og góð uppspretta flókinna kolvetna. Athuga skal að þetta brauð er mjög þétt, þetta er ekki léttur og skilkimjúkur fransari.

Upprunaleg uppskrift hljóðar svo:

12 eggjahvítur (Hægt að kaupa gerilsneiddar eggjahvítur á www.garri.is - alger snilld, notfæri mér mikið)

9 dl haframjöl, eða eftir smekk (Mylja hafra í matvinnsluvél þangað til þeir verða að fínu dufti)

3 vel þroskaðir bananar

2 msk kanill

2 tsk vanilludropar

 

Stappa eða hræra banana saman og hræra svo saman við eggjahvíturnar þangað til létt og ljóst. Bæta þá við kanil og vanilludropum og loks haframjölinu þangað til myndast deig. Setja bökunarpappír í brauðform og baka við 150 gráður í 1,5 klukkustundir. Þessi uppskrift gerir eitt brauð, svakalega massíft. Væri líklegast hægt að deila þessari í tvö minni brauðform.

Það er hægt að leika sér endalaust með þennan grunn og ég á eiginlega alltaf svona brauð í fyrstinum. Mætti segja að þetta sé hafragrautur í föstu formi, mikil snilld þegar það þarf að grípa í eitthvað. Svo er þetta sykur-, hveiti- og lyftiduftslaust! Salta má eftir smekk - ég salta yfirleitt aldrei. 

Þessi grunn uppskrift verður samt sem áður svolítið þurr svo ég hef verið að prófa mig áfram með ýmislegt. Prófaði t.d. um daginn eftirfarandi: 

 

Hafra- og bananabrauð6 eggjahvítur

3 vel þroskaðir bananar

1 - 2 dl. létt-ab mjólk

1 - 2 bollar fínir hafrar (ekki muldir)

0,5 - 1 bolli All-bran

1 dl sólblómafræ

dass af hör- og sesamfræjum

1 msk kanill

1 tsk vanilludropar

1 skeið Vanillu Muscle Milk prótein

10 smátt skornar döðlur

 

Hræra saman eggjahvítur og banana. Krydda með vanilludropum og kanil. Blanda saman höfrum og all bran og blanda vel. Eftir það setja létt-ab mjólkina út í ásamt öllum fræjum og döðlum. Ef vill, þá má setja próteinið með aukalega, en það er óþarfi. Sama og síðast, 150 gráður, 1,5 klst. í ofni. Best að fylgjast með gripnum og pota í af og til - þegar prjónninn er hreinn þá er brauðið til. Líka, ef þið viljið harða skorpu utan um allt brauðið, taka það úr forminu 15 min fyrr og baka það áfram.

Að sjálfsögðu eykst hitaeiningafjöldinn að einhverju leiti miðað við upprunalegu uppskriftina þegar bætt er í það t.d. próteini o.fr. en það er allur gangur á því. Maður ræður alveg sjálfur - en þetta brauð er meinhollt og ágætis orkuskot eða morgunmatur! Rosa gott að bæta í það hnetum.

Þessi uppskrift kom mjög vel út hjá mér. Yndislegt nýbakað með osti og kláraðist samdægurs af gestum og gangandi :) 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Snær heldur ekki vatni -áttu ráð við því ! -Hann telur þetta vera hið eina sanna orkubrauð til fjallaferða

hér eru vatnsskemmdir í eldhúsinu, slefan lak út um eyrun á honum

Svavsfrænks (IP-tala skráð) 15.3.2009 kl. 17:55

2 Smámynd: Elín Helga Egilsdóttir

Hahaha :)

Þá er markmiðinu náð - ef einhver nýtur góðs af og fær góðar hugmyndir út frá uppskriftunum!

Ég skal búa til slefusvamp sem er bundinn undir hökuna svo hann geti slefað án þess að skemma eitthvað! :)

Elín Helga Egilsdóttir, 15.3.2009 kl. 19:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband