Færsluflokkur: Ræktarstúss

MEIRA BROKKOLÍ

Daginn.

Veginn.

Eitthvað meira sem endar á -inn!

Er að verða búin með 5 vikur af TRX/Bjöllum. Áhugavert ekki satt?

Jah, eiginlega bara 4 vikur þar sem táin tók sér viku í fýlu og leiðindi. Núna haltra ég um eins og önd á svelli og reyni eftir fremsta megni að hoppa ekki mikið á einari. Amk tábrotnum einari.

Síðustu vikur hafa þó einkennst af dularfullri brokkolí/blómkálsþörf. Ég borða þetta forboðna grænmetissull í öll mál, með öllu, allstaðar og við hvaða tilefni sem er virðist vera. Ef einhver svo gott sem nefnir orðið "brokkolí" þá æpi ég samstundis:

"JÁ....U, JÁ TAKK.. HINGAÐ... KASTAÐU ÞVÍ HINGAÐ, æðislegt, frábært... gott, flott".

Ég held þetta sé orðið sálrænt því ég er farin að dreyma brokkolí í tíma og ótíma.

Fyrir utan blómkál og brokkolí er allt annað ofnbakað grænmeti mín einasta, heitasta, æðislegasta ósk þessa dagana. Ofnbakað, hitað, eldað, soðið, steikt... í hvaða formi sem er í raun.

Svo lengi sem það er ekki í kökuformi, ég þooooooli ekki grænmeti í kökuformum!

Hohohoho...

...HVAÐ? Klukkan er ekki orðin tólf gott fólk. Kastið til mín beini. Húmor fyrir hádegi er ekki meðfæddur.

Hvað sem öðru líður þá hefur kvöldmatur síðastliðinna... kvölda... einkennst af eftirfarandi:

Ofurofnsteiking a la grænmetisgleði

Green Curry súpa m/kókosmjólk og tonni... af grænmeti, ásamt grjónum og almennri gleði.

Green curry súpa með kókosmjólk og GRÆNMETI

Einfalt, fljótlegt og ó... svo... ógeðslegaofurbragðgottogákkúratfínt!

Annars spurði hún Sylvía mig í kommentum síðasta pósts, hvort ég hefði verið að gata aumingjans skrokkinn á mér eitthvað frekar.

Og jú, það er víst svo.

Dermal Anchors

Þeir sem finna götin fá verðlaun!! Jííhaawww.

Annars er mjög girnilegur Akureyrarpóstur á leiðinni. Við, the krakks, skelltum okkur í notalegheitakósýferð. Afmælis Egill átti sér stað ásamt allskonar sukki.

AfmælisEgill er meðal annars meðlimur, og söngvari, í hljómsveitinni Nóru sem var að senda frá sér nýtt lag... og ég svoleiðis öööölska þetta lag. Búin að vera táhaltrandi heimahúsum að reyna að kreista fram dans- og dillitakta. Það gengur upp og ofan... þó helst neðan. Áhugasamir geta hlustað hér.

Annars er þetta fyrsta skipti sem átvaglið heimsækir Akureyri almennilega, Brynjuís og Greifamatur þar með talinn.

erna og ella og brynjuís

Tek ekki með Akureyrarskiptið þar sem ég þaut í gegnum bæinn, beint á flugvöllinn, til að komast undan ösku og beint til Ástralíu.

Hef sumsé eytt meiri tíma í Ástralíu en á Akureyri. Nokkuð magnað það.

STÆRSTA VAFLA Í HEIMI

More to come.


Spartverjaæfing

Það var vetrarlykt úti í morgun. Funduð þið hana?

Er annars að borða þetta.

Eggjakaka og hvítkálshræra

Þetta...

Eggjakaka og hvítkálshræra

...er gott!

Hvítkál, laukur og vorlaukur steikt saman uppúr olíu þangað til meyrt. Kryddað eftir smekk og svkettu af balsamic ediki + soja bætt fagmannlega út á. 

Eggjakaka a la chef með spínati, pickles, dijon og tómötum.

Eggjakaka og hvítkálshræra

Morguninn var tekinn í Spartverjaæfingu. Eða svo segir mér netið.

Ég trúi því samt alveg. Þetta var HIIT djöfulsins.

Þá sérstaklega þegar þú er þreyttur og pínkulítið svangur, sem er þó ekki alveg marktækt og heldur heimskulegt ástand til að taka æfingu í sem ber nafnið "Spartverjaæfingin".

En það er búið og gert.

Kærið mig.

Gerir þú þetta kvikindi vel og vandlega færðu kærkominn verk í rassinn, haminn, fæturna, rassinn... rassinn.

Nei, ég sagði kærkominn verk. Ekki "beygðu þig eftir sápunni" verk.

...

Þú baðst um þetta.

HVERNIG?

  • 1 mínúta í djöfulgang
  • 15 sek í hvíld, jebb, bara 15 sek
  • 2 mín í hvíld eftir hvern hring, lengur/styttra eftir þörfum/getu
  • Endurtaka hringinn þrisvar

Reynið fyrst og fremst að halda góðu formi og gera æfingarnar rétt í staðinn fyrir að ná sem flestum endurtekningum. Finna fyrir vöðvunum og virkja allt sem á að virkja og halda miðjunni alltaf spenntri. Það gerir ekkert fyrir ykkur að komast í 120 goblet með bakið í beygju, rassinn lafandi, hendurnar slappar og fæturna skáhallt uppávið og niður.

  1. Rangt form fer með skrokkinn, bakið og systemið, og þið fáið kryppu fyrir fertugt
  2. Ef þið næðuð að taka goblet í þessu ofangreindu ástandi væruð þið eflaust eitthvað annað en mannleg

Einn... tveir... og... byrja!!

  1. Goblet hnébeygja, djúúúp og góð beygja gott fólk. Hugsið rass, rass, RASS
  2. Mountain climber - púls
  3. Ketilbjöllu sveifla - púls
  4. T-armbeygjur
  5. Splitt hnébeygjur, með hoppi takk - púls
  6. Standandi róður m/kb, halla fram
  7. KB hliðarhnébeygja, kb snertir gólf
  8. Armbeygja með lóðum, lyfta upp lóði í efstu stöðu
  9. Framstig með snúning + lóði ef þið treystið ykkur
  10. Axlapressa m/lóðum eða ketilbjöllum

Stutt, hnitmiðað, svaðalegt, lyftingar, brennsla, 40 mínútur - inn og út úr salnum!

Prófið þetta sem fyrst mín kæru. Þið eigið eftir að standa á meiru en bara öndinni ef vel er í lagt!


Það byrjar allt á mælingum

Karvelio áskorun formlega hleypt af stokkunum. Núna er bara að bíða eftir planinu.

Staða frá því fyrir ári:

Eftir massíft Bootcamp sumar 2010:

  • 56 kg.
  • 15% fituprósenta

Staða í dag, eftir Tabata + lyftingar og svo gott sem enga brennslu 2011:

  • 60 kg.
  • 15% fituprósenta 

Hvor Elínin haldið þið að innihaldi meiri vöðvamassa?

Ekki það að ég eigi eftir að vinna í þessari keppni. Heildar % niðurávið í vigt er það sem farið er eftir, enda ekki nema von. Það er besta leið til að mæla árangur hjá stórum hópi af mjög svo mismunandi fólki. Ég er amk ekki að stefna á að fara neitt mikið neðar í % svo við einblínum ekki á sigur gott fólk, óneii... horfum á aukinn styrk, gæði og betrumbætingar á hinum og þessum sviðum.

Da?

Hlakka til að sjá hvernig ástatt verður fyrir kvendinu að loknu sumri.

Húha!


Umkringd snillingum

Fékk svo svaðalega góðar fréttir í dag. Ég er öll uppveðruð og fluffy í sálinni.

Hihiiiii

ok.. ok... 

Þetta... er Erna... og litli Lallinn hennar

Ernan mín

Erna er:

  • besta vinkona mín
  • tuðsvampurinn minn þegar ég þarf að rífast yfir, bæði, smá- og stórvægilegum hlutum
  • bootcampf félagi extraordinaire og hefur, því tengt, borið átvaglið á bakinu upp brekkur
  • mikil, mikil hvatning
  • Lois
  • alltaf til staðar
  • allsvaðalega klárt eintak
  • alltaf til í allskonar vitleysu 
  • lögfræðingur, eiginkona (lesist með mmmyeees), mamma, að æfa fyrir 5km hlaup
  • allsvaðalegasti reddari sem fyrirfinnst á jörðinni. Þurfir þú hvíta brunaslöngu með fjólubláum, misstórum, doppum sem sprautar vanillubúðing, þá er hún manneskjan til að tala við.
  • uppáhalds uppáhald
  • verðandi dr. Erna!
  • ... (þetta ku vera ofr. línan því punktarnir eru töluvert fleiri en fram koma hér)
  • snillingur

Hún fær hrósið mitt í dag og hjemmelavet sushi, næstkomandi fimmtudag, fyrir einskæran brilljans og hamingju. Fékk ofurmasterslögfræðinámsstyrk í dag!!! Amen.

Geri aðrir betur. Ha... Grin

Ojjj hvað ég á ofurklárt vinkvendi! InLove

  • 04:45 - Banana sjúfflé
  • 05:00 - 50 mín hjólarúntur
  • 06:00 - Rækt, bak og brjóst
  • 06:50 - Hleðsla með kókos og súkkulaði - ágætis sull

Esjuveður? Já, ég held það barasta.


TABATA

Fór í hádeginu. 

Tvö orð!

Já takk!

...

Hmm. Nei. Bíddu.

Nokkur orð í viðbót.

Já takk fyrir það er inni og halelújah fyrir allan peninginn!

Amen.


Hver vill memm í ræktina?

Heyrið mig.

Ein spurning.

Eða tvær.

Kannski meira hugmynd en spurning. Hugdetta?

Hvað segið þið um að hittast milli jóla og nýárs, þegar allir "eiga" að vera latir og uppfullir af mat og almennri jólahamingju, og fá sal lánaðan í t.d. Sporthúsinu og taka eina vel valda Karvelio æfingu?

YÖÖÖAAAH.. hmm hmm

Fara svo eitthvað sniðugt saman eftirá, fyrir þá sem vilja. Fá okkur spis, kjafta um daginn og veginn?

Rass upp í loft

Já? Já? Da?

Hittast, borða, sprikla, hlæja, heilsast, garga, svitna, skammast. Ekki endilega í þessari röð. Sparka aðeins í rassgatið á okkur í jólaátsmóðunni?

Þriðjudagurinn 28. desember klukkan "óráðið"?

húha

Þið sjáið mig... núna langar mig að sjá í trýnið á ykkur!

Strákar, þið eruð líka velkomnir ef þið lesið þetta blogg!

Allir saman nú, taka vel á því milli jóla og nýárs??? Þeir sem vilja/nenna/hafa áhuga kommenta hér eða sendið á mig póst kunigund(hjá)gmail.com

Maður... kona... eða mús?

Látið mig vita. Ef við náum yfir 10 þá skellum við okkur í þetta!

hmm hmm


Æfingin skapar meistarann

Mikið satt, ekki logið.

Þannig er það nú bara. Æfing - meistari, æfing - meistari... nema þú sért með yfirnáttúruelga hæfilega til að aðlaga þig að hverskonar aðstæðum og tæklir vandamál með litlu tánni einnisaman.

Sem væri stórmerkilegt að sjá!

litlata

Eftir komment frá henni Jóhönnu Hlín og tvö ímeil, sem bárust mér um helgina, frá einstaklingum sem vildu vita hvernig mér þætti best að "æfa" mig í hinum ýmsustu... æfingum?

Að auki við æfingar vikunnar, stundaði ég (stunda) það iðulega, þegar ég var fokvond yfir því að geta ekki gert hnébeygju á einari, að taka eina eða tvær tilraunir þegar ég fór t.d. á klósettið í vinnunni!

Jú ég gerði það víst!!

Klósett - þvo hendur - hnébeygjur.

Hélt mér dauðahaldi í hurðahúninn og hlammaðist niður trekk í trekk. Hurðahúnninn gekk í bylgjum og fólk hélt að klósettið væri andsetið. Sérstaklega þegar undirrituð gekk út fnasandi hástöfum með svitaperlur á enninu!

  • Grunlaust vinnufólk: "Guð minn góður Elín... hvað gekk á? Var þetta erfið fæðing?" 
  • Átvaglið: "NEI... ég var ekki að gera númer 18,2 og NEI, engar baunir í gær"

Mitt ráð til þín!

Notaðu lausan tíma yfir daginn og æfðu þig í að gera t.d. armbeygjur. Þó það séu ekki nema bara 5 stykki, hér og þar. Inn í stofu, eldhúsi... hræra í grautinn og á meðan hann mallar, reyna við eitt stykki Pistol (einars hnébeygja) á meðan.

Eftir æfingu, prófa að hífa þig upp í eitt skipti. Gera þetta í hvert skipti sem þú ferð á æfingu, jafnvel þegar þú ert í göngutúr og séð girnilegan upphífaingarstað - prófa.

Ég geri þetta reglulega, þegar ég get, þegar ég man. Stundum er það í formi armbeygja með allskonar twisti - staggered, fætur upp, superman, armbeygja á einari. Upphífingar áttu sér reglulega stað í Gúmmulaðihöllinni, 3 - 4 mánuði kannski, móður til ævarandi hamingju og gleði.

  • "Elín Helga, þú færð svo feitast að mála þennan póst þegar þar að kemur!"

Pistol er búið að vera mallandi project í tæpa tvo mánuði og loksins er ég búin að ná tökum á því! Kannski ekki fallegasta form af pistol, en það kemur með áframhaldandi... klósettferðum!

FootinMouth

Ahhh - hvað er næst? Hmm... armbeygja á einari held ég.

  • Upphífingar eru áframhaldandi verkefni. Stefni á að ná amk. 5 dauðum í röð.
  • Pistol, 10 í röð á hvorum fæti fyrir sig, að auki við gullfalegt og óaðfinnanlegt form.

Jú, vitið þið, ég held það barasta. Næst á dagskrá -> armbeygja á einari!

Byrja á hnjánum og vinn mig upp. Kannski sá draumur verði að veruleika vor.


Jóla, jóla jóla... og hnébeygja á einari

Það sem titillinn segir.

Jólakaffihús.

Jólakaffihús

Þykjustunni jóla "hollustukaka" því hún inniheldur hafra. En ó... smjör- og sykurbragðið fannst langar leiðir.

*gleði*

Jólakaffihús

Jólaþorp.

Jólaþorp

Jólaljós.

jólaljós

Jólahundur.

jólahundur

Jólahnébeygja á einari!! LOKSINS

Gerði sex jólahnébeygjur, á einari, á báðum... óstudd og elegant, í morgun!

 

 

Jóla jóla jóla jóla! Hihiiiii..

*hopp*

nei.. ég meina

*jólahnébeygja á jólaeinari*


Ofurmamma og allrahanda fjas

Uss, tók Karvelio sprettina í morgun.

Alveg með eindæmum hvað ég ætla ekki að ná því að halda síðusta metrana almennilega út! Fer gífurlega í pirrurnar á undirritaðri! Það skal því lagað!

Móðir mín kær kom svo í heimsókn í gærkveldi, færandi hendi, og gaf átvaglinu, jább, gaf... átvaglinu

*trommusláttur*

OMG... HIHIHIHI

Þessar pönnur eru svo yndislega æðislegar. Geggjað! Verður vígð við fyrsta tækifæri. Einhver gúmmulaðilegur ofurbaunaréttur....

Banni og nanni

og RYKBANA!

RYKBANINN

Sem fer svona líka fullkomlega vel inn í allrahandaskápnum!

Hafið þið einhverntíman séð svona krúttaralegt tæki? Í alvöru? Verið hreinskilin!

Held ég nefni þessa snúllu Lúlú. Því, þið vitið, öll tæki þurfa að heita eitthvað. Þannig er regla númer 374. Og þessi er bara svo Lúlú leg.

krútt

Mér hefði aldrei dottið í hug, fyrir jah, 5 árum síðan, að ég yrði hoppandi ofurkát með ryksugu og borðpönnu að gjöf. Skondið.

Hitti svo Þórunni mína í grautargerð í morgun.

Þórunn

Vinnugrautar, eins og vinnumatur, útbúnir í lítratali... tonnatali jafnvel!

Ein lítil hræra

Smá sletta á minn disk ásamt múslí og kanilsprengjugleði.

Grautargerðarstaður

Morgunvinnugrautur

Stalst líka í einn appelsínubát.

Hvernig er það ekki hægt? Sjáið bara hvað þetta er skelfilega girnó og ferskt og brakandi eitthvað.

ávaxtabakki miðvikudagsins

Jólakökutilraunir hafa verið gangsettar.

Tilraunir gærdagsins gott fólk. Eðalfínar, karamelló, stökkar að utan, mjúkar að innan og ákkúrat skemmtilegar. Nú þarf bara að prófa sig áfram og leika með krydd!

Sykur og smjör - hamingja og helgidómur. Vinnufólkið mitt gefur þessu grænt ljós.

Áferðarhimnaríki þessar... jebb. Áháferðarhimnaríki!

Þessar eru ekki ósvipaðar kransaköku, áferðarlega séð. Aðeins stekkri í kanntana.

Þær eru æði... þetta eru  kökur sem heyrist í "kram kram kram", þegar tuggnar.

Matur sem segir "kram kram kram" er einfaldlega skemmtilegri til átu.

Það segir regla númer 375.

Rétt upp hendur sem á bestuðustu ofurmömmu í þessum heimi!

\o/


Ofuræfingar og annað í stíl

Karvelio æfingarnar eru ekkert nema gleði og eftir fyrsta snúning, þar sem ég hef tekið í hendina á þeim öllum og farin að færa mig upp á skaftið hvað varðar þyngdir og annað, þá eru þær eiginlega bara, jah, núll gleði! Í góðum skilningi þó.

Þessi hérna er t.d. viðbjóður! Muna bara að halda forminu, vera með kviðinn spenntan og ekki sveigju á bakinu - eins og undirrituð á til að gera þegar hún er orðin þreytt!

Sveiþérkerling!

Sprettirnir sem hann lætur mig gera eru líka hræðilegir! Byrja svo sakleysislega en leysast upp í vitleysu og djöfulgangi þar sem óviðráðanlegir útlimir sveiflast í allar áttir. Móð, másandi, hvásandi.

Allskonar boltaköst eiga sér einnig stað sem fá axlir og handleggi til að veina. Þó svo köstin líti krúttaralega út á blaði, þá eiga þau síðasta orðið. Langsamlega síðasta orðið. Svo þarf ég víst að muna að vera "reiðari" eins og meistarinn sjálfur orðaði það!! Helst fleygja boltanum af svo miklu alefli í gólfið að eftir situr hola... gígur, þar sem sem áður var flatlendi og gróin jörð. Ég á það til að vera ægilega góð við sjálfa mig - skömm að segja frá.

Annars er hann með sérlega skemmtilegan og hnitmiðaðan millimálspistil. Hleðslan greip athyglisspanið hjá undirritaðri. Hleðsla og súkk-prótein! Hef ekki reynt á hleðsluna en heyri ekkert nema góða hluti! Það verður því tekið í trýnið eftir æfingu á eftir!

Tilraun vikunnar:

Prófið að vera meðvituð um það hvernig þið beitið ykkur í daglegum athöfnum, eins og t.d. að setja í vélina og taka úr henni aftur, reima skóna, teygja sig upp í skáp eftir kaffibolla ofr.

Var að setja í vélina um daginn og beygja mig ofan í neðri skúffu til að ná í nokkra diska, prófaði að spenna kviðinn og rétta úr bakinu, fann heilmikinn mun á líkamsstöðunni. Nokkuð magnað hvað maður á það til að "beita" sér vitlaust við hin ýmsu verk - ekki það að maður þurfi að líta út eins og grískur guð þegar uppvask á sér stað eða klósettþvottur. Almáttugur.

Þessi sérlega ómerka uppgötvun mín "auðveldaði" verkið að sjálfsögðu ekki á nokkurn hátt, en bara það, að beita sér rétt og nýta æskilega vöðva við tilteknar aðstæður, kenna þeim að nú sé þeirra að taka við, er eitthvað sem ég ætla að reyna að tileinka mér. Vera "meðvituð" um líkamsstöðuna. 

Eins og bara það að rétta úr bakinu við tölvuvinnu og ýta öxlunum aftur. Hefur heilmikið að segja.

Hver vill vera hokinn með kryppu um fertugt?

Inte jog!


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband