Eplabökukrums með pecan-speltbotni

Af því að það er nú föstudagur á morgun og svona... næstum því helgi! 

Á eilífu rápi mínu um netheima, tímaritslönd á hinum ýmsu biðstofum og almennt fitl á bókasöfnum hef ég komist í kynni við margvíslegt, mis sóðalegt, matarklám.

Ég rakst á uppskrift á netinu fyrir 170 bláum tunglum síðan. Get ekki munað hvar. Skrifaði hana niður á blað sökum prentaraskorts og þráhyggjunnar sem ég hef fyrir því að... jah... skrifa allt niður á blað. Í uppskriftinni voru epli, smjör og slattípoka af sykri en hugmyndin var góð. Ég fann blessað blaðið um daginn. Halelujah! Ég tók því hripið og stílfærði það eilítið í átt að hollara æskilegra eintaki.

Á eitthvað svo erfitt með að segja hollustu-hitt og þetta. Get svo svarið það. Hvað er hollt?

Allavega, þá er það efni í ansi góðan tuðpistil myndi ég halda!

Tuð eða ekki, krumsið kom barasta vel út! Perralega vel mín kæru!

Eplakaka með pecan-speltbotni

Hef þó gert algerlega "óhollustu"-sterílt eplakrums áður. Það er alveg hreint ágætt. Hef kubbað því saman nokkrum sinnum síðan, með betrumbætum, og það blivar fínt. Epli og kanill víst klikka seint. Það er efnasamband sem ætti að fá einhvurslags verðlaun að mér finnst!

Appelsínuát og tannburstun fá hinsvegar skammarverðlaun þó svo það komi þessum pistli nákvæmlega ekki baun í búgarði við!

Og jú, ef þið eruð að spæla i því, þá ég stunda biðstofur og bókasafnsfitl grimmt á þriðjudögum!

Eplakaka með pecan-speltbotni

Eplabökukrums með pecan-speltbotni

Botn:

  • Olía/spam til að smyrja form
  • 3/4 bolli pecanhnetur
  • 1,5 bollar spelt eða heilhveiti
  • 1/4 bolli Muscovado (eða hrá-/púðursykur)
  • Salt
  • 1/4 bolli eplamauk
  • 1/4 bolli léttmjólk (undanrenna/soja/möndlu - létt er það eina sem ég átti), eins og þarf

 

Fylling:

  • 4 græn epli, skorin í "munnbita". Ráðið hvort þið húðflettið greyin.
  • 2 msk eplamauk
  • 3 msk léttmjólk
  • 1/4 bolli hunang
  • 1/4 bolli púðursykur (eða 1/2 bolli púðursykur/hunang)
  • 2 tsk kanill
  • 3 tsk eplaedik
  • salt
  • 1 msk sterkja (ég notaði maizena)

Eplakaka með pecan-speltbotni

Aðferð:

Botn:

  1. Hita ofn í 190 gráður. Smyrja 23 cm smelluform (átti ekki "böku"-form) og setja til hliðar.
  2. Setja hnetur, hveiti, sykur, salt og eplamjöl í matvinnsluvél og matvinnsluvéla þangað til hneturnar eru muldar og hráefnin samofin og sátt við lífið.
  3. Hræra krumst, í stuttum sprettum, á meðan mjólinni er bætt við í skömmtum eða þangað til degið er farið að haldast saman þegar maður klípur í það. (Ef degið segir "ÁI" þá ræður þú hvort þú hlaupir mjög hratt út eða náir í videovélina)
  4. Hér tók ég handfylli af deginu frá til að mylja yfir kökuna seinnameir.
  5. Mylja degið jafnt ofan í bökunarformið og þrýsta svo á það þannig að það hylji allan botninn og nái aðeins upp á kanntana. Passa að það séu engar ofursprungur svo fyllingin leki nú ekki út um allt.
  6. Ef þið viljið nota lóð til að leggja á botninn, þá myndi ég setja matarfilmu yfir hann fyrst og svo lóðin ofan á. Lóð geta verið hvað sem er, hrísgrjón, baunir, perlur. Þetta er gert til þess að botninn skreppi ekki saman. Ég gerði þetta reyndar við minn botn. Skiptir kannski ekki höfðumáli.
  7. Baka í 24 mínútur.
  8. Útbúa fyllingu á meðanó.

Fylling:

  1. Hafa til eðalpott. Nokkuð stóran.
  2. Skera niður epli. Ég skrældi eins og tryllisvín og át skrælið jafn harðan. Eplaskinn er gott skinn.
  3. Setja epli í pott ásamt rest af hráefni í fyllingu NEMA... JASOH... nema 1 msk mjólk og sterkjuna.
  4. Hræra sterkju og 1 msk mjólk saman í lítilli skál og geyma á góðum stað sem þið gleymið ekki.
  5. Láta suðuna koma upp á eplunum og lækka þá hitann örlítið. Leyfa að malla og bubbla, með stöku hræring, í 10 - 15 mínútur eða þangað til sósan/sýrópið sem myndast er orðið nokkuð þykkt og eplin mjúk, en samt ekki þannig að þau maukist í sundur. Bá vera smá bit í þeim.
  6. Hella þá mjólkursterkjublöndunni út í eplahamingjuna og leyfa að malla í 2 -3 mín í viðbót eða þangað til byrjað að þykkna.
  7. Hella eplakrumsi jafn og fallega yfir botninn góða, skreyta með meira botnefni, hnetum, múslí... væri æði að raða yfir þetta möndlum því þær karamelliserast. SKREYTIÐ EINS OG VINDURINN.
  8. Aftur inn í ofn, eftir vindskreytingu, í 25 mínútur eða þangað til endar á skurninni góðu eru orðnir smá gylltir/brúnir.

Þessa krúsíbombu er best að borða heita. Gæsahúðslega gott... að borða dýrið heitt með smá rjóma og ís til að bæta aðeins upp á fitu- og sykurinnihald í hverjum bita. En það er ekki nauðsynlegt. Hún fúnkerar flott ein og sér. Stokkur botn og djúsí, karamellukennd kanil-ilmandi epla fylling. Eplin aðeins undir tönn, dísæt með smá súru sparki.

Ugh hvað eplakökur eru mikill Akkilesarhæll fyrir mig og mitt matsára átvagls hjarta.

Eftir almennt át og miklar önaðs-stönur setti ég eplagleðina inn í íshellinn og geymdi yfir nótt. Hún er mjög fín daginn eftir en botninn mýkist óumflýjanlega örlítið og þar sem spelt varð fyrir valinu, verður hann svolítið "rúgbrauðó", en mér, persónulega, þykir það gott.

Smjör og sykur eru samt vinir mínir og búa til "djúsið" í djúsí eplakökum, en fyrir það sem þessi eplakaka er, þá er hún æði!

Eplakaka með pecan-speltbotni innvols

10 þumlar upp í loft...

...ef ég skartaði 10 slíkum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ótrúlega girnilegt :)

R (IP-tala skráð) 16.9.2010 kl. 13:51

2 identicon

Er þetta ekki gúmmilaðið sem þú komst með í vinnuna einn morguninn? - þessi líkist því og var hreint út sagt algert lostæti. (hollt eða óhollt? - hrikalega gott allavega)

 Bestu kveðjur,

Sólveig.

Sólveig Ara (IP-tala skráð) 16.9.2010 kl. 20:02

3 Smámynd: Elín Helga Egilsdóttir

R: Hún er ægilega fín!

Solla: Jú þetta er sú hin sama! Kanill og epli... klikkar barasta ekki! :)

Elín Helga Egilsdóttir, 16.9.2010 kl. 20:52

4 identicon

Ummm þessi fer á to do listann fyrir helgina :o)

Bryndís (IP-tala skráð) 17.9.2010 kl. 08:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband