Mæðradags hafraskonsur og heilhveitibollur

Mæðradags veisluborð

Mæðradagur í dag svo við familían ákváðum að halda til ömmu og afa og halda upp á það. Á þessari annars skemmtilegu samkomu voru fimm stykki af kvensum sem titlaðar eru mæður í minni fjölskyldu, að meðtalinni minni eigin. Ég ákvað því að taka mig til og baka fyrir þær í tilefni dagsins. Ég vissi að það yrði bakaríis-bakkelsi á boðstólnum svo ég bakaði að sjálfsögðu eitthvað voðalega heilsusamlegt og krúttaralegt. Hafraskonsur og heilhveitibollur með banana- og hnetumixi. Hafði með því gúrkur, tómata, kotasælu og harðsauð svo egg.

Hef ætlað að prófa að baka skonsur í svolítið langan tíma. Ég eeelska skonsur. Ég elska bragðið af þeim, sætur keimurinn og þétt brauðið. Þegar ég fer í bakarí þá kaupi ég mér alltaf skonsu og er því hálfgert skonsu snobbhæns - hlakkaði því mikið til að bera saman þessar heimabökuðu!

Hafraskonsur - 8 stykki

Hafraskonsur - enginn sykur

1 og 1/3 bolli heilhveiti, má líklegast nota mulda hafra líka

1 og 1/3 bolli hafrar

1 msk lyftiduft

3/4 tsk matarsódi

1 tsk rúmlega kanill

1/2 tsk salt

3 - 4 msk hunang

4 msk ósætað eplamauk

4 msk olía

1/3 bolli fjörmjólk

1/3 bolli létt-AB mjólk, líka hægt að nota 2/3 AB mjólk ef vill eða t.d. gríska jógúrt 

Stilla ofn á 200 gráður.

Hræra saman heilhveiti, lyftidufti, matarsóda, salti, kanil og 2 msk hunangi. Færa yfir í matvinnsluvél og bæta við höfrum. Hræra létt, 1 sek í hvert skipti, kannski 15 sinnum þangað til blandað. Bæta við eplamauki og olíu, hræra aftur létt í nokkur skipti þangað til blandan er orðin gróf. Færa yfir í stóra skál. Í annarri skál hræra saman mjólkurblönduna og 2 msk hunang. Blanda blautu saman við þurrt. Ef deigið er of þurrt þá er ágætt að bæta smá höfrum við það þangað til það er hægt að forma það í kúlu ofan í skálinni. Færa deigblönduna á léttilega hveitistráðan flöt og útbúa kúlu sem er um 2 - 3 cm þykk. Skera t.d. með pizzaskera í 8 jafnstórar sneiðar og færa yfir á bökunarpappír. Léttilega smyrja hverja skonsu með mjólkur/hunangsblöndu og strá yfir höfrum.

Hafraskonsur - enginn sykur - bakaðarHafraskonsur - enginn sykur - óbakaðar

 

 

 

 

 

 

 

Baka í ofni í 12 - 15 mínútur. 

Heilhveitibollur - 16 stykki

Heilhveitibollur með banana- og hnetublandi

3,5 bollar heilhveiti

1 tsk salt

1 tsk matarsódi

3 msk ósætað eplamauk

2 msk olía

1 bolli rúmlega banana- hnetublanda

-Ég var með 1,5 stappaðan banana, 8 döðlur, 2 fíkjur og dash af kasjúhnetum

1 egg, léttilega hrært

1,25 bollar létt AB-mjólk

kanill 

Ofninn á 200.

Hræra saman heilhveiti, salti, matarsóda og kanil. Færa blönduna yfir í t.d. matvinnsluvél, bæta við 2 msk olíu og 3 msk ósætuðu eplamauki þangað til blandan verður grófari. Verður samt ekki "blaut". Bæta banana- hnetu blöndunni, hrærða egginu og AB-mjólkinni í skálina með hveitinu þangað til deigið verður stíft. Athuga skal að deigið er mjög blautt. Því er gott að bæta síðast 1/2 bollanum af hveitinu við í skömmtum þangað til blandan verður nægjanlega stíf til að hægt sé að móta úr henni kúlu á léttilega hveitistráðum fleti. Passa skal að hnoða blönduna ekki of mikið. Þegar búið er að móta kúlu úr deiginu þá tók ég ísskeið og skúbbaði litlum deigboltum á bökunarpappír, eins og maður gerir við kjötfars. Þessu stakk ég svo inn í ofn í tæpar 30 mínútur. Athuga skal að bökunartíminn er misjafn eftir ofnum - ég bakaði mínar aðeins of lengi (gleymdi mér). Held þær þoli alveg 20 mín og þá yrðu þær perfecto. Það er líka hægt að gera færri bollur og minni, mínar voru svolítið stórar.

Heilhveitibollur með banana- og hnetublandi - bakaðHeilhveitibollur með banana- og hnetublandi - óbakað

 

 

 

 

 

 

 

 

Jæja. Ef við byrjum á hafraskonsunum. Ja.. hérna.. hér! Alveg eins og eðal bakaríis-skonsur, ef ekki betri. Þær mýkjast aðeins upp eftir geymslu, en mikið ofboðslega eru þær bragðgóðar og skemmtilegar að borða. Þéttar í sér, mjúkar, alls ekki þurrar og töluvert sætar. Það mætti janvel minnka magnið af hunanginu í þessari uppskrift. Skonsurnar voru fyrstar til að klárast í matarboðinu! Eftir hvern bita kemur skemmtilegt eftirbragð af kanilnum og lyktin sem kemur í húsið þegar þær eru bakaðar. Ohh men! Hafraskonsurnar fá 10 prik í minn kladda og þær kem ég til með að baka aftur innan skamms.

Hafraskonsa - mjög ljúffeng 

Tilvalinn morgun/hádegismatur með kotasælu, grænmeti, osti, skinku, eggjum... mmmmmm! Sjáiði bara hvað þær eru ógeðslega flottar - treystið mér, jafn góðar ef ekki betri á bragðið en myndirnar sína!

Hafraskonsur, enginn sykur - bara hamingja 

Heilhveitibollurnar voru mjög skemmtilegar líka. Af því að ég bakaði þær aðeins of mikið þá kom ansi almennileg skorpa utan á þær - en mér persónulega finnst það æði. Alveg crunchy utaná og dúnmjúkar að innan. Banana- og kanilkeimur, sem er skemmtileg blanda, og af og til kemur óvæntur döðlu-, gráfíkju- eða hnetubiti sem gerir upplifunina við að borða þessa snilld enn betri. Það er alveg nægjanlegt að sæta þessar bollur með banana- hnetu blöndunni. Léttar í sér - oh þær voru æði! Næstum eins og smákökur með þessa skorpu.

Heilhveitibolla m/banana-, döðlu og hnetublandi 

 

Sjáið þið svo til elsku bestu - enginn hvítur sykur (og lítið af sætu), ekkert hvítt hveiti, eintóm hamingja og vel heppnaður bakstur! Prótein, flókin kolvetni - snilldarlegt! Hollt og gott fyrir skrokkinn og litlu frænkurnar mínar hámuðu þetta í sig! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir mig - mæli sérstaklega með skonsunum - kjamms!

Í hvert sinn sem ég kíkji hérna inn þá eru komnar ca 5-6 ný blogg, þetta sannfærir mig um að þú borðar á 3 tíma fresti og setur það allt hingað inn - hólísmókhvaðþúertdúlíg :)

Dossan (IP-tala skráð) 11.5.2009 kl. 09:25

2 Smámynd: Elín Helga Egilsdóttir

Heyrðu nú mig, það er helgi - fullkominn tími í tilraunastarfsemi og ofurát! :)

Elín Helga Egilsdóttir, 11.5.2009 kl. 09:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband